miðvikudagur, mars 30, 2005

Spis dig slank

Kona sem ég þekki var að byrja í mataræðis-lífsstíls-kúradæminu "Spis dig slank" Eða "Borðaðu þig granna(n)". Ég skoðaði matseðilinn og jeminn! Þvílíkt magn af mat sem á að innbyrða á hverjum degi. Ég myndi eflaust liggja afvelta á blístrinu eftir hverja máltíð, það er að segja ef ég hefði tíma til þess á milli mála, maður er örugglega borðandi allan liðlangan daginn til að klára dagskammtinn. 600-1000 gr. af grænmeti á dag, 4 ávextir og 1-2 lítrar af vatni er skylduskammtur ef ég man rétt, og svo auðvitað brauð og kjöt og fiskur og allt tilheyrandi. Hvernig fer maður að því að borða svona mikið af grænmeti á hverjum degi? Ætli ég myndi ekki bara skella því öllu í blandarann og drekka það svo maukað;) Ef konan fer að léttast, sem gæti vel gerst miðað við ótrúlegar árangurssögur sem heyrst hafa, ætla ég reyndar að taka það til íhugunar að fylgja í fótspor hennar. Þetta verður spennandi að sjá!

mánudagur, mars 28, 2005

Hehe

Merkilegt

Þetta er mynd af mánaðargamalli stúlku sem fæddist með aukahöfuð. Þegar stúlkan sýgur brjóst þá hreyfir aukahöfuðið munninn. Skerí! Hérna er greinin.

sunnudagur, mars 27, 2005

The Office

Er þetta að virka? Ameríkanar að endurgera The Office. Hvers vegna þurfa Bandaríkjamenn alltaf að endurgera alla góða hluti og halda að þeir geri þá betur? Mér persónulega finnst frumgerðin oftast betri. Aðalkallinn má eiga það að hann nær töktum þess upprunalega ansi vel, en samt... hvers vegna að leggja það á sig að reyna að hafa alla karakterana eins og orginalinn, hvers vegna þá ekki bara að horfa á hann? Ja, maður spyr sig!

föstudagur, mars 25, 2005

Vönduð vinnubrögð?

Djöfull eru Stöðvar tvö menn miklir skítbuxar. "Ræna" Bobby Fischer og rúnta með hann í 20 mínútur og keyra hann svo aftur að flugvélinni og mynda hann að koma út í annað sinn. Er ekki í lagi? Allt þetta bara svo að hinar fréttastöðvarnar nái ekki myndum af honum eða vitali við hann. Og þá erum við ekki bara að tala um Ríkissjónvarpið heldur margar erlendar stöðvar líka.

"Stöðvar 2 menn, sem höfðu nánast rænt kappanum um stundarsakir komu með Fischer aftur að flugvélinni og mynduðu hann þar einir fréttastofa, þegar hann gekk á land í annað sinn, eftir að aðrir fréttamiðlar voru búnir að pakka saman og horfnir af vettvangi." -mbl.is

Og þetta gátu þeir leyft sér af því þeir borguðu undir hann fjandans einkaþotuna. Þvílík frekja og yfirgangur. Minnir mann bara á vinnubrögð DV! Ég kíkti yfir á Stöð tvö, eftir að hafa horft á komu Fischers á RÚV, og þar var fjallað um þetta í miklum æsifréttastíl, talað við einhverja rugludalla á flugvellinum sem höfðu margt "áhugavert" að segja og ég var snögg að skipta aftur yfir. Veit ekki um framhaldið á Stöð tvö, hvort þeir hafi tekið viðtal við manninn eða hvað, en allavega finnst mér svona framkoma ömurleg, móttökunefndin fékk ekki einu sinni að ræða við hann á flugvellinum því hann var sagður svo úrvinda af þreytu, sem hann var svo bara alls ekkert!

fimmtudagur, mars 24, 2005

Á galeiðuna skal haldið!

Þá er það ákveðið. Papar og Páll Óskar á laugardaginn. Eins gott að það verði gaman. Síðustu um það bil skrilljón skipti sem ég hef farið í Sjallann hef ég nánast rotnað úr leiðindum og rokið á dyr með blóti og skömmum yfir einskis nýtri peningaeyðslu. En DJ Palli hönk getur ekki klikkað er það? Blanda af Eurovision, rokki og disco... já ég er jákvæð fyrir þessu balli! Svo uppveðruð er ég að ég hef lagt það á mig að fara í tvo ljósatíma og keypt mér bleikan bol. Svo eru það bara vöfflur í hárið og bleikdoppótt hárband og þá er ég sko til í píkugelgjutjútt ársins! Jeij jeij! Langar einhvern með?

miðvikudagur, mars 23, 2005

Mér blöskrar!

