mánudagur, janúar 31, 2005

Svona er maður blankur

Þið megið búast við að sjá mig æðandi um götur bæjarins næstu daga fótgangandi, því fjólusanseraða eldingin fer í réttingu á morgun. Tryggingafélagið býður upp á afnot af bílaleigubíl á meðan á viðgerð stendur, eða 1800 krónur á dag. Að sjálfsögðu ætla ég staurblanka konan að þiggja monníngana og labba frekar. Verið samt algjörlega óhrædd við að bjóða mér far ef þið sjáið mig ráfa um einhversstaðar; ég er ekki í það miklu heilsuátaki!

Hux og reikn

Eftir þriðju viku aðhalds hef ég lést um 1,6 kíló. Það er ef til vill ekki að marka því ég var viktuð á tóman maga í morgun en í hin skiptin hef ég verið búin að borða morgunmat, og því gæti heildar þyngdartap mitt verið í kringum 1,2 kíló. Það er samt sem áður einu komma tveimur kílóum meira en ég hafði þorað að vona, og er vel að verki staðið þegar miðað er við aukinn vöðvamassa sem vegur upp á móti fitubrennslunni og samkvæmt mínum útreikningum stefnir því allt í að ég verði hörkubeib eftir einungis 7,3 vikur. Þetta eru að sjálfsögðu mjög vísindalegir og nákvæmir útreikningar. Bíðið bara og sjáið!

Þvílíkir hæfileikar!!




Ég er svo hryllilega klár, var að búa mér til þetta yndislega nafnspjald, verður erfitt að finna jafn fallegt spjald nokkursstaðar í heiminum, þetta er hreint einstakt listaverk! *STOLT*

sunnudagur, janúar 30, 2005

Nikotínbölið

Þegar ég hætti að reykja síðasta sumar notaði ég bæði nikótínplástur og tyggjó því ég hélt ég myndi aldrei meika að vera allan daginn vinnandi uppá fjöllum í miðju hvergilandi án rettunnar minnar góðu. Svenni hætti líka og saman jöpluðum við á gúmmíi í pásum í staðinn fyrir hinn venjulega smók sem var eina ánægja okkar eftir nokkurra tíma brölt törn í þúfum og hrauni. Svenni féll síðan og strompaði fyrir framan mig nokkrum dögum síðar, en ég entist og japlaði á stráum og át fiskbúðing og ferskjur. Ég entist í 12 daga.

Núna ákvað ég að hætta bara án þess að nota nokkurt hjálpartæki til þess og ég hef gert merkilega uppgötvun...sem er að sjálfsögðu ekki baun merkileg ef maður spáir í hana; Ef maður notar plástur og tyggjó fær líkaminn reglulega nikótín og kallar því alltaf á sinn skammt á hverjum degi. Maður heldur líkamanum í rauninni húkkt á nikótíninu. En ef maður bara þraukar fyrstu tvo þrjá dagana alveg nikotínlaus, þá hættir líkaminn að kalla á þetta! Svo ef einhver þarna úti er á leið að hætta að reykja ráðlegg ég honum að sýna (óendanlega mikinn) styrk og þrautseigju og halda þessa fyrstu daga út án nikótíns!

(Ekki það að mig langi ekki í sígarettu ennþá og falli ef til vill ... finn bara mun á þessum tveimur aðferðum.)

Bumban strokin

Ég átti sko nammidag í gær! Það var söbbi og söbbakökur með súkkulaði, pizza með hvítlauksolíu, ostabrauðstangir, daimtoppur og súkkulaði! Ætla að stinga upp á því við aðhaldsnámskeiðshaldarann að viktun fari framvegis fram á föstudögum eftir stranga viku í stað mánudaga eftir kolvetnabombu laugardaga.

Annars sótti ég um vinnu í dag með alveg brilliant vinnutíma, 11-15 á virkum dögum. Þá get ég farið í ræktina fyrir hádegi og unnið svo á Gallup á kvöldin. Nánari fréttir af vinnumálum koma á morgun þegar ég er búin að vera ágeng og hringja aftur í kallinn.

...

