fimmtudagur, júní 16, 2005

Furðu uglur

Fyrstu útlegð er hér með lokið. Stutt vinnuvika, löng helgi, gerist ekki betra, gott að byrja hægt. Þreytan er reyndar að fara með mig, ég hef sofnað um 10 á kvöldin, nema reyndar í gærkvöldi þegar við skruppum í sjoppuna á Kópaskeri, en hún er komin með vínveitingaleyfi, og þar þjóruðum við örlítið og sátum svo og spjölluðum til að verða hálf tólf. Þá var mín líka orðin vel þreytt og er það enn. Að vera úti að mæla frá 8-19 tekur svolítið á, þó þetta sé ekki erfið vinna líkamlega.

En já, verð að segja frá draumi sem mig dreymdi um daginn, áður en ég byrjaði á Vegagerðinni, þetta er svaka spúkí! Mig dreymdi að ég var að labba einhversstaðar úti í sveit þegar ugluflokkur kemur fljúgandi framhjá mér á ógnar hraða. Þetta voru hvítar uglur með dökka díla og voru þær í hundraðatali. Ég fylltist skelfingu í draumnum, enda finnast mér uglur svolítið óhugnanleg dýr, ekki spyrja af hverju;) En allavega, fyrstu vinnuvikuna mína á Vegagerðinni vorum við að mæla í Aðaldal og kemur þá svona nákvæmlega eins ugla fljúgandi beint fyrir framan bílinn og mér brá þvílíkt, stóð ekki alveg á sama sko. Ekki skánaði það síðasta föstudag í Svarfaðardal en þá þurfti ég að nauðhemla til að keyra ekki á alveg eins uglu sem flaug fyrir framan bílinn okkar. Þá stóð mér ennþá meira ekki á sama! Og til að toppa þetta allt saman flýgur þriðja nákvæmlega eins uglan fyrir framan bílinn okkar á mánudaginn í Vaðlaheiðinni. Allt er þá þrennt er hugsaði ég þá, nú hlýtur eitthvað að gerast! En ekkert hefur gerst enn. Mér finnst þetta bara svo stórfurðulegt af því að venjulega sér maður eiginlega ALDREI uglur. Kann ekki einhver ráðningu á þessum draumi og öllum þessum uglum sem eru að angra sálartetrið mitt?