Módemið mitt ákvað í gærmorgun að hætta að virka. Það greip mig strax mikil angist og hringdi ég skjálfrödduð, á barmi taugaáfalls, í TDC. Við starfsmaðurinn reyndum í sameiningu að veita módeminu fyrstu hjálp en það kom fljótt í ljós að það var um seinan og panta þyrfti viðgerðarlið á staðinn. Beiðnin ætti að verða virk á föstudaginn sagði hann. Með grátstafinn í kverkunum spurði ég hvort ekki væri möguleiki á að laga þetta fyrr, en ekki hélt ungi maðurinn það. Ég varð því heldur betur glöð þegar síminn minn hringdi klukkutíma síðar og hjálpin strax á leiðinni. Hingað mættu svo tveir galvaskir menn með töskur og skiptu gamla módeminu út fyrir nýtt og reyndu sitt besta til að blása lífi í tenginguna. Ekkert gekk. Ég eyddi því gærdeginum í að reyna að tengjast, orðin vel pirruð seinnipartinn þegar annar viðgerðarmaðurinn hringir og tilkynnir komu þeirra aftur daginn eftir klukkan átta. Þeir komu áðan með stærri töskur en fyrri daginn, hurfu niður í kjallara þar sem þeir eyddu dágóðri stund, komu upp aftur, horfðu á módemið og sögðu: "Kom såååååå", og eftir þessa hvatningu hikstaði módemið sér í gang. Þungu fargi var af mér létt.
Ef einhver er að velta því fyrir sér af hverju ég er bara heima að slæpast alla daga, þá er ég lasin. Ef ég væri ekki lasin þá væri ég ekki enn komin með netsamband. Út frá því má sjá að það er ekki alltaf alslæmt að vera lasinn.
fimmtudagur, nóvember 29, 2007
Erfið lífsreynsla
Birt af Gagga Guðmunds kl. 09:41 |
mánudagur, nóvember 26, 2007
Helle strikes back
"Karlmaður á fimmtugsaldri skaut í dag öryggisvörð á skattstofu í Kaupmannahöfn til bana. Lögregla handtók manninn skömmu síðar og er hann sagður hafa játað á sig verknaðinn. Ekki er ljóst hvað honum gekk til.
Maðurinn gekk inn á skattstofu við Tagensvej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar í morgun, og krafðist þess að fá íbúð. Þegar starfsfólk sagðist ekki geta aðstoðað manninn dró hann upp byssu. Öryggisvörðurinn reyndi að fá manninn til að leggja frá sér byssuna en var þá skotinn í höfuðið.
Starfsfólk skattstofunnar, sem varð vitni að atburðinum, var flutt á sjúkrahús þar sem það fékk áfallahjálp."
Þetta er voðaleg frétt og sorglegur atburður. En það er eitthvað gruggugt við þetta. Af hverju ætti maðurinn að krefjast þess að fá íbúð hjá Skattinum? Aldrei hef ég heyrt minnst á það að Skattstofa sjái um íbúðamál í Danmörku. Ég lagði ekki saman tvo og tvo fyrr en mér var bent á tenginguna. Það hlýtur að hafa verið íbúð Helle sem maðurinn var á höttunum eftir, ósáttur við að vera ekki indæl og róleg stúlka.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:01 |
Skítbuxi
Á miðvikudagskvöldið var lögreglan kölluð út til að stöðva ólæti í heimahúsi í Esbjerg. Tókst henni að skikka til friðar, tímabundið, en var kölluð að sama húsi í gærnótt. Húsráðandi var ekki alls kostar ánægður með þessa heimsókn svo hann hrinti öðrum lögregluþjóninum í gólfið. Hinn lögreglumaðurinn brást snögglega við og stökk á bak manninum og tók hann fastataki í faðm sér. Svo fast kreisti hann manninn að sá skeit í buxurnar. Var maðurinn því næst færður í fangageymslu, í hreinni brók.
