sunnudagur, apríl 16, 2006

Tinky Winky..Dipsy..Lala..Pó!

Klukkan er að verða átta á sunnudagsmorgni og ég er enn ekki farin að sofa. Ég er mikill nátthrafn og næturgali og komst ekki í gang með fjögurþúsund orða verkefnið mitt fyrr en í nótt. Eftir það þurfti ég aðeins að horfa á sjónvarpið og elda svo. Ekki langaði mig í matinn þegar ég var búin að elda svo ég kveikti aftur á sjónvarpinu núna rétt áðan og lenti inná stubbunum. Og ég horfði á þá. STUBBANA! Og ég hef aldrei séð jafn ávanabindandi barnefni. Þeir voru að velta sér um á jörðinni innan um blóm og kanínur og faðmast. og svo byrjuðu loftnetin þeirra og magar að blikka, og svo kom bíó í maganum á Pó. Það voru börn að föndra með gull og silfur glimmer. Og ég horfði. Svo var bíóið búið en þeir sýndu það bara aftur. Og ég horfði. Þangað til ég áttaði mig á hversu sjúkt þetta barnaefni er og stóð upp og slökkti á sjónvarpinu og sagði við sjálfa mig: "Nei nú er ég orðin alveg rugluð, þetta er sjúkt!" Og þetta sagði ég við mig upphátt nota bene. Aldrei vanmeta áhrifamátt sjónvarpsins gott fólk, það getur gert mann furðulegan. Sérstaklega þegar Stubbarnir eru á skjánum.

ef það væru konur sem réðu heiminum...

...hvað þá?



sunnudagur, apríl 09, 2006

Það er svo mikið eftir af sumrinu í mér

Hér kemur í eitt skipti fyrir öll útskýring á viðvarandi bloggleysi mínu; Nettenging nágrannans er einfaldlega ekki að virka fyrir mig lengur. Ég er að hugsa um að leita þennan árans nágranna uppi og biðja hann vinsamlegast um að redda þessu hið snarasta því eins og gefur að skilja er þetta mjög óþægilegt fyrir mig. Þvílík ósvífni í einum nágranna að gera mér svona erfitt fyrir að stela nettengingunni hans!

Annars er það að frétta að vorið kom í gær...í hálftíma. Svo kom veturinn aftur. Þar sem ég er svo mikil bjartsýnismanneskja neita ég samt að fara úr nýja gallajakkanum mínum og taka niður sólgleraugun svo ég geng um í öllum veðrum skjálfandi úr kulda með sultardropa og sólgleraugu á nefi. Sumu fólki finnst það skrítið. Mér finnst það fólk bara skrítið.

Í tilefni sumarsins læt ég fylgja með þetta...merkilega...ljóð...


Einn daginn segi ég (ungi maður)
Hvernig leggst veturinn í þig.
Og gamla konan svarar:
Ég er bara ekkert að hugsa um það.
Það er svo mikið eftir af sumrinu í mér.
(segir gamla konan)

(Thor Vilhjálmsson)

miðvikudagur, apríl 05, 2006

20 hlutir um mig

Þó ég reyni að fara eftir eftirfarandi orðum og takist oft, þá eru vissar manneskjur sem einfaldlega eru of pirrandi: Sá sem fremur kýs að brosa en reiðast ber ætíð sigur úr bítum.

Ég er þekkt, að minnsta kosti í minni fjölskyldu, fyrir að kaupa ávallt undarlega skó.

Ég er ákaflega hreinskilin, en kýs að hafa hreinskilnina frekar á uppbyggjandi en niðurrífandi nótum.

Ég er hryllilega veik fyrir öllu bleiku, sama hversu ljótt það nú er, því bleikt gerir flesta hluti fallega.

Dómgreind mín er sprottin af reynslu. En reynsla mín er mest sprottin af slæmri dómgreind;)

Ég get verið ótrúlega blind á hvað öðru fólki finnst ósæmileg hegðun eða of opinskátt umræðuefni.

Það myndi henta mér best að geta sofið í 16 tíma og vakað í 8.

Uppáhalds maturinn minn er kjötsúpa, kjöt í karrý, og blóðug nautalund með bernaissósu.

Besta líkamsrækt sem ég hef prófað er sveitt spinning.

