Ég er greinilega að breytast í ofur A-manneskju. Get ekki sagt að ég sé alls kostar ánægð með þessar breytingar, en þær hafa vissulega sína kosti. Þar sem ég er farin að fara á fætur klukkan sex kem ég ýmsu í verk sem ég hefði hreinlega ekki tíma til að gera ef ég svæfi fram að hádegi. Fyrir utan stórhreingerningu síðustu helgar er ég búin að gefa mér góðan tíma á bókasafninu, kaupa teikniblokkir og blýanta og brasast við að skissa við kertaljós í morgunrökkrinu (greinilegt að ég hef ekki teiknað í nokkur ár), hef sankað að mér fróðleik á netinu og horft á fræðslu- og fréttaþætti í sjónvarpinu og í morgun sauð ég stóran pott af grænmetissúpu "a la Ragnheiður". Setti aðeins of mikið af chilli í súpuna, en það er bara hressandi að svitna svolítið. Svo er chilli víst grennandi. Á meðan súpan sauð borðaði ég hálft ástaraldin og hálfa lárperu með AB-mjólk og drakk te bruggað af ferskri engiferrót. Að vakna snemma hlýtur því að stuðla að hollu mataræði.
Ég hef þó gripið til "örþrifaráða" til að reyna að fá meiri svefn, þamba nú Garðabrúðute á kvöldin, en Garðabrúða er jurt sem hefur róandi og svæfandi áhrif, og núna var ég að ljúka við að snúa íbúðinni minni við, það er að segja nú er rúmið þar sem sófinn var og sófinn þar sem rúmið var. Mér finnst þetta heldur skrítið skipulag á íbúðinni, þarf að venjast því, en er spennt að sjá hvort það hafi góð áhrif, ég sef jú alltaf svo vel á sófanum.
Kaktusinn minn er farinn að blómstra bleikum blómum. Það hlýtur að boða nokkuð gott.
fimmtudagur, nóvember 22, 2007
Fátt er svo með öllu illt
Birt af Gagga Guðmunds kl. 12:48
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|