Ákaflega geta illa þýddar bækur farið í taugarnar á mér. Þessa stundina eru Beðmál í borginni að gera mig gráhærða. Er hverjum sem er heimilt að þýða bækur og gefa út? Eru engar reglur um hversu lélega íslensku er heimilt að gefa út? Það er ekki nóg að kunna ensku til að þýða bók. Það er ekki nóg að geta þýtt orðin, samhengið er jú það sem skiptir máli, maður þarf að umorða enskuna til að úr verði góð íslenska. Ótrúlegt að það séu Íslendingar sem þýddu þesa bók, svo léleg er íslenskan. Það er ekkert flæði í bókinni, hún er byggð upp á orðrétt þýddum enskum setningum.
Önnur bók sem ég grýtti út í horn þar sem hún rykfellur núna er Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Aðra eins íslENSKU er erfitt að finna í "íslenskum" bókmenntum. Ég varð hreinlega yfir mig pirruð og gat ekki klárað hana.
Ég ætla að láta fylgja hérna nokkrar setningar úr Beðmálunum:
Heiti kafla númer eitt er eftirfarandi: "Minn óuppnæmi lærdómur: Ást á Manhattan? Ég held nú síður..." Hvað þýðir þetta??? Og að byrja setningu á orðinu "Minn", það er enska.
Bókin byrjaði reyndar að fara í taugarnar á mér á síðunni á undan þar sem svo segir: "Handa Peter Stevenson og Snippy sem beit einu sinni bangsann hans. Og handa öllum vinum mínum." Þarna hefði þýðandi átt að nota orðið "Tileinkað".
Þriðja setning bókarinnar: "Hún var aðlaðandi og hnyttin og komst strax í kynni við einn af hinum dæmigert eftirsóttu piparsveinum í New York." Hinum dæmigert eftirsóttu?? Halló!! Það þýðir ekki neitt!
Þetta eru setningar af fyrstu tveimur blaðsíðum bókarinnar. Ég er komin á þriðja kafla og bókin er hér um bil að fara að veita munknum félagsskap. Ég ætla að þrauka svolítið lengur.
"Þetta byrjaði allt eins og vanalega, nógu sakleysislega." Ætli þetta sé þýðing á "Innocent enough"? Þessi bók er ekki fyrir fólk sem ekki er ágætlega að sér í ensku, því maður verður að hugsa setningarnar á ensku til að skilja hvað átt er við.
Jæja, gæti komið með endalaus dæmi en læt gott heita.
Berglind Steinsdóttir og Ölvir Tryggvason, svei ykkur!!
miðvikudagur, október 29, 2008
Lærið íslensku!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 10:00 |
laugardagur, október 18, 2008
Hjálpum þeim
Núna þegar sumir halda að Kreppan (já, með stórum staf, fyrir þau okkar sem ekki hafa upplifað aðrar kreppur) sé að gera útaf við sig, þá er gott að fá smá raunveruleikaspark með þessu sígilda og fallega lagi til að sjá hvað við höfum það rosalega gott! Ég fæ alltaf gæsahúð og syng fullum hálsi með þegar ég heyri þetta lag. Fallegur boðskapur; hjálpum þeim sem minna mega sín og vinnum að friði á jörð, um lífsréttinn stöndum vörð. Búum til betri heim...
Því þó að fólk fari fjárhagslega illa út úr kreppunni þá á það enn lífið og flestir heilsuna. Um að gera að huga að og muna eftir því sem skiptir mestu máli. Vel var það orðað í einni auglýsingu um að "það besta í lífinu er ókeypis", einhvern veginn svona hljóðaði auglýsingin: "Ég þarf ekki að vakna klukkan 5 á morgnana og ganga 30 kílómetra til að sækja vatn handa mér og fjölskyldunni." Man ekki endapunktinn en hann fjallaði um að við ættum að sjá hvað við hefðum það hryllilega gott.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 02:15 |
föstudagur, október 10, 2008
. ætli þetta verði í Skólaljóðum komandi kynslóða ?
Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.
Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.
En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:25 |
miðvikudagur, október 08, 2008
Sjóður 9
Þó að presturinn hlæji meðan hann jarðar óvininn þá er ekki þar með sagt að hann hafi komið honum í gröfina. Einhvernveginn þannig var það orðað á Youtube. Er málum þá þannig háttað að Glitnir hefur logið að viðskiptavinum sínum um Sjóð 9? "Var sparifé þúsunda Íslendinga notað, þvert gegn uppgefinni fjárfestingarstefnu sjóða Glitnis í kaup á skuldabréfum Baugsmanna og félögum þeim tengdum? Sjóður 9 varði miklum peningum sjóðsfélaga í að kaupa skuldabréf af félögum eigenda bankans. Stoðir skulduðu sjóði 9 hjá Glitni 18.400.000.000 krónur í lok júní."
Þetta er tekið úr myndbandinu "Glitnir 2. hluti" á youtube.
Maður spyr sig...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:47 |