Ég kýs að umgangast heiðarlegt, glatt og jákvætt fólk með hjartað á réttum stað.

Fyrir þannig vini sem aldrei hafa brugðist mér né öðrum, myndi ég jafnvel deyja.

Ég get orðið sjúklega afbrýðisöm þegar ástin er annars vegar.

Ég er minningagreinafíkill.

Ég tek litla manninn mjög nærri mér.

Ég hef gaman af að kynnast skrýtnu fólki, trúarbrögðum og menningu.

Ég á það til að vera óhemju löt.

Mér þykir leiðinlegt að þrífa.

Ég græt oft á sunnudögum.

Ég elska girly-girl rómantískar stelpugamanmyndir.

Ég hef trú á að lýsi sé bót á öllum mannsins meinum.

Ekki eru allir jafn klárir...

Við ætlum að snúa þessu liði 360° við. - Jason Kidd

Óvinir okkar eru hugvitssamir og úrræðagóðir, og það erum við líka. Þeir hætta aldrei að hugsa um nýjar leiðir til að skaða land okkar og þjóð og það gerum við ekki heldur. - George W. Bush 5. ágúst


En sem betur fer leynast gullmolarnir inná milli!


Wise men talk because they have something to say; fools, because they have to say something.

Þegar við skiljum loksins að við erum öll brjáluð verða öll vandamál úr sögunni. - Mark Twain

Ég myndir aldrei deyja fyrir skoðanir mínar, því kannski hef ég rangt fyrir mér. -Bertrand Russell

Frestaðu aldrei til morguns því sem þú getur gert fljótlega eftir helgi. - Mark Twain


Ég hef átt alveg yndislega kvöldstund, en það var ekki í kvöld. - Groucho Marx

Auga fyrir auga gerir allan heiminn blindan. – Gandhi

Thanks, you don't look so hot yourself. - after being told he looked cool (Yogi Berra)

Ekki rugla mig með staðreyndum. Ég hef þegar gert upp hug minn.

"Þrá er sauðkindin en hvað er það á við kvenkindina."
- Bjartur í Sumarhúsum,
Sjálfstætt fólk


Vandamálið við fólk sem hefur enga galla er að þú getur verið nokkuð viss um að það muni hafa ansi pirrandi kosti. - Elizabeth Taylor


Never argue with an idiot. They drag you down to their level, then beat you with experience."


There was a time when religion ruled the world. It is known as The Dark Ages. - Ruth Hurmence Green


Oft dregur lofið háðið í halanum

Eitt orð nægir til að eyðileggja stóra verslun, og einn maður nægir til að eyðileggja ríkið.
(Sem mælt úr munni fyrrum forsætisráðherra vor!))

sunnudagur, mars 12, 2006

Af allri rödd er rymur asnans mest viðurstyggð

Þetta er nú svolítið langur fyrirlestur um Íslam sem ég hef tekið saman hér, en engu að síður góð lesnins og varpar ljósi á þessa trú sem er svo misskilin hjá þeim sem ekki þekkja til. Ég sjálf veit ekki mikið um trúna og er ekki að segja að ég sé sammála öllu því sem hún stendur fyrir, en það er aldrei slæmt að kynna sér nýja hluti! Vonandi nenni einhver að klóra sig fram úr þessu:)

Íslam og múslímar:
Arabíska orðið Íslam merkir friður, undirgefni og hlýðni. Að vera íslamstrúar táknar að játast undir kenningar og leiðsögn Guðs eins og þær opinberuðust Múhammeð spámanni. Múslími er sá sem trúir á Guð og leitast við að haga lífi sínu í samræmi við hina opinberuðu leiðsögn Guðs og orð spámannsins. Hann reynir jafnframt að treysta mannlegt samfélag á sama grunni. “Múhammeðstrú” er rangnefni á Íslam og móðgun við anda þeirrar trúar

Íslam leggur manninum lífsreglur sem byggjast á því sem gott er og að afstýra illu. Fólk er ekki aðeins hvatt til að rækja góðar dyggðir heldur einnig að rótfesta þær en uppræta ranga breytni, að hvetja til góðs en banna illt. Samviskan á að hafa úrslitavaldið, lestirnir mega aldrei bera sigurorð af dyggðunum. Þeir sem hlýðnast þessu kalli tilheyra samfélagi múslíma (UMMAH). Og hlutverk þessa samfélags er að vinna skipulega að því að hvetja til góðra verka og festa þau í sessi, en berjast gegn illum verkum og uppræta þau.


