þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Sýklafræðiverkefnum lokið

ótrúlegt en satt og klukkan ekki orðin hálf tvö! Þurfti nefnilega að klára sex verkefni fyrir morgundaginn til að þau teljist með í einkunn, hef ekki alveg verið með hugann við efnið á þessum síðustu og myrkustu snjóadögum. Ég er greinilega bara mun gáfaðri en ég hélt, eða nei, alveg jafn gáfuð og ég hélt bara einstaklega seig í að sleppa auðveldlega í gegnum verkefni... þetta voru svona krossaspurningar á heimsíðu VMA og ég vissi bara fjandi mikið þrátt fyrir að hafa ekki lært baun í vetur. Hlýt að ná prófunum með fyrstu einkunn með þessu áframhaldi. Ætla því að kúra mig undir sæng núna og mæta "fersk" í síðasta sýklótímann klukkan átta í fyrramálið...nema ma hringi í mig um 7 til að bera út Moggann...þvílík uppátæki alltaf hjá minni fjölskyldu, byrja að bera út Moggann á gamalsaldri með Gumms í eftirdragi og svo er hringt í mig ef enginn annar kemst. Það hefur að vísu ekki gerst enn enda eru þau nýbyrjuð á þessu og einungis í afleysingum, en ég finn það á mér að einn mjög slæman veðurdag muni síminn hringja og út skal ek...já og svo verður tekin lærutörn fram á föstudag þegar prófað verður úr fræðunum... er ekki alveg að sjá það gerast að dugnaðurinn taki yfirhöndina í fyrsta skiptið í vetur, en allt getur gerst!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Æ mig auma...

Djíses...mér er ennþá óglatt. Er farin að halda að þetta komi Brimkló og áfengisneyslu ekkert við. Heyrði það líka að það væri víst einhver sólarhringspest að ganga, held ég fari að trúa því bara. Eldaði mé pasta með sósu, osti og sveppum í morgun klukkan tíu af því ég gat ekkert borðað í gær og var að deyja úr hungri.

Var að koma úr lolli þar sem ég fékk að vita að ég væri komin með 3.49 í lokaeinkunn og ef ég fæ 10 fyrir vinnubókina mína (svona litabók) þá er ég komin með 4.49 og þarf ekki að stressa mig til dauða yfir prófinu. Þetta eru góðar fréttir. Allt sem felur í sér litla vinnu eru góðar fréttir. En samt þarf ég að fara að vinna á eftir og á eftir að skila svona 6 verkefnum í sýklafræði fyrir morgundaginn. Þá er gott að vera góð í að vaka á nóttunni.

Æl

Ég fór á Brimkló á laugardagskvöldið. Ég ældi allan sunnudaginn. Er ennþá óglatt. Hjálmar gamli MA-ingur er fundinn, það er gleðilegt!

föstudagur, nóvember 26, 2004

Nú er rétti tíminn til að mjókka - kuldabrennsla

Einhverntíma viðraði ég þá kenningu mína að fólk mjókki frekar á veturna en sumrin. Ég tók eftir því á sjálfri mér að á veturna mjókkaði ég án þess að hafa neitt fyrir því en á sumrin fitnaði ég bara ef eitthvað væri. Ég reiknaði það út að þetta hlyti að stafa af því að á veturna brenndi líkaminn meiru til að reyna að halda á sér hita. Verst að þetta er ekki alveg að skila sér þennan veturinn, einmitt þegar maður þarf mest á því að halda. En allavega fékk ég þessa kenningu mína staðfesta í líffæra- og lífeðslisfræðinni í gær og var mjög ánægð með að vera svona über gáfuð. Þannig er nefnilega mál með (of)vexti að á veturna þegar manni er sífellt kalt, þá sendir heiladingullinn frá sér stýrihormón fyrir skjaldkirtilinn og bendir honum á að fara að framleiða meira af hormóninu þýroxíni, sem stuðlar að auknum efnaskiptum í líkamanum. Á sumrin þegar manni verður stöðugt hlýrra (kannski ekki svo mjög hér á skerinu, en stundum samt) minnkar skjaldkirtillinn framleiðslu á þýroxíni og á brennslunni hægist. Því segi ég við ykkur hina hlunkana þarna úti; ef þið viljið mjókka þá klæðið ykkur sem allra verst þið getið og stundið mikla útiveru!

Tyra svikahrappur?

Eftir mikla leit fann ég þessa mynd af Yoanna á forsíðu Sephora vörubæklingsins... hún hefur allvega ekki verið svikin um það...það er sko meira en að segja það að finna upplýsingar um feril dömunnar á netinu.


Fashion "spreadið" í Jane magazine var ekkert nema svik og prettir, ein auglýsing held ég, og leit svona út:



Enda virkar Yoanna nú ekkert voða glöð á svipinn. Það er greinilega einskis virði að vinna þessa keppni, betra að taka bara þátt, svona miðað við það að Mercedes og Catie eru til dæmis búnar að koma fram í Bold and the beautiful!

