mánudagur, september 20, 2010

Endurkoman

Stundum liggur mér svo mikið á hjarta að ég hef ákveðið að byrja aftur að blogga. Núna liggur mér hinsvegar ekkert á hjarta.

miðvikudagur, október 29, 2008

Lærið íslensku!

Ákaflega geta illa þýddar bækur farið í taugarnar á mér. Þessa stundina eru Beðmál í borginni að gera mig gráhærða. Er hverjum sem er heimilt að þýða bækur og gefa út? Eru engar reglur um hversu lélega íslensku er heimilt að gefa út? Það er ekki nóg að kunna ensku til að þýða bók. Það er ekki nóg að geta þýtt orðin, samhengið er jú það sem skiptir máli, maður þarf að umorða enskuna til að úr verði góð íslenska. Ótrúlegt að það séu Íslendingar sem þýddu þesa bók, svo léleg er íslenskan. Það er ekkert flæði í bókinni, hún er byggð upp á orðrétt þýddum enskum setningum.


Önnur bók sem ég grýtti út í horn þar sem hún rykfellur núna er Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn. Aðra eins íslENSKU er erfitt að finna í "íslenskum" bókmenntum. Ég varð hreinlega yfir mig pirruð og gat ekki klárað hana.


Ég ætla að láta fylgja hérna nokkrar setningar úr Beðmálunum:

Heiti kafla númer eitt er eftirfarandi: "Minn óuppnæmi lærdómur: Ást á Manhattan? Ég held nú síður..." Hvað þýðir þetta??? Og að byrja setningu á orðinu "Minn", það er enska.

Bókin byrjaði reyndar að fara í taugarnar á mér á síðunni á undan þar sem svo segir: "Handa Peter Stevenson og Snippy sem beit einu sinni bangsann hans. Og handa öllum vinum mínum." Þarna hefði þýðandi átt að nota orðið "Tileinkað".

Þriðja setning bókarinnar: "Hún var aðlaðandi og hnyttin og komst strax í kynni við einn af hinum dæmigert eftirsóttu piparsveinum í New York." Hinum dæmigert eftirsóttu?? Halló!! Það þýðir ekki neitt!

Þetta eru setningar af fyrstu tveimur blaðsíðum bókarinnar. Ég er komin á þriðja kafla og bókin er hér um bil að fara að veita munknum félagsskap. Ég ætla að þrauka svolítið lengur.

"Þetta byrjaði allt eins og vanalega, nógu sakleysislega." Ætli þetta sé þýðing á "Innocent enough"? Þessi bók er ekki fyrir fólk sem ekki er ágætlega að sér í ensku, því maður verður að hugsa setningarnar á ensku til að skilja hvað átt er við.

Jæja, gæti komið með endalaus dæmi en læt gott heita.


Berglind Steinsdóttir og Ölvir Tryggvason, svei ykkur!!

laugardagur, október 18, 2008

Hjálpum þeim

Núna þegar sumir halda að Kreppan (já, með stórum staf, fyrir þau okkar sem ekki hafa upplifað aðrar kreppur) sé að gera útaf við sig, þá er gott að fá smá raunveruleikaspark með þessu sígilda og fallega lagi til að sjá hvað við höfum það rosalega gott! Ég fæ alltaf gæsahúð og syng fullum hálsi með þegar ég heyri þetta lag. Fallegur boðskapur; hjálpum þeim sem minna mega sín og vinnum að friði á jörð, um lífsréttinn stöndum vörð. Búum til betri heim...

Því þó að fólk fari fjárhagslega illa út úr kreppunni þá á það enn lífið og flestir heilsuna. Um að gera að huga að og muna eftir því sem skiptir mestu máli. Vel var það orðað í einni auglýsingu um að "það besta í lífinu er ókeypis", einhvern veginn svona hljóðaði auglýsingin: "Ég þarf ekki að vakna klukkan 5 á morgnana og ganga 30 kílómetra til að sækja vatn handa mér og fjölskyldunni." Man ekki endapunktinn en hann fjallaði um að við ættum að sjá hvað við hefðum það hryllilega gott.




föstudagur, október 10, 2008

. ætli þetta verði í Skólaljóðum komandi kynslóða ?



Á lítilli eyju við heimsskautahjara
býr heimakær, vansvefta, auðtrúa þjóð.
Hún leit upp til ráðsmanna loðinna svara
sem loforðum öfugt í kok hennar tróð.


Þeir níddust á trausti og trúgirni okkar
– táldrógu sannlega helvítis til.
Og allt sem þeir gerðu, þeir gordrullusokkar
gerðu þeir flottræflum sínum í vil.