Það er svo margt fróðlegt sem ég les í dagblöðunum á leiðinni heim í lestinni á kvöldin.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:12 |
fimmtudagur, nóvember 22, 2007
Fátt er svo með öllu illt
Ég er greinilega að breytast í ofur A-manneskju. Get ekki sagt að ég sé alls kostar ánægð með þessar breytingar, en þær hafa vissulega sína kosti. Þar sem ég er farin að fara á fætur klukkan sex kem ég ýmsu í verk sem ég hefði hreinlega ekki tíma til að gera ef ég svæfi fram að hádegi. Fyrir utan stórhreingerningu síðustu helgar er ég búin að gefa mér góðan tíma á bókasafninu, kaupa teikniblokkir og blýanta og brasast við að skissa við kertaljós í morgunrökkrinu (greinilegt að ég hef ekki teiknað í nokkur ár), hef sankað að mér fróðleik á netinu og horft á fræðslu- og fréttaþætti í sjónvarpinu og í morgun sauð ég stóran pott af grænmetissúpu "a la Ragnheiður". Setti aðeins of mikið af chilli í súpuna, en það er bara hressandi að svitna svolítið. Svo er chilli víst grennandi. Á meðan súpan sauð borðaði ég hálft ástaraldin og hálfa lárperu með AB-mjólk og drakk te bruggað af ferskri engiferrót. Að vakna snemma hlýtur því að stuðla að hollu mataræði.
Ég hef þó gripið til "örþrifaráða" til að reyna að fá meiri svefn, þamba nú Garðabrúðute á kvöldin, en Garðabrúða er jurt sem hefur róandi og svæfandi áhrif, og núna var ég að ljúka við að snúa íbúðinni minni við, það er að segja nú er rúmið þar sem sófinn var og sófinn þar sem rúmið var. Mér finnst þetta heldur skrítið skipulag á íbúðinni, þarf að venjast því, en er spennt að sjá hvort það hafi góð áhrif, ég sef jú alltaf svo vel á sófanum.
Kaktusinn minn er farinn að blómstra bleikum blómum. Það hlýtur að boða nokkuð gott.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 12:48 |
sunnudagur, nóvember 18, 2007
Hugarleikfimi
Úr baðkrana Ragnheiðar rennur einn líter af vatni á 25 sekúndum. Það tekur 45 mínútur að fylla baðið af vatni þegar hún situr í því. Rúmmál Ragnheiðar er óþekkt stærð.
Reiknið, út frá stærð baðkarsins og tímans sem tekur að fylla það, hversu oft má ætla að Ragnheiður nenni í bað.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:19 |
laugardagur, nóvember 17, 2007
Dægurtruflun
Nú held ég að komið sé að því, ég er að verða endanlega geðveik. Ég hef þjáðst af svolítilli dægurröskun undanfarið og haft ýmislegt fyrir stafni fram undir morgun en í nótt fór ég fram úr sjálfri mér í furðulegheitum. Klukkan fjögur lá ég í rúminu og bylti mér og sá svo að þetta væri ekki til neins, ég gæti allt eins farið á fætur og gert eitthvað af viti.
Ég byrjaði því á að ryðja gólf og stóla af öllu sem ekki átti þar heima, hreint í skápinn, óhreint í taukörfuna, flokkaði pappíra, henti ógrynni af drasli úr skápum og af borðum, þurrkaði af, vaskaði upp, þreif baðherbergið í hólf og gólf, pússaði spegla, skipti á rúminu, henti útrunnum mat úr ísskápnum, vökvaði blómin, flokkaði þvott, sneri sófanum á hvolf og tók af honum áklæðið, fór með glerflöskur og pappíra út í gám, auk margra ruslapoka út í tunnu. Klukkan átta setti ég í fyrstu þvottavélina, það má víst ekki byrja fyrr, kunni heldur ekki við að ryksuga fyrr en um hálf níu leytið. Klukkan níu bankaði ég uppá hjá konunni á jarðhæð til að kaupa þvottamyntir, sá inn um gluggann að hún var vöknuð. Ég þvoði og þurrkaði fjórar vélar og að öllu þessu loknu var klukkan að verða ellefu, og ég komin með langan innkaupalista yfir hluti sem mig bráðvantaði á heimilið. Ég setti því upp andlit og hár og skundaði í bæinn.
