Það er fátt að gerast hjá mér þessa dagana. Desemberþreytan er farin að láta á sér kræla og hin nýtilkomna A mannsekja í mér er á undanhaldi. Það er farið að kólna í Kaupmannahöfn og hafa ullarsokkarnir verið fundnir fram og eru dregnir á fætur mér um leið og ég kem úr vinnunni. Mér tekst þó að týna þeim í hvert skipti sem ég fer úr þeim og stend ég því í sokkaleit á hverjum degi eftir vinnu.
Við Marianne fórum í smá innkaupaleiðangur á föstudaginn, liður í undirbúningi fyrir árshátíð. Þemað í ár er Hawaii og fannst okkur heldur slappt að þurfa að mæta í strápilsum og skeljabrjóstahöldum svo við gerðum það besta úr aðstæðum. Ég keypti bleika Hawaiiskyrtu, alltof stóra þar sem þær voru ekki til í kvenmannsstærðum, sólhatt, flugmannasólgleraugu, yfirvaraskegg, byssu og hassplöntu-blómakrans. Vantar svo Bermúdabuxur, skjalatösku, vindil, sósulit og Niveakrem (árið sem minn bekkur átti að hafa Tansaníuhátið var hætt að halda þær, svo ég hef alltaf þráð að prófa sósulitarkremið). Við ætlum sem sagt að vera Hawaii gangsterar í staðinn fyrir blómarósir. Miklu skemmtilegra:)
Í lestinni í morgun kom ég auga á tösku úr kunnulegu efni. Ég horfði vel á töskuna sem stóð á gólfinu á milli fóta eldri konu, opin, og fattaði að hún var úr alveg eins efni og tælenskur búningur sem ég á. Ég var hálf nývöknuð svo ég áttaði mig ekki alveg á því að ég var með störu á töskuna. Ekki fyrr en konan horfði á mig, tók töskuna upp af gólfinu, lokaði henni kyrfilega með rennilásnum, og hélt þéttingsfast um hana. Ég leit á konuna og hún horfði tortryggnislega á mig. Ég var eiginlega of þreytt til að finnast þetta fyndið, en skellti nú aðeins upp úr þegar ég steig út úr lestinni á næstu stöð og áttaði mig á klæðnaði mínum...í nýkomnu kuldakasti hafði ég nefnilega vafið um mig sjalinu mínu og sett upp árans úlpuhettuna áðurnefndu...Úlpuhettan, ógnarvaldur eldra fólksins.
mánudagur, desember 17, 2007
Hvar er, hvar er, hvar er, hvar er húfan mín?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|