föstudagur, janúar 14, 2005

...

Þá er ég búin að fá útborgað, borga alla reikninga, fá hærri yfirdrátt til að lifa af mánuðinn, fara með aðhaldskvittunina mína í Félag verslunar- og skrifstofufólks til að fá endurgreidd 35%, og koma inntöku næringar upp fyrir 1000 kaloríur. Það er ekki svo slæmt fyrir einn dag myndi ég segja! Myndaði frunsu af fjárhagsáhyggjum fyrr í vikunni og hún angrar mig.

Fór í þrusutíma í ræktinni í morgun og mældi ég púlsinn minn eftir alllaglega upphitun 180 slög á mínútu. Vona að ég fái ekki slag... Fyrir utan það er harla lítið að frétta nema hvað ég er þreytt í kvöld. Staulaðist samt út í bíl og brunaði í 10-11 til að kaupa skyr, banana og AB-mjólk og ætla nú að fara að tékka hvort úrslit Ædolsins fari að koma í ljós, skríða svo undir feld með englum mínum og djöflum og vakna galvösk í Body Balance í fyrramálið. Nú skal tekið allsvakalega á ummálinu!