mánudagur, janúar 21, 2008

Sauðir!

Ég er stundum svo heppin að það er með ólíkindum. Borðaði hádegismat seint í dag og vorum við bara fáeinar hræður í mat. Það var þarna albúm með myndum frá árshátíðinni og sökktum við Trine okkur í það. Í miðju albúmi er skondin mynd af einhverri stelpu sem ég hef aldrei séð áður, augun á henni voru vægast sagt skringileg á myndinni, annað rautt af flassinu en hitt alveg matt. "Nei hihihi, en fyndin" segi ég og bendi á myndina. Heyri þá yfir öxlina á mér: "Þetta er ég...". Úbbs...tók ekki eftir neinum fyrir aftan mig! "Óóóó" segi ég, "ertu með sitthvorn litinn á augunum?", spyr ég til að reyna að bjarga mér út úr þessu. Þá pikkar hún á annað augað á sér með nöglinni og segir: "nei, ég er með glerauga". Góð Ragnheiður!

Ég átti þó engan þátt í mestu snilldinni í dag. Það er nýbúið að setja upp glervegg fyrir enda spa gangsins, sem við þurfum að labba fyrir til að komast í bakherbergið okkar. Við Cate vorum með dobbel meðferð saman í dag, förum út úr herberginu okkar og Cate er svo voða mikið að horfa aftur fyrir sig út ganginn að hún gengur beint á og stangar glerið svona líka ógurlega. Úff hvað ég hló...ekki skánaði ég þegar taut heyrist í Cate; "ohh, aftur..."

Ég beið auðvitað eftir henni bakvið vegginn næst þegar hún kom og smellti af henni mynd. Því miður mundi hún eftir að horfa fram fyrir sig.