Ég fór í dularfulla sendiferð í hádeginu. Ég keyrði niður á sjúkrahús, gekk inn um B inngang og fór tröppurnar niður í kjallara. Loftið var rakt og heitt og einkennilegur blóðfnykur í lofti. Ég gekk blóðprufuganginn á enda, beygði til hægri og reyndi að opna fyrstu dyrnar á vinstri hönd. Þær voru læstar. Ég valdi aðrar dyrnar til vinstri og kom þá inn á annan gang. Þann gang gekk ég líka á enda þar til ég kom að hurð sem á stóð "Líkherbergi". Ég opnaði dyrnar og gekk inn fyrir í svartamyrkur...HAH nei þarna gabbaði ég ykkur aldeilis! Ég tók hins vegar mjög snögga u-beygju þegar ég kom að líkvagninum sem stóð fyrir utan þetta skemmtilega herbergi og laumaði mér inn í lítið hliðarherbergi. Þar beið mín einskonar frystikassi úr frauði merktur nafninu mínu. Ég tók hann í fangið og hélt sömu leið til baka, grafalvarleg á svip og ansi skuggaleg í bleikum strigaskóm og hvítri úlpu. Starfsfólk spítalans sem ég mætti á göngunum leit mig hornauga og grunaði mig eflaust um glæpsamlegt athæfi, jafnvel stuld á líffærum.
Ég komst þó heil á höldnu út úr bakteríubælinu með feng minn og varp öndinni léttar er ég startaði fjólubláa kagganum...
miðvikudagur, desember 01, 2004
Óupplýst sakamál...
Birt af Gagga Guðmunds kl. 17:26
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|