fimmtudagur, desember 30, 2004

Tvö kraftaverk...

Aðeins einn hefur óskað eftir partýi og það er að mínu mati frekar fámennt partý, svo ég hugsa að það verði ekkert af því.
Annars er það helst í fréttum að ég var viðstödd tvíburafæðingu í gær. Ég fór beint eftir vinnu uppá fæðingardeild og klukkan rúmlega tíu höfðu tvær litlar stúlkur skotist í heiminn. Allt gekk rosalega vel og þegar fyrri stúlkan var komin í heiminn fékk ég hana í fangið meðan beðið var eftir þeirri síðari. Um 4 mínútum síðar leit hún dagsins ljós með fæturna á undan en ég var svo hugfangin af litla kraftaverkinu í fangi mér að ég missti eiginlega af þeirri fæðingunni. Dröfn stóð sig eins og hetja, þvílíkt sem ég er stolt af konunni! Fæðingarherbergið var reyndar stappað af fólki; ljósmóðir, hjúkrunarnemi að ég held, fæðingarlæknir og barnalæknir og svo mamma Drafnar og ég...og ég á myndavélinni eins og vitleysingur. Þetta er svo mögnuð lífsreynsla og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera viðstödd, ekki allir sem hafa upplifað tvíburafæðingu! Ég var reyndar líka viðstödd síðast þegar konan fæddi, hún er asskoti dugleg að unga út, og það var líka alveg magnað..ég hef gríðarlega reynslu af fæðingum núna, kannski maður skelli sér bara í ljósmóðurina! Var síðan svo þreytt í dag að ég átti bágt með mig í vinnunni, en sem betur fer var bara nóg að gera, annars hefði ég líklega sofnað sætt á kassanum.

Jamms, svo bara árið að verða búið...og ég vinn síðasta vinnudaginn í Ríkinu á morgun. Segi nánari fréttir á nýju ári, ef ekki á morgun.

sunnudagur, desember 26, 2004

Rop

Þriðja átferðin til ma og pa í röð verður farin klukkan sex. Ótrúlegt hversu mikið magn af mat er hægt að innbyrða á ekki lengri tíma. Byrja daginn á því að skríða fram úr rúminu og upp í sófa með bók í hönd og konfektskál mér við hlið, svo er sturta og fínerí og keyrt til foreldranna í glæsilegan dýrindis mat og fyrsta flokks þjónustu og þar legið yfir imbanum fram eftir kvöldi með köku, ís eða annað gotterí í seilingar fjarlægð. En á morgun er svo gleðin úti því þá hefst maraþon vinnan mín aftur, 10-22 mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Fimmtudag 10-20 og föstudag 9-13. Eftir það fæ ég hugsanlega tveggja daga frí sem ég hyggst nota í svefn og jafnvel smíðavinnu. Einhver með plön fyrir gamlárskvöld annars? Eða á ég að bjóða í teiti? Kannski bara að bjóða Teiti?

Jóla hvað?

Jólin gengin í garð og ég vel södd og sofin. Svaf í tólf tíma án þess að rumska síðustu nótt, enda mikið þreytt eftir vikuna. Fékk góða gæs og góðar gjafir í gærkvöldi, Bátur með segli og allt eftir Gerði Kristnýju og Engla og djöfla eftir Dan Brown höfund Da Vinci lykilsins...sem ég fékk frá Bjartmari en ég gaf honum einmitt sömu bók. Ég grunaði hann um að hafa bara gefið mér bókina sem hann langaði í en hann þvertók fyrir það! Fékk svo partýpönnu, svona sem maður stingur í samband og getur svo eldað á bara í stofunni og brætt gumms á svona litlum auka plöttum sem fylgja með..hmmm..get the idea? Einnig fékk ég eldfast mót, geggjaða heimaprjónaða háleista, bleik og blá handklæði merkt okkur skötuhjúum með nafni og stjörnumerkjum og tvö ljósker undir kerti. Allt gjafir sem koma að góðum notum. Er hálfnuð með Bátur með segli og allt og hún er alveg ágæt skemmtun, og næst á dagskrá er Englar og djöflar, mín eða mannsins, hinni verður skipt;)
Já þetta voru góð bókajól, gaf ma, pa, Gumms og kallinum öllum bækur, sá þá leið besta í slæmum fjárhagsmálum, því annars hefði ég sko viljað gefa þeim ýmsilegt annað, það væri sko ljúft að vera fjáður, stefni á það í framíðinni!

