Módemið mitt ákvað í gærmorgun að hætta að virka. Það greip mig strax mikil angist og hringdi ég skjálfrödduð, á barmi taugaáfalls, í TDC. Við starfsmaðurinn reyndum í sameiningu að veita módeminu fyrstu hjálp en það kom fljótt í ljós að það var um seinan og panta þyrfti viðgerðarlið á staðinn. Beiðnin ætti að verða virk á föstudaginn sagði hann. Með grátstafinn í kverkunum spurði ég hvort ekki væri möguleiki á að laga þetta fyrr, en ekki hélt ungi maðurinn það. Ég varð því heldur betur glöð þegar síminn minn hringdi klukkutíma síðar og hjálpin strax á leiðinni. Hingað mættu svo tveir galvaskir menn með töskur og skiptu gamla módeminu út fyrir nýtt og reyndu sitt besta til að blása lífi í tenginguna. Ekkert gekk. Ég eyddi því gærdeginum í að reyna að tengjast, orðin vel pirruð seinnipartinn þegar annar viðgerðarmaðurinn hringir og tilkynnir komu þeirra aftur daginn eftir klukkan átta. Þeir komu áðan með stærri töskur en fyrri daginn, hurfu niður í kjallara þar sem þeir eyddu dágóðri stund, komu upp aftur, horfðu á módemið og sögðu: "Kom såååååå", og eftir þessa hvatningu hikstaði módemið sér í gang. Þungu fargi var af mér létt.
Ef einhver er að velta því fyrir sér af hverju ég er bara heima að slæpast alla daga, þá er ég lasin. Ef ég væri ekki lasin þá væri ég ekki enn komin með netsamband. Út frá því má sjá að það er ekki alltaf alslæmt að vera lasinn.
fimmtudagur, nóvember 29, 2007
Erfið lífsreynsla
Birt af Gagga Guðmunds kl. 09:41
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|