ARG!!!!!

The XPPHOTOALBUM free site has been closed.

Sorry for any inconvenience!

ANY inconvenience?? Eruð þið algjörlega stúpíd þarna, ég þarf bara að færa allar myndirnar mínar! Ohh svona pakk er bara of pirrandi, gátu allavega látið mann vita kannski eins og með eins dags fyrirvara eða svo...

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Oldies goldies eða?

Dúdda var að skanna inn gamlar myndir og ég rakst þar á þessar tvær... er þetta virkilega ég????


Ég hreinlega veit ekki á hverja þessar myndir minna mig, en ég kem sko ekkert við sögu þar!

Hakkidíhakk...

Það tók mig sennilega klukkutíma að sofna í gær með nýju tannhlífina mína. Enda gat ég ekki hætt að hugsa um verðið á henni. Nei það var nú aðallega af því ég hafði svo lítið pláss fyrir tunguna og var alltaf eitthvað að sjúga og soga og blása og spýta en þetta tókst að lokum og í morgun vildi ég helst ekkert taka hana úr mér...það er nú bara af því maður er svo getnaðarlegur með hana og þá sérstaklega þegar maður talar. Veit nú ekki hvort hún sé alveg rétt hönnuð því ég er ennþá með hálf skakkt bit frá því ég vaknaði...ætli ég geti þá fengið endurgreitt? Er að reyna að hugsa upp ráðabrugg til að endurheimta hálfan bankareikninginn minn ussu suss.

Sáuð svo ekki allir úrslitaþátt A.N.T.M. í gær? Algjört skylduáhorf. Yoanna er nú bara of falleg til að mega vera til. En þátturinn næsta miðvikudag verður ennþá skemmtilegri örugglega því þá er sýnt hvað stelpurnar hafa verið að gera síðan þær tóku þátt...vinna á Hooters og svona eflaust.

Of ljótt?

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Öðruvísi tískusýning

Í okkar höndum - endum ofbeldi gegn konum

"Mig langaði til þess að kalla á hjálp, en ég var svo hrædd að ég kom ekki
upp orði." Úr dómi um heimilisofbeldi.

Laugardaginn 27. nóvember, klukkan 15.00 munu þjóðþekktar konur veita
Amnesty International á Íslandi lið og standa fyrir óhefðbundinni
tískusýningu í Iðu, Lækjargötu. Meðal þátttakenda í sýningunni eru þær
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Guðrún Gísladóttir,
Elma Lísa Gunnarsdóttir, Laufey Brá Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir og
munu þær koma fram í fötum frá Spútnik og Rögnu Fróða. Í sýningunni munu
konurnar segja frá íslenskum dómsmálum heimilisofbeldis og sýna áverka
slíks ofbeldis sem oftast eru huldir sjónum.

Sýningin er haldin sem hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi er
stendur yfir frá 25. nóvember til 10. desember.

Tilefni sýningarinnar er að draga afleiðingar heimilisofbeldis, sem
sjaldnast eru sýnilegar, fram í dagsljósið og brjóta þagnarmúr þann sem
umkringir þetta samfélagsvandamál.

Athugið

Vil vekja athygli á því að ÚRSLITAÞÁTTUR Americas next top model er að fara að hefjast...og ég á ekki einu sinni snakk! Spennan er í hámarki gott fólk! Tek mér pásu frá óendanlega tímafreku LOL verkefni...

Money makes the world go round...

Af hverju getur maður ekki verið svolítið ríkari? Ég fékk næstum tárin í augun (í alvöru sko, það munaði litlu) þegar ég rétti klinkunni á tannlæknastofunni kortið mitt í morgun. Reikningurinn hljóðaði upp á 49.600 krónur og ég gekk út með tannhlíf í gulu boxi. Það tilkynnist því hér með að ég mun ekki gefa jólagjafir í ár og það getur enginn áfellst mig fyrir það. Að sjálfsögðu mun ég svo ekki komast upp með það að gefa engar gjafir; fjölskyldan og maðurinn fá að sjálfsögðu sitt...en þið hin verðið heppin ef þið fáið kort! Eina ljósið í lífi mínu um þessar mundir er því fjólublái bíllinn minn sem er bæ ðe vei fjögurra dyra og sjálfskiptur, en ma fjárfesti í honum af því að pabbi seldi toyotuna þegar hann fór með hana til að láta gera við kúplinguna. Og ég sem var nýbúin að fylla djásnið af bensíni og láta smyrja það hátt og lágt! Sei sei.. og sömuleiðis!

