laugardagur, mars 15, 2008

Draumfarir

Mér finnst fátt hallærislegra í bíómyndum en þegar fólk er með martröð og rýkur upp öskrandi og vælandi. Það er mjög svo óraunverulegt. Hver sest upp öskrandi í svefni?

Ja...sei sei. Ég hef upplifað það tvisvar á þessu ári að ég hef vaknað við að ég öskraði. Mig var að dreyma eitthvað frekar óþægilegt og öskraði í drauminum, og vaknaði svo við það að ég var að öskra upp úr svefni. Alls ekki þægilegt. Og miðað við hvað það er hljóðbært í húsinu hérna þá efast ég um að nágrönnunum hafi þótt það þægilegt!

Ég er þó lamb í svefni miðað við uppáhalds svefnfólkið mitt, Marianne og John. Þau eru alveg sér á báti. Reglulega kemur M með yndislegar sögur af þeim skötuhjúum. Um daginn fór M með hitapoka í rúmið. J kom heim um nóttina úr keppnisferð og steinsofnaði fljótt. M vaknaði stuttu síðar við það að J reis upp í rúminu og hristi hana og hrópaði:"Hvað ertu að gera með kartöflupoka í rúminu kona!!!!!!!" Nóttina á eftir var M að dreyma að hún fengi body peeling á Skodsborg. Henni fannst hún ansi klístruð svo hún ákvað í draumnum að fara í sturtu. Hún vaknaði svo í baðherbergisdyrunum ansi gleiðfætt með handleggina út í loftið...hún var jú svo klístruð öll;)

Í sameiningu hafa þau einnig í svefni farið fram í stofu og sótt pullurnar úr sófanum og hlaðið þeim í rúmið. Man ekki alveg hvers vegna.

Ég rifja upp fleiri svefn atvik meðan ég skrifa þetta. Árni maðurinn hennar Gerðar vinkonu minnar átti fyrir mörgum árum eitt gott. Gerður vaknar við það að Árni er að brjóta saman sængurnar þeirra og stafla þeim upp ásamt koddunum.. G spyr hvað hann sé eiginlega að gera. "Ég þarf að gera pláss fyrir dverginn!!" segir Árni. "Dvergurinn verður að hafa pláss!!".

Svenni sem ég vann með á vegagerðinni var mikill svefngengill í æsku...átti það til að fara út í garð og dansa í kringum snúrustaurinn. Ég var sem betur fer laus við allt svoleiðis í okkar mælingaferðum, en ekki var ég laus við talið upp úr svefni. Hjá honum Benna á Kópaskeri gistum við oft í sama herbergi og vaknaði ég reglulega við ræðuhöld. Það eins sem ég man eftir, sökum svefndrunga, er þessi setning...eftir smá ágreining okkar á milli daginn áður;"Þú verður að læra...að fara eftir SKIIPUNUM!!!". Þá hló mín.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Gleði gleði

Vá hvað mig langar að spila Pictionary eftir síðustu færslu. Alltof langt síðan ég hef reynt mig í því. Og Trivial! Spilaði það reyndar aðeins um jólin. Er með einhverja spilasýki núna. Fimbulfamb, munið þið eftir því? Ég held ég hafi spilað það síðast í 10. bekk og er búið að langa að spila það aftur alveg síðan. Lumar einhver á því djúpt inni í skáp? Ég læt mér einstaka Buzz Big Quiz spilakvöld nægja í bili þar til ég hitti fleiri spilanörda:)

Svo er það Ísland eftir viku! Jeij hvað ég hlakka til:) Stíf dagskrá þá fáu daga sem ég verð á Akureyri, en held ég sé búin að gera ráð fyrir öllum í hitting. Ef ég er að gleyma einhverjum þá er bara að leggja fram formlega kvörtun og beiðni um hitting.


Mynd verður nú að fylgja færslunni þar sem ég er orðin svo myndaglöð.
Jeminn hvað menn eru sætir:) Thíhí...

mánudagur, mars 10, 2008

Hámark óheppninnar:

Að draga spjaldið "Múhammeð" í Pictionary.

