mánudagur, desember 17, 2007

Hvar er, hvar er, hvar er, hvar er húfan mín?

Það er fátt að gerast hjá mér þessa dagana. Desemberþreytan er farin að láta á sér kræla og hin nýtilkomna A mannsekja í mér er á undanhaldi. Það er farið að kólna í Kaupmannahöfn og hafa ullarsokkarnir verið fundnir fram og eru dregnir á fætur mér um leið og ég kem úr vinnunni. Mér tekst þó að týna þeim í hvert skipti sem ég fer úr þeim og stend ég því í sokkaleit á hverjum degi eftir vinnu.

Við Marianne fórum í smá innkaupaleiðangur á föstudaginn, liður í undirbúningi fyrir árshátíð. Þemað í ár er Hawaii og fannst okkur heldur slappt að þurfa að mæta í strápilsum og skeljabrjóstahöldum svo við gerðum það besta úr aðstæðum. Ég keypti bleika Hawaiiskyrtu, alltof stóra þar sem þær voru ekki til í kvenmannsstærðum, sólhatt, flugmannasólgleraugu, yfirvaraskegg, byssu og hassplöntu-blómakrans. Vantar svo Bermúdabuxur, skjalatösku, vindil, sósulit og Niveakrem (árið sem minn bekkur átti að hafa Tansaníuhátið var hætt að halda þær, svo ég hef alltaf þráð að prófa sósulitarkremið). Við ætlum sem sagt að vera Hawaii gangsterar í staðinn fyrir blómarósir. Miklu skemmtilegra:)


Í lestinni í morgun kom ég auga á tösku úr kunnulegu efni. Ég horfði vel á töskuna sem stóð á gólfinu á milli fóta eldri konu, opin, og fattaði að hún var úr alveg eins efni og tælenskur búningur sem ég á. Ég var hálf nývöknuð svo ég áttaði mig ekki alveg á því að ég var með störu á töskuna. Ekki fyrr en konan horfði á mig, tók töskuna upp af gólfinu, lokaði henni kyrfilega með rennilásnum, og hélt þéttingsfast um hana. Ég leit á konuna og hún horfði tortryggnislega á mig. Ég var eiginlega of þreytt til að finnast þetta fyndið, en skellti nú aðeins upp úr þegar ég steig út úr lestinni á næstu stöð og áttaði mig á klæðnaði mínum...í nýkomnu kuldakasti hafði ég nefnilega vafið um mig sjalinu mínu og sett upp árans úlpuhettuna áðurnefndu...Úlpuhettan, ógnarvaldur eldra fólksins.

föstudagur, desember 14, 2007

Fólk getur verið algjört yndi

Það er oft gaman að hlusta á fólk sem hringir inn í útvarpið til að viðra skoðanir sínar. Kona sem hringdi í Bylgjuna kom með einstaklega skemmtilegan lokahnykk á ræðu sína um fátækt á Íslandi. Hérna má heyra snilldina.

Hefði þetta verið ég sem hringdi hefði ég nú byrjað á því að nafngreina viðkomandi konu, það hefði gefið þessu svolítið krydd.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Gott hús er gestum heill

Þá er ég orðin húseigandi. Eða hálfur húseigandi mætti segja. Húsinu er skipt í tvær íbúðir og á ég aðra þeirra. Þetta er þriðja íbúðin sem ég eignast á ævinni. Aftur á móti ég hef aldrei átt bíl. Geri aðrir betur.

Þetta er eiginlega allt Ma að kenna. Eins og kunnugir kannski vita er hún mikil húsaáhugamanneskja og sleppur engin fasteigna auglýsing fram hjá hennar kvika auga. Hún var því ekki sein á sér, þegar hún sá ævafornt timburhús á eyrinni til sölu, að síma til útlanda og telja mig á að fjárfesta í kotinu. Svo sem ekki erfitt að fá mig í svona vitleysu:)

Það var því boðið í íbúðina, skrifað undir og borgað út, og nú á ég hálft hús á Akureyri. Jólafríið mitt mun því, að hluta til, fara í að rífa af gólfum, mála veggi og pússa tréverk.

Glæsivillan mín stendur við Lundargötu og hér má sjá slotið.