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Af renglum og skvapmönnum

Ég fór á fegurðarsamkeppni ungra manna á norðurlandi á föstudagskvöldið. Það var stórsniðugt barasta! Páll Óskar brilleraði alveg sem kynnir í glansandi rauðum tælenskum lúkkalæk jakkafötum með gulu mynstri og söng meira að segja stórsmellinn sinn Stanslaust stuð. Þá vaknaði 17 ára stelpan til lífsins inní mér og dillaði bossanum í hljóði;)

Keppnin sjálf fór vel fram miðað við hvað hugmyndin um svona strákakeppni er fyndin, og salurinn var alveg með á nótunum. Ég skemmti mér þokkalega bara en mikið ógeðslega var fyndið að umsjónarmenn keppninnar ákváðu að láta strákgreyin koma fram bera að ofan í gallabuxum. Þá hló mín! Fyrir utan fjóra eða fimm keppendur voru aumingja gæjarnir annaðhvort með síðuspik og bjórskvap eða svo miklar renglur að maður dauðvorkenndi þeim að þurfa að ganga þarna um sviðið að reyna að spenna einhvern kassa sem ekki var til staðar eða að draga inn vömbina sem lét illa að stjórn. Ég meina það, eru engin skilyrði sem keppendur þurfa að uppfylla í þessum strákakeppnum? Ég get rétt svo ímyndað mér að stúlkum með svipað holdafar yrði hleypt upp á svið í sundfötum, þetta kalla ég nú bara misrétti. Stelpur, þ.e.a.s. þið sem tilheyrið þeim hópi að hafa hliðarspik og vera yfir 60 kíló, eigum við ekki að skrá okkur í næstu keppni? Svo mega strákarnir alveg eiga fullt af börnum án þess að það angri neinn. Ættu ekki að gilda sömu reglur fyrir kynin í þessum keppnum?

En hvað um það, það var gaman að horfa á guttana og mæli með að þessi keppni verði haldin árlega, svona til að létta lund og kitla hláturtaugar miðaldra ungkvenna. Sigurvegarinn í fegurðarsamkeppni ungpilta 2004 var svo hann Palli beibí sem einnig var kosinn ljósmyndafyrirsæta, í öðru sæti var hann Jóhannes Svan (sem ég spáði reyndar fyrsta sætinu og ætti að vera þar...þó ég sjái það núna þegar ég skoða myndirnar að hann er meira hott á sviði en á mynd) og var hann líka valinn sportstrákurinn og í þriðja sæti var hann Jóhann...hverjir sem þetta nú eru. Af hverju ætli þeir velji ekki "fallegustu fótleggina" og "Perfect herrann" og svona, svo allir vinni eitthvað, eins og hjá hnátunum? Eníveis, nánari upplýsingar um kyntröllin á sjallinn.is

föstudagur, nóvember 19, 2004

Ég komst inn!!!

Fékk pappírana frá skólanum senda í dag með þeim tíðindum...kellan sem hringdi frá skólanum hefur sem sagt ekki skipt um skoðun eftir þetta glæsilega símtal;) Ég er happy happy happy!!

Ragga Raider

Hún Anna panna var að dunda sér í Photoshop...*Rrrrrrrr* SEXY!

Konukvöld Abaco

Ég fór á kvennakvöld Abaco á Vélsmiðjunni í gær klukkan 20. Það var nú eitthvað annað en Oddvitinn fékk ég að heyra því ég fór einmitt með mömmu og samstarfskonum hennar. Þetta var frábær skemmtun þar sem boðið var upp á Campari fordrykk og fullar skálar af Nachos, osta- og salsasósu og var fyllt á stöðugt allt kvöldið. Kvöldið byrjaði með fyrirlestri og slædsjóvi frá Ottó lýtalækni þar sem hann kynnti fyrir okkur fegrunaraðgerðir, það var magnað að sjá. Hann er búinn að búa í Bandaríkjunum í einhver ár og notaði þess vegna þvílíkar enskuslettur og fræddi okkur um það að í Bandaríkjunum væri sko enginn maður með mönnum (eða kona með konum) nema að eiga sinn eigin lýtalækni, það finnst mér algjör brandari. Á eftir lækninum kom svo hún Margrét Eir og söng nokkur lög, alveg er hún mögnuð konan, lifir sig svo skemmtilega inn í sönginn, og allir voru heillaðir af henni. Að því loknu var tískusýning frá GS Akureyri og Isabellu undirfataverslun sem stóð alveg fyrir sínu þrátt fyrir að fyrirsæturnar væru greinilega ekkert alltof vanar sýningarstörfum nema auðvitað hún Heiðrún fitness sem tók sig gríðarlega vel út á naríunum, jeminn eini þvílíkur kroppur! Svo kom karlakór Akureyrar Geysir í köflóttum skyrtum, gallabuxum girtum ofan í ullarsokka með húfur, axlabönd og vodkapela veltandi inn í salinn við mikinn fögnuð og reif upp stemmninguna og salurinn tók vel undir í söng og klappi, skemmti mér mjög vel þar! Í lokin var svo magadanssýning og happdrætti þar sem ég vann ekkert, en allir sem tengdust Abaco á einhvern hátt unnu, meira að segja eiginkona eigandans, frekar dularfullt;) Já og mig langar þokkalega að læra magadans núna, held það eigi mjög vel við mig, meira að segja bara kostur að hafa soldinn maga svo ég er perfect kandidat í það. Við ma brunuðum svo hífaðar og í gleðivímu heim um hálf tólf, ætluðum nú að koma við á Oddvitanum í einn öller fyrir heimferð, en því miður var lokað...;)