Jæja, nú held ég að fólk sé hætt að heimsækja síðuna mína. Í hefndarskyni ætla ég að hætta að heimsækja síðurnar ykkar nema ástand fari batnandi.

föstudagur, janúar 28, 2005

Íbúð Soju

Glæsilegur leikferill minn hófst í Stúdentaleikhúsinu árið 2002 þegar við settum upp Íbúð Soju eftir Mikhail Bulgakov. Þetta var alveg magnaður tími, frábærir krakkar sem voru í þessu og skemmtilega spes leikrit sem við settum upp. Það var mynd af mér á plakatinu sem gert var fyrir sýninguna, ef einhver man eftir þessu, ég lék ungfrú Ivanovu, klassa gleðikonu í Rússlandi;) Í framhaldi af leiksigri mínum í Stúdentaleikhúsinu lék ég einnig í sýningu í Borgarleikhúsinu, Puntila og Matti hét hún, en þar lék ég ásamt öðrum úr Stúdentaleikhúsinu atvinnulausan aumingja í gufubaði og dansi. Þetta var allt saman gott og blessað og bara gaman, en leikferillinn tók snöggan endi þegar ég flutti aftur norður, og hefur lítið borið á leiktilboðum síðan þá;) Já, svona er nú lífið, en ég var allavega að útbúa albúm með myndum sem teknar voru baksviðs í Íbúð Soju. Enjoy!

Gítardraumar...

Litli bróðir minn er farinn að læra á gítar. Ég er sjúk, mig langar í gítar! Við brösuðum saman gripum fyrir "Stál og hnífur" eftir fyrsta tímann og tókst ágætlega upp. En ætli það séu ekki til gítarar fyrir lítið fólk? Ég er einmitt einstaklega lítil og með stutta handleggi svo ég rétt næ utan um gítarinn og fingurnir eru of stuttir svo ég nái gripunum með góðu móti. Ósanngjarnt að vera svona lítil. Ætli það sé nokkuð hægt að fara í fingralengingu? Eníveis...mamma sagði svo í dag þegar við Gumms sátum uppí rúmi hjá henni að misþyrma gítarnum að hún væri að spá í að gefa mér bara gítar áður en ég færi til Danmerkur. JEIJ!!! Ég verð örugglega vinsælust á heimavistinni!! Öll kvöld inná herbergi að glamra á gítar og syngja Stál og hnífur með minni yndisómþýðu rödd;) Hehe...

Ég er ennþá reyklaus, alveg hreint ótrúlegt, og stefnir allt í að þetta takist hjá mér. Var að velta fyrir mér hugmyndinni að leyfa mér að reykja á nammidögunum mínum, svona samhliða aðhaldinu, en er ekki að lítast alltof vel á það, ætla að halda mig við þegar ég fæ mér í glas...sem sagt á fimmtudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum...


...

Og fleiri myndir...

Enn fleiri albúm komin. Alveg mögnuð myndasíða sem ég fann mér, hægt að uploada alveg helling af myndum á frekar stuttum tíma og ekkert ves! Nýju albúmin innihalda myndir af íbúðinni minni fyrir og eftir breytingar sem áttu sér stað haustið 2003. Eldhúsmyndirnar eru reyndar frá því að ég flutti inn og margt hefur breyst síðan þá, en annað er nokkurnveginn eins. Enjoy!

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Fleiri myndir

Næsta myndaalbúm er tilbúið, fuuullt af myndum af mér og mínum...enjoy!

JEMINN!!



Rakst á þessa þokkafullu mynd af mér síðan í apríl, í verkunum mínum sem áður hefur verið sagt frá...

Loksins, loksins!

Ég hef útbúið fyrsta myndaalbúmið á nýrri myndasíðu eftir að helv... xpphotoalbum lokaði sinni síðu of allar myndirnar mínar hurfu. Ég skellti inn verkunum mínum og fleiri albúm eru væntanleg á næstunni, þ.e.a.s. ef ég held áfram að vera veik og hætt að reykja...ótrúlegt hverju maður kemur í verk í þessu ástandi;)

*Móðg*

Þessi heimaleikfimi á Stöð 2 er bara fyrir pússís! Ég er stórlega móðguð að manni sé boðið upp á þetta, 10 mínútur af æfingum greinilega ætlaðar fyrir öldunga og fólk sem þjáist af offitu á alvarlegu stigi. Ég fór úr sokkunum, ýtti ryksugunni burt og setti mig í stellingar, fyrst ég ætla ekki í ræktina í dag, og varð fyrir miklum vonbrigðum. "Í fínu formi" jeminn hjálpi mér, þátturinn ætti að heita "Í afleitu formi" ... kannski ástæða fyrir að þátturinn "You are what you eat" er sýndur beint á eftir;)

Hjááálp

Nú fyrst er ég orðin kvefuð. Hefði betur sleppt ræktinni í gær og legið bara undir sæng. Missi því úr vinnu aftur í kvöld sem er ekki gott miðað við fjármálastöðu mína um þessar mundir. Á einhver pening handa mér?

