Ég reyndi og reyndi að pöbblissa þetta blogg mitt meðan ég var á Íslandi en það tókst aldrei svo það kemur bara núna...
Krossaprófið var vonum framar svínslegt, hver veit svo sem hvort nýrun eru staðsett milli 7. brjóstliðar og 1. lendarliðar eða 8. brjóstliðar og 2. lendaliðar, eða hvort það er heilataug númer 4, 5, 10 eða 11 sem stýrir andlitsvöðvunum? Og hvernig það tengist snyrtifræði er ég ekki alveg að átta mig á. Svo það var frekar niðurbrotinn bekkur sem gekk út úr prófinu á fimmtudaginn og safnaðist saman á kaffihúsi til að drekkja sorgum sínum í einum öl eða tveimur. Við áttum svo að mæta í skólann klukkan tvö og fá afhent umslög með niðurstöðum úr prófunum, en vegna veðurofsans voru allir svíarnir veðurtepptir í Malmö og tóku ekki prófið fyrren klukkan tvö svo okkur var gert að bíða til hálf sex með að fá niðurstöður. Ég kippti mér ekki upp við það, enda mjög viss um að hafa ekki náð krossaprófinu svo ég var ekkert stressuð. Taldi saman þau svör sem ég var viss um að ég hefði rétt og þau voru einungis 58, svo mig vantaði 12 stig uppá til að ná. Hinar stelpurnar voru hver annarri fölari og taugaveiklaðari, grátandi og niðurbrotnar.
En sei sei, tíminn leið og bjórunum fjölgaði, og þegar ég loksins fékk umslagið mitt kom í ljós að ég hafði slysast til að ná fjandans prófinu! Sex úr bekknum féllu á því bóklega og ein á því verklega, svo það blandaðist saman grátur og hlátur. Svo fór allur hópurinn, eða að minnsta kosti þær sem náðu, út að borða og svo á skemmtistað á eftir, við vorum um 50 stelpur held ég, og það var tjúttað fram á rauðan morgun, sem var nú ekki það gáfulegasta að gera þar sem ég þurfti að vakna klukkan átta til að komast í flug;) En það tókst og ég er núna stödd á Akureyri hjá ma og pa í góðu yfirlæti, búin að kíkka á Vélsmiðjuna að sjálfsögðu, það var heldur betur gaman, og hitta vinkonurnar sem var enn meira gaman. Búin að sofa mikið þar sem ég var hálf þreytt og svefnlaus eftir síðustu viku, búin að fá góðan íslenskan mat (panta alltaf kjöt í karrý þegar ég kem til landsins) og lesa góða bók. Gæti ekki hafa fengið betri útskriftargjöf!
En já, ég náði allavega prófinu með glæsibrag, er ánægð að vera búin með þetta, svo fer ég aftur út á miðvikudaginn til að byrja starfsnámið mitt, og svo kemur bara í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér.
fimmtudagur, mars 01, 2007
Birt af Gagga Guðmunds kl. 15:44
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|