Breaking news

Lögreglan fann sprengju fyrir utan mosku. Hættuástandi var aflýst þegar lögreglunni tókst með lagni að ýta sprengjunni aftur inn í moskuna.

sunnudagur, mars 09, 2008

Hótel Hørsholm

Ég skrapp í heimsókn til Marianne á föstudagskvöldið. Ég var að koma heim núna. Ég fer sko ekki í heimsóknir nema gera það almennilega. Tilgangur heimsóknarinnar var að slappa af og spila Buzz fram á rauða nótt, sem við og gerðum. Nema hvað, ég er alveg úrvinda núna. Það vildi þannig til að síðasti hokkíleikur tímabilsins hjá John, manninm hennar M, var á föstudagskvöldinu, og klukkan þrjú um nóttina fylltist húsið af hokkígaurum og bjór. Ég var fljót að forða mér inn í rúm með bók, svaf þó furðu vel þrátt fyrir smá læti. Í gær lágum við M svo í makindum fyrir framan sjónvarpið mestallan daginn meðan gleðskapurinn hélt áfram hjá guttunum, þeir komu og fóru allan daginn, mismargir.

Því miður áttaði ég mig ekki á að taka mynd af mér, fékk nefnilega lánuð föt af John sem er tveir metrar á hæð, þar sem ég hafði mætt í kjól og á hælum á föstudeginum. Ég var því í ermalausum gríðarlega víðum bol sem náði mér næstum niður á hné, svörtum joggingbuxum sem voru hálfum metra of síðar og tíu númerum of víðar og ullarsokkum sem náðu mér upp að hnjám; sem sagt einstaklega lekker! Ekta kósí klæðnaður:) Sem betur fer fattaði ég þó að taka mynd af Marianne.

Við M fórum að sofa um miðnætti í gærkvöldi, en ekki svaf ég alveg jafn vel og nóttina áður. Klukkan 3 komu tveir guttar heim og klukkan 6 komu svo næstu tveir, svo ég var meira og minna vaknandi alla nóttina vegna umgangs og blaðurs. Einn naggur villtist svo inn í herbergið mitt hinn hressasti og var honum harkalega vísað á réttan stað.

Ég er því ansi sybbin núna og býst við að ég skríði snemma undir feld í kveld eftir afslöppunarhelgina miklu;)


Hérna er svo John "Rocky" í svarta bolnum og Johan félagi hans.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Death becomes her

Ég er að spá í að gerast líksnyrtir. Hvernig fær maður vinnu við það? Hvað er gott að hafa á ferilskránni ef maður vill gerast líksnyrtir? Ætli það hjálpi að kunna að hreinsa, peela, nudda og farða? Já að kunna að farða hlýtur að hjálpa! Hvers konar fólk gerist líksnyrtar? Hvað fær fólk til að velja það starf? Ég meina, gamalt fólk sem deyr...ekki málið..en börn sem deyja og fólk sem deyr í slysum og er kannski sundurtætt? Það hýtur að vera erfitt. En eitthvað við þetta starf virðist heilla fólk. Kannski sporðdreka meira en aðra..?

Jæja þið látið mig vita ef þið heyrið að óskað sé eftir líksnyrti í Reykjavík!

mánudagur, mars 03, 2008

Smá dramasaga

Jæja þá lenti maður í smá drama i vinnunni, loksins! Við Marianne heyrðum í gær hróp innan úr einu herberginu og þutum af stað til að kanna málið. Þar stóð þá Cate með nakta, meðvitundarlausa stelpu í fanginu að reyna að leggja hana á bekkinn. Við skelltum henni í heimatilbúna hliðarlegu og Marianne hljóp fram til að hringja eftir lækni. Ég byrjaði á því að frjósa alveg, vissi ekkert hvað ég átti að gera, en áttaði mig þó fljótt, vafði hana inn í lak og tékkaði púls og öndun. Hjartað sló á fullu og stelpan var kald sveitt og hálf blá grá í framan með hálf opin augun, frekar óhugnalegt. Ég reyndi að vekja hana, kalla nafnið hennar en náði engu sambandi.

