Það ríkir engin lognmolla í kringum mig núna fremur en fyrri daginn. Ég fór á sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur á föstudaginn, ótrúlega gaman. Áhugavert, en auðvitað "kommon sens" ef maður spáir í það, það sem kennarinn lagði aðaláherslu á. Þegar ég vann í Ríkinu í Austurstræti fengum við smá sjálfsvarnarnámskeið, flott trikk sem hægt er að nota ef ráðist er á þig. Það sem námskeiðið hér gengur út á er að ef ráðist er á þig, þá verður þú auðvitað mjög hrædd og hjartað slær alveg á milljón, og þegar maður er svona hræddur, þá er ómögulegt að ætla sér að nota einhver flott og flókin trikk. Svo það sem við æfðum var einfaldlega að sparka og slá af fullum krafti og öskra. Nota mjög einfalda tækni sem meiðir þann sem ræðst á þig. Sem sagt, hné í punginn, fótur í punginn, olnbogi í magann, fótur í sköflung og hné og flatur lófi til að kýla upp undir hökuna á árásarmanninum. Við æfðum saman tvær og tvær á boxpúða sem önnur hélt og hin misþyrmdi. Og það er ótrúlegt hversu mikinn kraft við höfum í líkamanum stelpur! Maður uppgötvar það þegar maður heyrir skellinn á boxpúðanum. Og það er víst þannig í pottinn búinn að þó að karlmenn séu sterkari en konur þá munar einungis 20 prósentum á kraftinum! Og 80 prósent mannskraftur er ansi mikið. Annar hluti námskeiðisins er á sunnudaginn, og þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir neitt hálfkák, þá mun ég mæta all glæsileg í þann tíma. Útskýring fylgir hér að neðan.
Ég hitti góðvinkonun mína og vinnufélaga Maríönnu og vinkonur hennar eftir námskeiðið og við sitjum og spjöllum fram á nótt en ákveðum svo að hitta John kærastann hennar í bænum. Hann er tveggja metra sænskur íshokkírumur, stór og sterkur, flottur maður. Við tökum smá pöbbarölt og erum svo að síga heim á leið í gegnum bæinn, við þrjú og vinur Johns þegar allt í einu gerist eitthvað sem ekkert okkar fattar almennilega núna, gerðist svo hratt. Allavega koma þrír, fjórir gaurar að okkur og byrja eitthvað að bögga Maríönnu og John brjálast og æðir í einn gaurinn. Vernda konuna sína. Það næsta sem gerist er að guttarnir ráðast allir sem einn á John, henda honum niður á hjólagrind á götunni og byrja að berja og sparka í hann liggjandi. Ég varð ógurlega hrædd þegar ég sé að þeir fara að sparka í andlitið á honum og sé að þetta stefnir í eitthvað hættulegt, svo ég hleyp af stað og stekk á einn mannana sem situr ofan á John og er að kýla hann. Hélt þeir myndu drepa hann svo ég ætlaði mér að hindra það. Það er kannski ekki skynsamlegt að blanda sér í svona slagsmál en það var ekki alveg það sem ég var að hugsa um þarna, varð hrædd um John. Held að flestir myndu gera það sama.
Ég reyni að rífa hann í burtu og öskra á hann að hætta. Svo finn ég bara högg í andlitið og er svo hent í götuna og finn mikið til í andlitinu. Ég brölti á fætur og skil ekki almennilega hvað gerðist, var mjög ringluð, en sé allt í móðu með vinstra auganu. Ég sé að slagurinn er enn í gangi og Marianne er að reyna að rífa einn gaurinn af John svo ég skakklappast að þeim til að hjálpa þegar allt í einu kemur fullt af fólki hlaupandi að mér skrítið á svipinn og einhver skellir pappír í andlitið á mér. Ég lít þá niður á peysuna mína, ljós peysa, og sé að hún er öll í blóði , hendurnar á mér líka, buxurnar og skórnir ("og ég sem VAR að þvo skóna!", hugsa ég (Bleikir adidasskór)) og svo held ég á karlmannsúri í annarri höndinni. Það lekur blóð úr munninum á mér og úr enninu niður í augað á mér. Allt í einu fyllist svo gatan af löggum, þeir voru ansi snöggir á staðinn svo það hlýtur einhver að hafa hringt í þá um leið og þetta byrjaði. Ég sé tvo menn spretta í burtu niður hliðargötu og lögreglumenn á eftir.