Kannist þið (stúlkur) við súkkulaðifíknina ógurlegu? Þegar það grípur mann óstjórnleg löngun í súkkulaði og maður gerir hvað sem er með brjálæðisglampa í augum til að ná í það, tilbúinn að vaða eld og brennistein. Svo þegar maður er kominn með það í hendurnar veit maður ekki af sér fyrr en stykkið er búið og sæluvíma líður um líkamann....svona mikið langar mig í sígarettu núna, ef ekki aðeins meira;)

Ætla að liggja langt undir sæng í allan dag og væla...

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Kvakk kvakk, mig langar í tóbakk!

Klukkan orðin 11 og enn endist ég..ha! Morgundagurinn verður erfiður og giska ég á að ég eigi eftir að gera eftirfarandi:

-Fara í ræktina
-Fara í sturtu
-Sofa
-Borða
-Ganga um gólf
-Lesa
-Sofa
-Borða
-Naga neglur í fyrsta skipti á ævinni
-Sofa
-Fara í sturtu
-Fara í vinnuna og skítfalla í pásunni því við förum alltaf nokkrar saman út til að spjalla og smóka...

Sem sagt, ef ég stend við að hætta að reykja mun ég missa þau litlu félagslegu tengsl sem ég hef við annað fólk, verða einangruð og einmana og leggjast í þunglyndi. Ahhh what the....það er þess virði! Þar að auki mun ég líklega halda áfram að blogga eins og vitleysingur líkt og í dag svo...ja, veit ekki, hverjum er ekki sama;)

Viljastyrkur...veit ekki!

Þá er ég hætt að reykja, var að drepa í síðustu rettunni. Stóra spurningin er hversu lengi ég endist í þetta skiptið, síðast entist ég í 12 daga ;) Ætla samt að gefa mér leyfi til að reykja þegar ég fæ mér í glas, því annars er tilhugsunin bara óbærileg, að mega ALDREI aftur fá mér smók! Fyrsti áfangi er að endast út daginn...tek einn klukkutíma í einu. Úff, ég er strax farin að guggna á þessu, best að hugsa ekkert of mikið í dag, eyða tímanum bara í sturtu og uppi í rúmi! Hmmm...kannski ég fái mér eina rettu fyrst...

Þá er allt farið að rúlla...

Vá hvað mér finnst ég menntaleg núna...búin að senda póst til menntamálaráðuneytisins (þetta er langt orð!), LÍN og Cidesco í Köben, allt að gerast. Svo sorteraði ég umsóknirnar mínar um stúdentagarða, eyddi út öllum sem kosta meira en 4000 danskar á mánuði, maður getur ekki verið að spreða sem námsmaður, og eyddi einnig öllum nema einni heimavist sem eru ekki með eigin baðherbergi. Þessi eina sem ég eyddi ekki út er nefnilega með ALLT annað, íþróttasal, tölvusal og bara name it, og ekki skaðar hvað húsið er flott! Mér finnst algjör óhæfa að vera ekki með eigið baðherbergi, maður vill nú sitt prævasí, sérstaklega ef maður skyldi verða slappur í mallanum eins og gengur og gerist.

Ég vona innilega að ég komist inn á heimavist og þurfi ekki að leigja mér herbergi/íbúð sjálf, það er svo miklu notalegra að geta opnað fram á gang og hitt fólk í setustofunni heldur en að þurfa að húka einn í herbergi úti í bæ og hafa ekki samskipti við nokkurn mann (af því ég þekki nú ekki marga í Köben). Þá er bara hætta á að maður verði einmana og þunglyndur og uni sér ekki í náminu. Fólk í Danmörku er svo líbó og skemmtilegt að það verður örugglega "innflutningspartý" á heimavistunum þar sem mikið verður um öl og tilheyrandi, og þá er svo auðvelt að kynnast fólki ;) Ja, vona allavega að það verði þannig!
Ég er farin að hlakka svo til að fara að mig langar helst að pakka niður strax!