Annars óska ég ykkur bara öllum gleðilegra jóla og gleðilegs árs og þakka fyrir það sem er að líða...kom mér nefnilega ekki í að skrifa jólakort, var of þreytt og löt;)

mánudagur, desember 20, 2004

Uppeldisleysi

Það komu þrír krakkaræflar í Ríkið í dag að biðja um eitthvað á tombólu. Við sögðum þeim að við bara mættum ekki gefa neitt á tombólur. Þá hvíslaði stelpan einhverju að öðrum stráknum og spyr mig svo: "Talarðu norsku?". "Nei" sagði ég, "en ég tala dönsku". Hún spurði Gunna á næsta kassa hins sama og hann svaraði neitandi. Þá strunsaði hún út og hrópaði "JEVLA KUJ" (veit eigi hvernig skal stafsetja það)!! Það er nú ekki flókið að þýða það yfir á DJÖFULSINS BELJA, svo ég hrópaði á eftir henni að hún fengi nú örugglega ekki mikið með þessu móti. Mest langaði mig að stökkva á eftir henni, grípa í hnakkadrambið á henni og löðrunga hana duglega. Þoli ekki hortuga krakkagemlinga.

sunnudagur, desember 19, 2004

Æm bakk..

..allavega í bili. Nenni engan veginn að blogga þegar ég er að vinna svona mikið, gerist hvort sem er fátt markvert. Fékk reyndar 10 í líffæra- og lífeðlisfræðinni, get ekki annað en verið sátt við þessar einkunnir mínar. Keypti jólagjafirnar, gjafapappír og límband í gær, svo ég þarf ekki að stressa mig á því að þurfa að fara úr vinnunni til að redda því. Gott að eiga góðan yfirdrátt þessi jól, hef aldrei lent í því áður að vera blönk um jól og það er EKKI gaman skal ég segja þér, er farin að kvíða fyrir janúar því ég sé fram á stóra reikninga..hmpfff.. ekki mjög gleðileg jól á kúpunni! Það er sko enginn fjandans jólaandi og gleði í hjarta sem er allt sem þarf, það segja bara þeir sem eiga nóg af peningum.

mánudagur, desember 13, 2004

Jehhh heeee...

Mér tókst að ljúka prófum án teljandi skaða, það er gott. Er glöð að þurfa ekki að leggja fleiri latínunöfn á minnið fyrr en í janúar, en ekki hefur betra tekið við. Núna mun ég vinna alla daga fram að jólum í Ríkinu og einnig á Gallup svo vinnudagurinn minn verður ca. 12 tímar nokkra daga vikunnar en styttri aðra daga..verst að ég á eftir á að kaupa jólagjafirnar, er ekki að sjá það fara að gerast á næstunni:/ Vesen með þessar jólagjafir annars, ég er alfarið á móti þeim. Miklu frekar vil ég gefa gjafir á einhverjum öðrum tímum ársins bara þegar manni dettur í hug og gefa þá eitthvað sem fólk virkilega vantar. Mættum taka okkur Vottana til fyrirmyndar að því leyti. Maður eyðir stórfé í að reyna að finna eitthvað sem maður getur ímyndað sér að viðkomandi langi í, bara af því að þetta er hefð.

Ég fór í Ríkið beint eftir próf í morgun...til að vinna nota bene...og ég var í svo miklu spennufalli eftir prófið að ég hélt mér varla vakandi. Þar að auki var ekkert að gera og ég geispaði því vikuskammtinn í dag. Ljúúúúft að vera búin í prófum!!

Hey, niðurstöður Gallup könnunar um áhrif umferðarauglýsinga á fólk í fréttunum núna..ég hef gríðarlegan áhuga á svona niðurstöðum eftir að hafa þurft að spyrja milljón manns að hinum ýmsu málefnum. Já..held að Lite-inn sem ég keypti til að prófa eftir vinnu sé farinn að svífa ískyggilega á mig, og svo er kjötbollu ilmurinn farinn að svífa til mín, best að hætta þessu bulli. Þokkalegt að sitja með öller og blogga meðan kallinn eldar...þessi elska!

