Heitrofi, heitrofi,
hrópa eg á þig;
það eru álög,
sem ástin lagði á mig.
--
Komdu, ég skal brosa
í bláu augun þín
gleði, sem aldrei
að eilífu dvín.
Komdu, ég skal kyssa í þig
karlmennsku og þor,
hreystina og fegurðina
og frelsisins vor.
Komdu, ég skal gráta í þig
göfgi og trú
og hugsun þinni byggja
upp í himininn brú.
Komdu, ég skal glaðvekja
guðseðli þitt
og fá þér að leikfangi
fjöreggið mitt.
--
Ég skal lifa á beinunum
af borðinu hjá þér
og húsið þitt sópa
með hárvendi af mér.
Ekki skal það kvelja þig
skóhljóðið mitt;
ég skal ganga berfætt
um blessað húsið þitt.
Ég skal þerra líkama þinn
með líninu því,
er ég dansaði saklausust
og sælust í.
Ég skal hlusta og vaka
við höfðalagið þitt
og vekja þig, ef þig dreymir illa,
veslings dýrið mitt.
--
Rándýr, forna rándýr,
fyrirgefðu mér ..
Viltu, að ég sofi
í sænginni hjá þér?
Komdu, ég skal orna þér
við eldinn minn.
Leggðu ennið að hjarta mér
og horfðu inn-
Svona .. Vertu nú rólegur,
vinurinn minn.
Er hann ekki notalegur,
ylurinn?
Þíðir hann ekki
ísgervið þitt?
-Logaðu, logaðu,
litla hjartað mitt!
Davíð Stefánsson
sunnudagur, júní 26, 2005
Komdu
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:27 |
Ljóðafílingur um helgina
Neyddist til að stela litlu ljóði frá henni Garúnu.
Þau stóðu þar sem þaut með björtum lit
hið þunga fljót og horfðu í vatnsins strengi
og heyrðu að sunnan sumarvinda þyt
um síki og engi
Og armlög þeirra minntu á fyrsta fund
þó fölur beygur hægt um sviðið gengi
er laut hann höfði og sagði í sama mund:
Veistu hvað gleðin tefur tæpa stund
en treginn lengi.
Hannes Pétursson
Annars er ég búin að hlusta stanslaust á Bubba alla helgina, Í sex skrefa fjarlægð frá paradís, aftur og aftur og aftur. Hann kveikir svo á sálinni. Hin platan á leiðinni, Ást. Vona að hún sé jafn góð.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:13 |
...
Þetta er búin að vera skrítin vika og skrítin helgi. Stundum er maður svo skrítinn.
Værirðu ekki stundum til í að geta orðið þrettán aftur og byrja líf þitt öðruvísi?
Væri ekki æðislegt að vera með það á hreinu hvað skiptir mestu máli í lífinu?
Eitt sinn var afi minn spurður í viðtali:
-Þú hélst lengi tryggð við heimahaga þína. Varstu ef til vill að hugsa um að una þar ævilangt við búskap og skáldskap, eins og svo margir aðrir hafa gert?
Og því svaraði hann:
-Sennilega hef ég talið það sjálfgert. Um bústaðaskipti eða framtíðina yfirleitt hugsaði ég lítið þar til ástin kom í spilið. Ég mætti ungri stúlku á förnum vegi. Það varð ást við fyrstu sýn. Þar hreppti ég minn stærsta vinning. Síðan hef ég ekki þurft að spila í happdrætti.
Það er svo margt í lífinu sem kalla mætti happdrætti. Athafnir, ákvarðanir. Ég vona að þegar ég finn ástina finni ég mig ekki knúna til að taka þátt í áhættusömu happdrætti. Því það er aldrei að vita nema maður skíttapi.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:07 |
föstudagur, júní 24, 2005
Nostalgían
Enn á ný fletti ég upp gömlum textum frá upphafi bloggsins míns. Þá var ég dugleg að lesa og leita.
Of hrædd við að elska, of hrædd við að bíða,
of hrædd við hjartað sem er fullt af kvíða.
Of hrædd við ábyrgð, of hrædd við að lofa,
of hrædd við drauma sem þurfa aldrei að sofa.