Við fjögurra barna móðirin skruppum í Bónus með litlu tvíbbastelpurnar áðan. Það mætti halda að mjólkin sé enn gefins miðað við örtröðina sem var þar. Við brutumst áfram með fullt af kerrum og gripum það sem við náðum í og komum loks titrandi, úfnar og sveittar út, hlaðnar pokum og börnum. Það merkilegasta við þessa ferð fannst mér hvað fólk getur verið dæmalaust ókurteist; Það keyrir á mann, svínar á mann, hleypir manni ekki að körfunum (jafnvel þó það séu ungabörn í þeim), treðst og ýtir og enginn biðst afsökunar á einu eða neinu. Ég sjálf var á "fyrirgefðinu" af og til og beið jafnvel eftir að komast að án þess að ýta og troðast. Í bílnum ræddum við svo um kurteisi svona almennt og komumst að því að fólk á bágt! Konan hefur lent í því að vera að koma heim með öll börnin og poka og pinkla, og fleira fólk er á leiðinni inn á sama tíma, en nei það getur ekki séð af tíu sekúndum til að bíða eftir henni og halda dyrunum opnum, heldur skellur hurðin á nefið á henni. Hversu oft hefur maður ekki lent í einhverju svona? Dettur í hug atvik í fyrra er ég kom út úr Ríkinu með kassa af bjór og rauðvín og fleira fyrir afmælið mitt. Ég var búin að opna skottið á bílnum til að vera reddí en það vill svo illa til að það lokast. Það var fljúgandi hálka úti og bílnum lagt í smá halla og ég ætlaði að reyna að opna bílinn og koma varningnum inn en það var bara engan veginn að ganga. Ég var þarna í stökustu vandræðum með að opna bílinn, alveg að fljúga á hausinn með allt í fanginu, og rétt hjá stóð hópur af fólki að spjalla saman og horfa á mig... og ekki datt einum einasta manni í hug að aðstoða mig, ó nei!

En mikið var ég ánægð þegar ég kom svo heim, pirruð útí ókurteisingja, með fimm poka í höndunum og eldhúsrúllur undir arminum, að sjá ókunnugan mann koma stökkvandi til mín til að opna fyrir mig dyrnar...og ekki bara einar dyr heldur tvær!

laugardagur, mars 19, 2005

Þetta er held ég það asnalegasta....

Ég hélt alltaf að það væru einhver mörk fyrir hversu misheppnaður maður gæti verið. Ef þessi mörk voru til þá hef ég nú í eitt skipti fyrir öll hækkað þau svo um munar. Eftirfarandi símtal átti sér stað á Gallup í fyrrakvöld: "Já gott kvöld Ragnheiður heiti ég.." Maður á hinum endanum svarar hinn hressasti:"Já komdu sæl Ragnheiður" Ég held áfram:"Er hún Jóna (eða hver það nú var) við? Maðurinn svarar:"Nei hún er nú ekki við." "Ó" segi ég, "er hún ekki í þessu númeri?" "Neeeeeiei" svarar maðurinn. "Nú þá er ég bara að hringja eitthvað skakkt, afsakaðu ónæðið" segi ég og maðurinn á hinum endanum segir eilítið hvumsa:"Uhhhh já...allt í lagi." "Já vertu blessaður" segi ég og legg á... Eftir á að hyggja fannst mér ég kannast óþarflega mikið við röddina í honum og fer að hugsa málið...ætli ég hafi verið að tala við bróður minn?? Ég tók niður númerið og kannaði það á simaskra.is áðan og viti menn..ég VAR að tala við bróður minn!

Fyrstu viðbrögð mín voru að minnast aldrei á þetta við nokkurn lifandi mann sama hversu mikið ég yrði pyntuð en fór svo að hugsa málið... bróðir minn heldur eflaust að ég sé endanlega farin yfir um og komin á sýru. Svo ég hringdi í hann áðan, kynnti mig og sagðist vera að hringja frá Gallup...og það var mikið hlegið. Ég meina, ég hringi skrilljón símtöl á kvöldi og þegar maður býst ekki við að vera að hringja í einhvern sem maður þekkir, hvað þá skyldmenni með ný símanúmer, getur svona gerst! En samt...jeminn hvað ég er asnaleeeeg! Kannski að hnúturinn í hálsinum á mér sé ekki vöðvabólga eftir allt?