En frelsið er háðara boðum og bönnum
en bláeygðir frjálshugar ímynda sér.
Þjóð mín var notuð af nýríkum mönnum
og nauðgað af útrásarvíkingaher.

miðvikudagur, október 08, 2008

Sjóður 9

Þó að presturinn hlæji meðan hann jarðar óvininn þá er ekki þar með sagt að hann hafi komið honum í gröfina. Einhvernveginn þannig var það orðað á Youtube. Er málum þá þannig háttað að Glitnir hefur logið að viðskiptavinum sínum um Sjóð 9? "Var sparifé þúsunda Íslendinga notað, þvert gegn uppgefinni fjárfestingarstefnu sjóða Glitnis í kaup á skuldabréfum Baugsmanna og félögum þeim tengdum? Sjóður 9 varði miklum peningum sjóðsfélaga í að kaupa skuldabréf af félögum eigenda bankans. Stoðir skulduðu sjóði 9 hjá Glitni 18.400.000.000 krónur í lok júní."

Þetta er tekið úr myndbandinu "Glitnir 2. hluti" á youtube.

Maður spyr sig...

Guðni!

Bush er ekki vinur okkar. Pútín er vinur okkar. Við ættum að senda honum þakkarskeyti frá Alþingi. Híhíhí... Guðni rokkar. Endar þetta með hernámi og rússneskri herstöð?

þriðjudagur, september 30, 2008

Bravó!

Mikið rosalega stóð Þorsteinn Már Baldvinsson sig vel í Kastljósinu. Ég stóð mig nokkrum sinnum að því að hrópa á Helga Seljan að þegja og leyfa manninum að tala! Er ekki löngu kominn tími á að taka Davíð Oddsson úr umferð? Stríð hans við Jón Ásgeir Jóhannesson er bara orðið þreytt og ansi áberandi persónulegt.

Getraun vikunnar

Ég var að skoða heimasíðuna eirberg.is og rakst þar á þessa auglýsingu fyrir skurðstofu- og skoðunarhanska fyrir heilbrigðisstofnanir. Ég get engan veginn gert mér grein fyrir hvaða líkamshluti er til sýnis á myndinni sem tilheyrir auglýsingunni. Getur einhver hjálpað mér?


miðvikudagur, september 17, 2008

Sá sem sagði að sumarið væri tíminn var ekki með öllum mjalla. Haustið er tíminn!

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Landið skoðað

Turtildúfurnar skelltu sér í sumarbústað um helgina. Lögðum í hann seinnipartinn á föstudeginum og lentum auðvitað í svaka umferð, allir á leið úr bænum með tjaldvagnana sína. Keyrðum í gegnum Selfoss og Hveragerði, það er svo langt síðan að ég hef komið þangað að ég man ekki einu sinni eftir að hafa verið þar. Við eyddum helginni í að slappa af, borða, spila, sóla okkur, púsla 500 kubba púsluspil og túristast. Skoðuðum Seljalandsfoss, Skógafoss, fórum í fjöruferð á Vík og sáum Reynisdranga og kíktum á lunda í Dyrhólaey á sunnudeginum.

Seinnipartinn á laugardeginum var von á mömmu, ömmu og móðursystur Gunnars í bústaðinn. Þær hringdu um fimm leytið, bíllinn bilaður á Kirkjubæjarklaustri. Við renndum því á Klaustur og sóttum gengið, grilluðum svo og spiluðum Rummikub fram eftir kvöldi. Sem sagt mjög vel heppnuð helgarferð, maður ætti að gera meira af þessu, skoða landið og eiga góðar stundir saman.

Læt fylgja smá ferðamyndir með, að sjálfsögðu.


Ég við Seljalandsfoss.

Gunni í fjörunni við Vík, svaka stelling (takið eftir sandölunum). Reynisdrangar í baksýn.

Gunni hugsandi yfir púslinu.

Einmana lundi í Dyrhólaey.
Ég lofthrædd að mynda fegurðina.

föstudagur, júní 20, 2008

"Leit að birni heldur áfram"

Forsíðufrétt í Morgunblaðinu í dag. Ferðamenn á leið frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum fundu bjarnarspor í moldarflagi. Haft var samband við lögregluna á Blönduósi og bað hún ferðamennina um að teikna upp sporin, og fylgdi hún þeim svo aftur til Hveravalla til að skoða mætti sporin betur. Sporin fundust ekki en leit heldur áfram.

Það æðislegasta við þessa forsíðufrétt er lokamálsgreinin:
"Sævar Einarsson, bónda á Hamri í Hegranesi, dreymdi nótt eina í júníbyrjun þrjá ísbirni. Óvíst er hvort draumur bóndans kemur fram en það skýrist á næstunni."

Elska þegar stuðst er við drauma gamalla bænda úr afdölum í fréttum.



föstudagur, júní 13, 2008

Þeir standa sig strákarnir

Stöðumælaverðir hafa aldrei átt miklum vinsældum að fagna hjá meginþorra manna. Fyrir utan blokkina mína í gettóinu eru bílastæði. Ekki er gert ráð fyrir að heimili eigi fleiri en eina bifreið, hvað þá að einhver sem býr hér fái akandi gesti. Það er nákvæmlega útdeilt einu bílastæði á íbúð og síðan ekki söguna meir. Margir í blokkinni eiga tvo bíla og fá jafnvel fólk í heimsókn annað slagið. Þá bjargar fólk sér og leggur á grasinu, enda meira en nóg pláss þar sem ekki er til neins nýtt.