Eftir nokkrar mínútur byrjaði hún að skjálfa og ég hélt hún væri að fá krampa. Skjálftinn varð svo meiri og þá varð mín nú smá smeyk! Ég er greinilega ekki góð undir álagi! Ég skildi Cate því eftir með stelpuna og hljóp fram í afgreiðslu til að tékka á læknastöðunni, en það er sjúkrahús á hótelinu og því ekki langt í hjálp. Læknirinn kom, eða hjúkkan, veit ekki hvort hún var, og ég vísaði henni inn í herbergið þar sem stelpan lá og skalf. Stuttu seinna mætti kærastinn svo á svæðið, hann hafði verið í dekri líka, en þá var stelpugreyið byrjað að kjökra svo hún var að ranka við sér.

Ég lét mig hverfa þarna, var með kúnna í fótsnyrtingu og þurfti að lakka neglur. Ég titraði svo að ég veit ekki hvernig mér tókst eiginlega að lakka táneglurnar á henni rauðar;) En hún var mjög ánægð!

Þegar ég kvaddi kúnnann minn sat stelpan svo inni í biðherberginu með smoothie, svo ég andaði léttara.
Hún hafði verið í baði og orðið ómótt og fór úr baðinu því hún þurfti að æla. Við vaskinn hafði hún svo hnigið niður en Cate náð að grípa hana.

Ég er að hugsa um að vinna aldrei á sjúkrahúsi bara!

laugardagur, mars 01, 2008

Life of a saleswoman

Ég er ekki mikil sölukona í mér. Það eru alltaf einhverjar sölukeppnir í vinnunni en einhvernveginn fara þær alveg fram hjá mér. Þegar mikið er að gera, sem er eiginlega alltaf, gef ég mér engan tíma í að selja vörur, oftast þó vegna þess að ég hreinlega nenni því ekki. Það væri svo sem ekki slæm hugmynd að reyna að selja meira því ég fæ 10% í sölulaun, en neinei, engin græðgi á þessum bæ!

Á venjulegum mánuði er ég vön að selja fyrir kannski 100 þúsund krónur, en síðustu tvo mánuði hef ég bara ekkert nennt að standa í þessu, vil bara ljúka vinnudeginum af og komast heim;) Í gær var ég hins vegar greinilega í banastuði í sölumennskunni og seldi fyrir 40 þúsund kall. Góð! Konur geta alveg misst sig í innkaupum þegar þær komast í feitt. Ef ég gerði þetta á hverjum degi væri ég í góðum málum, ha!

Reyndi nú aðeins fyrir mér aftur í dag en gekk ekki alveg jafn vel og í gær. En ja, margt smátt gerir eitt stórt sagði maðurinn. Gallinn við mig sem sölukonu er líka að ég er svo ansi heiðarleg, myndi aldrei ráðleggja fólki að kaupa vörur sem mér sjálfri finnst ekki góðar. Og ég ætla bara að halda mig við þann stíl, hvað sem sölulaunum líður:)

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Af hverju á ég aldrei nein svona móment?

Fyrir nokkrum árum var Skodsborg spa ekki nærri því eins stórt og það er í dag. Í dag ganga hlutirnir þannig fyrir sig að fólk tilkynnir komu sína í hótelafgreiðslunni og er þaðan vísað inn í stórt og flott biðherbergi þar sem boðið er upp á te, vatn og ávexti meðan fólk bíður þess að verða sótt af sínum snyrtifræðingi eða nuddara. Ég veit ekki alveg hvernig þetta var í "gamla daga" en þá voru allavega ekki nærri því eins mörg herbergi og fólk tilkynnti komu sína í spa afgreiðslunni.

