Fyrsta október sit ég úti á tröppum í sólbaði á hlýrabol og pilsi og les smásögur. Á svona stundum er maður feginn að búa ekki á Íslandi.
Ég er hætt á snyrtistofunni, kerlingaruglan stóð ekki við að veita mér vinnu fram í miðjan október, ég var bara afleysingarúrræði. En ég græt það ekki, hálf furðulegur vinnustaður að mörgu leyti. Mér bauðst hins vegar vinna á mun betri stað og byrja ég þar 28. október og mun vinna aðra hvora helgi í vetur. Sá staður heitir Skodsborg Kurhotel & Spa og er mörgum íslendingum að góðu kunnur; eins konar heilsuhæli efnaða fólksins. Heimasíðan segir allt sem segja þarf um þennan stað, stórglæsilegur! Svo það mun ekki líta illa út á ferilskránni að hafa unnið þarna, og eiginlega einstök heppni að hafa fengið þetta starf, veit að það eru margir sem sækjast eftir því að vinna þarna. Ég fer á einhver námskeið áður en ég byrja, spa námskeið og Decleor námskeið meðal annars, en þau eru ekki fyrren eftir miðjan október svo ég þurfti að finna mér eitthvað að gera þangað til, og hvað er þá betra en að skreppa heim til Akureyrar í smá heimsókn!
Svo er ég byrjuð í ræktinni af fullum krafti. Er hálf "ógöngufær" af strengjum á hinum furðulegustu stöðum, vissi ekki einu sinni að það væru vöðvar á sumum stöðunum..já anatomiunámið hefur greinilega borgað sig hohohoh:) Mæti með vinkonu Stínu á morgnana, en við erum á svipuðum aldri ef frá eru dregin svona 40 ár. Afgangurinn af hópnum sem við æfum með er svo á svipuðum aldri og hún. Ég uni mér því mjög vel!
Svo er ég búin að bóka ferð til Íslendinganýlendunnar Kanaríeyja um jólin, en þar mun fjölskylda mín eyða jólum og áramótum. Mér fannst nú ekki annað hægt en að vera með þeim yfir hátíðirnar og ekki skemmir það fyrir að geta flúið úr frostinu hér og lagst í sólbað og huggulegheit í tæpar tvær vikur! Það ætti líka að létta vetrarlundina og hrista svolítið af manni slenið sem á það til að hellast yfir mann í skammdeginu að fá smá sól og birtu.
Það er fáránlega stór fluga í einhverju flogi hérna í kringum mig svo ég er farin í bili. Ullabjakk!