laugardagur, mars 11, 2006

Múhameð

Ef ég myndi birta Múhameð teikningarnar á síðunni minni, ætli mér yrði komið fyrir kattarnef? Ætli einhver brjálaður hettuklæddur múslimi myndi ráðast á mig fyrir utan og skera mig á háls? Ég tek ekki þá áhættu. Nenni ómögulega að standa í því að deyja núna.

Reyndar eru múslimar hér í Danmörku ekkert að æsa sig yfir þessum teikningum. Þeir eru auðvitað ekki ánægðir með þetta, en eru kannski það betur upplýstir en múslimar í "vanþróaðri" löndum, að þeir taka þessu með yfirvegun, engin mótmæli, sprengingar eða ofbeldi. Ég þekki og umgengst þónokkuð af múslimum hérna úti og þetta er löngu gleymt. Það uppstóðu nokkrar rökræður til að byrja með, en allt á góðum nótum, og nú er þetta ekki til umræðu lengur.

Írönsk vinkona mín var á þeirri skoðun að þaðan sem hún kæmi hefðu fæstir séð þessar myndir en nýttu sér aðstæður meðan múslimar víða eru í uppreisn til að standa upp, fara út á götu og mótmæla til að vekja athygli á áralangri bælingu. Í hennar heimabæ er fólki bannað að syngja og dansa, horfa á sjónvarp og tjá sig, réttindi sem við teljum svo sjálfsögð að við tökum ekki eftir því hvað við höfum það gott. Konur hafa engin réttindi. Fólk hefur ekki leyfi til að mótmæla þessari bælingu úti á götu í Íran og vinkona mín telur að fólk sé að nýta sér tækifærið, fá útrás fyrir örvæntinguna. Ég þekki ekki nógu vel til til að vita hvort þetta standist, en virðist rökrétt þegar maður heyrir það sagt.

Hjá múslimum er það víst algjört tabú að teikna spámanninn mikla, hvort sem er sem grínmynd eða venjulega. Það merkilega er nú að Múhameð hefur oft verið teiknaður áður. Hvers vegna eru allir svona reiðir núna? Birti hér með nokkrar, vona að enginn reiðist mér.