Þvílíkur dugnaður

Ég er að verða alveg snarvitlaus í heilanum - encephalon núna. Er búin að læra í allan dag, eða frá því ég vaknaði um hádegi, og var að loka bókum rétt í þessu. Hringdi að sjálfsögðu í kennarann og bað um aukatíma og var hann haldinn frá þrjú til hálf fimm... hehe engar áhyggjur ég er ekkert að snappa, þetta var ákveðið fyrirfram, það átti bara einhver að hringja í hann til að minna hann á þetta, og að sjálfsögðu þorði ég ekki annað en hringja. Fór svo eftir aukatímann og lærði á Línu til hálf átta en þá fór staðurinn að fyllast af fólki svo ég skundaði heim og horfði að sjálfsögðu á lokaþáttinn af Króníkunni áður en ég opnaði bækurnar aftur. Og svo er próf klukkan 8:15 í fyrramálið, er alveg að deyja ég hlakka svoooo til...ehemmm...

Annars var jólahlaðborðið í gær alveg meiriháttar gott, forréttahlaðborð, aðalréttahlaðborð og eftirréttahlaðborð, vá hvað er hægt að verða saddur á stuttum tíma! Það var svo gaman hjá okkur á borðinu að við stuðboltarnir, þrjú pör, sátum þar til allir gestir voru farnir og meira að segja starfsfólkið líka, en þá ákváðum við að best væri að koma sér heim, enda klukkan orðin rúmlega eitt! Við hlógum svo hryllilega mikið um kvöldið að mig dauðverkjaði í kjálkana þegar ég kom heim. Þetta var því alveg nauðsynlegt til að gleyma próflestrinum í smá stund, og það besta var að við borguðum ekki krónu fyrir þetta, gerist ekki betra!

Og svo er það bara cerebrum, cerebellum, mesencephalon og svo framvegis í draumum mínum í nótt.

laugardagur, desember 11, 2004

Allt að verða vitlaust

Vá, er ég ekki búin að blogga síðan á miðvikudaginn? Þetta gengur að sjálfsögðu ekki og mun ég reyna að bæta úr þessu.

Ég breytti til á fimmtudaginn og fór á Karólínu til að læra. Það gekk svona líka glimrandi vel, sat í tvo tíma og lærði allan tímann, samanlagt meira en ég er búin að læra alla síðustu viku held ég hreinlega, fæ mig bara alls ekki til að læra ef ég er heima. Brunaði svo niðureftir áðan full tilhlökkunar að sökkva mér í spekina en þá er bara lokað og það opnar ekki fyrr en klukkan tvö, sjeise! Er því komin heim aftur og eins og við manninn mælt, er komin á netið og get ekki hugsað mér að opna bók! Reyndi það áðan en fékk mig ekki til að lesa, það svífur á mig einhver óskiljanleg þreyta, heilinn hættir vitsmunastarfsemi, augun í mér ranghvolfast og gott ef það læðist ekki smá slef niður munnvikið. Ætla á Línu á eftir, það er nokkuð ljóst! Það er líka svo góður lærdómsandi þar því fleiri en ég eru að nýta sér þetta og leggja undir sig heilu borðin, snilld!

Var að vinna í Ríkinu í gær frá 10-19 og var það hin ágætasta skemmtun, hefði helst átt að vinna í dag líka en stúlkan sagðist þurfa að læra svo mikið fyrir próf á mánudaginn að hún mætti eiginlega ekki vera að því. Það er alveg spurning um að fara að huga að því...hmmmm...