Idol pælingar

Ég ætla að reyna að drífa mig í leikfimina. Það er Body Pump í dag og ég reiknaði út að ég þyrfti ekkert að anda mjög hratt í þeim tíma og því þyrfti líklega ekki að bera mig út á sjúkrabörum. Ég fór á fætur korter yfir sjö til að keyra manninn í vinnuna og það var ekki fögur sjón sem blasti við mér í speglinum, nefið þrefalt, rétt glitti í augun og húðin hvít. Dem ... fékk mér því AB-mjólk í mallann, saltvatn í nefið, Ventolin í lungun, c-vítamíntöflu í vatn og svart te með hunangi og sit nú og horfi á Ísland í bítið og bíð eftir að verða frísk :o)

Hvað er þetta annars með Ædolið. Í fyrra var þetta alveg gríðarlega spennandi keppni og keppendur voru flestir frábærir og ólíkir karakterar sem heilluðu mann alveg upp úr skónum. Keppendur núna finnst mér bara alls ekkert spes, enginn sem ber af. Brynja litla er auðvitað algjör dúlla en hún er bara að klikka big time á söngnum og svo er hún soldið naive.. Davíð finnst mér reyndar svolítið töff, en mér finnst alveg ömurlegt hvað stjórnendur og dómarar gera mikið úr þyngd hans, endalaust grín, eins og honum finnist alveg ferlega skemmtilegt að vera svona feitur. Það myndi nú eitthvað heyrast í fólki ef stjórnendurnir hefðu beðið Ylfu Lind um að hoppa ekki á sviðinu og dómararnir kölluðu hana trukkinn!!! Það er eins og fólk haldi að konur séu eingöngu viðkvæmar fyrir yfirþyngd en það skipti karlmenn engu máli hvernig þeir líta út. Þeir sem hlut eiga að máli ættu bara að skammast sín og hugsa sinn gang.

Fyrir utan það já þá er eiginlega bara ein stúlka í keppninni sem mér hefur fundist vera að standa sig 100% og það er hún Hildur Vala, ótrúlega sjarmerandi, krúttleg, falleg, hæfileikarík og sexy, allt í einum pakka! Reyndar er þessi Heiða líka að standa sig en hún nær engan veginn til mín, fer reyndar bara í taugarnar á mér. Ef hún byggi í Bandaríkjunum héti hún pottþétt Dolly. Dooooolly....

Margrét Lára finnst mér syngja vel og er soldið spes persóna, hélt mikið með henni í upphafi, en hún er að missa það...heillar mig ekki lengur. Anyways, vona að Brynja litla fari að standa sig betur í söngnum, annars fer að verða dálítið áberandi af hverju hún er alltaf kosin áfram..hmmm... önnur bloggfærsla mun líta dagsins ljós ef ég lifi ræktina af.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Æ æ ó ó aumingja ég....

Það á greinilega ekki við mig að vaka á nóttunni til að sinna veikum ungabörnum, því ég er orðin veik! Vaknaði í gærmorgun alveg dauðþreytt og óglatt og meikaði ekki að fara í aðhaldshópinn minn klukkan hálf tíu svo ég svaf til hádegis og fór í ræktina klukkan tvö í staðinn. Það var ekkert mjög gott að anda hratt og ég hóstaði býsna mikið. Fór í viktun fyrir æfinguna og er búin að missa samtals eitt kíló á tveimur vikum sem er kannski enginn afbragðsárangur en samt, tekur mig þá ekki nema 20 vikur að ná tilsettum árangri og ætti því að verða orðin ofurbeib eftir u.þ.b. 4,5 mánuði eða um miðjan júní. Átti svo að mæta í vinnu klukkan sex í gær en hringdi og tilkynnti mig veika því ég var með verk í lungum, hálsi og höfði, og eins og við manninn mælt, um kvöldmat var röddin farin að klikka, húðina að fölna og hálsinn orðinn sár af hósta. Ég hitaði mér te með hunangi og sótti mér ömmuprjónaða ullarsokka sem hún hafði skilið eftir handa mér hjá mömmu (er orðinn algjör fíkill í heimaprjónaða ullarsokka, á nú orðið um fimm pör í öllum regnbogans litum og munstrum) og pabbi horfði á mig alvarlegum augum og tilkynnti mér það að ég væri hálf blá í framan.

Hringdi svo í vinnuna í morgun til að tilkynna veikindi mín fyrir kvöldið, helvíti að missa svona úr vinnu því ég hef engin veikindaréttindi, og ég þurfti ekki annað en að kynna mig til að vaktstjórinn heyrði hvert erindi mitt var... röddin alveg út í hött!

