föstudagur, júní 03, 2005

Vegagerðin enn á ný, alltaf og ávallt

Þetta er búin að vera nokkuð strembin vika. Vegagerðin byrjaði á mánudaginn og allt þetta ferska loft er að gera útaf við mig. Ég er ekki farin í útlegð ennþá, sem betur fer, en hún mun að öllum líkindum hefjast á mánudaginn. Vonandi verður súrefnið farið að fara betur í mig þá svo ég endist daginn án þess að líða útaf.

Annars á ég enn við sama vandamál að stríða og öll síðustu sumur; ég get ekki keyrt lengra en 30 kílómetra án þess að augun fari að ranghvolfast og mig langar helst að setja hönd undir kinn, halla mér upp að bílrúðunni og sökkva í væran svefn. Þetta gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér svo ég reyni bara að hafa tónlist í botni og blaðra sem mest ég má. Verra er ef farþegarnir sofna, þá er ég gjörsamlega út úr kortinu. Ég ætla að leggja mig fram við að vinna bug á þessum vanda, hef reyndar reynt í mörg ár og ekkert gengur, því það er svoldið leiðinlegt fyrir vinnufélagann að þurfa alltaf að keyra.