Sendi manninn annars í fótsnyrtingu áðan, sem var kannski ekki svo góð hugmynd því nú vill hann að ég nuddi á honum fæturna eins og snyrtifræðingurinn gerði. Augljóslega verður hann þó fyrst að sýna mér, á mínum fótum, hvernig hún gerði svo ég nýt kannski góðs af;)

Í kvöld mun svo parið skunda til jólahlaðborðs á hótel KEA og éta á sig enn einn keppinn. Ekki veitir af, maður er nánast að hrynja úr hor hérna múhahahaha...

miðvikudagur, desember 08, 2004

Bachelorette

Ég er búin að vera miður mín yfir því að Americas next top model er búið en gladdist mikið í kvöld þegar ég sá að The Bachelorette hefur tekið við! Það þarf ekki mikið til að gleðja mitt litla hjarta;) Ekki spillir fyrir að hin yndislega og stórglæsilega Meredith er piparpían, hún er eitthvað svo æðisleg. En er ég orðin alveg rugluð eða voru virkilega fjórir eða fimm af piparsveinunum lyfjasölumenn? Er það sem sagt málið í dag, hipp og kúl? Ja svei mér, þarf að kíkja oftar í apótekin!

Það hlaut að koma að því!

Gyðjan mín loksins komin á rétta braut ;)

Einbeiting óskast

Núna er ég búin að lesa um 80 blaðsíður í líffæra- og lífeðlisfræðinni og hvað hef ég lært af því? Jú, þetta:

"Örlítið af andrógenum (karlvökum) og östrogenum (kvenvökum) kemur frá nýrnahettuberki bæði hjá körlum og konum. Undir eðlilegum kringumstæðum er hér um mjög lítið magn að ræða þannig að áhrifin á líkamann eru lítil. Æxli taka stundum að vaxa í berkinum og gefa þau frá sér margtfalt magn vaka, einkum af androgenum og þá verða til skeggjuðu frúrnar sem vinsælar voru í hringleikahúsum fyrri daga."

Ég held að þetta hafi verið það eina á þessum 80 blaðsíðum sem ég þurfti ekki að lesa fimm sinnum til að ná. Þá er bara að hefjast handa að nýju og lesa alla bókina, 190 blaðsíður, og jafnvel glósa svo ég muni eitthvað af þessum 7000 latínuheitum, og reyna að einbeita mér í þetta skiptið. Ég var sko næstum farin að þrífa hjá mér klósettið áðan til að þurfa ekki að lesa, en lét mér nægja að setja í vél og hengja upp.

Spurning dagsins: Ætli maður geti hreinlega drepist úr leti?

Harka

Ég er engan veginn að standa mig í lærdómnum...slugsast um. En nú ætla ég að taka mér tak og læra og ekki fara í tölvuna fyrr en í kvöld! ... eða sko seinnipartinn ... sem er núna á eftir ... um hádegisbil myndi ég segja, það dimmir svo snemma á þessum árstíma.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Í anda jólanna...

JÍHAAAAAAAAA!!!!

Múhahahaha jíha og jeij jeij ég fékk 10 í sýklafræði!!!!!! Segið svo að það sé asnalegt að senda kennaranum sínum bréf, ha! Held þetta sé eina tían mín fyrir utan dönskutíur síðan bara í grunnskóla...ef ég fékk þá einhverntíma tíu þá... jahá ég er sko allavega ekkert smáááá ánægð!

mánudagur, desember 06, 2004

Litla fólkið...framtíð heimsins

Ég fór á fætur klukkan 10 í morgun til að koma eldri grísnum hennar Birnu í leikskólann því sá yngri var kominn með gubbupest. Ef hún hefði ekki hringt í mig væri ég líklega ennþá sofandi en það er önnur saga. Ég nefnilega sofnaði aftur klukkan hálf eitt og var að skríða fram úr, þetta fer að verða sjúklegt ástand!

En það sem ég vildi sagt hafa var að þegar ég kom á leikskólann voru krakkarnir á leiðinni út svo ég hjálpaði guttanum að klæða sig í útifötin. Rétt hjá mér var fóstra að klæða litla stúlku í og var sú stutta eitthvað ósátt og fannst hún ver feit í pollabuxum (!)...þegar ég var á leiðinni út aftur heyri ég svo fóstruna reyna að dekstra stúlkuna í fötin og segir: "Og þú ert EKKI feit..." Ég missti næstum neðrikjálkann ég var svo gáttuð, ekki ætliði að segja mér að þessi sjúklega mjónudýrkun sé komin alla leið niður í leikskóla? Ég vissi varla að ég hefði líkama þegar ég var í leikskóla, hvað þá að ég væri að taka eftir því hvernig hann væri í laginu, ég meina, stelpan hefur verið svona 4 ára! Ætla rétt að vona að hún hafi bara heyrt mömmu sína segja þetta og viti ekkert um hvað málið snýst, annars dauðvorkenni ég þessu barni. Þess má geta að hún var að sjálfsögðu mjög lítil og mjó eins og flest börn eru.

sunnudagur, desember 05, 2004

Geisp...