Eftir þetta er allt í hálfgerðri móðu hjá mér, man bara að ég stóð og titraði og skalf og lögreglumaður að reyna að tala við mig. Ég sýndi þeim skilríki og þeir skrifuðu niður hver ég var, veit ekki hvar Marianne og John voru á þessum tímapunkti, ég var öll í því að reyna að stoppa blæðingar í andlitinu á mér. Svo kemur John og bara starir á mig, ég tók ekkert eftir hvernig hann leit út þarna, en hann spyr hver í fjandanum hafi gert mér þetta. Ég segist ekki vita það en tveir ungir menn sem voru vitni að þessu bentu lögreglunni á manninn og ég bendi á hann og segist hafa heyrt að það hafi verið þessi. Þá tryllist John gjörsamlega aftur og æðir af stað í manninn, ekki mjög gáfulegt þar sem það var komin RÚTA af löggum á staðinn svo hann fékk fjóra lögregluþjóna á sig um leið sem snéru hann í götuna, handjárnuðu hann og færðu í fangageymslu! Ég get samt ekki neitað því að mér þykir ótrúlega vænt um að hann hafi brugðist svona við. Ekki hver sem er sem þorir að verja vinkonur vitandi það að löggan muni líklega fangelsa hann. Hann var samt það skynsamur að hann lét handjárna sig alveg mótþróalaust.
Þegar John var farinn kemur svo ungur löggumann, man það að hann var mjög myndarlegur;) og segir við mig að ég geti kært en ég verði þá að fara á slysó og fá áverkana staðfesta. Ég segi við hann eins og er að ég viti ekki hver gerði þetta og muni ekki alveg hvað gerðist. Hann segir þá að það skipti engu því það séu tvö vitni sem séu búin að benda á manninn. Þeir stóðu álengdar og voru að tala við aðra löggu og horfðu á mig vorkunnaraugum;) Ég hálf vælandi segi að ég hafi jú ráðist á hann! "Þú gerðir ekkert rangt" segir hann, "þú varst bara að reyna að stöðva slagsmálin." Svo skrifaði hann niður á miða hvert ég ætti að hafa samband til að kæra. Honum hefur líklega fundist rétt að ég myndi kæra miðað við blóðbaðið á peysunni minni. Ja, svo að yfirheyrslum loknum fannst Mariönnu skynsamlegt að ég myndi bara kom með henni heim svo við drifum okkur inní leigubíl, "árásarmaðurinn" var ennþá á staðnum og ég vildi bara komast í burtu. Svo við förum heim til hennar, leggjum fötin mín í bleyti og bíðum eftir að heyra frá John. Hann kemur svo heim um 9 leytið um morguninn og jeminn eini! Maðurinn er blár og marinn í framan með risa kúlur á höfðinu og skrapaðar og bólgnar hendur. Hann hefur greinilega náð nokkrum höggum. Marianne getur varla hreyft á sér vinstri handlegg þar sem einn mannanna snéri svo illa uppá hann að hún heyrði eitthvað bresta. Ekki mjög gott þar sem hún er nuddari. Við vorum svo all glæsileg í dag, liggjandi klessur á sófanum, marin og blá og stirð;)
Áverkarnir mínir eru ekki svo slæmir, þetta leit bara mjög illa út í byrjun því það fossaði svo úr sárunum. Ég er með skurð á augabrúninni sem Marianne teipaði vel um nóttina, hún er vön augabrúnaskurðum þar sem hún hjúkrar John eftir íshokkíleiki, og svo með skurð á vörinni, sem betur fer er á innanverðri vörinni svo ég mun ekki fá ör. Svo er ég ansi aum í nefinu. Því miður mun ég fá ör á augabrúnina. Flott að hafa eitt stykki Rocky ör í andlitinu. Úrið sem ég hélt á reyndist tilheyra John og ég hef ekki hugmynd um af hverju ég hélt á því! Ég hef ekki hugsað mér að kæra þar sem ég er hálf vonlaust vitni, veit hvorki alveg hvað gerðist né hver gerði það.
Og svo verð ég að segja það að eitt er að lumbra á tveggja metra vöðvabúnti, það er allt annað mál að berja litla stelpu sem reynir að stöðva slagsmál. Þvílíkt svín.
Ansi verður gaman að mæta á sjálfsvarnarnámskeiðið á morgun, krambúleruð og teipuð í framan. Það sýnir jú að ég tek þetta námskeið mjög alvarlega og vinn heimavinnuna mína vel!
laugardagur, október 20, 2007
Rocky is my middle name
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|