miðvikudagur, apríl 27, 2005

Gefum ofbeldinu rauða spjaldið

Á síðunni hans Ragnars Hólm er þessa tilkynningu að finna. Sem fyrr hvet ég alla til að mæta.

Fréttatilkynning frá "Birtingu-ungu fólki gegn ofbeldi"

Gefum ofbeldinu rauða spjaldið
Undanfarin misseri hefur aukið ofbeldi í samfélaginu verið mikið í umræðunni. Nú teljum við að komið sé nóg. Við getum ekki setið aðgerðalaus lengur. Við viljum senda skýr skilaboð bæði til stjórnvalda og almennings og vekja landann til umhugsunar um hve stórt vandamálið er. Saklaust fólk hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á ofbeldismönnum sem virðast geta vaðið uppi í samfélaginu án þess að gripið sé til nokkurra aðgerða. Þetta viljum við stöðva!
Við skorum því á stjórnvöld jafnt sem almenning að taka til hendinni í þessum málum. Vandinn verður ekki leystur nema allir leggist á eitt. Við búum til okkar eigið samfélag.
Boðað er til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi á Akureyri nk. föstudag, 29. apríl, klukkan 17.00 á Ráðhústorgi. Bæjarbúar eru hvattir til að mæta tímanlega, gefa ofbeldinu rauða spjaldið og sameinast í stuttri þögn. Tónlistarmaðurinn KK mun einnig spila nokkur lög.
Sýnum samstöðu í verki. Þessum þöglu mótmælum er beint gegn ofbeldi almennt sem hvorki á að þekkjast í fjölskyldubænum Akureyri né annars staðar. Rauðum spjöldum verður dreift á staðnum.
Einnig eru fyrirhuguð mótmæli annars staðar á landinu á næstunni.