Ég gæti sagt: Ókei, þú ert kynþokkafyllsti maður í heimi og mig langar til að ríða þér. En þá minnist ég augna þinna sem mig langar að drukkna í, tryllt, frávita af einmanaleika. |
|
fimmtudagur, janúar 31, 2008
miðvikudagur, janúar 30, 2008
Hjartað opnað
Hringnum þriggja hefur verið snúið við. Í þetta sinnið skal ég svara Drafnar spurningum.
1.Ef þú værir kjóll, hvernig kjóll værir þú?
Ég væri brúðarkjóll. Fáránlegur við flestar aðstæður, viðeigandi aðeins einstaka sinnum.
2. Nefndu 4 atriði sem þú vilt afreka á æfinni.
Ég vil heimsækja allar heimsálfur. Ég vil gera líf einhvers betra. Mig langar að eignast draum og láta hann rætast. Mig langar að prófa að fæða barn, þó ég sé ekki enn viss um að mig langi í eitt slíkt;)
3. Hvað viltu vera að gera þegar þú verður 57 ára gömul?
57 ára gömul..það er ekki mikill aldur. Ég vona allavega ég verði loksins búin að læra að prjóna og hekla! Ef lukkan leyfir hefur mig kannski langað að eignast barn og á ef til vill nokkur af þeim. Ja svei mér þá ef ég á ekki huggulegt heimili, jafnvel góðan mann, og heil á sál og líkama! Eftir 30 ár er ég vonandi að vinna að því að gera heiminn betri. Hvernig sem farið er að því. Maður getur ef til vill gert heiminn í kringum sig betri þó maður geti ekki bjargað öllum heimsins börnum. Aðallega óska ég þess að 57 ára þurfi ég ekki að líta til baka með sorg og eftirsjá heldur með gleði og þakklæti.
4. Hver er þinn mesti kvíði núna og þín mesta tilhlökkun núna?
Minn mesti kvíði er kannski að ég standi ekki undir eigin væntingum. Mín mesta tilhlökkun núna er sjöundi febrúar;)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:41 |
Andvökusálmur
uni þér hver sem má.
Þú hefur mæðumarga
myrkurstund oss í hjá
búið með böl og þrá,
fjöri og kjark að farga.
Fátt verður þeim til bjarga,
sem nóttin níðist á.
Myrkrið er manna fjandi,
meiðir það líf og sál,
sídimmt og síþegjandi
svo sem helvítis bál
gjörfullt með gys og tál.
Veit ég, að vondur andi
varla í þessu landi
sveimar um sumarmál.
Komdu, dagsljósið dýra!
dimmuna hrektu brott;
komdu, heimsaugað hýra!
helgan sýndu þess vott,
að ætíð gjörir gott, -
skilninginn minn að skýra,
skpenunni þinni stýra;
ég þoli ekki þetta dott.
Guðað er nú á glugga;
góðvinur kominn er,
vökumanns hug að hugga;
hristi ég nótt af mér,
uni því eftir fer.
Aldrei þarf það að ugga:
aumlegan grímu skugga
ljósið í burtu ber.
Jónas Hallgrímsson
Birt af Gagga Guðmunds kl. 00:44 |
mánudagur, janúar 28, 2008
Varúð til aðdáenda græns tes
En hvað græns tes hljómar eitthvað asnalega!
En hvað um það. Hollusta græns tes hefur verið rómuð í fjölmiðlum og heilsubókum síðustu ár. Full af andoxunarefnum, vernda gegn ýmsum sjúkdómum og hreinsa líkamann. Ekki dreg ég það í efa og hef ég verið dugleg að drekka það. En flest er best í hófi, það hefur sýnt sig og sannað.
Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að drykkja á grænu tei hafi leitt til lifrarbólgu í fullhraustu fólki. Þetta er að gerast á Íslandi og einnig eru sömu niðurstöður að fást úr rannsóknum utan úr heimi.
Svo ef þú ert að drekka mikið af teinu góða, þá er spurning um að minnka skammtinn aðeins.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:12 |
sunnudagur, janúar 27, 2008
Top model Sweden
Maður á sín gullnu móment... Pastað fræga eldaði ég eina góða nótt fyrir gott fólk. Það var aaaðeins of mikill ostur í því.
