fimmtudagur, maí 15, 2008

Hekl

Ráðskonuhlutverkið er ljúft. Vakna klukkan hálf sjö á morgnana til að bera út Moggann, fæ mér morgunmat og halla mér svo aftur fram að hádegi að minnsta kosti. Þá er förinni heitið í heklnám hjá ömmu Láru sem byrjaði í gær, þar sem ég sit með tunguna út úr mér fram eftir degi og hekla dúllur og hlusta á Megas. Er ég alveg að ná tökum á þessu. Í eitt teppi þarf 120 dúllur, svo ég ætti að vera að ljúka verkinu um áramótin. Amma les upp ljóð og bakar vöflur sem ég færi Gumms. Kvöldmaturinn er tilbúinn hjá mér klukkan níu þegar strákarnir koma heim úr ökuskólanum og þá fer nú að koma háttatími aftur.

"Hvað ert þú eiginlega gömul Ragnheiður?" spurði Gumms mig í gærkvöldi. "Uhh ja 28" sagði ég. "Af hverju spyrðu?". "Þú situr fyrir framan sjónvarpið og ert að HEKLA!!"

föstudagur, maí 09, 2008

Förukona

Jæja! Þá hefur húsmóður hlutverkinu verið sinnt af miklu kappi í rúma viku. Það er búið að henda og kaupa, skúra og skrúbba, elda og baka, og fer þetta alveg ljómandi vel í mig. Eins og góðri húsmóður sæmir hef ég gert eldhúsið að mínu yfirráðasvæði og hefur það val mitt ekki valdið neinum ágreiningi á heimilinu;)

Nú er þó komið að því að ég þarf að ferðast norður yfir heiðar til að sinna búskap á heimili foreldra minna í 10 daga meðan þau bregða sér af bæ til útlanda. Húsbóndinn á litla heimilinu í Breiðholtinu verður því að sjá um sig sjálfur á meðan og óljóst er á þessari stundu hvort ég muni koma að honum grindhoruðum og vannærðum eða feitum og sællegum af skyndibitamat þegar ég sný aftur. Skinkuhornin sem ég skil eftir handa honum duga skammt.

miðvikudagur, maí 07, 2008

Upprifjun 2

Þrifin tókust svona ansi vel hjá okkur ma...hún þreif. Ég skrifaði auglýsingar og hengdi upp á útidyrnar í nágrannastigagöngunum, reyna að losna við húsgögnin mín, og pakkaði svo öllu dótinu mínu niður í kassa. Ótrúlegt hvað maður sankar að sér miklu drasli..ég sem hélt ég ætti ekki neitt!

Konan í næsta stigagangi sem selur þvottamyntir keypti fataskápinn minn. Hann var ferlíki. Við bönkuðum uppá hjá nágrannanum, stórum og stæðilegum manni, og báðum um aðstoð við að flytja skápinn, og ég hlóp út á götu til að finna annan álitlegan karlmann í verkið. Ég hef sjaldan eða aldrei hikað við að bera þunga hluti, en þetta taldi ég vera karlmannsverk. Ég fann engan karlmann svo ég hljóp aftur upp til að kanna stöðuna, kem þá að Lars nágranna og gömlu þvottakonunni að bera skápinn niður...jeminn...hún er sextug písl. Ég greip inní og við Lars héldum á skápnum niður tröppurnar og út á götu. Þar gafst ég upp og kallaði á mann sem var að labba framhjá.

Ég endaði svo á því að festa hurðirnar á skápinn og setja hillurnar inn fyrir gamla fólkið, þau voru alveg bjargarlaus!

Við ma lukum svo við að pakka og þrífa daginn eftir og Stína flutti dótið með okkur, bíllinn kominn í lag!

Ma fór til Íslands á sunnudegi og við Stína komum dótinu í flutning á miðvikudeginum. Afgangurinn af miðvikudeginum fór svo í að finna kjól á mig og tók það mig allan daginn. Á fimmtudeginum fór ég í flug til Íslands og er nú búin að vera í viku í Reykjavík. Það er mjög fljótt hlaupið yfir sögu í þessari færslu, en það er af því ég hef verið svo löt að skrifa:)

Og já, framhald fylgir!!

sunnudagur, maí 04, 2008

Upprifjun

Á sumardaginn fyrsta byrjuðu miklar aðgerðir í Kaupmannahöfn. Ma var mætt á svæðið til að stýra aðgerðum, og byrjaði dagurinn vel. Stína ákvað að skutla okkur frá Lyngby og heim til mín því við vorum með tösku og kassa og það tæki mun styttri tíma en að fara í lestinni. Þar skjátlaðist henni.

Þegar við erum nýkomnar á hraðbrautina fer bíllinn að hegða sér undarlega. Útvarpið slökkti á sér, ljósin fóru og hraðamælirinn lét undarlega. Nokkrum mínútum síðar gaf bíllinn svo upp öndina og við beygðum út á hliðarreinina. Þar sátum við í nokkurn tíma og hugsuðum málið uns við ma ákváðum að fara út og ýta bílnum. Stína setti í annan gír og þar sem brekka var framundan þá ætti þetta að virka. Við ýtum og ýtum, komnar í andnauð og farið að sortna fyrir augum, gefumst á endanum upp og setjumst aftur inn í bílinn. Ég blásandi og másandi lít þá fram í bílinn...arg...Stínfríður...þú verður að hafa svissinn á!!!

Við ýttum svo bílnum í gang og komumst ansi langt í annarri tilraun...það er að segja inn á mið ljósa gatnamót...vinstri beygja...bíllinn dó inn á miðjum gatnamótum. Við ma orðnar þaulvanar, hentumst út úr bílnum á ferð, næstum oltnar um koll báðar tvær, og ýttum bílnum yfir gatnamótin. Þar skildum við ma Stínu eftir, tókum föggur okkar og héldum af stað gangandi. Náðum svo leigubíl á miðri leið og komumst heim til mín í góðu standi.

Framhald fylgir...