þriðjudagur, janúar 25, 2005

Æ æ ó ó aumingja ég....

Það á greinilega ekki við mig að vaka á nóttunni til að sinna veikum ungabörnum, því ég er orðin veik! Vaknaði í gærmorgun alveg dauðþreytt og óglatt og meikaði ekki að fara í aðhaldshópinn minn klukkan hálf tíu svo ég svaf til hádegis og fór í ræktina klukkan tvö í staðinn. Það var ekkert mjög gott að anda hratt og ég hóstaði býsna mikið. Fór í viktun fyrir æfinguna og er búin að missa samtals eitt kíló á tveimur vikum sem er kannski enginn afbragðsárangur en samt, tekur mig þá ekki nema 20 vikur að ná tilsettum árangri og ætti því að verða orðin ofurbeib eftir u.þ.b. 4,5 mánuði eða um miðjan júní. Átti svo að mæta í vinnu klukkan sex í gær en hringdi og tilkynnti mig veika því ég var með verk í lungum, hálsi og höfði, og eins og við manninn mælt, um kvöldmat var röddin farin að klikka, húðina að fölna og hálsinn orðinn sár af hósta. Ég hitaði mér te með hunangi og sótti mér ömmuprjónaða ullarsokka sem hún hafði skilið eftir handa mér hjá mömmu (er orðinn algjör fíkill í heimaprjónaða ullarsokka, á nú orðið um fimm pör í öllum regnbogans litum og munstrum) og pabbi horfði á mig alvarlegum augum og tilkynnti mér það að ég væri hálf blá í framan.

Hringdi svo í vinnuna í morgun til að tilkynna veikindi mín fyrir kvöldið, helvíti að missa svona úr vinnu því ég hef engin veikindaréttindi, og ég þurfti ekki annað en að kynna mig til að vaktstjórinn heyrði hvert erindi mitt var... röddin alveg út í hött!

Er því búin að liggja í rúminu í dag og dreyma tóma steypu, sem er skrítið því ég er ekki með neinn hita, og lesa blogg og drekka hunangste. Ágætt í sjálfu sér nema hvað að ég ætlaði í ræktina og vera voða dugleg, og svo er aðhaldshópur á morgun og föstudaginn sem ég er voða hrædd um að komast ekki í:/ Vona bara að ég missi mig ekki í nammiát að hanga svona heima, verð að reyna að léttast þó ég geti ekki hreyft mig mikið...spurning um heimaleikfimiþættina á stöð tvö?