Af hverju er öll þessi hræðsla í manni?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:58 |
laugardagur, júní 18, 2005
Ljómandi dagur
Alltaf er maður að prófa eitthvað nýtt. Í morgun fór ég niður á poll og spreytti mig í árabáta- og kajakróðri. Ég var nú hálf smeyk við kajakinn og vildi fá að vita hvað ég ætti að gera ef hann skyldi velta. Það gat enginn sagt mér það svo ég lét bara ýta mér frá landi og gerði mitt besta. Ég verð nú bara að segja það að ég var alls ekki eins slæm og ég bjóst við! Öldurgangurinn var heldur ekki mikill og gott veður svo þetta var alveg frábært! Ég var reyndar ekki í hlífðarfötum, bara stígvélum svo ég kom sullandi blaut úr þessari siglingu, frosin á rassinum;) Seinnipartinn fór ég svo heim á plan til ma og pa og við pa tókum allsherjarþrif á lillasanseruðu eldingunni og ég er öll í bóni núna. Svo er bara spuring hvað kvöldið hefur í för með sér, glaum og gaman eða rólegheit?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:48 |
fimmtudagur, júní 16, 2005
Furðu uglur
Fyrstu útlegð er hér með lokið. Stutt vinnuvika, löng helgi, gerist ekki betra, gott að byrja hægt. Þreytan er reyndar að fara með mig, ég hef sofnað um 10 á kvöldin, nema reyndar í gærkvöldi þegar við skruppum í sjoppuna á Kópaskeri, en hún er komin með vínveitingaleyfi, og þar þjóruðum við örlítið og sátum svo og spjölluðum til að verða hálf tólf. Þá var mín líka orðin vel þreytt og er það enn. Að vera úti að mæla frá 8-19 tekur svolítið á, þó þetta sé ekki erfið vinna líkamlega.
En já, verð að segja frá draumi sem mig dreymdi um daginn, áður en ég byrjaði á Vegagerðinni, þetta er svaka spúkí! Mig dreymdi að ég var að labba einhversstaðar úti í sveit þegar ugluflokkur kemur fljúgandi framhjá mér á ógnar hraða. Þetta voru hvítar uglur með dökka díla og voru þær í hundraðatali. Ég fylltist skelfingu í draumnum, enda finnast mér uglur svolítið óhugnanleg dýr, ekki spyrja af hverju;) En allavega, fyrstu vinnuvikuna mína á Vegagerðinni vorum við að mæla í Aðaldal og kemur þá svona nákvæmlega eins ugla fljúgandi beint fyrir framan bílinn og mér brá þvílíkt, stóð ekki alveg á sama sko. Ekki skánaði það síðasta föstudag í Svarfaðardal en þá þurfti ég að nauðhemla til að keyra ekki á alveg eins uglu sem flaug fyrir framan bílinn okkar. Þá stóð mér ennþá meira ekki á sama! Og til að toppa þetta allt saman flýgur þriðja nákvæmlega eins uglan fyrir framan bílinn okkar á mánudaginn í Vaðlaheiðinni. Allt er þá þrennt er hugsaði ég þá, nú hlýtur eitthvað að gerast! En ekkert hefur gerst enn. Mér finnst þetta bara svo stórfurðulegt af því að venjulega sér maður eiginlega ALDREI uglur. Kann ekki einhver ráðningu á þessum draumi og öllum þessum uglum sem eru að angra sálartetrið mitt?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:22 |
sunnudagur, júní 12, 2005
Alltaf sætar
Svona getum við verið sætar!