Ég fann ekki allt sem á listanum stóð en náði þó að fjárfesta í skrúfum fyrir baðhillu, kalkhreinsi fyrir hraðsuðukatla, þvottaefni, kertum, naglabursta og ruslafötu á baðherbergið. Auk þess fór ég með flöskur í endurvinnslu. Þá var ég orðin ansi svöng svo ég settist inn á uppáhalds litla staðinn minn og fékk mér kjúklingabringu, kartöflugratín og karrýpasta og las blöðin. Hélt svo heim á leið, gekk frá innkaupunum, festi upp baðhilluna og raðaði á hana, sótti síðasta fataskammtinn í þurrkarann og gekk frá.
Eftir þetta settist ég á sófann minn, virti fyrir mér verk mitt og sá að það var gott. Því var kominn tími á hvíld, enda klukkan orðin hálf tvö. Ég stillti klukkuna á fjögur til að ég myndi ekki sofa fram á kvöld og taka enn eitt næturæðið, en það gekk ekki betur en svo að ég lokaði augunum í augnablik eftir að klukkan hringdi og raknaði ekki úr rotinu fyrr en klukkan átta í kvöld og vissi þá ekki hvar ég var stödd í heiminum. Ég reif mig þá á fætur, hitaði te og kveikti á kertum og nú vantar bara ekta íslenskt óveður byljandi á glugga, þá væri þetta fullkomið. Mikið líður manni nú vel í svona hreinni og fínni íbúð, með baðhillu!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:45 |
föstudagur, nóvember 16, 2007
Smá myndasería
Ég og Anna Mjöll á Dubliners í sumar, nýkomnar úr róðrarferð í Christianshavn sem var nú heldur betur sökksess. Brúnar og sætar.
Ég fór í stutt sumarfrí með ma, pa og Gumms á Lolland, Falster og Møn. Við heimsóttum Knuthenborg safari park, þar missti ég mig í að hlaupa á eftir geitum og ösnum og þetta dýr missti sig í að hlaupa á eftir mér. Ég náði þó að gefa því að borða fyrst.
Snemmsumars var Ísland sótt heim og fór ég ásamt Hugrúnu í smá túristaferð um Húsavík og nágrenni. Hestaferðin hræddi nánast úr mér líftóruna, en ég hló allan tímann og vældi úr hlátri þegar hesturinn fór á stökk. Alveg eins og Fagriblakkur!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:58 |
fimmtudagur, nóvember 15, 2007
Er að missa mig
Hún er nú að breytast í hálfgert video blogg hjá mér þessi síða. En svona er þetta, ég er búin að sanka að mér of mörgum snilldar myndböndum til að láta þau fara til spillis. Svo er ég auðvitað yfir mig ástfangin af David Walliams og hef þörf fyrir að deila þeirri ást með umheiminum. Ég get svo svarið það, mig er farið að dreyma hann. Algjört sjarmatröll. Svo er hann með svo ansi laglegar hendur maðurinn.
Þetta er alveg jafn gott myndband og það með forsætisráðherranum hérna að neðan, ef ekki betra. Sebastian Love í über kynþokkafullri senu. Wrarrr, væri til í að vera forsætisráðherrann þarna!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:45 |
miðvikudagur, nóvember 14, 2007
Fugladansinn
Fyrir nokkrum vikum síðan kom Nicola samstarfskona mín til mín með miklum æsingi og sagði að ég hreinlega ÞYRFTI að sjá myndband sem hún var að horfa á á netinu. Það væri fugl að dansa og hann væri aaaaalveg eins og ÉG!! "Núnú" segi ég, "er ég nú orðin alveg eins og fugl?" "Já þetta er páfagaukur" segir hún... eins og það sé eitthvað skárra. "Og hvers vegna er ég alveg eins og páfagaukur?" spyr ég. "Jú hann lyftir fótunum svona þegar hann dansar" segir hún og leikur fuglinn. "Ahaaaaa" segi ég, ekki laust við að vera smá móðguð. "It just reminded me of you, he has you energy. Your are always so glad and smiling, joking and full of energy" sagði hún.. "Nú jaaaaá...ætli ég sætti mig þá ekki við samlíkinguna" sagði ég þá að deyja úr stolti yfir að vera svona æðisleg.