Já svona í lokin, það var alveg magnað að fylgjast með lýtalækninum það sem eftir var kvöldsins, hann gekk á milli borða, settist á chattið við einhverjar konur, var greinilega að krækja sér í kúnna, slísí bastard, og þegar við löbbuðum út stóð hann með konu við barinn og hélt undir hökuna á henni og horfði á hana rannsakandi augum. *Brrrrrr*

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Búbbasjóv!

Fann þessa stórskemmtilegu mynd af góðkonu minni á heimasíðu Sjallans. Og getið nú hver hún er;)

Herra Norðurland

er í Sjallanum á morgun. Hann Ingi Valur frændi og samstarfsmaður Bjartmars míns er að taka þátt og hérna getur maður kosið netherra Sjallans 2004. Endilega að kíkja og kjósa hann Inga, hann er neðstur í vinstra horninu. Hepp hepp og sýna nú smá lit! Voðalega eru nú svona herra keppnir samt fyndnar;)

Þrjár stelpur.com á Oddvitanum

Ma fór með 13 starfssystrum sínum að sá fimm stelpur.com á Oddvitanum síðasta laugardagskvöld. Miðarnir voru sóttir til hans Aðalsteins niður á bílasöluna Ós og fékkst illa upp gefið hvenær sýningin ætti að hefjast, eitthvað um 9 sagði hann, kannski 10 mínútur yfir. Vínglas og nasl er í boði meðan á sýnungunni stendur. Þær mæta galvaskar fyrir 9 og fá þá í hendur hálft glas af einhverjum vodka kokkteil sem ma var ekki alveg að fíla og spyr hvort hún megi nokkuð skipta út fyrir bjór. Það var ekki hægt. Á borðum eru pappadiskar með skrúfum og flögum, sirka fimm af hvorri sort á mann. Sýningin hefst klukkan 10 en einungis fjórar leikkonur eru á sviðinu og þar af bara þrjár úr upprunalegu sýningunni. Ekkert var minnst á þessa breytingu fyrren í lok sýningar að ein leikkonan minnist á þetta. Ma og co. sitja þó sýninguna á enda og fara svo heim. Þær voru að vonum ekki mjög ánægðar með það sem Oddvitinn bauð uppá, þrjár stelpur.com plús aukaleikkona, sýningu sem byrjaði klukkutíma og seint og ekkert léttvín eins og stóð á auglýsingunni, því vín myndu þeir sem eitthvað til þekkja kalla rauðvín eða hvítvín. Kokkteill er kokkteill og vodki er vodki, en ekki vín.

Þær stöllur skrifa því kvörtunarbréf þar sem þær biðja um endurgreisðlu á miðunum sem kostuðu 3700 krónur á konu, og minnast einnig á það í bréfinu að aðgöngumiðarnir hafi verið kolólölegir; ónúmeraðir, ómerktir og ódagsettir. Við ma fórum með þetta bréf undirritað af hópnum niður á bílasöluna Ós í gær klukkan 4, og þar situr Aðalsteinn ásamt foreldrum sínum sem eiga Oddvitann og öðrum starfsmanni Oddvitans að auki. Ma leggur fram bréfið og það var eins og sprengju hefði verið varpað, allt fór í háaloft vægast sagt. Aðalsteinn fór upp á háa C-ið og kallaði okkur öllum illum nöfnum, sakaði okkur um að koma með fjandans hótanir og sagðist sko ekkert ætla að lesa þetta bréf einu sinni, þetta væri fáránlegt og sýningin hefði verið frábær í alla staði. Við ma héldum ró okkar og brostum bara að honum, því hann var svo heimskur og dónalegur að það þýddi ekkert að tala við hann, enda komumst við varla að fyrir skömmum og dónalegheitum. Kellan mamma hans var öllu gáfulegri, en jafn hávær og sonurinn, en reyndi að útskýra fyrir syni sínum að við hefðum rétt fyrir okkur. Þá tók starfsmaðurinn á næsta borði við og skammaðist dálítið, sonurinn varð ennþá brjálaðri og kellan talaði enn hærra. Þetta var hin besta skemmtun allt saman þrátt fyrir að við ma kæmum ekki mörgum orðum að. Það kom mér nú mest á óvart að þegar ég hafði staðið og þagað allan tímann en segi loksins: "Bíðið við, má ég nú aðeins segja eitt" þá datt allt í dúnalogn. Ég benti Aðalsteini á að þessi sýning væri á þeirra vegum og því bæru þau ábyrgð á henni og það gengi ekki að vera með dónsakap og læti þegar kúnnar legðu fram kvörtun, en þá var þögnin búin og hann byrjaði aftur að rífast og skammast. Sagði meðal annars að kokkteill væri sko miklu dýrari en vínglas, kostaði 1200 kall, og hann hefði bara ætlað að gera betur við kúnnana. Ma reyndi í tíunda skiptið að benda á að það væri nú ekki aðal umkvörtunarefnið heldur sýningin sjálf þar sem tvær aðalleikkonurnar vantaði, en þessi maður bara vildi ekki hlusta, hreytti bara í okkur ónotum alveg trompaður. Þetta endaði með því að eftir hálftíma þarna inni reif kellan af honum kvörtunarbréfið og sagði við mömmu að hún skyldi redda þessu og myndi hringja í hana. Að svo búnu þökkuðum við ma kærlega fyrir málefnalega umfjöllun og móttökur á kvörtunum okkar og héldum heim.

