Austan Eden er kannski skrítin saga, en ég hafði mjög gaman af henni. Í ár áætla ég að ég sé búin að lesa sirka 10 bækur, ég er mikill lestrarhestur:) Er að lesa höfund Íslands núna. En að öðrum málum, ég var að flytja enn eina ferðina, bý núna í lítilli holu á Österbro, eitt herbergi, eldhús og bað. Hingað til hef ég búið í mubleruðum íbúðum en þessa fékk ég tóma svo ég neyddist til að kaupa allt inn í hana. IKEA ferðin á laugardaginn tók því fimm tíma og keypti ég sófa, rúm, stofuborð, kommóðu, fataskáp, gardínur, ljós og allt sem ég þurfti í eldhúsið og á baðið, splæsti svo í einn flatskjá, þó í minna laginu, hálfgerður mini flatskjár, svo nú er ég komin með ágætasta innbú fyrir lítinn pening. Ég keypti sem sagt allt það ódýrasta í IKEA. Svo fékk ég allt dótið flutt heim og fékk ég þriggja góðra kvenna hjálp við burð og samansetningu sem tók hálfan laugardag og heilan sunnudag fram á kvöld (seinkun vegna gríðarlega asnalegra skápasamsetningarmistaka), og var íbúðin ekki komin í gott stand fyrr en á mánudagskvöldið klukkan hálf tvö. Sem betur fer var ma í heimsókn og gat stýrt þessu öllu harðri hendi, annars hefði ég fengið flutningaflogsblokkeringu og bara fallist hendur og setið og starað á þessa óyfirstíganlegu hauga af drasli sem ég hef sankað að mér hérna. Núna vantar mig bara hnífapör og óhreinatauskörfu og þá er verkið fullkomnað.
Ég uppgötvaði það í dag að það hlýtur að vera þvílíkt gaman að vera lestarstjóri. Þá getur maður sagt í kallkerfið í lestinni: "Þú ungi maður sem varst að veifa framan í mig handlegg með úri áðan, ég veit ekki hvort þú varst að reyna að selja mér svart úr en ég get sagt þér það að lestin keyrir frá Gentofte klukkan 18:25 núll dútt." Þetta fannst mér fyndið og hló þess vegna. Það hló enginn annar í lestinni, allir horfðu bara á mig. Það fannst mér líka fyndið.
Ég held ég þjáist af ofþreytu vegna gríðarlegrar þjónustulundar og ofnotkunar á brosvöðvum frá 1. mars. Er orðin hálf rugluð í hausnum:) Ég er nú ekki brosmildasta manneskjan sem ég þekki að eðlisfari, svo það er skiljanlegt að þetta taki svolítið á. Best að skríða bara undir sæng held ég...í bili...bæ:)
fimmtudagur, apríl 05, 2007
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:36
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|