Eitt sinn mætti þangað maður (köllum hann þann svartklædda) sem átti pantaðan nuddtíma. Það var enginn í afgreiðslunni svo hann stillti sér upp og beið. Stuttu síðar gengur að honum maður klæddur í hvítt frá toppi til táar og stillir sér upp við hliðina á honum. Það var enginn annar á svæðinu svo eftir stutta stund spyr sá hvítklæddi hinn manninn; "Nudd?" Jújú svartklæddi maðurinn tók undir það og saman gengu þeir svo bakvið tjald og inn í nuddstofuna... könnuðust greinilega við sig á staðnum. Þeir snúa baki hvor í annan, eins og vandi er þegar fólk afklæðist, en þegar sá svartklæddi snýr sér við sér hann að sá hvítklæddi er ber að ofan. "Fyrirgefðu" segir hann, "ert þú ekki að fara að nudda mig?". "Ha! Nei! Ert þú ekki að fara að nudda mig?" spyr sá hvítklæddi. Ja nei, ekki hélt sá svartklæddi það nú!

Get ímyndað mér að þeir hafi verið snöggir í fötin og rokið aftur út! Sá hvítklæddi var sem sagt kokkur á hótelinu sem skaust niður í nudd í hádeginu og var bara að brydda upp á umræðuefni við þann svartklædda meðan þeir stóðu svona tveir einir að bíða eftir afgreiðslu;)

Ja sei sei...ef maður væri ekki bundinn þagnarskyldu í vinnunni þá ætti ég nokkrar fleiri sögur í pokahorninu... en ég bíð spennt eftir að gera góðan skandal sem ég má segja frá!

mánudagur, febrúar 25, 2008

Sumir eru bara óheppnir!


Þetta er Elizabeth. Ég vinn með henni. Hún er hálf pólsk, hálf bornhólmsk. Ég skil sjaldan meira en tæplega þriðjung af því sem hún segir, en hún talar endalaust við mig. Segir oft;"Manstu það ekki? Ég sagði þér það í gær!!". Hún á það til að vera soldið spes. Eftirfarandi sögu sagði hún í staffa teitinu á laugardaginn. Ég þurfti að fá helminginn af henni þýdda.

Eitt sinn átti Elizabeth von á Dorte vinkonu sinni og nýjum kærasta hennar í meðferð á Skodsborg. Þetta er seinnipart dags og síðasti kúnninn hennar var umræddur kærasti sem hún hafði aldrei hitt. Hún auðvitað tekur honum opnum örmum og dekrar við hann og eftir meðferðina segir hún; "Við hittumst svo bara á barnum á eftir", því það hafði verið ákveðið. "Jájá!" segir maðurinn. Elizabeth klárar að loka og fer svo á barinn þar sem maðurinn bíður hennar hinn stilltasti. "Og hvað viltu drekka?" spyr hún manninn og hann pantar öl handa þeim. "Hvar er Dorte svo?" spyr Elizabeth og maðurinn svarar því til að hún standi í afgreiðslunni. "Nú við skulum bara ná í hana" segir Elizabeth og maðurinn hlýðir því og saman fara þau fram í afgreiðslu að sækja Dorte.

Vá...ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram með þessa sögu.

Allavega. Elizabeth uppgötvar það þegar þau sækja Dorte að hún hafði farið svona all svakalega mannavillt. Kona mannsins var ekki Dorte vinkona hennar! En ekki gat hún farið að viðurkenna þessi vandræðalegu mistök sín. Nei nei, hún kynnir sig bara og segist hafa haft manninn hennar í nuddi og nú ætli þau á barinn. Svo þau setjast öll saman á barinn og fá sér í glas.

Þegar þarna var komið við sögu var ég um það bil að æla úr mér lungunum af hlátri svo ég missti aðeins úr sögunni. Hvað um það, nokkru síðar kemur hin rétta Dorte á barinn að finna Elizabeth eins og þær höfðu ákveðið, og finnur hana í góðum félagsskap með ölkrús í hendi. Hún spyr auðvitað hvaða fólk þetta sé og þá neyddist Elizabeth til að láta grímuna falla og útskýra þessa furðulegu hegðun sína fyrir aumingja hjónakornunum sem voru neydd á barinn með nuddaranum.

Já, við veitum sko góða þjónustu á Skodsborg. Barferð með snyrtifræðingnum innifalin í meðferðinni!