Aðalatriðin eru fjögur:
a) Trú okkar á að vera sönn og einlæg.
b) Við eigum að sýna hana í góðverkum við náungann.
c) Við eigum að vera löghlýðnir borgarar og stuðla að almannaheill.
d) Við eigum að vera æðrulaus og staðföst á hverju sem gengur.


Hér á eftir verða taldar upp nokkrar grundvallar siðareglur á ýmsum sviðum mannlífsins. Þær ná til ýmissa greina persónulegrar breytni og félagslegrar skyldu.

Guðsótti:
Guðsóttinn er æðsta kennimark múslímans samkvæmt Kóraninum. “Sá er yðar göfugastur í augum Guðs, sem óttast Hann mest.” (49,13).
Auðmýkt, hógværð, taumhald á ástríðum og girndum, sannsögli, heiðarleiki, þolinmæði, staðfesta og orðheldni eru meðal þeirra eiginda sem Kóraninn leggur hvað mesta áherslu á.. Þar stendur: “Og Guð elskar hina þrautgóðu.” (2,146).
“Keppið hver við annan um fyrirgefningu Herra yðar og um Paradís svo mikla sem himna og jörð, þá Paradís sem búin er réttlátum, þeim sem gefa ölmusu jafnt í meðlæti og mótlæti, þeim sem hemja reiði sína og fyrirgefa náunga sínum, - Guð elskar þá sem gott gera.” (3,133-134).
“Vertu staðfastur í bæninni, bjóð þú hið góða, og banna hið illa. Taktu með þolgæði hverju því sem að höndum ber. Það er skylda sem á öllum hvílir. Sýndu engum manni fyrirlitningu, og stíg þú eigi á jörðina með drambi. Guði er ekki hlýtt til hinna hrokafullu og hégómlegu. Gakk þú fram í hógværð, og talaðu lágum rómi. Af allri rödd er rymur asnans mest viðurstyggð.” (31,18-19.)

Eftirfarandi orð spámannsins gefa mynd af réttri breytni múslímans:
“Drottinn minn hefur gefið mér níu fyrirmæli: Að minnast Guðs, hvort sem ég er einn eða í margmenni, að vera réttlátur hvort sem ég er argur eða ánægður, að vera hófsamur bæði í fátækt og ríkidæmi, að uppfylla ættingjaskyldur við þá sem hafa snúið baki við mér, að gefa þeim sem hafnar mér, fyrirgefa þeim sem gerir mér rangt til, að þögn mín sé fyllt íhugun, að augnaráð mitt sé áminnandi, og að ég fyrirskipi það sem rétt er.”

Í íslam er ekki nein kirkja eða prestar. Moskurnar eru bænastaðir og þar fer stundum fram fræðsla um ýmis trúarleg efni. Múhameð er fremstur spámanna Allah, en Jesús, Móses og margir aðrir eru einnig mikilsvirtir spámenn. Abraham er ættfaðir bæði múslíma og gyðinga.

laugardagur, mars 11, 2006

Múhameð

Ef ég myndi birta Múhameð teikningarnar á síðunni minni, ætli mér yrði komið fyrir kattarnef? Ætli einhver brjálaður hettuklæddur múslimi myndi ráðast á mig fyrir utan og skera mig á háls? Ég tek ekki þá áhættu. Nenni ómögulega að standa í því að deyja núna.

Reyndar eru múslimar hér í Danmörku ekkert að æsa sig yfir þessum teikningum. Þeir eru auðvitað ekki ánægðir með þetta, en eru kannski það betur upplýstir en múslimar í "vanþróaðri" löndum, að þeir taka þessu með yfirvegun, engin mótmæli, sprengingar eða ofbeldi. Ég þekki og umgengst þónokkuð af múslimum hérna úti og þetta er löngu gleymt. Það uppstóðu nokkrar rökræður til að byrja með, en allt á góðum nótum, og nú er þetta ekki til umræðu lengur.