Ég sá þetta myndband aldrei...ekki fyrr en í kvöld er Kristján Pétur sendi mér link. Og segið mér nú, minnir þetta virkilega á mig?
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:52 |
þriðjudagur, nóvember 13, 2007
Að vera eða ekki vera
Það er full vinna að gera sig fallega. Það þarf að baða sig og skrúbba, bestur árangur næst með pílingkremi og skrúbbhönskum, olíur og sölt í baðið er mikið möst, þvo og næra hárið og klippa það og lita inn á milli, hreinsa eyru, greiða sér og kannski blása hárið, raspa sigg af hælunum, snyrta neglur og naglabönd á höndum og fótum, handkrem og fótakrem, fjarlægja hár af ýmsum líkamshlutum með rakstri og vaxi, plokka og lita augabrúnir, bera á sig boddílósjon, ekki verra að hafa það með smá brúnku í, hreinsa andlitið og píla, leggja maska og bera á andlitið olíur, serum og krem kvölds og morgna, varasalva til að halda vörunum mjúkum, augnkrem til að halda hrukkunum í burtu, naglaolíu til að halda nöglunum fallegum. Andlitsfarði er ómissandi, svolítill meikslatti, maskari og gloss gerir gæfumuninn, ilmvatn og líkamssprey, hárgel/sprey/mödd og hvað þetta nú heitir allt í hárið, bursta tennur, nota tannþráð og munnskol, sólarvörn.
Öll þessi vinna ber mig jafnan ofurliði og geng ég þá um óböðuð og úfin, andlitslaus, loðin, sambrýnd og illalyktandi og finnst bara ekkert að því.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 23:23 |
Hjálpið mér nú fólkið mitt
Ung kona sem ég er að vinna með er á leið til Íslands um næstu helgi með kallinum og hópi fólks. Farið verður í Bláa lónið, vélsleðaferð, útreiðartúr og fleira. Öfund! Mig hefur alltaf langað í túristaferð um Ísland. Hvað um það, þau eiga víst eitt fríkvöld og hún bað mig um að stinga upp á einhverjum stað sem gaman væri að fara á, fá sér drykk og svo framvegis. Mér dettur barasta ekkert í hug, langt síðan ég hef stúderað Reykjavík, svo ég bið hér með um uppástungur að skemmtilegum stöðum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:32 |
mánudagur, nóvember 12, 2007
Ég er nú alveg met
Helbrigðisflipp
"Vaknaði klukkan hálf níu í morgun, ofurfersk! Fór í smá teiti til Birnu í gærkvöldi, allar stelpurnar samankomnar á ný auk nokkurra steggja. Ég var svooo þreytt, setti upp Tweety and Friends derhúfu, lét upptakara og kveikjara í gallajakka vasana mína og var Sue trukkalessa fram á nótt. Hrúgaði svo liðinu í bílinn og keyrði það út í nóttina og fór heim og las Herbalism bókina mína (ekki herbaLIFE nota bene).
Tók smá rúnt í morgun yfir í heiði og horfði á fallega bæinn minn, fór svo aftur heim að lesa herbalism og sofnaði svo aftur. Ætla svo í sund á eftir og vera ógeðslega heilbrigð. Mætti alveg vera meiri sól svo ég fái lit á Redneck kroppinn minn, en það verður að bíða betri tíma."