Er því búin að liggja í rúminu í dag og dreyma tóma steypu, sem er skrítið því ég er ekki með neinn hita, og lesa blogg og drekka hunangste. Ágætt í sjálfu sér nema hvað að ég ætlaði í ræktina og vera voða dugleg, og svo er aðhaldshópur á morgun og föstudaginn sem ég er voða hrædd um að komast ekki í:/ Vona bara að ég missi mig ekki í nammiát að hanga svona heima, verð að reyna að léttast þó ég geti ekki hreyft mig mikið...spurning um heimaleikfimiþættina á stöð tvö?

sunnudagur, janúar 23, 2005

míníkrílamömmó

Helgin aftur búin...skil bara ekkert í þessu. Ég er búin að sukka ágætlega um helgina, í mat það er að segja, og langar ekki mikið í vigtun á morgun...laxerolía, anyone?
Gisti hjá fjögurra barna móðurinni fös og lau, míní krílin eru lasin og ég er henni til aðstoðar með gjafir, skiptingar og aðrar þarfir. Var óendanlega þreytt í vinnunni í gær, svaf samt aðeins meira en múttan, en er öllu hressari í dag þrátt fyrir að ég hafi sofið mun minna í nótt og farið á fætur með eins árs syninum í morgun svo frúin fengi að sofa svolítið. Eftir hádegið þrömmuðum við svo til læknis og fóru krílin í allskyns mælingar og voru eitthvað missáttar við það. Allt leit þó vel út, þær ættu að skána á næstu dögum. Í kvöld og nótt er stefnan svo aftur tekin á mæðrahjálp, ég er að verða ansi sjóuð í þessum mömmuleik, get ekki sagt annað!

föstudagur, janúar 21, 2005

Ekki spurning!


Er þetta ekki fallegasta, flottasta, óþekkasta, kynþokkafyllsta og glæsilegasta kona á jörðinni? Ég veit allavega að ég myndi fórna öllum typpum heimsins fyrir hana;)

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Lífsins alvara...

Mikil lífsreynsla, eða lífsraun kannski, átti sér stað í gær. Ég tók að mér pössun á þriggja vikna tvíburum sem áður hefur verið getið hér, þ.e.a.s. þegar ég sá þá koma í heiminn;) Móðirin fékk að skjótast í bæinn að útrétta, ég gaf öðru krílinu pela og skipti á henni áður en ég lagði hana í rúmið til systur sinnar. Allt gekk eins og í sögu og tíminn leið...tveir tímar liðnir...þá fór mín nú aðeins að óróast, elsti sonur hennar þó kominn heim og við lágum bara yfir sjónvarpinu. Svo versnar nú í því þegar dyrasíminn hringir og hinn sonurinn er mættur frá dagmömmunni, eins árs snáði, og annað míní krílið vaknaði í leiðinni. Þá vill svo vel til að það stendur eitthvað í stúlkunni, hor eða slef eða álíka girnó, með tilheyrandi hljóðum og andleysi, og þvílík skelfing sem greip mig! Svitinn spratt fram og adrenalínið flæddi um allt á billjón, ég hristi krílið til og sló létt á bakið og þá reddaðist þetta nú en ég titraði í svona hálftíma á eftir;) Eins árs snáðinn var á þessum tíma kominn með símann minn í hendina og skreið með hann og lamdi í gólfið, komst svo inn í herbergi stóra bróður og reif allt og tætti, og þá heyrði ég rumsk í hinni stúlkunni...GUÐI SÉ LOF að móðirin sá að sér í þessari bæjarferð og dreif sig heim akkúrat á þessum tímapunkti, annars hefði ég líklega þurft að hringja eftir lækni með stóra róandi sprautu handa mér. Ég er GREINILEGA ekki efni í móður og þetta síðdegi hefur hvatt mig til að taka tvöfaldan skammt af getnaðarvarnarpillum. Þvílíkt sem ég er stolt af konunni að vera að standa í þessu alein, alltaf rósemin uppmáluð og hefur svooo gaman að þessu. Hún er greinilega ekki með þessi gríðarlegu taugaveiklunargen sem ég hef:o)

mánudagur, janúar 17, 2005

Enn ein helgin liðin

Ég átti rólega og góða helgi, nammidagur á laugardaginn, sem varð eiginlega enginn nammidagur, bara stór grænmetissæla á Subway seinnipartinn og pizza í ofni og kartöflubátar um kvöldið. Stalst reyndar í einn Viking Lite í gærkvöldi og er enn með samviskubit og er að hugsa um að þurrka hann út úr matardagbókinni...en það þýðir ekkert að svindla, hann er sestur á vömbina og ég get ekkert þurrkað það í burtu! Horfði svo á næstum allt sem sjónvarpsstöðvarnar buðu upp á um helgina og svaf og las þess á milli. Kláraði æsispennandi Engla og djöfla, las til fimm á laugardagsnóttina, hún er ekki alveg jafn góð og Da Vinci lykillinn en engu að síður mögnuð.

Fór í viktun í morgun og sýndist á tölunum að ég væri búin að missa 600 grömm, hehe, þvílíkur árangur. Tek laxerolíu fyrir næstu viktun!

föstudagur, janúar 14, 2005

...

