mánudagur, mars 31, 2008

Einar Ben kann að orða hlutina


Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.


Úr Einræðum Starkaðar.

miðvikudagur, mars 19, 2008

Stundum ætti ég að þegja

Heppni mín í matsalnum heldur áfram. Ég fékk ekki hádegispásu fyrr en klukkan eitt í dag og þegar ég kom niður í matsal var maturinn allur upp étinn. En heppna ég, full skál af súpu var eftir! Ég jós á diskinn með vatn í munninum, fékk mér sæti og sökkti mér í súpudiskinn. Jakkiddí jakk! Þetta var súpa frá helvíti, bragðaðist eins og fjósalykt, get ekki lýst því öðruvísi. Ég var að sálast úr hungri svo ég lét hringja upp í eldhús eftir einhverju ætilegu.

Amalie hringdi eftir mat og spurði í leiðinni hver hefði eiginlega mallað súpuna, hún væri horror. Það var kokkanemi sem bar ábyrgð á eitrinu, og kokkurinn sagðist skila þessu til hennar. Eftir óendanlega langan tíma kom svo loksins stelpa og tók tómu bakkana. Ég lét þá þau orð falla að það væri fáránlegt að kokkanemarnir fengju fríar hendur til að sulla saman því sem þeir vildu og væri það ekki nógu gott fyrir veitingahúsið væri því bara hent niður í starfsfólkið. Já fólkið var sammála því og við hlógum að fjósasúpunni sem var að fylla rusladallinn.

Dó! (Homer style). Við föttuðum það þegar stelpan með bakkana strunsaði út að hún hafði gert súpuna! Hún kom svo aftur með tvo bakka, annan með reyktum laxi og hinn með saltkjötsáleggi og majónesi. Jömmí! Ég er að verða hryllilega vinsæl á Skodsborg, eins gott að ég er að fara a hætta;)

mánudagur, mars 17, 2008

Kári kuldaboli

Þegar ég fór í vinnuna í morgun var sólskin og fallegt veður. Þannig hefur veðrið verið síðustu vikuna. Þegar ég leit út um gluggann rétt fyrir hádegi var farið að snjóa. það mætti halda að ég byggi á Íslandi. Á leið heim úr vinnunni lenti ég í hríð og vindi.




Svona á veðrið líka að vera á fimmtudaginn, daginn sem ég á pantað flug til Íslands. Alveg er þetta týpískt. Vonandi verða íslenskir flugmenn undir stýri þann daginn:)

laugardagur, mars 15, 2008

Draumfarir

Mér finnst fátt hallærislegra í bíómyndum en þegar fólk er með martröð og rýkur upp öskrandi og vælandi. Það er mjög svo óraunverulegt. Hver sest upp öskrandi í svefni?

Ja...sei sei. Ég hef upplifað það tvisvar á þessu ári að ég hef vaknað við að ég öskraði. Mig var að dreyma eitthvað frekar óþægilegt og öskraði í drauminum, og vaknaði svo við það að ég var að öskra upp úr svefni. Alls ekki þægilegt. Og miðað við hvað það er hljóðbært í húsinu hérna þá efast ég um að nágrönnunum hafi þótt það þægilegt!

Ég er þó lamb í svefni miðað við uppáhalds svefnfólkið mitt, Marianne og John. Þau eru alveg sér á báti. Reglulega kemur M með yndislegar sögur af þeim skötuhjúum. Um daginn fór M með hitapoka í rúmið. J kom heim um nóttina úr keppnisferð og steinsofnaði fljótt. M vaknaði stuttu síðar við það að J reis upp í rúminu og hristi hana og hrópaði:"Hvað ertu að gera með kartöflupoka í rúminu kona!!!!!!!" Nóttina á eftir var M að dreyma að hún fengi body peeling á Skodsborg. Henni fannst hún ansi klístruð svo hún ákvað í draumnum að fara í sturtu. Hún vaknaði svo í baðherbergisdyrunum ansi gleiðfætt með handleggina út í loftið...hún var jú svo klístruð öll;)

Í sameiningu hafa þau einnig í svefni farið fram í stofu og sótt pullurnar úr sófanum og hlaðið þeim í rúmið. Man ekki alveg hvers vegna.

Ég rifja upp fleiri svefn atvik meðan ég skrifa þetta. Árni maðurinn hennar Gerðar vinkonu minnar átti fyrir mörgum árum eitt gott. Gerður vaknar við það að Árni er að brjóta saman sængurnar þeirra og stafla þeim upp ásamt koddunum.. G spyr hvað hann sé eiginlega að gera. "Ég þarf að gera pláss fyrir dverginn!!" segir Árni. "Dvergurinn verður að hafa pláss!!".