Ég þakka Louise vinkonu minni kærlega fyrir að hafa sent mér þetta hreint frábærlega fallega myndband af mér! Í blómaskónum hennar Lou Lou, alltof stórum.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:52 |
laugardagur, janúar 26, 2008
Keðjubréfaspurningaleikurinn
Það er einhver þriggja manna leikur í gangi milli mín, Guðrúnar og Drafnar. Hef ég heyrt;) Í minn hlut kom að svara eftirfarandi spurningum frá Guðrúnu:
1. Hvaða bók hefur breytt þér?
Ég hef lesið alveg ógrynni af bókum á ævinni. Ég veit ekki hvort einhver þeirra hafi hreint og beint breytt mér, en ein minnisstæðasta bók sem ég hef lesið er bókin "Býr Íslendingur hér?", minningar Leifs Muller eftir Garðar Sverrisson sem ég las þegar ég var 14 minnir mig. Leifur Muller bjó í þrælkunarbúðum nasista í Sachsenhausen í seinni heimsstyrjöldinni og segir bókin frá upplifunum hans þar.
2. Við hvaða lag spretturu á fætur og slekkur á útvapinu?
Ef eitthvað lag fengi mig til að spretta á fætur á morgnana þá myndi ég spila það daglega! Annars er ég með svo ferlegan tónlistarsmekk að það eru fá lög sem láta mig slökkva á tækinu. Það er reyndar sýnd hér í sjónvarpinu dönsk sápa sem heitir 2900 Happiness, og þegar titillag hennar kemur í útvarpinu á ég það til að skipta um stöð.
3. Hvað hélstu að þú yrðir þegar þú varst lítil, en verður ekki?
Ég er einföld sál og hef litlar væntingar til lífsins. Eða þá að ég er mjög stórbrotin og flókin sál;) Allavega átti ég mér aldrei neina drauma sem barn sem ég man eftir og á þá ekki enn. Ég lifi einn dag í einu og tek því sem að höndum ber með jafnaðargeði og stundum ekki. Jújú gamall draumur er að verða fornleifafræðingur í Egyptalandi. En ég er enn of ung til að segja að sá draumur muni aldrei rætast.
4. Skemmtileg staðreynd um þig sem ég vissi ekki fyrir?
Ég er opin bók! Vita ekki allir allt um mig? :) Ja, ég er ein af fáum konum sem ég þekki sem skarta mínum upprunalega háralit! Einnig þjáist ég af krónísku tábergssigi og langar mikið í byssuleyfi svo ég geti farið í gæs. Svo langar mig auðvitað ógurlega til að skríða um leynda ganga pýramídanna...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 18:00 |
miðvikudagur, janúar 23, 2008
Hvar er vorið mitt?
Ég er ekki að segja að það sé vont veður í Kaupmannahöfn.. en vorblíðan mín er allavega á góðu undanhaldi!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:05 |
mánudagur, janúar 21, 2008
Sauðir!
Ég er stundum svo heppin að það er með ólíkindum. Borðaði hádegismat seint í dag og vorum við bara fáeinar hræður í mat. Það var þarna albúm með myndum frá árshátíðinni og sökktum við Trine okkur í það. Í miðju albúmi er skondin mynd af einhverri stelpu sem ég hef aldrei séð áður, augun á henni voru vægast sagt skringileg á myndinni, annað rautt af flassinu en hitt alveg matt. "Nei hihihi, en fyndin" segi ég og bendi á myndina. Heyri þá yfir öxlina á mér: "Þetta er ég...". Úbbs...tók ekki eftir neinum fyrir aftan mig! "Óóóó" segi ég, "ertu með sitthvorn litinn á augunum?", spyr ég til að reyna að bjarga mér út úr þessu. Þá pikkar hún á annað augað á sér með nöglinni og segir: "nei, ég er með glerauga". Góð Ragnheiður!
Ég átti þó engan þátt í mestu snilldinni í dag. Það er nýbúið að setja upp glervegg fyrir enda spa gangsins, sem við þurfum að labba fyrir til að komast í bakherbergið okkar. Við Cate vorum með dobbel meðferð saman í dag, förum út úr herberginu okkar og Cate er svo voða mikið að horfa aftur fyrir sig út ganginn að hún gengur beint á og stangar glerið svona líka ógurlega. Úff hvað ég hló...ekki skánaði ég þegar taut heyrist í Cate; "ohh, aftur..."
Ég beið auðvitað eftir henni bakvið vegginn næst þegar hún kom og smellti af henni mynd. Því miður mundi hún eftir að horfa fram fyrir sig.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:34 |
laugardagur, janúar 19, 2008
Helstu janúarfréttir
Sjónvarpsfjarstýringin mín hefur ansi sjálfstæðan vilja. Þegar ég hækka á hún það til að skipta um stöð og þegar ég vil skoða textavarpið þá hækkar hún í sjónvarpinu. Þetta getur verið hin besta skemmtun á einmanalegum kvöldum.