Þá er ég búin að fá útborgað, borga alla reikninga, fá hærri yfirdrátt til að lifa af mánuðinn, fara með aðhaldskvittunina mína í Félag verslunar- og skrifstofufólks til að fá endurgreidd 35%, og koma inntöku næringar upp fyrir 1000 kaloríur. Það er ekki svo slæmt fyrir einn dag myndi ég segja! Myndaði frunsu af fjárhagsáhyggjum fyrr í vikunni og hún angrar mig.

Fór í þrusutíma í ræktinni í morgun og mældi ég púlsinn minn eftir alllaglega upphitun 180 slög á mínútu. Vona að ég fái ekki slag... Fyrir utan það er harla lítið að frétta nema hvað ég er þreytt í kvöld. Staulaðist samt út í bíl og brunaði í 10-11 til að kaupa skyr, banana og AB-mjólk og ætla nú að fara að tékka hvort úrslit Ædolsins fari að koma í ljós, skríða svo undir feld með englum mínum og djöflum og vakna galvösk í Body Balance í fyrramálið. Nú skal tekið allsvakalega á ummálinu!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Þrekmeistarinn 2005

Þolpróf mikið fór fram í morgun. Annað slíkt mun fara fram að aðhaldsnámskeiði loknu til að sjá framfarir. Ég held ég bara geti ekki toppað árangur minn í morgun þegar ég fór þrjá kílómetra á tuttugu mínútum og fimm sekúndum. Ég sem sagt píndi mig áfram, 30 sekúndur í einu, og hef ekki hlaupið svona síðan í Nam. Sé það núna að ég hefði ekki átt að spila þessu trompi út fyrr en í lok námskeiðs og taka það þá með trompi, hefði auðvitað átt að lötra þetta bara í morgun á svona hálftíma og sýna svo magnaðar framfarir eftir átta vikur! Því eins og eflaust einhverjir vita þá geri ég fátt leiðinlegra en að hlaupa og veit því eigi hvort ég hafi nægan viljastyrk í að hlaupa þrjá kílómetra aftur næstu árin...og ljótt verður það ef ég sýni ekki framfarir heldur afturfarir eftir tvo mánuði í þjálfun og á hollu mataræði. Ég á eftir að blóta mér fyrir þennan dugnað næstu daga!

Eftir þolprófið var svo komið að Body Pump tíma sem ég tók auðvitað með trompi þrátt fyrir mikinn svima eftir öll hlaupin. Gat varla gengið upp tröppurnar heima eftir tímann og hef ákveðið að hreyfa mig ekkert mikið meira í dag. Eitt er víst að ég verð með gríðarlega strengi í öllum vöðvum að minnsta kosti út vikuna.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Flöbbí blöbbí!

Æ hvað það var pííínlegt að fara í fitumælingu í dag. Mætti galvösk í hádeginu og lét fittnes-gyðjuna Guðrúnu mæla mig í bak og fyrir, það var svo sem allt í lagi, en fituprósentan mín var ekki allt í lagi! "Jeminn góður!" var það eina sem kom upp úr mér þegar talan birtist á skjánum, og ég er svo miður mín að ég ætla ekki að gefa töluna upp á alheimsnetið. Gyðjan sagði að það tæki svona 6 mánuði að koma mér úr offitu og niður í það sem kallast má "eðlileg fita en samt svoldið mikil" og nú væri bara að taka á honum stóra sínum. Ja, hún sagði þetta nú ekki beint en hún talaði allavega um 6 mánuði, svo mikið er rétt!

Gerði líka undarlega uppgötvun bæði í dag og í gær...ég er að borða minna en 1000 kaloríur á dag! Kannski er þetta vegna þess að ég hugsa svo mikið um að nú ætli ég að standa mig að hugurinn sé bara kominn inn á eitthvert sveltiprógramm, en allavega eru <1000 kaloríur bara of lítið! En það eru nú bara smá byrjunarörðugleikar, kann ekki alveg inn á þetta kaloríusystem og skammtastærðir ennþá, verð orðin proffi eftir nokkra daga;) En ég mæli enn og aftur með abet.is, áhugavert að fylgjast með því sem maður lætur ofan í sig...

mánudagur, janúar 10, 2005

Beauty is pain...