Írönsk vinkona mín var á þeirri skoðun að þaðan sem hún kæmi hefðu fæstir séð þessar myndir en nýttu sér aðstæður meðan múslimar víða eru í uppreisn til að standa upp, fara út á götu og mótmæla til að vekja athygli á áralangri bælingu. Í hennar heimabæ er fólki bannað að syngja og dansa, horfa á sjónvarp og tjá sig, réttindi sem við teljum svo sjálfsögð að við tökum ekki eftir því hvað við höfum það gott. Konur hafa engin réttindi. Fólk hefur ekki leyfi til að mótmæla þessari bælingu úti á götu í Íran og vinkona mín telur að fólk sé að nýta sér tækifærið, fá útrás fyrir örvæntinguna. Ég þekki ekki nógu vel til til að vita hvort þetta standist, en virðist rökrétt þegar maður heyrir það sagt.

Hjá múslimum er það víst algjört tabú að teikna spámanninn mikla, hvort sem er sem grínmynd eða venjulega. Það merkilega er nú að Múhameð hefur oft verið teiknaður áður. Hvers vegna eru allir svona reiðir núna? Birti hér með nokkrar, vona að enginn reiðist mér.






mánudagur, mars 06, 2006

Stemning á Salonen






Það var tekið ágætlega á því á laugardagskvöldið á Salonen sem er ansi lítill en fáránlega vel sóttur pöbb sem íslendingar eiga það til að stunda stíft. Myndavélin var að sjálfsögðu með í för og myndaði ég grimmt fram á nótt og náðust nokkrar gríííðar góðar myndir eins og meðfylgjandi myndir sannar;) Smelli nú inn fleiri smellnum við tækifæri.

föstudagur, mars 03, 2006

Yfirlit

Einhverjar kvartanir hafa borist um bloggleysi...ja að minnsta kosti ein...og verður hér með bætt úr því.

Ég er byrjuð að leita mér að nýrri íbúð, þarf að flytja héðan eftir tvo mánuði. Ætla sko virkilega að finna mér frábæra og ógeðslega ódýra íbúð...og nokkuð heilbrigðan eiganda sem reynir ekki að ræna mig eins og í síðustu íbúð. Hef ekki enn fengið 80.000 kallinn minn til baka en þetta er allt í vinnslu í kerfinu.

Námið mitt er hálfnað núna, skrítið að ég sé búin að vera hérna í hálft ár nú þegar. Og bara hálft ár eftir af skólanum. Vonandi þrauka ég þetta, er með svo ógurlegan skólaleiða. Svo hálft ár á stofu og svo bíður frelsið mín handan við hornið.

Það snjóar og snjóar í Köben og ekkert virðist bóla á sumrinu sem ég er búin að bíða eftir svo lengi. Ma segir mér að sólin skíni á Akureyri en það er kannski ekkert að marka, það er jú alltaf sól á Akureyri!

Er að hugleiða Tyrklandsferð í sumarfríinu mínu. Þrjár vikur í júlí. Þeir segja að það séu meiri líkur á að vinna í lottó en að fá fuglflensu, svo kannski er ég seif. Þó það væri auðvitað mér líkt að fá fuglaflensu og drepast. Mamma vinkonu minnar á sumarhús þarna við einhverja strönd og hitinn á að vera í kringum 40 stigin. Ætla að sjá hvernig fuglaflensan þróast áður en ég tek ákvörðun. Reyndar ef sumarið verður gott í Danmörku þá hæfir hitastigið hér mér betur.

Það er alvöru jólasnjókoma í uppstreyminu hérna fyrir utan gluggann. Sorglegt.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Tölvan biluð aftur. Fór með hana í viðgerð núna og það mun taka svona þrjár vikur, einstaklega hægvirkt allt hér í Köben. Svo það mun ekki verða mikið um blogg hjá mér á næstunni, þið verðið bara að vera þolinmóð ástirnar mínar, kiss og knús:)

föstudagur, febrúar 03, 2006

Long time no blog.
Tölvan mín búin að vera í endalausu fokki, það endaði með því að hún var send heim á frón svo snillingurinn hann bróðir minn gæti kíkt á hana og að sjálfsögðu tókst honum að fiffa hana til svo hún er svona nokkurn veginn nothæf á ný, msn-ið vill enn ekki virka.

