Einu sinni fyrir mörgum árum bjó ég í Reykjavík í nokkra mánuði. Það var áður en ég flutti þangað síðar. Ég fór á þriggja vikna ítölsku námskeið og fékk mér vinnu í bakaríi. Eftir að ítölsku námskeiðinu lauk þorði ég ekki að segja upp vinnunni í bakaríinu og fékk mér því líka vinnu á veitingastað og leigði mér herbergi á Leifsgötunni.
Eitt sinn varð illt í efni á Akureyri. Ma og pa voru að standa í innanhúss-allsherjar-breytingum og komið var að því að flytja húsgögnin aftur inn í húsið eftir að búið var að byggja það upp frá grunni. Ma hringir í mig á föstudegi, en þá er allt í voða, pa lagstur mikið veikur inn á sjúkrahús, amma lögst inn á sjúkrahús og Gumms litli lagstur í rúmið með ógurlegan hita. Og koma þurfti mublunum í hús. Ma var nú ekki á því að ég þyrfti að koma norður, svaka kvendi sem hún er, en það var auðvitað ekki annað í stöðunni en að bruna niður á völl og reyna að komast í flug.
Öll fargjöld voru á uppsprengdu verði svo fátæka ég skráði mig á hopplista. Fyrsta flug fór án mín, annað flug og þriðja. Ég sá að þetta myndi aldrei ganga svona og ég þyrfti að komast með síðustu vélinni, svo ég arka í innritun og spyr hvort ekki sé möguleiki á að komast með, ég þurfi nauðsynlega að komast norður. Konan segir mér að það sé eitt laust sæti en ég þurfi að fara í miðasöluna til að kaupa miðann. Jú takk segi ég, sé mér ekki annað fært en að kaupa þennan dýra miða. Ég tek upp töskuna mína og býst til að rölta yfir að miðasölunni en sé þá að maður sem stóð við hliðina á mér, og heyrði samtal mitt við innritunarkonuna, stekkur af stað og hleypur yfir að miðasölunni. Nú jæja.. ég stilli mér bakvið hann og þegar kemur að mér þá er mér tilkynnt að því miður hafi síðasti miðinn verið að seljast. Ég gapti. Karl kúkur!
Ég labbaði út með töskuna mína og þar féllust mér hendur. Ég settist í kuldanum á steinöskubakka fyrir utan dyrnar og hágrét.
Kemur þá ekki flugfreyja gangandi frá bílastæðinu. Hún stoppar við, horfir á mig og spyr hvort ekki sé allt í lagi. "Neeiiii" segi ég með ekkasogum, "ég kemst ekki í flug, það keypti einhver kall miðann minn." "Þarftu að komast norður?" spyr hún. "Jáá það eru allir á sjúkrahúsi", tilkynni ég henni tárvot og bólgin. Konan góða drífur mig þá upp af öskubakkanum og inn í flugstöð, beint í innritun og biður um að mér verði vinsamlegast hleypt í kokkpittinn. Það hljómar ekkert voða vel þegar maður veit ekki hvað það er.
Það fór allt í uppnám og á fleygiferð, flugvélin á leið í loftið hvað úr hverju. Hópur drukkinna karlmanna var á leið út í vélina á síðustu stundu en einn þeirra virtist hafa týnt brottfararspjaldinu sínu. Ég stóð ráðþrota og fylgdist með, enginn skipti sér af mér. Ég horfi svo hvolpaaugum á innritunarkonuna og spyr hvað sé í gangi, hvort ég komist með. Hún þegir lengi vel og horfir á mig, réttir mér svo miða og segir mér að drífa mig út í vél. Ég þeytist af stað, fæ sæti mitt í hópi drukknu mannanna og þerra tárin. Sé svo síðasta félagann koma skjögrandi inn í vélina og sökk ansi djúpt í sætið við hlið vinar hans þegar honum er snúið út úr vélinni og skilinn eftir í Reykjavík. Köllunum fannst þetta ansi hreint fyndið.. held þeir hafi ekki áttað sig á að það var ég sem stal miða mannsins.
Þetta var sagan af því þegar ég grét út flugfar hjá Flugfélagi Íslands.
miðvikudagur, desember 05, 2007
Mér er ýmislegt til lista lagt
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:07
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|