Þá er aðhald hafið. Mætti í fyrsta tímann í morgun klukkan hálf tíu. Ég er langtum yngst, ætli meðalaldurinn sé ekki um fimmtugt, en mér er sama ég held að þetta henti mér alveg rosalega vel. Við fórum í svona stöðvaþjálfun, lóð, armbeygjur, magaæfingar og hopp og hí og ég var eins og epli í framan rennsveitt og falleg. Á morgun mæti ég svo í mælingu þ.e.a.s. fitu- og sentimetramælingu, og þrekpróf sem byggist á því að ganga, skokka eða hlaupa þrjá kílómetra og taka tímann. Er nú ekki viss um að ég standi mig mjög vel í því! Svo er ég líka byrjuð að halda matardagbók sem ég skila inn fyrst þann 19. og svo aftur í febrúar, verður spennandi að fylgjast með því.

Guðrún Gísla sér um þetta námskeið og benti okkur á heimasíðuna abet.is en þar getur maður haldið svona matardagbók og séð hlutfall próteina, kolvetna og fitu í því sem maður borðar og hversu margar kaloríur maður er að innbyrða, bráðsniðugt. Það eru verðlaun í lok námskeiðis, líklega fyrir bestan árangur, og ég hef einsett mér það að sigra á þessu námskeiði með glæsibrag. Það einhvernveginn hjálpar mér að pína mig áfram, get ég ímyndað mér, að hugsa um að ég sé í keppni og ætli að sigra hinar fitubollunar;)

Á blaði sem ég fékk stendur að ef maður er rosalega duglegur geti maður misst hálft til eitt kíló á viku og þetta eru átta vikur svo ég ætti að geta misst 4-8 kíló...djöfulsins lúxus væri að missa 8 kíló á jafnmörgum vikum, en mér finnst það einhvernveginn óraunhæft nema fyrir þær sem feitastar eru því þær hafa af svo miklu að taka. Ég meina, er það ekki auðveldara fyrir konu sem er 40 kílóum of þung að missa 10 kíló heldur en fyrir konu sem er bara 10 kílóum of þung? Það er hugleiðing dagsins.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Simpson ráðgátan

Ég las þetta á bloggi hjá Finni lostakústi:

"Ef einhver hefur séð Simpsonþátt gærkvöldsins sem sýndur var á stöð 2 þá er sá hinn sami sennilega enn með hjartslátt yfir einni setningunni sem Carl Carlson lét út úr sér þegar ljósastaurar Springfield voru stilltir á of mikinn styrkleika þannig að það var of bjart um hánótt. Hann sagði "This reminds of my Icelandic childhood" sem er lauslega þýtt "Þetta minnir mig á mína stórkostlegu Íslensku æsku"."

Finnur var mjög hugsi yfir þessari setningu þar sem mjög fáir vita af hinum björtu Íslandsnóttum.

Þetta minnti mig á þegar að fyrir nokkrum árum hringir í mig maður sem ég þekki lítið sem ekki neitt, en hafði hitt einu sinni, Stefán Wathne, sem býður mér í partý í Viðey þangað sem hann var búinn að bjóða nokkrum vinum sínum úr Harvard (hann leigði bara þotu undir þá...um 70 manns að mig minnir). Að sjálfsögðu mæti ég á svæðið og kemst að þeirri skemmtilegu staðreynd að flestir þessir vinir hans skrifa sjónvarpsþætti fyrir bandarískt sjónvarp. Annars voru þarna líka dóttir Al Gore, sonur Rupert Murdoch (ekki rétt hjá mér Hugrún?) og fleira gott fólk sem ég kann engin skil á, en ég man að ég tjattaði soldið við nokkra gaura sem skrifuðu handrit að Futurama þáttunum sem þá voru ekki enn sýndir á Íslandi. Ég var spurð hvort ég kannaðist við þessa þætti og ég sagði:"Yes, yes I've seen them on my computer!" Það kom undarlegt lúkk á guttana svo ég forðaði mér bara. Jamm og jæja, datt bara í hug að í hópnum hefðu ef til vill leynst Simpson skrifarar!

Jarðskjálfti!!!