Bendi á það í lokin að ég mun líklega aldrei aftur fara í Karaoke á Oddvitanum, því starfsmaðurinn á næsta borði hefur yfirumsjón með því. Hann mydi örugglega reyna að gefa mér raflost.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Ég er svo miiiiisheppnuð

Síminn hringdi í hádeginu með leyninúmeri. Jú halló segi ég og þá bara fæ ég þessa líka ræðu á dönsku og segi ja ja ja við öllu, þangað til frökenin spyr hvort ég sé nokkuð á leið til Köben á næstunni. Ég tilkynnti það á dönsku að ég byggi nú á Íslandi og hún sagðist vita það, og þar með var dönskukunnátta mín þann daginn gufuð upp, kvótinn búinn. Ég stressaðist svo hryllilega að ég titraði og stamaði einhverjum fjanda út úr mér á leikskóla ensku því tungumálasvæðið í heilanum á mér varð skyndilega óvirkt. Vegna stresskastsins man ég bara ekki nokkurn skapaðan hlut hvað blessuð konan sagði og er búin að vera vægast sagt miður mín, gat ekki einbeitt mér í skólanum áðan og er hálf mállaus ennþá. Það eina sem ég náði var að konan spurði hvort hún mætti þá senda mér pappírana og ég sagði Yes thank you very much. Það skelfilegasta er að ég sendi tvö blöð með umsókninni minni um hvað ég væri nú klár í dönsku. Ohhhh er hægt að vera meiri lúser? *grenj*

mánudagur, nóvember 15, 2004

Það gerist nú ekki oft

en það gerðist í dag að það var hringt í mig og mér boðin vinna. Ljómandi að þurfa ekki að sjá um að leita sér sjálf að vinnu. Losnaði sem sagt starf í Ríkinu, eitthvað um helgar og í jólafríinu. Ég þáði það með þökkum, þarf að borga tannlæknareikning og kaupa jólagjafir og ekki verra að eiga pening í það!

Kom svo nýrri umsókn í póst með sjöfaldri ábyrgð, einkaflugmanni og lífverði. Hlýtur að skila sér núna. Það þýddi ekkert að skammast út af hinnu umsókninni þar sem ég sendi hana ekki í ábyrgð, hélt hún ætti nú að skila sér þrátt fyrir það!! Geri þau mistök ekki aftur.

Jebb, svo er það bara Gallup Gallup Gallup, yndið mitt eina! Verður góð tilbreyting að komast soldið í jólaösina í Ríkinu.

Ég fann það!

Og það var allan tímann bara hálfan metra frá tölvunni, ofaní kassa, og hló að mér!

Umsókn tvö

Er að klára að ganga frá nýrri umsókn, ljósrita og prenta og vesenast, en er soldið að fríka því ég finn ekki stúdentsskírteinið mitt og guð má vita hvar það er! Sendi ljósrit af því með síðustu umsókn og það ljósrit var tekið fyrir svona 3 árum og ég er búin að flytja nokkrum sinnum á þeim tíma. Er svo innilega að vona að það sé heima hjá ma og pa, ofaní skúffu hjá öllum einkunnunum mínum og öðrum skírteinum, krossa fingur! Fékk svo útprentaðar allar einingar sem ég er núna búin með í VMA og þær eru 161! Ekki alveg nógu ánægð samt með að mætingarprósenta fyrir þessa önn sést á blaðinu og hún er ekki nema 78% sem er sko ekki nógu gott! Vona að enginn taki eftir henni. Þegar/ef mér tekst að finna skírteinið um stúdentspróf skunda ég svo niður á pósthús og ætla að þrasa svolítið við póstinn. Ótrúlegt hvað ég er farin að þrasa mikið að undanförnu, er pirruð út í kennara og svona, alveg einstaklega skemmtileg! Hlakka bara til að komast í jólafrí og slappa aðeins af:o)