Ég hef verið að taka að mér aukavinnu í janúar vegna blankheita. Nudd í Vigör center, eða í regsnkógaloftslagi í sundlauginni, á hótelinu. Reyndar bara þrjú kvöld, en það gefur smá aur í vasann, þar sem ég er með meira en tvöföld spa laun á tímann þarna;) Svo er ég að vinna með svo fínu fólki að þetta er meiri skemmtun en vinna.
Ég er byrjuð í spinning aftur eftir mikla leti síðan í nóvember. Hef nú ekki mætt mikið en þetta kemur allt.
Íbúðin á Akureyri er heldur betur í góðum höndum. Heiggi kom norður í gær til að aðstoða pa og Gumms við málningarvinnu og er stíf vinna alla helgina. Ég á heldur betur góða að! Hermann smiður og alt mulig mand kemur svo í febrúar og leggur parket, setur upp nýtt baðherbergi og nýjan stiga. Um jólin rifum við niður tvo veggi, baðherbergið að mestu, teppi af gólfum, stigann og hillu- og naglhreinsuðum í hólf og gólf. Trúi ekki öðru en íbúðin verði gríðarlega búvænleg fyrsta mars:) Þá verður hún sett í leigu. Bið fólkið mitt um að taka myndir þegar íbúðin er tilbúin og birti hér.
Annars er fátt að frétta héðan úr vorblíðunni í Kaupmannahöfn og bíð ég bara eftir að janúar verði búinn svo febrúar geti komið með öll sín yndi:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 22:57 |
fimmtudagur, janúar 17, 2008
Draumakonan
Mig dreymir oft og mikið. En síðustu nótt dreymdi mig mjög sterkan og undarlegan draum. Ég gisti á dýni í kjallaranum hjá ma og pa. Það var bjart í herberginu þegar ég vakna við að maríuerla er á vappi allt í kringum mig. Rétt eftir að ég ranka við mér stekkur hún upp á hausinn á mér og fer að byggja hreiður úr hárinu á mér. Ég fylgist með henni í langan tíma í draumnum hvernig hún byggir hreiðrið og tekur hvern lokkinn á eftir öðrum og strekkir á andlitinu á mér meðan hún byggir og byggir. Glæsilegasta hreiður sem ég hef séð. Og ég þreifa fyrir mér og finn hversu vel hún hefur byggt hreiðrið. Pláss fyrir egg og allt. Ákveð þá að fara upp og sýna ma og pa hversu glæsilegt hreiður er á hausnum á mér. Allir dást að hreiðrinu við eldhúsborðið en við heyrum læti niðri. Ég verð hrædd og ekki að ástæðulausu. Upp tröppurnar kemur Hildur kærasta bróður míns og segir að hún hafi haldið að það væri mús í baðskápnum svo hún hafi lamið og lamið en þegar músin var dauð hafi hún fattað að þetta var fugl. Og það var maríuerlan sem hún drap. Og ég grét.
Hver er svo draumaráðandinn mikli???
Birt af Gagga Guðmunds kl. 01:37 |
mánudagur, janúar 14, 2008
Ferðalok
Ástarstjörnu
yfir Hraundranga
skýla næturský.
Hló hún á himni,
hryggur þráir
sveinn í djúpum dali.
Veit ég, hvar von öll
og veröld mín
glædd er guðs loga.
Hlekki brýt ég hugar
og heilum mér
fleygi faðm þinn í.
Sökkvi eg mér og sé ég
í sálu þér
og lífi þínu lifi.
Andartak sérhvert,
sem ann þér guð,
finn ég í heitu hjarta.
Tíndum við á fjalli,
tvö vorum saman,
blóm í hárri hlíð.
Knýtti ég kerfi
og í kjöltu þér
lagði ljúfar gjafir.
Hlóðstu mér að höfði
hringum ilmandi
bjartra blágrasa,
einn af öðrum,
og að öllu dáðist,
og greipst þá aftur af.
Hlógum við á heiði,
himinn glaðnaði
fagur á fjalla brún.
Alls yndi
þótti mér ekki vera
utan voru lífi lifa.
Grétu þá í lautu
góðir blómálfar,
skilnað okkarn skildu.
Dögg það við hugðum,
og dropa kalda
kysstum úr krossgrasi.
Hélt eg þér á hesti
í hörðum straumi,
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
eg borið og varið
öll yfir æviskeið.
Greiddi eg þér lokka
við Galtará
vel og vandlega.
Brosa blómvarir,
blika sjónstjörnur,
roðnar heitur hlýr.