Ég dottaði yfir bók undir sæng og var farin að dreyma að ég væri að borða fullt af súkkulaði og nammi og bleiku og bláu laufabrauði þegar ég vaknaði við að rúmið mitt hristist og loftið nötraði. Það þarf greinilega ekkert minna en jarðskjálfta til að koma mér á fætur því ég drattaðist fram úr og hringdi í mömmu til að spyrja hvort það hefði komið jarðskjálfti eða hvort það væri loksins kominn tími til að leggja mig inn á geðdeild. Það var sem ég hélt, enn er einhver tími í innlögn, því hún fann skjálftann líka. Þetta gerðist núna tíu mínútur í fjögur og kom svo í fréttunum klukkan fjögur, jarðskjálfti fimm á richter, norð-suð-aust-vestan við Grímsey að mig minnir... ;)

Man tvisvar eftir að hafa fundið fyrir jarðskjálfta á Akureyri og bæði skiptin í blokk. Annað skiptið var ég sofandi uppi á fimmtu hæð og vaknaði við að hlutir duttu úr hillunum mínum og allt lék á reiðiskjálfi og hitt skiptið var ég á hæðinni fyrir neðan, sem sagt á fjórðu hæð, og var að spila við eldhúsborð sem tók svo að hristast heldur mikið fyrir minn smekk. Núna er ég á þriðju hæð svo ég er orðin mjög reynd í jarðskjálftamálum!

Byrjuð að telja niður!

Þá er ég búin að sækja um slatta af stúdentagörðum í Kaupmannahöfn. Valdi bara alla sem ég fann í norður- og mið Kaupmannahöfn. Það sem mér líst einna best á er þetta og svo Kollegiegaarden af því þau eru bæði staðsett í hjarta borgarinnar. Herbergin á því síðarnefnda eru mun stærri svo það virkar aðeins meira spennandi. Biðtími eftir herbergi á svona görðum getur verið allt upp í tvö ár ef ekki lengur, en biðtíminn á þessum er 0-9 mánuðir, svo ég ætti að geta komist inn! Bíð spennt eftir svari, en þar sem það getur tekið sinn tíma að berast verð ég að leita mér að öðru húsnæði á meðan, veit bara ekki alveg hvar ég á að leita!
Sendi svo fyrirspurn til LÍN og fékk að vita að námið mitt er lánshæft sem er ekkert nema hið besta mál. Er bara komin með fiðring skal ég segja þér! Eftir nákvæmlega níu mánuði verð ég heimsborgari í Köben...eftir eina meðgöngu eða svo...

Náði í stundatöfluna mína í VMA áðan. Ég sótti um tvö fög en annað þeirra er greinilega ekki kennt svo ég er bara í einu fagi, heilbrigðisfræði. Hefði eiginlega nauðsynlega þurft að komast í líffæra- og lífeðlisfræði 203 því það er fag sem ég verð að vera búin með ef ég ætla að taka sveinspróf hérna heima. Það er reyndar kennt þarna úti í skólanum en ég er ekki viss um að það sé jafn ítarlegt eða að það verði metið hérna heima. Þetta verður bara allt að koma í ljós. Já, ég þarf því nauðsynlega að finna mér einhverja vinnu, helst skemmtilega, sem ég get verið í fram á sumar, en þá tekur hið árlega Vegagerðarpuð við. Fékk bara vinnu í Ríkinu um jólin og nenni ómögulega að hanga í sjoppu eða á leikskóla og það er yfirdrifið nóg að vinna á Gallup 3-4 sinnum í viku...hmmm...any ideas???

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Gleðilegt árið gott fólk!

Ég er búin að hafa það þægilegt eftir áramótin, engin vinna í Ríkinu og byrja aftur á Gallup í kveld. Við Bjartmar fórum til Birnu og Jóa og spiluðum popppunktsspilið á nýárskvöld ásamt Gerði og Árna. Sátum yfir hörkuspennandi spili til hálf fjögur og úrslitin urðu að sjálfsögðu þau að við Bjartmar möluðum þau hin;) Þá héldum við skötuhjú heim á leið með Scrabble undir arminum og spiluðum það til klukkan hálf átta um morguninn...þá var mín farin að ranghvolfa augunum af þreytu og var yndislegt að skríða undir sæng og þurfa ekkert að vakna fyrr en mér hentaði. Langar nú bara að vera lengur í fríi, nenni enganveginn á Gallup á eftir:/

Ég skráði mig á aðhaldsnámskeið hjá Átaki sem byrjar næsta mánudag. Þar með er ég komin í hóp týpískra íslendinga sem allir fara í megrun eftir jólin. Hef aldrei gert þetta áður en það er tími til kominn að fara að falla í hópinn, ekki satt! Stefni á 10 kílóa afföll, en það er soldið tæpt að það náist á átta vikum, svo ég sætti mig við 5 kíló. Ef það næst ekki verð ég brjáluð...jahá...held ég halli mér aðeins fyrir vinnu, búin að vera á ferðinni síðan fyrir hádegi og hef ekki orku í meira. Já, það var bakkað á fjólusanseraða kaggann minn í gær! Var ekkert að æsa mig yfir því svo sem, bara löt og nenni ekki í tryggingarnar...fer á morgun!