föstudagur, nóvember 12, 2004

Fullur haus af gremju

Ég er svo pirruð að ég titra. Fékk svar frá Köben og fékk það staðfest að umsóknin mín barst aldrei í skólann. Konan sagðist hafa farið í gegnum allar umsóknir og mín væri þar ekki en ég skyldi senda nýja sem fyrst. Það væri mér líkt að nú sé of seint að sækja um, búið að velja alla fyrir næsta ár. Ohhh það kraumar í mér brjálæðið! Og ég kemst ekki á pósthúsið til að rífa í hárið á mér og öskra fyrr en á mánudaginn og get ekki fengið nýja útprentun á einkunnunum mínum fyrr en þá heldur. Hvernig er hægt að vera svona óheppinn að eina bréfið sem ég hef sent sem skiptir einhverju máli kemst ekki til skila! Reyndar sendi ég einu sinni bréf í ítalskt klaustur og bað um að fá að búa með nunnunum í nokkra mánuði og það komst heldur ekki til skila. Kannski er mér bara ekkert ætlað að yfirgefa kalda skerið?

Detti mér allar dauðar lýs!!

Fékk blaðsnepil í póstkassann minn sem ég er argandi ósátt yfir, því þegar ég opnaði hann blasa við myndir af Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde og undir stendur stórum stöfum: "Ágæti sjálfstæðismaður". Í fyrsta lagi er ég kona og í öðru lagi vil ég ekki láta bendla mig við Sjálfstæðisflokkinn! Enn hneykslaðri varð ég er ég las þetta:

"Vegna þeirra miklu endurbóta á Valhöll, sem nauðsynlegar voru orðnar og ráðist var í á þessu ári, var ákveðið að efna til sérstaks fjáröflunarátaks meðal flokksmanna um allt land til að framkvæmdirnar komi ekki niður á almennri tekjuöflun flokksins og starfsemi hans. Því er enn á ný leitað til flokksmanna í trausti þess að þeir séu reiðubúnir að bera þessa byrði sameiginlega. Við vonum að þú takir beiðni okkar vel og þökkum fyrirfram velvilja í verki. Davíð Oddsson og Geir H. Haarde."

Og þetta bréf var merkt mér með nafni!! Þetta segir mér það að annaðhvort er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn fram úr öllu hófi ágengur, eða þá að þrátt fyrir áralanga baráttu hefur mér enn ekki tekist að segja mig úr flokknum. Óska hér með eftir allri þeirri aðstoð sem ég get fengið við að komast í eitt skipti fyrir öll úr lúsablesaflokknum sem ætti að vera það skítríkur að hann þurfi ekki að sníkja pening út úr blásnauðri almúganámskonu!

Heilaþvæla

Hömm pömm, var að koma úr 5% tímaverkefni í eðlisfræði. Máttum nota glósur og bækur og kennarinn fór svo yfir verkefnið mitt strax í lok tímans. Ég náði 9.6 gerði fáeinar klúðurslegar klaufavillur, en er sátt, allavega meðal þeirra hæstu ef ekki bara hæst. Vá, er ég alltaf að monta mig hvað ég er klár kannski? Ég er bara svo ánægð að standa mig svona vel, hef sjaldan nennt þessu áður, en það er einhver svakaleg keppni í mér þessa önnina. Það versta er að nú er ég undir mikilli pressu varðandi lokaprófin, allir búast við að ég fái 10! Sjitt, verð að læra vel og mikið ef mér á að takast það. Núna er einn og hálfur mánuður síðan ég sendi út umsóknina mína um snyrtiskólann og hef engin svör fengið. Skrifaði því e-póst út í gær till að athuga hvort umsóknin mín hefði borist þeim og hvenær ég fái svar. Ætli það taki þau ekki svona 2 vikur að svara meilinu miðað við hvað þau voru lengi að svara síðast. Er alveg að gefast upp á þessari bið, vil fara að fá að vita hvort ég komist inn svo ég geti farið að undirbúa mig! Djöfull væri það skemmtileg tilbreyting að búa í Köben í smá tíma.

Top model sigurvegarinn

Þeir sem vilja ekki vita hver sigurvegarinn í Americas next top model er, ekki klikka hér en ég fann myndir af henni frá einhverri tískusýningu. Komst óvart að því hver vann fyrir löngu síðan en finnst alveg jafn mikil snilld að fylgjast með þáttunum þrátt fyrir það. Er mjög ánægð með að hún vann, hún er gorgeous, og ólíkt sigurvergaranum úr síðustu seríu, Adrienne, virðist hún ekki alveg gufuð upp. Veit annars einhver hvað varð um Adrienne??

