Í síðustu viku var ég að útrétta á Nordre Frihavnsgade, ágætis verslunargata með allskyns skemmtilegum búðum, þegar ég kem auga á skilti sem fær mig heldur betur til að stansa. "Sok 10 kr" stendur á skiltinu sem stendur í miðjum haug af sokkum, fimm í pakka. Þetta fannst mér kostaboð og maður getur aldrei átt nóg af sokkum, svo ég vel mér eitt búnt af svörtum sokkum og eitt í blönduðum litum og fer inn í búðina. Ég skoða mig aðeins um í búðinni, máta eitt pils, en finn ekkert sem mér líst á svo ég fer að kassanum til að borga. Afgreiðslumaðurinn var mjög hommalegur maður á miðjum aldri í blátíglóttri peysu með ljósar strípur í hárinu. Hann stimplar sokkana inn í kassann og ég sé á skjánum að hann hefur stimplað inn 50 krónur fyrir hvort búnt. "Hummm" segi ég, "kosta þeir ekki tíu krónur?". Og svipurinn sem kom á manninn. Það var eins og ég hefði kúkað upp í hann! Hann gefur frá sér ógurlega stunu, mínusar sokkana út úr kassanum og segir; "Auðvitað get ég ekki selt þér fimm sokka á tíkall!". "Af hverju ekki?", spyr ég. "Hvað eiga þá stöku sokkapörin að kosta?" spyr hann. "Uhhh það voru engir stakir sokkar" segi ég. "Nå!" segir hann, ranghvolfir í sér augunum og gengur út úr búðinni. Ég stóð og horfði á eftir honum, vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera en ákveð svo að best sé að labba á eftir honum. Hann treður sokkabúntunum mínum aftur ofan í kassann, grefur upp stakt sokkabúnt og otar því að mér. "Hvað er þá þetta?" "Nú þarna voru þeir já, segi ég" og horfi á þrjú stök sokkapör útí horni í hrúgunni. Svo kom þögn, hann raðaði sokkum og dæsti og urraði og ég tvísté, ekki alveg viss um hvað ég átti að gera. Segi svo "ja þú ættir þá kannski að fjarlægja þetta skilti, það er svolítið misvísandi." Hann horfir á mig þvílíkum fyrirlitningaraugum að ég forða mér hið snarasta, vildi helst ekki láta klóra úr mér augun fyrir tvo sokkapakka.
miðvikudagur, október 24, 2007
Sokkaskrímslið
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:10
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|