þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Brasi bras...

Ég ákvað að skipta út ævaforna tekkstofuborðinu mínu sem var að liðast í sundur og fá að láni stofuborð sem foreldrar mínir keyptu fyrir 30 árum síðan en hefur verið í láni hjá vinkonu mömmu síðustu 15 árin eða svo. Þegar ég kom úr vinnunni í gærkvöldi höfðu ma og pa gert sér lítið fyrir og komið borðinu fyrir í stofunni hjá mér, þvílíkt gæðafólk! En þau hefðu allt eins getað smellt kvínsæs rúmi í miðja stofuna, borðið er svo stórt! Það er einnig það hátt að manni líður eins og maður sitji við skrifborð þegar maður sekkur í sófann fyrir framan sjónvarpið. Ég hló mikið og klóraði mér svo í hausnum, því það var svolítið leiðinlegt að þurfa að smokra sér fram hjá ferlíkinu í hvert skipti sem ég fer út á svalir. Tók mig svo til og sneri stofunni gjörsamlega við, losaði mig við heljar sjónvarpsskáp, tívíið út í horn og voila, er komin með glimrandi fína stofu, eða gerði að minnsta kosti það besta úr því sem fyrir var. Fór einnig í Rúmfó og fjárfesti í fullt af teppum til að hylja sófana, bleikum púðum og nýjum gardínum. Það verður allt að líta vel út fyrir gellu afmælisveisluna mína á laugardaginn;) Já fyrir þá sem ekki vita þá á ég kvartaldarafmæli á föstudaginn og tek á móti fjárframlögum á reikningi mínum í Íslandsbanka.