miðvikudagur, júní 30, 2004

Portúgal - Holland 2-1

Múhahahahaha ég er búin að VINNA vinnuspákeppnina með 5 stigum gegn 2 hjá strákunum HAHAHA! Ekki alveg úrslitin sem þeir áttu von á, svo sá hlær best sem síðast hlær!

Þreyta og bleyta

Þessi dagur komst á topp 5 listann yfir fatlaða vinnudaga. Gekk allt einhvernveginn á afturfótunum , við búin að rúnta fram og til baka um Raufarhafnarhrepp og vesenast, svo var of hvasst, við þurftum við að skipta um bíl og gleymdum hælunum og bla bla...jeminn, gott að vera komin "heim" aftur :o) nema hvað að ég var búin að hlakka til í allan dag að komast í sund í kvöld, en nei nei var búin að gleyma að ég er blönk og kemst ekki einu sinni í sund...EINS GOTT að það er útborgunardagur á morgun!!

þriðjudagur, júní 29, 2004

Rósa Bin Laden

Hmmm..áhugaverð helgi..nei reyndar ekki, bara sama gamla! Kíkti á Vélsmiðjuna með Guðrúnu og Daddý "móðursystur", þar var eitthvað afaband að spila gamalt og gott. Var nú ekki mikill gleðihugur í dömunum svo ég fékk lánaðan klútinn hennar Guddu og batt um haus mér sem túrban..út frá því spannst heilmikið grín sem endaði með að hárið á mér var fléttað sem alskegg, yfirskegg málað með augnblýanti og flugmannasólgleraugu sett upp auk pars af latexhönskum. Og var ég þá orðin Rósa Bin Laden, ofurgella með meiru. Ég vakti alveg svakalega lukku, karlmennirnir þyrptust að mér eins og mý á mykjuhaug, og ég smellti kossi á hávaxinn, dökkhærðan mann sem kom á móti mér út úr myrkrinu. Við nánari athugun þegar sólgleraugun voru tekin niður reyndist þetta vera Logi Bergmann Eiðsson, og fór ég öll í kúk og kleinu, en hann hafði bara gaman af og hrósaði skorunni! Eða allavega þangað til kærastan kom og dró hann í burtu frá mér...hehehe;) Hún passaði vel upp á sinn, enda kannski ekki að ástæðu lausu?? Ja, maður spyr sig...

Er annars stödd á Þórshöfn í rok og skít, var að hætta að vinna. Festum Land Roverinn í læk í dag, sat þar pikkfastur á rassgatinu og þurftum við að hringja eftir aðstoð til að láta draga okkur upp..gamaaaaan!

föstudagur, júní 25, 2004

Smarty Fart

Hey Steinar Skeinar ég hef nú bara ákveðið að taka blogg linkinn þinn út því það hefur ekkert gerst hjá þér í svona 7 ár sko!
Djöfull var leikurinn í gær MAGNAÐUR! Ég sat ein heima og titraði af æsingi og stóð mig meira að segja að því að öskra..hehe, nú er illt í efni, konan orðin fótboltanörd:) Enda er ég í forystu í vinnu-spá-keppninni með 4 stig, Bjössi er næstur með 2 og Óli bara með 1, múhahahahaha það stefnir allt í að ég vinni stórsigur á "alvöru" fótboltanördunum, amatörinn að bursta þetta! Þvílík niðurlæging fyrir greyið strákana;) Já, ég sem sagt spáði 2-2 í leiknum í gær og vítaspyrnukeppni. Held að ég sé í einhverjum beinum tengslum við æðri máttarvöld.. hmmm..

Frábært að nota svona vinnuna á föstudögum til að tölvast aðeins... allavega fyrir 9, svo verður maður víst að gera eitthvað af viti, eða misviturlegt, það má alveg deila um það. Svo eru barasta kosningar á morgun *jeij* og vonandi sól og mikið glens og gaman í bænum, hvur veit nema maður skelli sér bara á ball eða eitthvað kæruleysi? Það má allavega hugleiða það.. hafiði einhverja skoðun á því? (ef einhver skoðar þá síðuna mína ennþá, ég er orðin svo lélegur bloggari eftir að ég fór að ganga á fjöll!)