Svenni sem ég vann með á vegagerðinni var mikill svefngengill í æsku...átti það til að fara út í garð og dansa í kringum snúrustaurinn. Ég var sem betur fer laus við allt svoleiðis í okkar mælingaferðum, en ekki var ég laus við talið upp úr svefni. Hjá honum Benna á Kópaskeri gistum við oft í sama herbergi og vaknaði ég reglulega við ræðuhöld. Það eins sem ég man eftir, sökum svefndrunga, er þessi setning...eftir smá ágreining okkar á milli daginn áður;"Þú verður að læra...að fara eftir SKIIPUNUM!!!". Þá hló mín.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Gleði gleði

Vá hvað mig langar að spila Pictionary eftir síðustu færslu. Alltof langt síðan ég hef reynt mig í því. Og Trivial! Spilaði það reyndar aðeins um jólin. Er með einhverja spilasýki núna. Fimbulfamb, munið þið eftir því? Ég held ég hafi spilað það síðast í 10. bekk og er búið að langa að spila það aftur alveg síðan. Lumar einhver á því djúpt inni í skáp? Ég læt mér einstaka Buzz Big Quiz spilakvöld nægja í bili þar til ég hitti fleiri spilanörda:)

Svo er það Ísland eftir viku! Jeij hvað ég hlakka til:) Stíf dagskrá þá fáu daga sem ég verð á Akureyri, en held ég sé búin að gera ráð fyrir öllum í hitting. Ef ég er að gleyma einhverjum þá er bara að leggja fram formlega kvörtun og beiðni um hitting.


Mynd verður nú að fylgja færslunni þar sem ég er orðin svo myndaglöð.
Jeminn hvað menn eru sætir:) Thíhí...

mánudagur, mars 10, 2008

Hámark óheppninnar:

Að draga spjaldið "Múhammeð" í Pictionary.

Breaking news

Lögreglan fann sprengju fyrir utan mosku. Hættuástandi var aflýst þegar lögreglunni tókst með lagni að ýta sprengjunni aftur inn í moskuna.

sunnudagur, mars 09, 2008

Hótel Hørsholm

Ég skrapp í heimsókn til Marianne á föstudagskvöldið. Ég var að koma heim núna. Ég fer sko ekki í heimsóknir nema gera það almennilega. Tilgangur heimsóknarinnar var að slappa af og spila Buzz fram á rauða nótt, sem við og gerðum. Nema hvað, ég er alveg úrvinda núna. Það vildi þannig til að síðasti hokkíleikur tímabilsins hjá John, manninm hennar M, var á föstudagskvöldinu, og klukkan þrjú um nóttina fylltist húsið af hokkígaurum og bjór. Ég var fljót að forða mér inn í rúm með bók, svaf þó furðu vel þrátt fyrir smá læti. Í gær lágum við M svo í makindum fyrir framan sjónvarpið mestallan daginn meðan gleðskapurinn hélt áfram hjá guttunum, þeir komu og fóru allan daginn, mismargir.

Því miður áttaði ég mig ekki á að taka mynd af mér, fékk nefnilega lánuð föt af John sem er tveir metrar á hæð, þar sem ég hafði mætt í kjól og á hælum á föstudeginum. Ég var því í ermalausum gríðarlega víðum bol sem náði mér næstum niður á hné, svörtum joggingbuxum sem voru hálfum metra of síðar og tíu númerum of víðar og ullarsokkum sem náðu mér upp að hnjám; sem sagt einstaklega lekker! Ekta kósí klæðnaður:) Sem betur fer fattaði ég þó að taka mynd af Marianne.

Við M fórum að sofa um miðnætti í gærkvöldi, en ekki svaf ég alveg jafn vel og nóttina áður. Klukkan 3 komu tveir guttar heim og klukkan 6 komu svo næstu tveir, svo ég var meira og minna vaknandi alla nóttina vegna umgangs og blaðurs. Einn naggur villtist svo inn í herbergið mitt hinn hressasti og var honum harkalega vísað á réttan stað.