Föstudagur á Sveitta Kaffi klikkar ekki...hmmm... við allavega skemmtum okkur nokkuð vel, verð samt að segja að þetta er of lítill bær, If u know what I mean! En það reddast eftir nokkra mánuði! Er nokkuð á leiðinni að flytja til Köben sem langar að leigja með mér? Það væri ljúft.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 15:20 |
föstudagur, júní 10, 2005
Hinn víðfrægi Umhverfisdagur
Hinn árlegi umhverfisdagur Vegagerðarinnar var haldinn með glæsibrag í gær. Klukkan níu var haldið í rútu til Illugastaða í kaffi, fyrirlestur og hádegismat. Að vanda svaf ég fyrri hluta fyrirlestrarins af mér, þetta er farið að verða vandræðalegt, en hélt mér vel vakandi seinni hlutann. Eftir hádegið var svo brunað í Þórðarstaðaskóg í sumarbústað Vegagerðarinnar og þar var þrifið, grisjað, slegið, neglt og málað í yndislegu veðri. Ekki versnaði veðrið þegar grillið og ótæmandi bjórbirgðir voru dregnar fram við mikinn fögnuð viðstaddra! Þetta eru einhverjar þær mestu fyllerísferðir sem ég heft haft kynni af, og alltaf jafn frábærlega gaman, sérstaklega á leiðinni heim í rútunni. Það er meira að segja búið að útbúa sérstakt plan í Víkurskarðinu, og held ég að það hafi einungis verið útbúið með Umhverfisferð Vegagerðarinnar í huga, því þar er ávallt pissustopp;) Að venju áttu sér stað einhverjir skandalar sem eru ekki prenthæfir, alltaf fyndið að mæta í vinnuna eftir svona ferðir. Það var setið að sumbli í eldhúsi Vg í þónokkurn tíma er heim var komið, þar til fólk var farið að slappast, og við Pa hringdum í Ma til að sækja okkur drykkjurútana. Hún var ákaflega glöð að sjá okkur feðginin í þessu standi og glotti útí annað. Vinnan í dag var því þónokkuð erfið, allavega svona fyrripartinn, ég skánaði nú mikið uppúr hádegi eftir að ég fékk mér gott í gogginn, og er ég keyrði Land Roverinn heim úr Svarfaðardal rétt uppúr hálf sex var ég orðin syngjandi kát og hress og tilbúin í ferð á galeiðuna enn á ný;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:41 |
fimmtudagur, júní 09, 2005
Lokaljóðið
Ég birti eitt sinn brot úr þessu ljóði hérna á síðunni en langaði svo að setja það í heild sinni inn. Þetta er eitt af mínum uppáhaldsljóðum.
Lokaljóðið
Þegar ég sest loksins niður til að yrkja,
kafnar allt, hverfur, stíflast.
Það gæti einhver komist í þetta.
Það má enginn vita neitt.
Það má enginn vita að ég drekk blóð.
Það má enginn vita að ég fæ hugmyndir.
Það má enginn vita að ég verð að hverfa
inn í landið mitt, alvörulandið í ullarsokkum og kjól
og veiða mér til matar og vaða straumhörð fljót
og kúra mig í hellisskúta.
Það má enginn vita um mig.
(Þessvegna er ég að deyja. Þessvegna elska ég.)
Það má enginn vita að ég heyri jökla gráta,
það má enginn vita að hraunið hvíslar til mín,
það má enginn vita að ég dansa við kletta,
það má enginn vita að hafið kallar á mig,
það má enginn vita hvað ég elska mýrina,
það má enginn vita að ég baða mig upp úr ám.
(Ég þrái aðeins að komast upp á eitthvert fjall, bara það er sannleikurinn.)
Mig langar að vera hlýtt og sofa
og vera ekki hrædd við að sofna.
Ég er svo hrædd um að allt nái mér.
Ég er svo hrædd um að svefninn nái mér og taki mig til sín,
hrædd um að hugmyndirnar taki mig til sín,
hrædd um að ástin taki mig til sín,
hrædd um að lífið taki mig til sín.
Ég er svo hrædd um að einhver ætli að taka mig til sín.
Viltu taka mig til þín. Og vera góður. Svona.
Það má enginn ná mér. Það má enginn taka mig.
Ég er á verði. Ég bjó mér til minn heim
þar sem ég var óhult
og nú þjarmar þessi heimur að mér.
Það endaði með því að ég var lokuð inni,
með þennan lokaða heim.
Og ég fór í marga hringi
og hugsaði um stráka á meðan
og eitthvað heilagt, ósnertanlegt...heilagt.
Ég er svo hrædd um að hræðslan taki mig til sín
og geri mig brjálaða
og enginn vilji vera með mér og jörðin hætti að tala til mín.
Ég sit bara við hyldýpið og hugsa um brú og hugsanafugla
og þetta endalausa blóð,
blóð sem streymir yfir landið.
Ég veit ekki hvaðan það kemur
en það er allt fljótandi í blóði.
Það er það eina sem ég tek mark á.