Well, TaTa dúfurnar mínar..elska ykkur öll!

mánudagur, júní 21, 2004

Thíhíhí...

JEMINN!! Myndir frá umhverfisdeginum voru að berast í hús!! Þetta er auðvitað bara snilldar flott mynd, Óli með fangið fullt af bjór og ég með bumbuna lafandi upp fyrir strenginn, hehe. En hvað sem því líður þá var ég edrú þarna, hef ekki einu sinni þá afsökun að ég hafi verið ofurölvi;)



Smelli kannski inn fleiri myndum frá þessum skemmtilega degi við tækifæri, þ.e.a.s. ef ég kem einhvern tímann helv.. tölvunni í lag! Á leið til Kópaskers í dag enn eina ferðina og hlakka alveg gríííííðarlega til... Það eina sem heldur mér á lífi er að útborgunardagur nálgast óðum, sem betur fer því ég er alveg við það að verða blönk, en það reddast ef ég lifi bara á blómum fram að mánaðarmótum, maður bjargar sér! Gulrætur og te..nammi nammi namm...

föstudagur, júní 18, 2004

Blogg Spogg

Hún Guðrún er komin með bloggsíðu, allt að gerast í þessum heimi! Mér líst bara vel á þessa þróun, núna þarf maður varla að hringja í fólk lengur til að fá fréttir af því sem er nú bara allt ok því mér finnst alveg skelfilega leiðinlegt að tala í síma.
17. júní liðinn, ég lét mér nægja að fara í útskriftarveislu til Nínu fínu en nennti ekki á nein hátíðarhöld, alltof kalt og ég var mjög þreytt.
Jæja, er í vinnunni, það þýðir ekkert slór og slor!

miðvikudagur, júní 16, 2004

Vi er hvide, vi er röde...

Það er svakalega erfitt að vera svona netlaus heilu og hálfu vikurnar! Og í þokkabót er tölvan mín öll í kúk og kanil heima svo ekki get ég bloggað þar. Var að koma frá Kópaskeri núna, bún að vera síðan á mánudag, en á morgun er 17. júní svo við fáum frí á morgun jibbí!
Sem betur fer var vikan ekki lengri en þetta því við erum búin að vera alveg hörkudugleg og þyrfti ég helst að eignast auka fætur, svona til að hafa til skiptanna.
Eina skemmtunin mín þarna austur á Sléttu núna er evrópumótið í fótbolta; við erum í miklu veðmáli vinnufélagarnir, og stefnir allt í að ég muni stórtapa! Verð að leggja heilann í bleyti í kvöld, skoða leiki síðustu 50 ára eða svo, nota svo líkindareikning, mínusa frá sætustu mennina, bæta við meiðslum og dramatöktum, skella öllu inn í Excel og finna út alla sigurvegarana. Það ætti að vera lítið mál!



Hmmm...miðað við fyrstu útreikninga eru litlar líkur á að England vinni... of mikið súkkulaði!

fimmtudagur, júní 10, 2004

Bull og blaður!

Úff, þið trúið ekki hvað ég er þreytt! Þrír vinnudagar búnir í þessari viku og ég er gjörsamlega að gefa upp öndina. 15-20 km. labb á hverjum degi í þúfum, hrauni og fáránlega bröttum brekkum upp og niður, upp og niður, með sleggju, stikubúnt eða gps þyngsla bakpoka. Fór samt í sund eftir vinnu í dag og synti 25 ferðir, gerði 200 magaæfingar á bakkanum og endaði svo í nuddpottinum í allsherjar nuddi. Ótrúlega flott íþróttahöll hérna á Þórshöfn, passar ekki alveg inn í bæinn;) Svo gisti ég á bedda í vinnuskúr sem er bakvið Vegagerðina hérna. Ekki besta gistiaðstaðan en hún er ókeypis og það er fyrir öllu!