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Innlit - útlit

Var að láta inn myndir af íbúðinni minni fyrir og eftir breytingar þegar ég keypti hana í fyrra. Merkilegt hvað hægt er að gera við ljótar íbúðir! Eldhúsið er reyndar pínu breytt frá því myndirnar voru teknar, búið að fegra það aðeins. Svo tók ég myndir af bleika þemanu mínu sem ég er svaka skotin í, enda er ég bleik gella! Vil benda á að auk ljósmyndunar tek ég að mér innanhúss arkitektúr, einnig fyrir sanngjarnt gjald, og er ekki frá því að ég sé aðeins betri í þeirri deild;)

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Enn um afmæli

Já loksins nenni ég að láta þessar blessuðu myndir inn. Tekur óendanlega langan tíma að opplóda þeim á xpphotoalbum.com, mæli ekki með þeirri síðu! Einhvernveginn tókst mér að klúðra öllum myndunum sem ég tók, þær virka allavega ekki neitt voða merkilegar. Hefði betur tekið myndir þegar líða tók á kvöldið í staðinn fyrir að sulla í mig áfengi;) Ekki veit ég hvað varð um extreem gellu þemað mitt því ég og Birna bárum af í gelluheitum (Anna og Guðrún komu reyndar sterkar inn), vona það gangi betur næst! En mér fannst voða gaman að fá alla í heimsókn, tala ekki um Gerði, Árna, Heigga, Hildi og Önnu Mjöll alla leið frá Reykjavík s(j)ittí, er stolt af ykkur krakkar! Og svo auðvitað þið hin líka, þið eruð bestu skinn! Bendi ykkur á að senda mér svo línu ef þið viljið ráða mig sem ljósmyndara í næstu veislu, tek sanngjarnt gjald fyrir. En hérna eru allavega meistaraverkin, njótið!

Magnaður fjandi!


Kannski eru þeir ekki svo slæmir eftir allt!

Bólusetning

Komst að því í gær af hverju bólusetning er kölluð þetta. Það er nú af því í denn þegar bólusóttarfaraldrar geysuðu og leiddu menn ýmist til dauða eða skildu eftir varanleg lýti á húð þeirra, uppgötvaði hann Edward Jenner kallinn (1749-1823) að mjaltastúlkur og fleiri sem smituðust af kúabólu, sem er bólusótt meðal nautgripa, urðu ónæmar fyrir mannabólusóttinni og varð ekki meint af kúabólunni. Hann tók því upp á því að skrapa svolítið í húð manna og smyrja kúabóluveirunni þar í. Þetta var kallað að bólusetja og er notað enn í dag yfir allar, ja, bólusetningar;) Á ensku er bólusetning kölluð vaccination sem er dregið af latneska orðinu vacca sem þýðir kýr.
Svo ef einhverjir aðrir þarna úti voru jafn ófróðir um þetta og ég þá vitið þið þetta núna!

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Extreem makeover

á mælikvarða sikkgörl. Gerði myndirnar svarthvítar til að hlífa ykkur við þessu brjálaða klós oppi! Það var sett plast á vinstri framtönn og hægri augntönn en það sést nú mest á framtönninni á þessum myndum.


Svona var ég fyrir breytingu...

...og svona eftir hana!

Sést nú kannski enginn voðalegur munur en ég finn greinilega fyrir honum, er alltaf að reka mig í;)

mánudagur, nóvember 08, 2004

Getur einhver sagt mér

hvað andlitið á mér er að gera á þessari mynd??? Kallinn fann myndina á einhverri erlendri síðu. Þetta er hið dularfyllsta mál!

Ammalið búið

og lukkaðist bara ágætlega. Það virðist samt vera að ég hafi smitað fólk af stundvísi og að mæta akkúrat á mínútunni þegar partý byrja því allir komu klukkan átta og ég var að byrja að vaffla á mér hárið. Setið var að sumbli og átu til klukkan eitt og þá haldið í bæinn og á Kaffi Svita (Akureyri) þrátt fyrir að ég vildi engan veginn fara þangað. Það var bara enginn sem hlustaði á mig. Ég tók slatta af myndum sem allar einhvernveginn misheppnuðust, en ég mun samt láta þær inn á síðuna við tækifæri, nenni því ekki núna því ég er að fara til tannlæknis að láta flíkka upp á ginið.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Ég á afmæli!!!

Já, þá er dagurinn runninn upp. Dagurinn sem ég þarf að hætta að segja að ég sé 24. En er ekki bara svoldið kúl að vera 25? Ég held það, núna er maður eitthvað svo fullorðinn allt í einu;) En að sjálfsögðu er ég enn 18 í anda, held það breytist seint.
Stelpan búin að vera gífurlega bissí að taka íbúðina í gegn, ma kom í gær og missti sig í eldhúshreingerningu, held hún hafi bókstaflega slefað af ánægju, meðan ég settist við saumvélina og saumaði loksins hengi fyrir þvottahúsdyrnar. Saumaði dúk á borðstofuborðið á þriðjudaginn og bleika partýdressið á sunnudaginn, er greinilega að verða fyrirmyndarhúsmóðir, líst ekkert á blikuna! Næst á dagskrá er svo að fara í stórinnkaup fyrir veisluna á morgun, stend heldur betur í ströngu þessa dagana, og þar verður mikið um dýrðir. Sé mig í anda fá mér einn Lite á laugardagskvöldið og sökkva niður í sófann og sofna...nei vona nú ekki og fæ reyndar slatta hjálp frá ma, hún ætlar til dæmis að hjálpa mér við eldamennsku og bakstur. Já ég má engan tíma missa, er rokin af stað aftur, munið svo eftir að gefa mér stóran afmælispakka!!!

