sunnudagur, mars 12, 2006

Af allri rödd er rymur asnans mest viðurstyggð

Þetta er nú svolítið langur fyrirlestur um Íslam sem ég hef tekið saman hér, en engu að síður góð lesnins og varpar ljósi á þessa trú sem er svo misskilin hjá þeim sem ekki þekkja til. Ég sjálf veit ekki mikið um trúna og er ekki að segja að ég sé sammála öllu því sem hún stendur fyrir, en það er aldrei slæmt að kynna sér nýja hluti! Vonandi nenni einhver að klóra sig fram úr þessu:)

Íslam og múslímar:
Arabíska orðið Íslam merkir friður, undirgefni og hlýðni. Að vera íslamstrúar táknar að játast undir kenningar og leiðsögn Guðs eins og þær opinberuðust Múhammeð spámanni. Múslími er sá sem trúir á Guð og leitast við að haga lífi sínu í samræmi við hina opinberuðu leiðsögn Guðs og orð spámannsins. Hann reynir jafnframt að treysta mannlegt samfélag á sama grunni. “Múhammeðstrú” er rangnefni á Íslam og móðgun við anda þeirrar trúar

Íslam leggur manninum lífsreglur sem byggjast á því sem gott er og að afstýra illu. Fólk er ekki aðeins hvatt til að rækja góðar dyggðir heldur einnig að rótfesta þær en uppræta ranga breytni, að hvetja til góðs en banna illt. Samviskan á að hafa úrslitavaldið, lestirnir mega aldrei bera sigurorð af dyggðunum. Þeir sem hlýðnast þessu kalli tilheyra samfélagi múslíma (UMMAH). Og hlutverk þessa samfélags er að vinna skipulega að því að hvetja til góðra verka og festa þau í sessi, en berjast gegn illum verkum og uppræta þau.


Aðalatriðin eru fjögur:
a) Trú okkar á að vera sönn og einlæg.
b) Við eigum að sýna hana í góðverkum við náungann.
c) Við eigum að vera löghlýðnir borgarar og stuðla að almannaheill.
d) Við eigum að vera æðrulaus og staðföst á hverju sem gengur.


Hér á eftir verða taldar upp nokkrar grundvallar siðareglur á ýmsum sviðum mannlífsins. Þær ná til ýmissa greina persónulegrar breytni og félagslegrar skyldu.

Guðsótti:
Guðsóttinn er æðsta kennimark múslímans samkvæmt Kóraninum. “Sá er yðar göfugastur í augum Guðs, sem óttast Hann mest.” (49,13).
Auðmýkt, hógværð, taumhald á ástríðum og girndum, sannsögli, heiðarleiki, þolinmæði, staðfesta og orðheldni eru meðal þeirra eiginda sem Kóraninn leggur hvað mesta áherslu á.. Þar stendur: “Og Guð elskar hina þrautgóðu.” (2,146).
“Keppið hver við annan um fyrirgefningu Herra yðar og um Paradís svo mikla sem himna og jörð, þá Paradís sem búin er réttlátum, þeim sem gefa ölmusu jafnt í meðlæti og mótlæti, þeim sem hemja reiði sína og fyrirgefa náunga sínum, - Guð elskar þá sem gott gera.” (3,133-134).
“Vertu staðfastur í bæninni, bjóð þú hið góða, og banna hið illa. Taktu með þolgæði hverju því sem að höndum ber. Það er skylda sem á öllum hvílir. Sýndu engum manni fyrirlitningu, og stíg þú eigi á jörðina með drambi. Guði er ekki hlýtt til hinna hrokafullu og hégómlegu. Gakk þú fram í hógværð, og talaðu lágum rómi. Af allri rödd er rymur asnans mest viðurstyggð.” (31,18-19.)

Eftirfarandi orð spámannsins gefa mynd af réttri breytni múslímans:
“Drottinn minn hefur gefið mér níu fyrirmæli: Að minnast Guðs, hvort sem ég er einn eða í margmenni, að vera réttlátur hvort sem ég er argur eða ánægður, að vera hófsamur bæði í fátækt og ríkidæmi, að uppfylla ættingjaskyldur við þá sem hafa snúið baki við mér, að gefa þeim sem hafnar mér, fyrirgefa þeim sem gerir mér rangt til, að þögn mín sé fyllt íhugun, að augnaráð mitt sé áminnandi, og að ég fyrirskipi það sem rétt er.”

Í íslam er ekki nein kirkja eða prestar. Moskurnar eru bænastaðir og þar fer stundum fram fræðsla um ýmis trúarleg efni. Múhameð er fremstur spámanna Allah, en Jesús, Móses og margir aðrir eru einnig mikilsvirtir spámenn. Abraham er ættfaðir bæði múslíma og gyðinga.