Einhverjar fregnir fengu stöðuverðir borgarinnar af þessum ósóma, og ákváðu því galvaskir einn morguninn að mæta upp í Breiðholt og sekta alla bíla sem var lagt á grasinu. Ég auðvitað smellti af þeim mynd, enda fannst mér þetta bráðsmellið. Ætli þeir séu að safna í ferðasjóð, farnir að aka um úthverfin í leit að bráð?


fimmtudagur, maí 15, 2008

Hekl

Ráðskonuhlutverkið er ljúft. Vakna klukkan hálf sjö á morgnana til að bera út Moggann, fæ mér morgunmat og halla mér svo aftur fram að hádegi að minnsta kosti. Þá er förinni heitið í heklnám hjá ömmu Láru sem byrjaði í gær, þar sem ég sit með tunguna út úr mér fram eftir degi og hekla dúllur og hlusta á Megas. Er ég alveg að ná tökum á þessu. Í eitt teppi þarf 120 dúllur, svo ég ætti að vera að ljúka verkinu um áramótin. Amma les upp ljóð og bakar vöflur sem ég færi Gumms. Kvöldmaturinn er tilbúinn hjá mér klukkan níu þegar strákarnir koma heim úr ökuskólanum og þá fer nú að koma háttatími aftur.

"Hvað ert þú eiginlega gömul Ragnheiður?" spurði Gumms mig í gærkvöldi. "Uhh ja 28" sagði ég. "Af hverju spyrðu?". "Þú situr fyrir framan sjónvarpið og ert að HEKLA!!"

föstudagur, maí 09, 2008

Förukona

Jæja! Þá hefur húsmóður hlutverkinu verið sinnt af miklu kappi í rúma viku. Það er búið að henda og kaupa, skúra og skrúbba, elda og baka, og fer þetta alveg ljómandi vel í mig. Eins og góðri húsmóður sæmir hef ég gert eldhúsið að mínu yfirráðasvæði og hefur það val mitt ekki valdið neinum ágreiningi á heimilinu;)

Nú er þó komið að því að ég þarf að ferðast norður yfir heiðar til að sinna búskap á heimili foreldra minna í 10 daga meðan þau bregða sér af bæ til útlanda. Húsbóndinn á litla heimilinu í Breiðholtinu verður því að sjá um sig sjálfur á meðan og óljóst er á þessari stundu hvort ég muni koma að honum grindhoruðum og vannærðum eða feitum og sællegum af skyndibitamat þegar ég sný aftur. Skinkuhornin sem ég skil eftir handa honum duga skammt.

miðvikudagur, maí 07, 2008

Upprifjun 2

Þrifin tókust svona ansi vel hjá okkur ma...hún þreif. Ég skrifaði auglýsingar og hengdi upp á útidyrnar í nágrannastigagöngunum, reyna að losna við húsgögnin mín, og pakkaði svo öllu dótinu mínu niður í kassa. Ótrúlegt hvað maður sankar að sér miklu drasli..ég sem hélt ég ætti ekki neitt!

Konan í næsta stigagangi sem selur þvottamyntir keypti fataskápinn minn. Hann var ferlíki. Við bönkuðum uppá hjá nágrannanum, stórum og stæðilegum manni, og báðum um aðstoð við að flytja skápinn, og ég hlóp út á götu til að finna annan álitlegan karlmann í verkið. Ég hef sjaldan eða aldrei hikað við að bera þunga hluti, en þetta taldi ég vera karlmannsverk. Ég fann engan karlmann svo ég hljóp aftur upp til að kanna stöðuna, kem þá að Lars nágranna og gömlu þvottakonunni að bera skápinn niður...jeminn...hún er sextug písl. Ég greip inní og við Lars héldum á skápnum niður tröppurnar og út á götu. Þar gafst ég upp og kallaði á mann sem var að labba framhjá.

Ég endaði svo á því að festa hurðirnar á skápinn og setja hillurnar inn fyrir gamla fólkið, þau voru alveg bjargarlaus!

Við ma lukum svo við að pakka og þrífa daginn eftir og Stína flutti dótið með okkur, bíllinn kominn í lag!

Ma fór til Íslands á sunnudegi og við Stína komum dótinu í flutning á miðvikudeginum. Afgangurinn af miðvikudeginum fór svo í að finna kjól á mig og tók það mig allan daginn. Á fimmtudeginum fór ég í flug til Íslands og er nú búin að vera í viku í Reykjavík. Það er mjög fljótt hlaupið yfir sögu í þessari færslu, en það er af því ég hef verið svo löt að skrifa:)

Og já, framhald fylgir!!