Ma darling gaf mér alveg magnaða sumargjöf, bókina Hugmyndir fyrir sniðugar stelpur. Ég missti mig af ánægju, enda er bókin öll bleik og í blómum og allskonar dúlleríi og fallegum litum.
Í henni eru allskonar sniðugar hugmyndir, eins og titillinn gefur til kynna, og leiðbeiningar um prjón, hekl, þæfingu, blómaútsaum og annað sætt stelpuföndur. Og það var ekki að spyrja að því, mín beint út í Hrísalund og keypti heklunál, prjóna og bleikt og fjólublátt garn, lærði að sauma lítil blóm, hekla loftlykkjur og að fitja upp og prjóna garðaprjón og hef síðan setið sveitt og prjónað og prjónað og prjónað... Ekki er afraksturinn orðinn mikill ennþá en mér fer stöðugt fram, er búin að prjóna mér röndótt stykki sem já, ég veit ekki hvað verður, líklega bara 1/3 af trefli, en það er nú ekki aðal pointið;)
Og það magnaðasta gerðist í gær. Ég sat í þýsk-ömmu-prjónuðu-bleik-röndóttu ullarsokkunum mínum í kósíheitum upp í sófa með grænt te í bolla, prjóna í höndum og tunguna í munnvikinu, þegar ég sé manninn koma askvaðandi inn í stofu með fötu og tusku, leggjast á hnén og byrja að skrúbba gólf og veggi eins og óður maður! Og hann lét ekki þar við sitja. Þegar ég kvaddi til að rölta í vinnuna sýndist mér ég sjá hann í gjörsamlega hverju horni íbúðarinnar í einu, eins og elding kallinn! Og það leyndi sér ekkert þegar ég kom heim í gærkvöldi að þarna hafði kraftaverk átt sér stað; íbúðin hefur sjaldan verið jafn skínandi hrein í hólf og gólf og var ég hálf smeyk við manninn, hélt jafnvel að eitthvað hefði komið fyrir hann og hann þyrfti á hjálp að halda, en svo reyndist ekki vera, hann ætlaði bara að vinna sér inn nokkra punkta;)
sunnudagur, apríl 24, 2005
Allt í gangi í álfheimum
Birt af Gagga Guðmunds kl. 13:02
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|