fimmtudagur, janúar 17, 2008

Draumakonan

Mig dreymir oft og mikið. En síðustu nótt dreymdi mig mjög sterkan og undarlegan draum. Ég gisti á dýni í kjallaranum hjá ma og pa. Það var bjart í herberginu þegar ég vakna við að maríuerla er á vappi allt í kringum mig. Rétt eftir að ég ranka við mér stekkur hún upp á hausinn á mér og fer að byggja hreiður úr hárinu á mér. Ég fylgist með henni í langan tíma í draumnum hvernig hún byggir hreiðrið og tekur hvern lokkinn á eftir öðrum og strekkir á andlitinu á mér meðan hún byggir og byggir. Glæsilegasta hreiður sem ég hef séð. Og ég þreifa fyrir mér og finn hversu vel hún hefur byggt hreiðrið. Pláss fyrir egg og allt. Ákveð þá að fara upp og sýna ma og pa hversu glæsilegt hreiður er á hausnum á mér. Allir dást að hreiðrinu við eldhúsborðið en við heyrum læti niðri. Ég verð hrædd og ekki að ástæðulausu. Upp tröppurnar kemur Hildur kærasta bróður míns og segir að hún hafi haldið að það væri mús í baðskápnum svo hún hafi lamið og lamið en þegar músin var dauð hafi hún fattað að þetta var fugl. Og það var maríuerlan sem hún drap. Og ég grét.

Hver er svo draumaráðandinn mikli???