Tölvan biluð aftur. Fór með hana í viðgerð núna og það mun taka svona þrjár vikur, einstaklega hægvirkt allt hér í Köben. Svo það mun ekki verða mikið um blogg hjá mér á næstunni, þið verðið bara að vera þolinmóð ástirnar mínar, kiss og knús:)
sunnudagur, febrúar 12, 2006
föstudagur, febrúar 03, 2006
Long time no blog.
Tölvan mín búin að vera í endalausu fokki, það endaði með því að hún var send heim á frón svo snillingurinn hann bróðir minn gæti kíkt á hana og að sjálfsögðu tókst honum að fiffa hana til svo hún er svona nokkurn veginn nothæf á ný, msn-ið vill enn ekki virka.
Ég fór í áhugaverða ferð um daginn. Ég og Selay vinkona mín úr skólanum lögðum land undir fót og fórum í helgarsiglingu með Hirsthals-Osló ferjunni. Tilefnið var Fröken Danmark keppni um borð í bátnum, og vorum við förðunarmeistarar;) Vegna "óveðurs" og ísingar var Stórabeltisbrúin lokuð óendanlega lengi og seint um kvöldið var ákveðið að taka ferjuna frá Kalundborg yfir til Árósa og keyra svo þaðan til Hirsthals, sem er nota bene eins langt frá Köben og hugsast getur, næstum því efst uppi í hárlubbanum á kallinum. Ferðin sem átti að taka um sjö tíma tók því sextán tíma og fengum við eins tíma svefn á einhverju sveitahóteli áður en liðið var ræst út í Osló ferjuna. Hárgreiðslumeistarinn sem réð okkur í þessa vinnu var lítið að hafa fyrir því að spjalla við okkur eða segja okkur nokkurn skapaðan hlut um til hvers var ætlast af okkur, hann fann sér strax í rútunni litla dömu að leika við og fylgdi henni stíft eftir alla ferðina. Ætlunin var að byrja að farða stúlkukindurnar um hálf sjö leitið og keppninn byrjaði svo klukkan níu. Eftir okkar bestu útreikningum myndi aldrei takast að farða 26 stelpur á þessum stutta tíma, en þar sem Herra Hár var óviðræðuhæfur létum við það bara gott heita og eftir mikinn velting og ógleði í tax free búðinni ákváðum við bara klukkan hálf eitt að fara og leggja okkur, enda því sem næst ósofnar.
Klukkan fjögur vakna ég við mikið bank á káetuna og fyrir utan stendur úfin kona með augun á stilkum og tilkynnir mér það að búið sé að leita að okkur um allt skip, stælingin sé byrjuð. Ja sei sei, ekki mundi Herra Hár eftir að vid hefðum tilkynnt honum að við ætluðum að leggja okkur, enda óhemju upptekinn maður. Við rukum á fætur, rifum uppúr töskum förðunargræjurnar og hlupum upp með koddaförin á kinnunum og höfðumst handa við að farða í gríð og erg og lukum góðu starfi um klukkan hálf átta, sveittar og bognar með bakverki og tuttugu og sex glæsilegar píur klárar fyrir kvöldið. Þá var haldið beint í kvöldmat sem var einstaklega skemmtilegt þar sem við vorum vægast sagt fallegar og vel ilmandi. Við misstum svo af fyrri hluta keppninnar þar sem við neyddumst til að fara í sturtu og setja á okkur smá andlit, bara svona til að fólk myndi trúa að við værum förðunardömur;)
Kvöldið tókst bara vel þó að diskóið eftirá væri hálf slappt, ég skellti þó í mig nokkrum Campari í sprite og fór í rannsóknarleiðangur um skipið. Við fórum í bólið um þrjú leitið, og svo var ræs klukkan sjö morguninn eftir í morgunmat og rútan átti svo að leggja af stað klukkan átta. Þegar ég vaknaði var ferjan lögst að bryggju og klukkan orðin níu. Selay svaf enn vært. Með fyrrnefndum stærðfræðigáfum okkar reiknuðum við út að rútan væri farin án okkar. Selay varð stressuð en ég bara hló. Við fórum síðastar frá borði, ánægðar með það að hafa ekki siglt aftur til baka til Oslóar með ferjunni, keyptum okkur morgunmat og fundum út hvernig við kæmumst heim með lest. Hringir þá ekki Herra Hárprúður og spyr hvar við séum eiginlega. Þá höfðu greinilega fleiri sofið yfir sig, okkar ágiskun; hann sjálfur og Fröken Þriðja sæti (hann var í dómnefnd), og rútan var ekki farin. Við ákváðum samt sem áður að afboða okkur í rútuna og tókum lestina heim, sem var að sjálfsögðu miklu fljótlegra og þægilegra!
Þetta er sem sagt ferðasagan í hnotskurn, einstaklega vel heppnuð ferð ekki satt;) Ég læt svo fylgja með nokkrar vel valdar myndir.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:27 |
Þessar fögru systur farðaði ég...
Annað sætið, þriðja sætið, fyrsta sætið...
Við Selay að lokinni sturtunni... höfum báðar myndast betur;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:07 |