Falleg orð

KANNSKI

Kannski verðum við að hitta ranga fólkið áður en við hittum rétta fólkið,
svo að við kunnum að vera þakklát þegar við hittum loksins þann sem hentar
okkur.

Kannski opnast dyr hamingjunnar á einum stað um leið og þær lokast á öðrum,
en oft störum við svo lengi á lokuðu dyrnar að við sjáum ekki hinar sem
hafa opnast.

Kannski er besti vinurinn sá sem þú getur rólað þér með á veröndinni án
þess að segja orð og síðan gengið í burtu og liðið eins og þú hafir átt
eitt besta samtal ævi þinnar.

Kannski er satt að við vitum ekki hvað við höfum átt þangað til að við
missum það, en það er líka satt að við vitum oft ekki hvers við höfum
saknað fyrr en við öðlumst það. Það eitt að gefa einhverjum alla okkar ást
tryggir ekki að viðkomandi elski okkur á móti. Ekki búast við ást í skiptum
fyrir ást; bíddu þangað til ástin vex í hjörtum annarra og ef það gerist
ekki, skaltu þakka fyrir að ástin hafi vaxið og dafnað í þínu hjarta.

Kannski tekur það einungis mínútu að brjóta einhvern niður, klukkutíma að
láta sér líka við einhvern og einn dag að verða ástfanginn af einhverjum,
en það getur tekið lífstíð að gleyma einhverjum.

Kannski ættir þú að reyna að ná í einhvern sem fær þig til að brosa, vegna
þess að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ekki fara eftir útliti,
það getur blekkt. Ekki fara eftir auðævum, þau geta horfið. Finndu einhvern
sem fær hjarta þitt til að brosa.

Þegar þú fæddist varstu grátandi og allir í kringum þig voru brosandi.

Lifðu þannig að þegar þú deyrð verðir þú brosandi og allir í kringum þig
grátandi.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Anson Mount

Hérna er skemmtilegri mynd af manninum dularfulla. Hann leikur einmitt í þáttunum á Skjá einum núna, held þeir heiti The Mountain? Allavega, gaman að eiga mynd af svona komandi celebrity!

miðvikudagur, mars 16, 2005

Getraun dagsins!

Jæja, kannast einhver við manninn á myndunum sem ég held um rassinn á? Hugrún gæti kannast við hann...hmmm?





Búið og gert

Sama hvað þið segið...ég keypti þessa!

Sjúddírarirei - hei!

Ég ætlaði að vera voða snjöll og skanna inn nokkrar myndir sem ég á liggjandi hérna hjá mér. Það tókst nú ekki betur en svo að það bara tókst ekki neitt og bíð ég því óþreyjufull eftir manninum að koma úr vinnunni til að aðstoða mig. Þetta eru nokkuð skemmtilegar myndir og ég bíð spennt eftir að vita hvort þið kannist við manninn á þeim...!

Fyrir utan þessar stórfréttir úr lífi mínu hef ég aðrar; ég er með mikinn þungaseyðing í höfðinu og velt mikið út á hlið vegna svima, líklega vegna gríðarlegrar vöðvabólgu, að minnsta kosti er ég með óálitlegan hnút í hálsinum bakvið eyrað. En er hvorki með hnút í maganum né kökk í hálsinum. Annaðhvort er þetta vöðvabólga eða heilaæxli, það mun koma í ljós síðar, en líklega þó það fyrrnefnda.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Geisp

Ég er búin að afreka það að horfa á 16 þætti af Desperate Housewives. Ætli það sé öll serían? Allavega er ég orðin hooked og langar í meira... strax!

Ætlaði í ræktina klukkan fjögur og svo í dönskuna klukkan sex. Svaf af mér ræktina og er að reyna að vakna fyrir dönskuna. Ætli ég þjáist af einhverjum sjúkdómi?

Borðaði banana í morgunmat, melónusneiðar í millimál og salatbar í hádegismat. Ætla að reyna að verða aftur voða heilbrigð, það hefur setið svolítið á hakanum að undanförnu. Ræktarferðin átti að vera liður í því.