Fjær er nú fagurri
fylgd þinni
sveinn í djúpum dali.
Ástarstjarna
yfir Hraundranga
skín á bak við ský.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Jónas Hallgrímsson
1807-1845
Birt af Gagga Guðmunds kl. 19:18 |
föstudagur, janúar 11, 2008
Ræfillinn
"Þessi nýja sýn hans sprettur af því að hún hefur ummyndast í reiði sinni og sárindum, hann vælir í henni í vörn með sínar barnalegu afsakanir, sýnir hvorki karlmennsku né hlýjar tilfinningar, og hún öskara á móti og gerir honum ljóst að hann sé ógeð, lygari, svikari, og hún vilji aldrei sjá hann meir. Þótt hún sé í raun bara að hrópa: "Elskaðu mig, elskaðu mig," eins og konur gera við þessar aðstæður - fellur Hrútur á prófinu. Ræfildómurinn slíkur að hann gat ekki kropið og sagst elska, gat ekki verið maður. Nú tekur farsinn við.
Þegar konur æpa í örvæntingu að þær vilji aldrei sjá mann meir æpa þær í raun ástarsorg sína og þörf, hann hefði átt að taka hana í fangið, segjast elska hana, sefa hana <...>"
Úr bókinni "Kalt er annars blóð" eftir Þórunni Erlu-Valdimarsdóttur.
Birt af Gagga Guðmunds kl. 20:25 |
miðvikudagur, janúar 09, 2008
Allt í blóma
Ég fékk blómkálssúpu í hádegismatinn í dag. Ekki svona blómkálssúpu úr dufti heldur úr blómkáli. Sem sagt fullan disk að blómkáli í fljótandi formi. Til að orða það pent þá er ekki sniðugt að borða fullan disk af blómkáli þegar maður vinnur á snyrtistofu.
Í kvöldmatnum klukkan hálf fimm var maginn farinn að orga á meiri mat svo ég hljóp niður í Spiseklub til að skella einhverju í mig. Og hvað var á boðstólum? Gulrótasúpa. Svo ég borðaði fullan disk af fljótandi gulrótum. Sem betur fer var ég búin að vinna klukkan fimm og gat farið heim. Og ekki orð um það meir!
Ég tók auðvitað myndavélina með í vinnuna í dag og smellti aðeins af.
Þetta er sem sagt vinnan mín, spa-ið. Reyndar bara gangurinn.
Þetta er hálft herbergi af tíu sem eru í spa-inu.
Claire gella að gera sig klára.
Og Marianne yndið mitt. Gerir lífið bærilegra:)
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:54 |
sunnudagur, janúar 06, 2008
Enn eitt árið liðið??
Ja ég hef greinilega eytt jólunum í eitthvað allt annað en að blogga! Í þessari fyrstu færlsu ársins 2008 ætla ég að brydda upp á nýjung í formi ljósmynda sem ekki eru hálfs árs gamlar að vanda. Ég fékk nefnilega langþráða myndavél í jólagjöf og hef verið óstöðvandi á takkanum síðan.
Ég fékk íbúðina mína afhenta daginn eftir að ég kom til landsins og var nokkrum jóladögum eytt þar við niðurrif með dyggri aðstoð pa og Gumms, hryllilega gaman.
Fyrsta mynd, Gumms fyrir neðan stigann ógurlega.
Önnur mynd, pabbi mundar kúbeinið einbeittur á svip.
Þriðja mynd, stiginn ógurlegi heyrir sögunni til.
Íbúðinni fylgir stór kjallari með lofthæð 180 cm. Fyrrverandi eigandi var mikill áhugamaður um nagla virðist vera. Hérna sést smá partur af gleðinni sem beið okkar, og tók um klukkustund fyrir tvo að naglhreinsa kjallarann.
Hérna má svo sjá afköstin, örugglega eitt kíló af nöglum.
Um áramótin var ég nú ekki alveg á því að fara út á lífið, ansi þreytt eftir allt niðurrifið, en Hugrún er þrjóskari en fjandinn og tókst að gabba mig með í bæinn. Við kíktum fyrst á opið hús hjá Klöru mömmu Nínu og þar tók Jóhann nokkur sálfræðingur þessa ljómandi flottu mynd af okkur stöllum.
Gríman var ekki tekin niður fyrr en klukkan sjö um morguninn og vöktum við mikla athygli karlpeningsins á Sveitta kaffi;)
Lengra verður bloggið ekki að sinni, enda ekki þörf á miklum skrifum með allar þessar myndir í færslunni:) Gleðilegt ár!
Birt af Gagga Guðmunds kl. 16:47 |