Comment á Hugrúnu

Mér tekst bara ekki að kommenta á síðuna þína Hugrún svo ég skrifa bara hér í von um að þú lesir þetta. Alveg er ég hjartanlega sammála þér um Ísland í dag í gær. Ég átti ekki orð yfir hvað stjórnendurnir voru ómálefnalegir, dónalegir og leiðinlegir og gat eiginlega ekki horft á þáttinn ég skammaðist allan tímann og sérstaklega út í Jóhönnu, finnst hún algjörlega vanhæf í þetta starf. Fannst það mjög gott á hana þegar úrslit könnunarinnar lágu fyrir, því hún var nýbúin að segja að 65% þjóðarinnar vildi Þórólf úr sæti borgarstjóra, þá hlakkaði í minni;) Annars er ég nú hissa að þú skulir styðja sjálfstæðisflokkinn yfirleitt, þvílíkur hópur af grasösnum! Það tók mig örugglega tvö ár að komast út úr flokknum eftir Vestmannaeyjaþingið góða þ.e.a.s. ef það tókst þá einhverntíma. Ef þú ætlar út í pólitík, sem mér líst annars vel á, þá skaltu endilega velja bara Samfylkinguna;) Og að lokum þakka ég fyrir afmæliskveðjuna!

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Brasi bras...

Ég ákvað að skipta út ævaforna tekkstofuborðinu mínu sem var að liðast í sundur og fá að láni stofuborð sem foreldrar mínir keyptu fyrir 30 árum síðan en hefur verið í láni hjá vinkonu mömmu síðustu 15 árin eða svo. Þegar ég kom úr vinnunni í gærkvöldi höfðu ma og pa gert sér lítið fyrir og komið borðinu fyrir í stofunni hjá mér, þvílíkt gæðafólk! En þau hefðu allt eins getað smellt kvínsæs rúmi í miðja stofuna, borðið er svo stórt! Það er einnig það hátt að manni líður eins og maður sitji við skrifborð þegar maður sekkur í sófann fyrir framan sjónvarpið. Ég hló mikið og klóraði mér svo í hausnum, því það var svolítið leiðinlegt að þurfa að smokra sér fram hjá ferlíkinu í hvert skipti sem ég fer út á svalir. Tók mig svo til og sneri stofunni gjörsamlega við, losaði mig við heljar sjónvarpsskáp, tívíið út í horn og voila, er komin með glimrandi fína stofu, eða gerði að minnsta kosti það besta úr því sem fyrir var. Fór einnig í Rúmfó og fjárfesti í fullt af teppum til að hylja sófana, bleikum púðum og nýjum gardínum. Það verður allt að líta vel út fyrir gellu afmælisveisluna mína á laugardaginn;) Já fyrir þá sem ekki vita þá á ég kvartaldarafmæli á föstudaginn og tek á móti fjárframlögum á reikningi mínum í Íslandsbanka.

Hver er höfðingi heimsins?

Fékk lítinn blaðsnepil í póstkassann með þessum titli. Aldrei þessu vant ákvað ég að lesa þessa kristniboðasendingu. Það var verið að útskýra að Guð eða Jesú væru ekki höfðingjar heimsins, heldur djöfullinn. Satan freistaði Jesú með því að bjóða honum öll ríki heimsins ef hann félli fram og tilbæði hann. Og þá sagði Jesú: "Vík brott Satan".

Í blaðinu segir meðal annars:

"Þar að auki notfæra illir andar sér syndugar tilhneigingar mannanna með því að ýta undir gerð rita, kvikmynda og sjónvarpsþátta sem leggja áherslu á ósiðlega og óeðlilega kynhegðun. Illu andarnir vita að ef menn víkja ekki röngum hugsunum úr huga sér grópast þær fastar og draga þá út í siðleysi-eins og illu andana sjálfa."

Einnig segir:"Illur andi getur til dæmis líkt eftir rödd látins manns og talað til ættingja eða vina hins látna, annaðhvort í gegnum andamiðil eða með "rödd" frá hinu ósýnilega sviði. "Röddin" þykist vera hinn framliðni en er í raun illur andi! Eft þú heyrir nokkurn tíma slíka "rödd" skaltu ekki láta blekkjast. Hafnaðu hverju sem hún segir og endurómaðu orð Jesú: "Vík brott Satan!"

Og dæmi nú hver fyrir sig.