fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Þrjár stelpur.com á Oddvitanum

Ma fór með 13 starfssystrum sínum að sá fimm stelpur.com á Oddvitanum síðasta laugardagskvöld. Miðarnir voru sóttir til hans Aðalsteins niður á bílasöluna Ós og fékkst illa upp gefið hvenær sýningin ætti að hefjast, eitthvað um 9 sagði hann, kannski 10 mínútur yfir. Vínglas og nasl er í boði meðan á sýnungunni stendur. Þær mæta galvaskar fyrir 9 og fá þá í hendur hálft glas af einhverjum vodka kokkteil sem ma var ekki alveg að fíla og spyr hvort hún megi nokkuð skipta út fyrir bjór. Það var ekki hægt. Á borðum eru pappadiskar með skrúfum og flögum, sirka fimm af hvorri sort á mann. Sýningin hefst klukkan 10 en einungis fjórar leikkonur eru á sviðinu og þar af bara þrjár úr upprunalegu sýningunni. Ekkert var minnst á þessa breytingu fyrren í lok sýningar að ein leikkonan minnist á þetta. Ma og co. sitja þó sýninguna á enda og fara svo heim. Þær voru að vonum ekki mjög ánægðar með það sem Oddvitinn bauð uppá, þrjár stelpur.com plús aukaleikkona, sýningu sem byrjaði klukkutíma og seint og ekkert léttvín eins og stóð á auglýsingunni, því vín myndu þeir sem eitthvað til þekkja kalla rauðvín eða hvítvín. Kokkteill er kokkteill og vodki er vodki, en ekki vín.

Þær stöllur skrifa því kvörtunarbréf þar sem þær biðja um endurgreisðlu á miðunum sem kostuðu 3700 krónur á konu, og minnast einnig á það í bréfinu að aðgöngumiðarnir hafi verið kolólölegir; ónúmeraðir, ómerktir og ódagsettir. Við ma fórum með þetta bréf undirritað af hópnum niður á bílasöluna Ós í gær klukkan 4, og þar situr Aðalsteinn ásamt foreldrum sínum sem eiga Oddvitann og öðrum starfsmanni Oddvitans að auki. Ma leggur fram bréfið og það var eins og sprengju hefði verið varpað, allt fór í háaloft vægast sagt. Aðalsteinn fór upp á háa C-ið og kallaði okkur öllum illum nöfnum, sakaði okkur um að koma með fjandans hótanir og sagðist sko ekkert ætla að lesa þetta bréf einu sinni, þetta væri fáránlegt og sýningin hefði verið frábær í alla staði. Við ma héldum ró okkar og brostum bara að honum, því hann var svo heimskur og dónalegur að það þýddi ekkert að tala við hann, enda komumst við varla að fyrir skömmum og dónalegheitum. Kellan mamma hans var öllu gáfulegri, en jafn hávær og sonurinn, en reyndi að útskýra fyrir syni sínum að við hefðum rétt fyrir okkur. Þá tók starfsmaðurinn á næsta borði við og skammaðist dálítið, sonurinn varð ennþá brjálaðri og kellan talaði enn hærra. Þetta var hin besta skemmtun allt saman þrátt fyrir að við ma kæmum ekki mörgum orðum að. Það kom mér nú mest á óvart að þegar ég hafði staðið og þagað allan tímann en segi loksins: "Bíðið við, má ég nú aðeins segja eitt" þá datt allt í dúnalogn. Ég benti Aðalsteini á að þessi sýning væri á þeirra vegum og því bæru þau ábyrgð á henni og það gengi ekki að vera með dónsakap og læti þegar kúnnar legðu fram kvörtun, en þá var þögnin búin og hann byrjaði aftur að rífast og skammast. Sagði meðal annars að kokkteill væri sko miklu dýrari en vínglas, kostaði 1200 kall, og hann hefði bara ætlað að gera betur við kúnnana. Ma reyndi í tíunda skiptið að benda á að það væri nú ekki aðal umkvörtunarefnið heldur sýningin sjálf þar sem tvær aðalleikkonurnar vantaði, en þessi maður bara vildi ekki hlusta, hreytti bara í okkur ónotum alveg trompaður. Þetta endaði með því að eftir hálftíma þarna inni reif kellan af honum kvörtunarbréfið og sagði við mömmu að hún skyldi redda þessu og myndi hringja í hana. Að svo búnu þökkuðum við ma kærlega fyrir málefnalega umfjöllun og móttökur á kvörtunum okkar og héldum heim.

Bendi á það í lokin að ég mun líklega aldrei aftur fara í Karaoke á Oddvitanum, því starfsmaðurinn á næsta borði hefur yfirumsjón með því. Hann mydi örugglega reyna að gefa mér raflost.