Það flytur súrefni.
(Mig verkjar svo í hjartað. Mitt dramatíska hjarta.)
En svo myndi ég nú bara jafna mig
og þá væri þetta allt í lagi
og fara í kjól og dansa eftir lagi,
einmitt þessu lagi í höfðinu á mér
og skreyta mig með þangi
og hlaupa upp fjallið með hafið í bala
og þarna er hann,
maðurinn sem þorir að elska.
Hann kemur.
Og ég opna munninn.
Elísabet Jökulsdóttir
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:26 |
miðvikudagur, júní 08, 2005
Sjarmerandi
Þegar lítið er að gera í vinnunni eigum við það til að finna okkur ýmislegt til dundurs...
Ég kaus að setja ekki myndina af mér með þetta á síðuna, svona ykkar vegna.
Við vitum ekki enn hvaða tæki þetta er, en ég tognaði í síðunni af hlátri.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:19 |
mánudagur, júní 06, 2005
Skál í boðinu!
Það má segja að Gallupdjammið hafi verið fremur svæsið og sóðalegt. Miðað við það magn af rótsterkri Viddíarbollu og Opalskotum sem drukkið var er undarlegt að einhver okkar skuli muna eftir kvöldinu, en svo virðist samt vera, því miður ef til vill;) En þetta var snilldar skemmtun, verst að maður skuli vera hættur þarna og missa af komandi stuði, en kannski manni verði boðið með næst svona í ljósi þess hvað maður er mikill stuð- og drykkjubolti, get ekki ímyndað mér Gallupdjamm án mín;)
Það er annars alveg magnað hvað maður getur stundum bara fengið gjörsamlega nóg af ákveðnu málefni og gefið ókunnugum mönnum vænt afturendaspark á skemmtistöðum, en slíkt gerist, og ef til vill löngu kominn tími til, óskiljanlegt hvað ég hef haldið ró minni helgi eftir helgi eftir helgi.
En timburmennirnir sem ég fékk í gær gætu hugsanlega verið sögulegir, ég hvorki gat talað né staðið, þvílíkur var sviminn sem herjaði á mig, og gat ég ekki sótt bílinn minn fyrr en uppúr tíu í gærkvöldi. En ég er öll að koma til:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:24 |
laugardagur, júní 04, 2005
Svínslegt djamm í vændum? ;)
Aftur er komið að Gallup djammi. Við skemmtum okkur svo frábærlega síðast að ákveðið var að endurtaka leikinn sem fyrst. Ég stakk uppá að haldið yrði kveðjupartý fyrir mig í garðinum hjá bossinum og viti menn, tillagan var samþykkt! Svo nú er maður nýsnurfusaður og sætur og á leið út úr dyrunum, það er meira að segja sólskin og frábært veður til að grilla, þetta getur ekki klikkað! Ég er því syngjandi kát og glöð og spennt fyrir kvöldinu, langt síðan maður hefur farið single á girls night out! Ekki það að ég ætli að standa í neinum stórræðum, fílingurinn er bara öðruvísi, u know;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:41 |
föstudagur, júní 03, 2005
Vegagerðin enn á ný, alltaf og ávallt
Þetta er búin að vera nokkuð strembin vika. Vegagerðin byrjaði á mánudaginn og allt þetta ferska loft er að gera útaf við mig. Ég er ekki farin í útlegð ennþá, sem betur fer, en hún mun að öllum líkindum hefjast á mánudaginn. Vonandi verður súrefnið farið að fara betur í mig þá svo ég endist daginn án þess að líða útaf.
Annars á ég enn við sama vandamál að stríða og öll síðustu sumur; ég get ekki keyrt lengra en 30 kílómetra án þess að augun fari að ranghvolfast og mig langar helst að setja hönd undir kinn, halla mér upp að bílrúðunni og sökkva í væran svefn. Þetta gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér svo ég reyni bara að hafa tónlist í botni og blaðra sem mest ég má. Verra er ef farþegarnir sofna, þá er ég gjörsamlega út úr kortinu. Ég ætla að leggja mig fram við að vinna bug á þessum vanda, hef reyndar reynt í mörg ár og ekkert gengur, því það er svoldið leiðinlegt fyrir vinnufélagann að þurfa alltaf að keyra.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:17 |