Ég er því ansi sybbin núna og býst við að ég skríði snemma undir feld í kveld eftir afslöppunarhelgina miklu;)


Hérna er svo John "Rocky" í svarta bolnum og Johan félagi hans.

fimmtudagur, mars 06, 2008

Death becomes her

Ég er að spá í að gerast líksnyrtir. Hvernig fær maður vinnu við það? Hvað er gott að hafa á ferilskránni ef maður vill gerast líksnyrtir? Ætli það hjálpi að kunna að hreinsa, peela, nudda og farða? Já að kunna að farða hlýtur að hjálpa! Hvers konar fólk gerist líksnyrtar? Hvað fær fólk til að velja það starf? Ég meina, gamalt fólk sem deyr...ekki málið..en börn sem deyja og fólk sem deyr í slysum og er kannski sundurtætt? Það hýtur að vera erfitt. En eitthvað við þetta starf virðist heilla fólk. Kannski sporðdreka meira en aðra..?

Jæja þið látið mig vita ef þið heyrið að óskað sé eftir líksnyrti í Reykjavík!

mánudagur, mars 03, 2008

Smá dramasaga

Jæja þá lenti maður í smá drama i vinnunni, loksins! Við Marianne heyrðum í gær hróp innan úr einu herberginu og þutum af stað til að kanna málið. Þar stóð þá Cate með nakta, meðvitundarlausa stelpu í fanginu að reyna að leggja hana á bekkinn. Við skelltum henni í heimatilbúna hliðarlegu og Marianne hljóp fram til að hringja eftir lækni. Ég byrjaði á því að frjósa alveg, vissi ekkert hvað ég átti að gera, en áttaði mig þó fljótt, vafði hana inn í lak og tékkaði púls og öndun. Hjartað sló á fullu og stelpan var kald sveitt og hálf blá grá í framan með hálf opin augun, frekar óhugnalegt. Ég reyndi að vekja hana, kalla nafnið hennar en náði engu sambandi.

Eftir nokkrar mínútur byrjaði hún að skjálfa og ég hélt hún væri að fá krampa. Skjálftinn varð svo meiri og þá varð mín nú smá smeyk! Ég er greinilega ekki góð undir álagi! Ég skildi Cate því eftir með stelpuna og hljóp fram í afgreiðslu til að tékka á læknastöðunni, en það er sjúkrahús á hótelinu og því ekki langt í hjálp. Læknirinn kom, eða hjúkkan, veit ekki hvort hún var, og ég vísaði henni inn í herbergið þar sem stelpan lá og skalf. Stuttu seinna mætti kærastinn svo á svæðið, hann hafði verið í dekri líka, en þá var stelpugreyið byrjað að kjökra svo hún var að ranka við sér.

Ég lét mig hverfa þarna, var með kúnna í fótsnyrtingu og þurfti að lakka neglur. Ég titraði svo að ég veit ekki hvernig mér tókst eiginlega að lakka táneglurnar á henni rauðar;) En hún var mjög ánægð!

Þegar ég kvaddi kúnnann minn sat stelpan svo inni í biðherberginu með smoothie, svo ég andaði léttara.
Hún hafði verið í baði og orðið ómótt og fór úr baðinu því hún þurfti að æla. Við vaskinn hafði hún svo hnigið niður en Cate náð að grípa hana.

Ég er að hugsa um að vinna aldrei á sjúkrahúsi bara!

laugardagur, mars 01, 2008

Life of a saleswoman

Ég er ekki mikil sölukona í mér. Það eru alltaf einhverjar sölukeppnir í vinnunni en einhvernveginn fara þær alveg fram hjá mér. Þegar mikið er að gera, sem er eiginlega alltaf, gef ég mér engan tíma í að selja vörur, oftast þó vegna þess að ég hreinlega nenni því ekki. Það væri svo sem ekki slæm hugmynd að reyna að selja meira því ég fæ 10% í sölulaun, en neinei, engin græðgi á þessum bæ!

Á venjulegum mánuði er ég vön að selja fyrir kannski 100 þúsund krónur, en síðustu tvo mánuði hef ég bara ekkert nennt að standa í þessu, vil bara ljúka vinnudeginum af og komast heim;) Í gær var ég hins vegar greinilega í banastuði í sölumennskunni og seldi fyrir 40 þúsund kall. Góð! Konur geta alveg misst sig í innkaupum þegar þær komast í feitt. Ef ég gerði þetta á hverjum degi væri ég í góðum málum, ha!

Reyndi nú aðeins fyrir mér aftur í dag en gekk ekki alveg jafn vel og í gær. En ja, margt smátt gerir eitt stórt sagði maðurinn. Gallinn við mig sem sölukonu er líka að ég er svo ansi heiðarleg, myndi aldrei ráðleggja fólki að kaupa vörur sem mér sjálfri finnst ekki góðar. Og ég ætla bara að halda mig við þann stíl, hvað sem sölulaunum líður:)