föstudagur, júní 20, 2008

"Leit að birni heldur áfram"

Forsíðufrétt í Morgunblaðinu í dag. Ferðamenn á leið frá Hveravöllum áleiðis að Þjófadölum fundu bjarnarspor í moldarflagi. Haft var samband við lögregluna á Blönduósi og bað hún ferðamennina um að teikna upp sporin, og fylgdi hún þeim svo aftur til Hveravalla til að skoða mætti sporin betur. Sporin fundust ekki en leit heldur áfram.

Það æðislegasta við þessa forsíðufrétt er lokamálsgreinin:
"Sævar Einarsson, bónda á Hamri í Hegranesi, dreymdi nótt eina í júníbyrjun þrjá ísbirni. Óvíst er hvort draumur bóndans kemur fram en það skýrist á næstunni."

Elska þegar stuðst er við drauma gamalla bænda úr afdölum í fréttum.



föstudagur, júní 13, 2008

Þeir standa sig strákarnir

Stöðumælaverðir hafa aldrei átt miklum vinsældum að fagna hjá meginþorra manna. Fyrir utan blokkina mína í gettóinu eru bílastæði. Ekki er gert ráð fyrir að heimili eigi fleiri en eina bifreið, hvað þá að einhver sem býr hér fái akandi gesti. Það er nákvæmlega útdeilt einu bílastæði á íbúð og síðan ekki söguna meir. Margir í blokkinni eiga tvo bíla og fá jafnvel fólk í heimsókn annað slagið. Þá bjargar fólk sér og leggur á grasinu, enda meira en nóg pláss þar sem ekki er til neins nýtt.

Einhverjar fregnir fengu stöðuverðir borgarinnar af þessum ósóma, og ákváðu því galvaskir einn morguninn að mæta upp í Breiðholt og sekta alla bíla sem var lagt á grasinu. Ég auðvitað smellti af þeim mynd, enda fannst mér þetta bráðsmellið. Ætli þeir séu að safna í ferðasjóð, farnir að aka um úthverfin í leit að bráð?