þriðjudagur, desember 11, 2007

Hvernig stendur á svona?

Eitt sinn var ég á leið heim úr áður umtöluðu bakaríi sem ég vann í endur fyrir löngu. Björnsbakarí var það. Ég var að vinna frá sjö til eitt. Ég gekk áleiðis upp Klapparstíg í þungum þönkum, var vön að hjóla þessa leið á fína hjólinu mínu en því hafði nýlega verið stolið fyrir utan bakaríið árla morguns. Ég hafði talað við lögregluna, hengt upp auglýsingar og miðill hafði jafnvel gefið mér upplýsingar um hvar hjólið væri að finna, án árangurs. Nú megið þið ekki halda að ég hafi heimsótt miðil til að finna stolna hjólið mitt, hlutirnir æxluðust bara þannig að ég var heima hjá miðli stuttu eftir harmleikinn.

Allavega þá var ég hjóllaus á leið heim úr rúnstykkjasölunni, í þungum þönkum, á leið upp brattan Klapparstíginn, þegar ég sé glænýja Volkswagen Golf bifreið renna út úr stæði sínu við hlið mér. Mér þótti þetta undarlegt þar sem bifreiðin var mannlaus.. svo ég hljóp til þvert yfir götuna og greip í handfangið á framhurð bifreiðarinnar og stöðvaði hana. Þar stóð ég svo, ein í miðri brekku með bíl í hendinni. Ég horfði í kringum mig en það var enginn nálægt til að bjarga mér. Ég tók í handfangið til að opna bílinn en hann var læstur. Ég prófaði að sleppa bílnum en hann rann áfram niður götuna. Ég greip aftur í bílinn og teygði mig í afturhurðina til að opna. Hún var líka læst.

Mér var farið að líða þó nokkuð ansalega. Það labbaði kona fram hjá mér og ég horfði á hana, haldandi í bílhurðina, langaði að kalla á hjálp en vissi ekki hvað ég átti að segja...þetta var jú ansi fáránleg staða sem ég var í. Ég reyndi því að ýta bílnum aðeins til baka og sleppa honum svo en hann hélt áfram að renna.

Þegar þarna var komið við sögu fór ég að spá í kringumstæður og komst að því að ég hlyti að vera með í falinni myndavél. Þetta væri einfaldlega of asnalegt. Ég beið eftir að myndavélafólkið gæfi sig fram, en þegar ekkert gerðist og enginn kom, ég enn haldandi traustataki í bílinn, ákvað ég að flýja. Ekki ætlaði ég að standa þarna eins og ansi þangað til eigandi bílsins kæmi. Svo ég sleppti bílnum, eins blíðlega og ég gat. Og viti menn, hann hélt kyrru fyrir! Ég bakkaði í burtu frá bílnum, hálfum úti úr stæðinu, sneri mér við og var fljót að skunda upp Klapparstíginn án þess að líta við.

Veit ég eigi hver örlög bílsins urðu.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Mér er ýmislegt til lista lagt

Einu sinni fyrir mörgum árum bjó ég í Reykjavík í nokkra mánuði. Það var áður en ég flutti þangað síðar. Ég fór á þriggja vikna ítölsku námskeið og fékk mér vinnu í bakaríi. Eftir að ítölsku námskeiðinu lauk þorði ég ekki að segja upp vinnunni í bakaríinu og fékk mér því líka vinnu á veitingastað og leigði mér herbergi á Leifsgötunni.

Eitt sinn varð illt í efni á Akureyri. Ma og pa voru að standa í innanhúss-allsherjar-breytingum og komið var að því að flytja húsgögnin aftur inn í húsið eftir að búið var að byggja það upp frá grunni. Ma hringir í mig á föstudegi, en þá er allt í voða, pa lagstur mikið veikur inn á sjúkrahús, amma lögst inn á sjúkrahús og Gumms litli lagstur í rúmið með ógurlegan hita. Og koma þurfti mublunum í hús. Ma var nú ekki á því að ég þyrfti að koma norður, svaka kvendi sem hún er, en það var auðvitað ekki annað í stöðunni en að bruna niður á völl og reyna að komast í flug.