Var að renna yfir gamlar færslur og þessi er frá því í maí 2004. Ég hefði allt eins getað verið að lesa blogg einhvers annars, því ég hef ekki hugmynd um hvað ég var að skrifa um. "Setti upp Tweety and Friends derhúfu, lét upptakara og kveikjara í gallajakka vasana mína og var Sue trukkalessa fram á nótt." Hverjir eru Tweety and friends? Og hver er Sue trukkalessa? Jeminn hjálpi mér, refresh my memory please.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:58 |
Evolution of Dance
Að ég skuli ekki hafa birt þetta áður á síðunni minni! Þetta myndband er æðislegt, ég horfi reglulega á það ef farið er eitthvað að slakna á brosvöðvunum. Svo er alltaf eitthvað svo sexy við menn sem kunna að dansa..;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:15 |
föstudagur, nóvember 09, 2007
Dagur hinna góðu kaupa og furðulegu manna
Ég rauk á fætur fyrir allar aldir í morgun til að ná að útrétta fyrir vinnu. "Fyrir allar aldir" þýðir að þessu sinni klukkan hálf níu þar sem ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en hálf tólf. Fyrst sótti ég afmælisgjöfina mína frá ma, áðurnefndan undra-ljósa-lampa, fróðlegt að sjá hvernig hann virkar. Ég arkaði með hann heim og skilaði af mér og hélt leiðangri mínum svo áfram. Næsta stopp var aðalbrautarstöðin.
Til að komast á aðalbrautarstöðina þurfti ég að taka lestina frá Nordhavn station. Þegar ég er á leiðinni upp tröppurnar sé ég að lestin er að renna að palli og skokka því af stað til að ná henni. Lestarstjórinn skrúfar niður rúðuna, stingur höfðinu út um gluggann og sér mig koma hlaupandi, fylgist með mér nálgast, ég hleyp framhjá honum og að lestardyrunum sem eru svona þrjá metra frá glugganum, hann horfir á eftir mér, ég ýti á takkann til að opna aftur dyrnar sem eru að lokast, lestarstjórinn enn með hausinn út um gluggann og horfir á mig, læsir dyrunum og horfir enn á mig, ég horfi á hann með undrunarsvip, hann hverfur úr glugganum, skrúfar rúðuna upp og keyrir í burtu. Sumt fólk er bara furðulegt.
Ég komst með næstu lest á aðalbrautarstöðina en þar hafði ég haft uppi á búð sem selur Little Britain á hreinu gjafaverði. Ég fjárfesti í öllum þremur seríum, sex diskum, og borgaði aðeins 365.- kr fyrir. Danir þekkja sem sagt ekki þessa þætti. Er svo búin að bíða í allan dag með fiðrildi og hnúta í maganum eftir að komast heim og horfa á þriðju seríuna. Þar sem ég er komin með smá leiða á að enginn skilji brandarana mína í vinnunni (sem skiptir svo sem engu máli, það hlæja allir samt) lánaði ég Marianne fyrstu seríuna og skikkaði hana til að horfa á hana í kvöld. Á morgun ætlum við svo að hafa Girls Night IN, horfa á Litla Bretland, borða mikið af pizzu og rústa Playstation gítarleiknum hans Johns.
Að sjálfsögðu keypti ég smá gos og snakk á leiðinni heim úr vinnunni til að njóta Mr. Walliams maraþonsins sem best, og greip nokkrar nauðsynjar með í leiðinni, þrammaði svo heim á leið og þar sem hálfgerð slydda var í lofti setti ég upp loðhettuna á úlpunni minni. Það var ansi hvasst og hettan vildi ekki vera á sínum stað svo ég tosa hana alveg niður í augu, set höfuðið undir mig og tek pokann í fangið. Ég trítla í hælana á eldra pari en manninum virtist ekkert vera mjög vel við það, hann sneri sér ítrekað við og horfði á mig. Ég lendi vinstra megin við þau því þau gengu svo hægt en fatta svo að ég þarf að beygja til hægri svo ég tek skarpa hægri beygju aftur fyrir þau og þá hélt ég að manninum væri hreinlega öllum lokið, hann snarsneri sér við með hliðarhoppi og starði á mig svo ég varð bara hálf skelkuð, en hélt þó ótrauð áfram ferð minni. Hann hefur örugglega haldið að ég ætlaði að ráðast á þau. 160 sentimetra hár ofbeldisdólgur með loðkragahettu og Irma poka í fanginu.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:18 |
fimmtudagur, nóvember 08, 2007
Little Britain - Sebastian in the US
Ég er mikill aðdáandi Little Britain. Svo mikill aðdáandi að sjúkt gæti talist. Er búin að horfa á öll atriði úr þáttunum mörgum sinnum. Ég fer jafnan með fleyg orð úr þáttunum í vinnunni, til mikillar gleði viðstaddra, sem þó hafa aldrei séð þættina. David Walliams er orðinn átrúnaðargoð mitt, kynþokkafyllri mann er varla hægt að finna, og forsætisráðherrann kemur sterkur inn í annað sætið. Þetta er eitt uppáhalds atriðið mitt úr þáttunum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 03:57 |
Heilræði ömmu
Æviskeið mitt ungi vinur
ætla má að styttist senn.
