fimmtudagur, júní 09, 2005

Lokaljóðið

Ég birti eitt sinn brot úr þessu ljóði hérna á síðunni en langaði svo að setja það í heild sinni inn. Þetta er eitt af mínum uppáhaldsljóðum.


Lokaljóðið

Þegar ég sest loksins niður til að yrkja,
kafnar allt, hverfur, stíflast.

Það gæti einhver komist í þetta.
Það má enginn vita neitt.
Það má enginn vita að ég drekk blóð.
Það má enginn vita að ég fæ hugmyndir.
Það má enginn vita að ég verð að hverfa
inn í landið mitt, alvörulandið í ullarsokkum og kjól
og veiða mér til matar og vaða straumhörð fljót
og kúra mig í hellisskúta.
Það má enginn vita um mig.

(Þessvegna er ég að deyja. Þessvegna elska ég.)

Það má enginn vita að ég heyri jökla gráta,
það má enginn vita að hraunið hvíslar til mín,
það má enginn vita að ég dansa við kletta,
það má enginn vita að hafið kallar á mig,
það má enginn vita hvað ég elska mýrina,
það má enginn vita að ég baða mig upp úr ám.

(Ég þrái aðeins að komast upp á eitthvert fjall, bara það er sannleikurinn.)

Mig langar að vera hlýtt og sofa
og vera ekki hrædd við að sofna.
Ég er svo hrædd um að allt nái mér.
Ég er svo hrædd um að svefninn nái mér og taki mig til sín,
hrædd um að hugmyndirnar taki mig til sín,
hrædd um að ástin taki mig til sín,
hrædd um að lífið taki mig til sín.
Ég er svo hrædd um að einhver ætli að taka mig til sín.

Viltu taka mig til þín. Og vera góður. Svona.

Það má enginn ná mér. Það má enginn taka mig.
Ég er á verði. Ég bjó mér til minn heim
þar sem ég var óhult
og nú þjarmar þessi heimur að mér.

Það endaði með því að ég var lokuð inni,
með þennan lokaða heim.
Og ég fór í marga hringi
og hugsaði um stráka á meðan
og eitthvað heilagt, ósnertanlegt...heilagt.

Ég er svo hrædd um að hræðslan taki mig til sín
og geri mig brjálaða
og enginn vilji vera með mér og jörðin hætti að tala til mín.

Ég sit bara við hyldýpið og hugsa um brú og hugsanafugla
og þetta endalausa blóð,
blóð sem streymir yfir landið.

Ég veit ekki hvaðan það kemur
en það er allt fljótandi í blóði.
Það er það eina sem ég tek mark á.
Það flytur súrefni.

(Mig verkjar svo í hjartað. Mitt dramatíska hjarta.)

En svo myndi ég nú bara jafna mig
og þá væri þetta allt í lagi
og fara í kjól og dansa eftir lagi,
einmitt þessu lagi í höfðinu á mér
og skreyta mig með þangi
og hlaupa upp fjallið með hafið í bala
og þarna er hann,
maðurinn sem þorir að elska.
Hann kemur.

Og ég opna munninn.

Elísabet Jökulsdóttir