Öll fargjöld voru á uppsprengdu verði svo fátæka ég skráði mig á hopplista. Fyrsta flug fór án mín, annað flug og þriðja. Ég sá að þetta myndi aldrei ganga svona og ég þyrfti að komast með síðustu vélinni, svo ég arka í innritun og spyr hvort ekki sé möguleiki á að komast með, ég þurfi nauðsynlega að komast norður. Konan segir mér að það sé eitt laust sæti en ég þurfi að fara í miðasöluna til að kaupa miðann. Jú takk segi ég, sé mér ekki annað fært en að kaupa þennan dýra miða. Ég tek upp töskuna mína og býst til að rölta yfir að miðasölunni en sé þá að maður sem stóð við hliðina á mér, og heyrði samtal mitt við innritunarkonuna, stekkur af stað og hleypur yfir að miðasölunni. Nú jæja.. ég stilli mér bakvið hann og þegar kemur að mér þá er mér tilkynnt að því miður hafi síðasti miðinn verið að seljast. Ég gapti. Karl kúkur!

Ég labbaði út með töskuna mína og þar féllust mér hendur. Ég settist í kuldanum á steinöskubakka fyrir utan dyrnar og hágrét.

Kemur þá ekki flugfreyja gangandi frá bílastæðinu. Hún stoppar við, horfir á mig og spyr hvort ekki sé allt í lagi. "Neeiiii" segi ég með ekkasogum, "ég kemst ekki í flug, það keypti einhver kall miðann minn." "Þarftu að komast norður?" spyr hún. "Jáá það eru allir á sjúkrahúsi", tilkynni ég henni tárvot og bólgin. Konan góða drífur mig þá upp af öskubakkanum og inn í flugstöð, beint í innritun og biður um að mér verði vinsamlegast hleypt í kokkpittinn. Það hljómar ekkert voða vel þegar maður veit ekki hvað það er.

Það fór allt í uppnám og á fleygiferð, flugvélin á leið í loftið hvað úr hverju. Hópur drukkinna karlmanna var á leið út í vélina á síðustu stundu en einn þeirra virtist hafa týnt brottfararspjaldinu sínu. Ég stóð ráðþrota og fylgdist með, enginn skipti sér af mér. Ég horfi svo hvolpaaugum á innritunarkonuna og spyr hvað sé í gangi, hvort ég komist með. Hún þegir lengi vel og horfir á mig, réttir mér svo miða og segir mér að drífa mig út í vél. Ég þeytist af stað, fæ sæti mitt í hópi drukknu mannanna og þerra tárin. Sé svo síðasta félagann koma skjögrandi inn í vélina og sökk ansi djúpt í sætið við hlið vinar hans þegar honum er snúið út úr vélinni og skilinn eftir í Reykjavík. Köllunum fannst þetta ansi hreint fyndið.. held þeir hafi ekki áttað sig á að það var ég sem stal miða mannsins.

Þetta var sagan af því þegar ég grét út flugfar hjá Flugfélagi Íslands.

mánudagur, desember 03, 2007

Arr en bí kveld

Ég dröslaði mér í samkvæmi á laugardagskvöldið, eftir mikinn dans á föstudagskvöldinu. Einhvernveginn æxluðust mál þannig að ég var eina bleiknefja konan í samkvæminu, umkringd þeldökkum þokkagyðjum. Þeim fannst voða góð hugmynd þegar líða fór á kvöldið að draga fram Playstation tölvu og fara í Singstar. Það fannst mér alls ekki góð hugmynd. Ég lét mig því reglulega hverfa fram í eldhús þegar mig grunaði að röðin gæti komið að mér að syngja. Ég komst algjörlega upp með þessi hvörf mín þar sem þær sungu allar svo ansi vel að þær kepptust um að komast að. Merkilegt hvað svartar konur syngja vel. Mér fannst ég ansi föl þetta kvöld, ekki bætti úr skák að ég er enn fölari en venjulega eftir að hafa verið veik. Ég huggaði mig þó við það að ég var sú eina í boðinu með mitt eigið hár á höfðinu. Allar með hárlengingar og ein meira að segja með kollu. Kostulegt.