Heyrði svo aðra ansi góða sögu í dag...hún kemur á morgun;)

laugardagur, febrúar 23, 2008

OMG

Er ég eftirrétta SNILLINGUR eða? Bwahahaha...ég myndi ekki borða þetta þó mér væri borgað fyrir!


föstudagur, febrúar 22, 2008

Bara muna.....

Munið eftir beltunum!



Munið eftir að fara í bað!



Munið eftir að nota sólarvörn!



Munið eftir að borða!




Og munið svo eftir því sem skiptir máli.....

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Allt í góðu sko!

Ég er ekki að standa mig í blogginu. Hef varla kveikt á tölvunni í heila viku. Undur og stórmerki gerast! En nú er ég mætt aftur af fullum krafti...:)

Ég átti ljómandi góða langa helgi, frí í vinnunni frá föstudegi og mætti ekki aftur fyrr en á miðvikudaginn. Ég átti von á heimsókn frá Íslandi um hálf níu leytið á fimmtudagskvöldinu, en eitthvað var íslenska veðrið að stríða mér, svo fimmtudagskvöldi og -nóttu var eytt einhvern veginn svona:



Gott að hafa Marianne og Hawaii gallann innan handar í vonsku veðri:)


Klukkan fimm um nóttina var ég búin að gefa upp alla von og skreið í bólið, en sei sei þá ákvað Ísland að fara í loftið. Af sjálfsdáðum (nota bene) vaknaði ég því klukkan átta og tók á móti gesti góðum upp úr níu. Helginni var svo eytt í glaum og gleði og skoðunarferðir um Kaupmannahöfn og nágrenni...*hóst* .. Neinei helginni var eytt voða mikið í Næstvedgade 6a og nánasta nágrenni;)

Og hver var hinn dularfulli gestur? (Gæti einhver spurt sig..ekki margir).




Nú auðvitað yndið mitt:)


Jæja...búið að taka mig marga tíma að skrifa þessar nokkru línur, brjálað að gera á meðan! Smelli kannski inn færslu á morgun;) Ciao ciao!

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Skrúbbi skrúbbbb...

Þá er vorhreingerningum lokið. Ég get greinilega ekki tekið til án þess að það taki allan daginn. Byrjaði á að taka til og ryksuga, flutti svo húsgögnin horna á milli, ryksugaði aftur, þvoði þvott og þreif og skrúbbaði hátt og lágt eldhús og bað, ryksugaði loftin og veggina, og gólfin svo í þriðja skiptið. Hefði þurft að fá Cillit Bang konuna í flísarnar yfir eldavélinni, en þetta tókst með Ajaxinu. Afkalkaði svo hitakönnuna og skrúbbaði og olíubar stofuborðið.

Núna á ég bara eftir að leggja sjálfa mig í bleyti og þvo af mér köngulóarvefinn, og þá er allt reddí. Maður gæti jafnvel fengið fólk í heimsókn í íbúðina eins og hún glansar núna! Sei sei...

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Blindur er bóklaus maður

Ég var að ljúka við að horfa á myndina "Girl with a pearl earring". Ógurlega varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég las bókina á ensku fyrir jólin og heillaðist algjörlega. Sagan er góð og lýsingarnar svo fallegar. Persónurnar ljóslifandi og hin dulda spenna á milli þeirra skein í gegn án þess að vera yfirgnæfandi. Myndin var hörmuleg. Það vantaði tvo þriðju hluta sögunnar inn í hana. Mér leið eins og ég væri að lesa tuttugustu hverja blaðsíðu bókarinnar meðan ég horfði á myndina. Sagan afbökuð og "dramatíseruð" fram úr öllu hófi, áhrifamiklum atriðum sleppt algjörlega. Og svo er gert ráð fyrir að áhorfandi sé all verulega heimskur. En svona eru kvikmyndir eftir bókum víst.

Er komin með bakþanka um að sjá Flugdrekahlauparann í bíó í næstu viku. Las bókin. Tími varla að spilla þeirri upplifun.