Ég fór í áhugaverða ferð um daginn. Ég og Selay vinkona mín úr skólanum lögðum land undir fót og fórum í helgarsiglingu með Hirsthals-Osló ferjunni. Tilefnið var Fröken Danmark keppni um borð í bátnum, og vorum við förðunarmeistarar;) Vegna "óveðurs" og ísingar var Stórabeltisbrúin lokuð óendanlega lengi og seint um kvöldið var ákveðið að taka ferjuna frá Kalundborg yfir til Árósa og keyra svo þaðan til Hirsthals, sem er nota bene eins langt frá Köben og hugsast getur, næstum því efst uppi í hárlubbanum á kallinum. Ferðin sem átti að taka um sjö tíma tók því sextán tíma og fengum við eins tíma svefn á einhverju sveitahóteli áður en liðið var ræst út í Osló ferjuna. Hárgreiðslumeistarinn sem réð okkur í þessa vinnu var lítið að hafa fyrir því að spjalla við okkur eða segja okkur nokkurn skapaðan hlut um til hvers var ætlast af okkur, hann fann sér strax í rútunni litla dömu að leika við og fylgdi henni stíft eftir alla ferðina. Ætlunin var að byrja að farða stúlkukindurnar um hálf sjö leitið og keppninn byrjaði svo klukkan níu. Eftir okkar bestu útreikningum myndi aldrei takast að farða 26 stelpur á þessum stutta tíma, en þar sem Herra Hár var óviðræðuhæfur létum við það bara gott heita og eftir mikinn velting og ógleði í tax free búðinni ákváðum við bara klukkan hálf eitt að fara og leggja okkur, enda því sem næst ósofnar.

Klukkan fjögur vakna ég við mikið bank á káetuna og fyrir utan stendur úfin kona með augun á stilkum og tilkynnir mér það að búið sé að leita að okkur um allt skip, stælingin sé byrjuð. Ja sei sei, ekki mundi Herra Hár eftir að vid hefðum tilkynnt honum að við ætluðum að leggja okkur, enda óhemju upptekinn maður. Við rukum á fætur, rifum uppúr töskum förðunargræjurnar og hlupum upp með koddaförin á kinnunum og höfðumst handa við að farða í gríð og erg og lukum góðu starfi um klukkan hálf átta, sveittar og bognar með bakverki og tuttugu og sex glæsilegar píur klárar fyrir kvöldið. Þá var haldið beint í kvöldmat sem var einstaklega skemmtilegt þar sem við vorum vægast sagt fallegar og vel ilmandi. Við misstum svo af fyrri hluta keppninnar þar sem við neyddumst til að fara í sturtu og setja á okkur smá andlit, bara svona til að fólk myndi trúa að við værum förðunardömur;)

Kvöldið tókst bara vel þó að diskóið eftirá væri hálf slappt, ég skellti þó í mig nokkrum Campari í sprite og fór í rannsóknarleiðangur um skipið. Við fórum í bólið um þrjú leitið, og svo var ræs klukkan sjö morguninn eftir í morgunmat og rútan átti svo að leggja af stað klukkan átta. Þegar ég vaknaði var ferjan lögst að bryggju og klukkan orðin níu. Selay svaf enn vært. Með fyrrnefndum stærðfræðigáfum okkar reiknuðum við út að rútan væri farin án okkar. Selay varð stressuð en ég bara hló. Við fórum síðastar frá borði, ánægðar með það að hafa ekki siglt aftur til baka til Oslóar með ferjunni, keyptum okkur morgunmat og fundum út hvernig við kæmumst heim með lest. Hringir þá ekki Herra Hárprúður og spyr hvar við séum eiginlega. Þá höfðu greinilega fleiri sofið yfir sig, okkar ágiskun; hann sjálfur og Fröken Þriðja sæti (hann var í dómnefnd), og rútan var ekki farin. Við ákváðum samt sem áður að afboða okkur í rútuna og tókum lestina heim, sem var að sjálfsögðu miklu fljótlegra og þægilegra!

Þetta er sem sagt ferðasagan í hnotskurn, einstaklega vel heppnuð ferð ekki satt;) Ég læt svo fylgja með nokkrar vel valdar myndir.

Þessar fögru systur farðaði ég...





Annað sætið, þriðja sætið, fyrsta sætið...

Við Selay að lokinni sturtunni... höfum báðar myndast betur;)

Tvífarar dagsins







Mischa Burton og Fröken
annað
sæti