Harla fátt af fornum dómum
fullu gildi heldur enn.
Endurmeti sínar sakir
sá er dæmir aðra menn.
Gleðstu yfir góðum degi,
gleymdu því sem miður fer.
Sýndu þrek og þolinmæði
þegar nokkuð útaf ber.
Hafi slys að höndum borið
hefði getað farið ver.
Aldrei skaltu að leiðum lesti
leita í fari annars manns,
aðeins grafa ennþá dýpra
eftir bestu kostum hans.
Geymdu ekki gjafir þínar
góðum vini í dánarkrans.
Þá veit ég hvaðan Pollýönnu hugsunarháttur minn kemur;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 02:23 |
þriðjudagur, nóvember 06, 2007
Engin er saga án sannana...
...segir nýtt máltæki. Tinne snillingur lumaði á þessari í símanum sínum.
Fyrir þá sem ekkert skilja í þessari færslu er útskýringin hér
Birt af Gagga Guðmunds kl. 21:33 |
mánudagur, nóvember 05, 2007
Ammili
Þá er maður orðinn árinu eldri en í gær. Tíminn líður hratt..!
Dagurinn byrjaði mjög furðulega á því að ég fór á fætur klukkan sjö án þess að snúsa og fékk mér danska AB-súrmjólk með speltfleksi. Hvorugt hefur gerst í langan tíma. Í vinnunni arkaði Nellieann samstarfskona mín í hótel eldhúsið, ákveðin á svip, og bað um að afmæliskringla yrði bökuð í tilefni dagsins, sem og var gert þegjandi og hljóðalaust; við sóttum kaffi og kakó og buðum svo til afmælisveislu.
Yfirkonu minni fannst ég eiga skilið smá dekur eftir þrælkunarvinnu síðustu mánuða (orðaði það reyndar ekki þannig en ég valdi að skilja það þannig) og splæsti á mig klukkutíma nuddi frá ellefu til tólf í boði Nellie. Ég nudda jú "hálfan liðlangan daginn" en hef sjálf ekki fengið nudd síðan við stelpurnar í skólanum þjösnuðumst hver á annarri fyrir ári síðan eða svo, og voru nuddhæfileikarnir þar mjög misjafnir, svo ég var ansi sátt við þetta framtak. Ég fann heldur betur fyrir því hvað ég er aum í kroppnum, var farin að væla á tímabili, en það "á" víst "að vera vont áður en það verður gott".. haft eftir sjálfri mér.
Ég fór svo beint eftir vinnu í mat til S og P í Lyngby þar sem tekið var á móti mér með kyndlum og fánum og steik með bernais. Fátt betra en það. Lak svo niður eftir matinn, alveg búin á því, enda hálf ósofin af spenningi yfir að eiga afmæli!
Ég þakka fyrir allar afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið í dag í gegnum miðla nútímans. Þeir sem sendu mér ekki kveðju, þið getið bara átt ykkur...!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:10 |
sunnudagur, nóvember 04, 2007
Séra Svavar og afi
Ég rakst nýverið á bloggsíðu séra Svavars Alfreðs, sóknarprests í Akureyrarkirkju, og hef ég gaman af að lesa hana. Heitar umræður sem eiga sér stað þar oft og tíðum. Ég kipptist þó heldur betur við í dag þegar ég sé efst á síðu hjá honum fyrirsögnina "Rangir menn á röngum stöðum" og mynd af afa mínum heitnum undir fyrirsögninni. Ekki leist mér nú á það, en eftir að hafa lesið greinina er augljóst að fyrirsögnin ætti að vera "Réttir menn á röngum stöðum" :) Hér er færslan
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:16 |