Og að lokum er síminn minn orðinn falskur. Hann tók upp á því í morgun að vekja mig með einhverju undarlegu lagi sem ég kannast ekkert við, og núna hringir hann bara einhverja þvælu. Ég held hann sé kominn með einhvern vírus og ætla að pakka honum undir sæng litla greyinu.

mánudagur, mars 14, 2005

Ýmislegt á seyði sko!

Ég missti af fyrsta þættinum af Desperate Housewives á fimmtudaginn var, svo kallinn var látinn sækja hann á netið. Að sjálfsögðu sótti hann þá alla seríuna, svo um helgina er ég búin að sitja límd við skjáinn og hef horft á 9 fyrstu þættina...ég verð svo auðveldlega húkkt á svona þáttum að það er með ólíkindum. Sem sagt alveg magnaðir þættir sem ég mæli eindregið með að þið kíkið á. Þess vegna meðal annars er ég ekki búin að blogga síðan á föstudaginn og einnig vegna vinnu og krónískrar leti.

Ég var að reikna út vinnutímana mína í gær vegna skattamála og komst að því að ég vinn 45 stundir á viku sem er rúmlega 100% vinna. Það kom mér á óvart. Gallup er nú ekkert skemmtilegasti kosturinn á vinnumarkaðinum en ég sem sagt vinn þar 20 tíma á viku sem ætti að vera nóg til að fá hvern heilbrigðan mann til að reita hár sitt og skegg. En svona er ég bara dugleg;)

Og já JEMINN aðalfréttirnar mega ekki gleymast! Oprah ætlar að gera þátt um íslenskar konur! Haldiði að það sé nú! Hún kemur að vísu ekki sjálf til Íslands, en hvur veit, kannski að Selma Björns og Ragnhildur Steinunn fegurðardrottning komi í þættinum? Helvedes klíkuskapur að fá að hitta eða koma fram í þættinum hennar Opruh, ha?! Mér finnst hún eigi að gera meiri svona desperate houswives þátt um íslenskar konur og tala við okkur stelpurnar sem erum með músagrátt hár, íbúðina á hvolfi, vinnum innantóma vinnu fyrir lúsarlaun og berjumst gegnum þvöguna í Bónus til að fá fría mjólk fyrir gríslingana okkar. Það myndi lýsa betur hinni almennu íslensku konu en Selma Björnsdóttir tilvonandi tvöfaldur Eurovisionfari með meiru og hin íðilfagra Ragnhildur Steinunn bjútíkvín og sjónvarpsþáttastjórnandi, einnig með meiru.

laugardagur, mars 12, 2005

Æhhhjjjj hvað ég er ánægð :o)

Hún Hildur Vala vann! Var orðin svolítið taugatrekkt vegna þess hve vel Heiða stóð sig í kvöld, átti svo miklu betra lokalag en Hildur að það er engu líkt! Og vá hvað mér finnst það brilljant hugmynd að senda konuna í Eurovision..helst láta hana syngja á íslensku eitthvert gamalt og gott með tilheyrandi sjarma... þessi spastíska með spékoppinn;)

miðvikudagur, mars 09, 2005

Er allt að verða vitlaust?

Núna kostar mjólkin bara krónu í Bónus (og svo afsláttur á kassanum) og ég hef ekki enn gert mér ferð þangað. Nenni því ómögulega og drekk sjaldan mjólk. Getur maður fryst hana kannski? Hugmynd. Annars finnur maður fyrir þessu vinnandi í 10-11 þegar þér hentar...það hentar fáum í dag nema öldungum og öryrkjum. Jeminn held ég verði hreinlega að kíkja í Bónus, hádegistraffíkin í dag var víst geðbiluð segja fróðir.
Byrgi mig kannski upp af kóki, kjúklingi og Pampers fyrir framtíðina, getur ekki verið slæm fjárfesting miðað við eðlilegt verðlag.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Uhh.....?

Finnst fleirum en mér þetta undarlegt??

