miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Þá er verklega prófinu lokið. Það tók allan daginn, eða frá klukkan níu um morguninn til klukkan sex um kvöldið, með hálftíma matarhléi. Þetta var bara mjög afslappaður dagur svo sem, ég var ekkert stressuð þrátt fyrir nokkra magapínu undanfarna daga. Ég gat svarað öllum spurningum og framkvæmt það sem ég átti að gera án teljandi erfiðleika, en prófið fólst í öllu því sem ég hef lært undanfarið ár...ja undanfarið eitt og hálft ár ef farið er út í smáatriði;) Ég lauk svo prófdeginum með glæsilegri förðun sem vakti lukku meðal prófdómara, svo ég hlýt að útskrifast með fyrstu einkunn, hehe...

Á morgun er svo bóklega prófið sem felst í 100 krossaspurningum, og þarf ég takk fyrir að svara 70 rétt til að ná prófinu. Það þykja mér kröfur. Við tókum prufupróf fyrir einum tveimur mánuðum og þá voru ekki nema fimm úr bekknum sem náðu því, ég var þeirra á meðal en það munaði ekki mörgum stigum. Það var nú sérstaklega svínslegt próf hef ég heyrt svo ég vona að prófið á morgun verði auðveldara... sérstaklega vona ég það þar sem ég hef ekki verið neitt of dugleg við lesturinn hömm hömm.

Ég er svo á leiðinni heim á Frón á föstudaginn, elskuleg móðir mín var farin að sakna mín svo mikið að hún splæsti á mig farinu;) Ég verð á landinu fram á miðvikudag en þá neyðist ég til að fljúga aftur til Köben því að starfsnámið mitt er að byrja 1. mars. Starfsnámið, sem er full vinna, tek ég á Skodsborg kur hotel og spa þar sem ég hef verið að vinna aðra hvora helgi. Var ég kannski búin að skrifa það áður...hvað um það, allt í blóma hér í snjóstorminum í Köben, við sjáumst!