Annars er ég orðin ágætlega brún, svíður hálfpartinn í framan eftir sólina í dag, en ekkert gengur að fá lit annars staðar því hafgolan er svo köld að maður fækkar ekkert fötum þrátt fyrir mikinn svita. Ég er líka svo heppin að fá að fara heim í fínu íbúðina mína og góða rúmið mitt á morgun, vinnum bara fram á hádegi um það bil og rennum svo til Akureyrar, það er nefnilega umhverfisdagur á föstudaginn!! Lagt af stað með rútu klukkan 9, fyrirlestrar á Stóru-Tjörnum fram að hádegi, þá verður keyrt í Þórðarstaðaskóg þar sem VG á sumarbústað, þar verður grisjað, plantað, þirfið og dittað að húsinu, og svo verður grillað og bjórinn dreginn fram. Þetta lofar allt mjög góðu ef sólin lætur sjá sig!

Nýjasta áhugamálið, lækningajurtir. Er föst með nefið ofan í alls konar bókum og hef nóg að gera að skoða allar jurtirnar hérna á heiðunum, búin að safna slatta af fjallagrösum sem ég geri mér seyði af daglega og bæti einni kanilstöng í pottinn, algjört möst og bráð hollt, allra meina bót! Óli og Bjössi vinnufélagar eru að smitast af mér, aðallega Óli og leitar hann nú logandi ljósi af horblöðku til að lækna hann á líkama og sál:o)

föstudagur, júní 04, 2004

Hipp hipp húrra!

Og TIL HAMINGJU herra Ólafur Ragnar, þú ert svo sannarlega Óli KÓNGUR núna...og Davíð þá væntanlega Dabbi GRÍS! *oink*









fimmtudagur, júní 03, 2004

Púl og puð hjá massa konu!










Einu sinni var parketverksmiðja á Húsavík sem fór á hausinn. Gjaldþrot þetta hefur haft beinar afleiðingar á líkama minn í för með sér. "Hvernig má það vera?" gætu einhverjir spurt sig. Jú, Vegagerðin á Húsavík fékk nefnilega alla eikina þeirra og föndraði úr henni meterslanga hæla í massavís. Þessir hælar voru svo búntaðir saman, 25 stykki í búnti, og sótti ég fulla kerru og fullt skott af Land Rover af þeim í byrjun maí mánaðar. Átti ég mér svo einskis ills von þegar ég í sakleysi mínu byrja útsetningu miðlínu vegar Raufarhafnarafleggjara. Svo skemmtilega vill nefnilega til að síðustu sumur höfum við sett út línur með furuhælum frá SS byggi, en þessir nýju gæða parkethælar eru svo massívir að ég get varla borið búntið ein míns liðs. Var ég svo illa haldin síðdegis í gær að ég stóð bara með búntið í fanginu og komst hvorki afturábak né áfram! Fæturnir voru gjörsamlega að gefa sig eftir um það bil 20 kílómetra göngutúr í þúfum og hrauni. En með dyggri aðstoð Óla höfðum við síðasta kílómeterinn af og í dag var ég komin í svo mikla æfingu að ég barasta vippaði búntinu upp á öxl mér og þrammaði þetta léttilega í gúmmístígvélum og með sleggju í annarri hendi. Ég er sem sagt að verða algjör MASSA gella núna og spái því að í lok sumars hlaupi ég léttilega um þúfur, mela og móa með búnt á sitt hvorri öxl, sleggjuna í vasanum og sælubros á vör!

þriðjudagur, júní 01, 2004

Herbalism

Herbalism bókin er alveg að gera sig sko! Búin að útbúa bæði fífla- og kanilte, ekkert smá gaman, líður eins og indjána kellu í eldhúsinu mínu að brugga seiði. Núna er ég sem sagt að afeitra líkamann með fíflatei og er mikið á klósettinu;)
Það er svo mikið af jurtum í þessari bók sem ég veit ekki hvort að vaxi á Íslandi og hvar þær vaxa þá, verð að redda mér bók um íslensku flóruna og skreppa í fjallaferð. Reyndar er ég nú á leið í fjallaferð í dag, en það er meira svona hraun- og þúfuferð, ætti að geta fundið mér mosa og íslenskar jurtir að minnsta kosti, en ég er ekki enn búin að stúdera íslenskar fjallagrasajurtir svo það verður að bíða betri tíma. Ég er sem sagt djúpt sokkin í náttúrulækningar núna...svona ef ykkur vantar ráðleggingar;)