föstudagur, mars 04, 2005

Ég held ég sé ofurkona

Úff hvað ég er með mikla strengi! Í alsælunni sem fylgdi sentimetramissinum gleymdi ég að segja frá því að ég þurfti að taka seinna þolprófið í gær. Í byrjun námskeiðsins tók ég þolpróf sem ég stóð mig alltof vel í, hljóp þrjá kílómetra á 20:05, svo í gær bölvaði ég mér vel og lengi fyrir að þurfa að gera enn betur, stillti brettið á rúmlega 10 og strunsaði kílómetrana þrjá á 17:50. Eftir átökin var ég viss um að það væri komið að því, ég myndi endanlega gefa upp öndina. En ég lifi enn, húrra! Var pottþétt með besta tímann af öllum kellunum, trúi ekki öðru, spurning um kallana...þeir eru auðvitað miklu stærri en pínulitla ég og taka því helmingi færri skref, ósanngjarnt! Er að spá í að fara að hlaupa svolítið meira á næstunni þó mér þyki það alveg óeeeendanlega leiðinlegt, því þá kannski fer kílóunum eitthvað að fækka hjá mér í samræmi við sentimetrana. Ætla svo að biðja um fitumælingu aftur eftir svona mánuð og halda smá bókhald sjálf bara. Hlakka til að sjá hvort einhverjar breytingar verði, alltaf svo gaman að sjá árangur!

fimmtudagur, mars 03, 2005

Undur og stórmerki

Í dag var lokadagur aðhaldsnámskeiðsins og þar af leiðandi neyddist ég til að stíga á viktina. Ekki ánægjulegar niðurstöður. Búin að missa 1.2 kíló. Kannski vegna þess að ég borðaði feitan hamborgara með frönskum og kokkteil áður en ég fór í ræktina. En ég svekkti mig ekki lengi yfir þessum niðurstöðum heldur fagnaði ákaft sentimetra- og fituprósentamælingunum sem fylgdu í kjölfarið. Fitan er búin að minnka um 2.3 prósetnustig og ekki veit ég hvert allir sentimetrarnir fóru, hef ekki tekið eftir rýrnuninni, en ég sakna þeirra bara ekki neitt! 7 cm af mjöðmum og 7 af mitti... til að fagna þessum árangri býður Átak til hlaðborðs á Stássinu í kvöld. Undarlegt að fagna megrun með áti.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Kastljóss fúsk

Pabbi sagði mér í dag af hverju Kristján Jóhannsson var svona reiður og dónalegur í fræga Kastljósþættinum sem gerði hann að einum hataðasta manni landsins. Málið var nefnilega að hann vildi ekkert koma í Kastljósið til að réttlæta það að hann fengi borgað fyrir vinnuna sína svo hún Eyrún bauð honum að koma og kynna nýja diskinn sinn í staðinn. Þegar viðtalið svo hefst er hann bara yfirheyrður um þennan skitna 700 þúsund kall sem hann fékk fyrir að koma frá Ítalíu og syngja á tvennum tónleikum og ekki svo mikið sem minnst einu orði á diskinn hans. Það er ástæðan fyrir því að hann hélt á disknum sínum og spurði endalaust hvort þau vildu ekki vita eitthvað um hann! Myndi maður ekki verða þokkalega fúll yfir svona framkomu og jafnvel bauna á þáttastýruna að hún væri orðin rauð á brjóstunum þegar maður er hreinlega gabbaður í sjónvarpsviðtal á fölskum forsendum? Ef maðurinn væri ennþá talandi á íslensku hefði hann ef til vill getað orðað hlutina betur og jafnvel minnst á ástæðu þess að hann væri staddur þarna, en greyið maðurinn er auðvitað bara ótalandi á frónskunni;) Ég ætla annars ekkert að fara nánar út í það hvort maðurinn sé almennt kurteis og skemmtilegur dags daglega, en svona er allavega í pottinn búið með þetta fræga sjónvarpsviðtal.
Þetta er fengið eftir mjög áreiðanlegum heimildum nota bene.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Þið eruð svo erfið!

Er þetta eitthvað meira í áttina?
Ég hef nú ávalt þótt hafa svolítið spes skósmekk svo það er kannski ekki að marka mig;) En maður er nú oftast í svörtum buxum í ræktinni og þá er smart að vera í svörtum skóm við, ekki satt? Og að sjálfsögðu verður að vera bleikt í þeim þar sem bleikur er uppáhalds liturinn minn. En ljósir eru líka fínir. Og já, fjólubláu buxurnar mega alveg tínast;)






Og já nú held ég að nóg sé komið af skóm í dag, sammála? ;)

Betri?

Jæja ég er búin að finna fullkomna skó! Hvað segiði um þessa??

Allt er nú til

Ég kannski bara fjárfesti í þessum Angelinu Jolie ljósaskermi í staðinn?


Líkar einhvernveginn betur við þennan samt;) Svaka flott að hafa svona ljós í stofunni ha!?

Þegar stórt er spurt

Í hvorum skónum á ég að fjárfesta?