mánudagur, október 22, 2007

Af birtumeðferð og B konum

Það er ótrúlegur munur á að koma sér fram úr rúminu núna og fyrir mánuði síðan. Þegar klukkan hringir klukkan sjö á morgnana (sem er nú ekki oft, en kemur fyrir) þá á ég alltaf jafn bágt með að trúa því að það sé ekki mið nótt ennþá. Það er jú niðamyrkur og ég sé varla handa minna skil. Þetta ætti hreinlega að vera ólöglegt, þarf greinilega að fara að drífa mig á þing til að gera það að lögum að eftir 1. október og fram til 1. apríl skuli enginn þurfa að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta. Þegar það er svona dimmt á morgnana er heilinn einfaldlega ekki tilbúinn til að vakna svona snemma, og það er ekkert "sálrænt" heldur algjörlega líkamlegt hormónaástand.

Danir eru jú alveg sér þjóðflokkur eins og vitað er svo í fyrravetur var mikið fjallað um það í blöðunum að skipta ætti fólki niður í A og B fólk; A fólkið sem er morgunhanar og B fólkið sem er nátthrafnar. Eða á hinn veginn, A fólkið sem fer snemma á fætur og B fólkið sem fer seint á fætur. Það sem umræðan snérist um var það að leyfa ætti B fólki að mæta seinna í vinnu og skóla og vinna í staðinn aðeins lengur á daginn. Og þetta var engin grín umræða, það liggja víst frammi vísindalegar sannanir á þessum mun á fólki. Þetta finnst mér alveg mögnuð hugmynd, myndi bæta skap margra til muna.

Ég stóð á lestarstöðinni í kvöld að bíða eftir lestinni minni þegar ég sá auglýsingu rúlla yfir auglýsingaskilti á næsta brautarpalli. Ég stekk nær til að sjá betur og viti menn, held ég hafi hreinlega séð ljósið! Þetta er snilldar uppfinning. Wake Up Light frá Philips. Hálftíma áður en maður ætlar að vakna kveiknar á ljósinu og það verður sífellt sterkara á þessum 30 mínútum þangað til það nær 250 Lux (ljósstyrksmælieining). Í gegnum augun fara skilaboð til heilans um að framleiða meira magn af hormóninu kortisol sem er nokkurs konar "orkuhormón" sem fær líkamann til að vakna. Svo getur maður valið milli mismunandi vekjaratóna, til dæmis fuglakvak, ölduhljóð eða endur og froska. Ég meina, getur maður annað en vaknað brosandi við endur og froska!? Snilld:) Svo getur maður notað lampann sem leslampa og fengið birtumeðferð (light therapy, upp á útlenskuna) í leiðinni. Það hefur reynst virka vel gegn skammdegisþunglyndi, eða "vetrar óyndi" eins og svo vel hefur verið orðað...þyrfti sem sagt að vera til svona lampi á öðru hverju heimili á Íslandi;)




Annars er helst að frétta að ég er gjörsamlega lurkum lamin! Fékk þvílíka útrás í sjálfsvörninni í gær, barði alla púða í spað (með tilþrifum og tilheyrandi svip) með þeim afleiðingum að ég held ég hafi rifið alla vöðva í líkamanum. Get ekki klætt mig í jakkann minn án þess að fara í furðulegustu stellingar, og gat varla nuddað í dag, fann svo ógurlega til í handleggjunum, frá úlnliðum aftur á herðarblöð. Af anditinu er það að frétta að vörin er bara orðin ansi lagleg, sár gróa víst mjög hratt í munninum, en það er farinn að síga örlítill blámi á augað. Ég þurfti að sjálfsögðu að segja Kung Fu söguna tíu sinnum í vinnunni í dag, stór vinnustaður, var að spá í að boða bara til blaðamannafundar, var komin með svo mikinn leiða á að þurfa að útskýra aftur og aftur. Marianne tók að sér helminginn og sagði flott frá því þegar hún sá mig koma labbandi að henni með blóðið fossandi niður andlitið. Henni brá ansi mikið. Það fyrsta sem hún gerði var víst að rífa upp á mér ginið til að athuga hvort allar tennur væru á sínum stað;) Við erum samt svo nettar á þessu, skildi enginn í vinnunni hvað við hlógum að þessu öllu, bjuggust allir við að við værum í sjokki. En við erum bara glaðar að ekki fór verr og svo er þetta nú pínu fyndið svona eftirá, litla ég að stökkva á brjálaða ofbeldisdólga!