sunnudagur, júní 26, 2005

Komdu

Heitrofi, heitrofi,
hrópa eg á þig;
það eru álög,
sem ástin lagði á mig.

--

Komdu, ég skal brosa
í bláu augun þín
gleði, sem aldrei
að eilífu dvín.

Komdu, ég skal kyssa í þig
karlmennsku og þor,
hreystina og fegurðina
og frelsisins vor.

Komdu, ég skal gráta í þig
göfgi og trú
og hugsun þinni byggja
upp í himininn brú.

Komdu, ég skal glaðvekja
guðseðli þitt
og fá þér að leikfangi
fjöreggið mitt.

--

Ég skal lifa á beinunum
af borðinu hjá þér
og húsið þitt sópa
með hárvendi af mér.

Ekki skal það kvelja þig
skóhljóðið mitt;
ég skal ganga berfætt
um blessað húsið þitt.

Ég skal þerra líkama þinn
með líninu því,
er ég dansaði saklausust
og sælust í.

Ég skal hlusta og vaka
við höfðalagið þitt
og vekja þig, ef þig dreymir illa,
veslings dýrið mitt.

--

Rándýr, forna rándýr,
fyrirgefðu mér ..
Viltu, að ég sofi
í sænginni hjá þér?

Komdu, ég skal orna þér
við eldinn minn.
Leggðu ennið að hjarta mér
og horfðu inn-

Svona .. Vertu nú rólegur,
vinurinn minn.
Er hann ekki notalegur,
ylurinn?

Þíðir hann ekki
ísgervið þitt?
-Logaðu, logaðu,
litla hjartað mitt!

Davíð Stefánsson