Ætli það fylgi þessum háa aldri að vera endalaust þreyttur? Ég held það myndi henta mér vel að vaka ekki nema svona átta tíma á dag og sofa í sextán tíma, öfugt við það sem ætlast er til. Meika ekki kaffihús eða djamm á kvöldin jafnvel þó ég hafi sofið til hádegis, vegna þess að augun í mér ranghvolfast af þreytu. Þetta er gjörsamlega óþolandi ástand og ég vona að þetta versni ekki með aldrinum því þá verð ég orðinn slæmur svefnsjúklingur um þrítugt. Einhver ráð???

Annars flaug ég á hausinn í vinnunni áðan. Skrapp út á svalir en þegar maður kemur inn af svölunum er smá stallur sem þarf að stíga niður. Það heppnaðist ekki betur en svo að ég steig á listann í dyrakarminum, rann og flaug svo glæsilega niður á gólf. Og ekki lenti ég á hnjánum eða svoleiðis, nei nei mín lenti bara beint kylliflöt á hliðinni. Ég lífgaði þó allavega upp á kaffitímann hjá stúlkunum svo þetta var ekki alslæmt.

laugardagur, desember 04, 2004

Þarf ég að leita mér lækningar?

Ég rauk upp úr rúminu með svima og hjartslátt áðan þegar ég var að festa blund því ég mundi skyndilega eftir skelfilegri vitleysu sem ég gerði á prófinu. Ég skrifaði að Clostridium bakteríur, sem eru uppáhalds bakteríurnar mínar eins og áður hefur komið fram, væru kokkar en ekki stafir! Auk þess gleymdi ég að skrifa að þær myndi dvalargró. Ég er að segja það, þetta angraði mig svo mikið að hvernig sem ég reyndi gat ég ómögulega sofnað aftur... og vitiði hvað mín gerði..jeminn..ég sendi kennaranum e-mail til að láta hann vita af þessum asnalegu mistökum mínum og að þau héldu fyrir mér vöku...ég á bágt;) Klukkan hálf þrjú um nótt, andvaka útaf einni skitinni vitleysu og sendi kennaranum bréf! Annaðhvort hlær hann mikið að mér, fer með bréfið á kennarastofuna og sýnir hinum kennurunum svo þeir geti líka hlegið að mér (sækó eilífðarnemandanum), eða finnst ég ofsa metnaðarfull og sniðug...hvort eigum við að veðja á hmmmmmmm?

Annars fékk ég 9 í lokaeinkunn í eðlis- og efnafræði, var að sjá það á netinu:o)

Guðrún mín...

...ég get horft endalaust á þessa mynd...og hlegið. Eins og þú ert falleg stelpa;)

föstudagur, desember 03, 2004

Heyrðu...

...sýklafræðiprófinu er lokið!! Verð nú að segja eins og er að krossaspurningarnar, rétt og rangt spurningarnar og að para saman nöfn og uppgötvanir var barasta ekki samboðið mér, var hálf móðguð yfir hvað það var auðvelt! Vonandi kemur svo ekki í ljós síðar að ég hafi gert villu þar;) En síðari helmingur prófsins var öllu snúnari nema ritgerðarspurningin sem ég held ég hafi klárað ágætlega...enda skrifaði ég um uppáhalds bakteríuna mína, eins og sést á fyrri bloggum, Clostridium. Svo ég er pottþétt búin að ná! Nema ég sé þeim mun geðveikari og haldin ranghugmyndum á slæmu stigi;) Fór svo í eldhúskaffi til Guðrúnar dúllíu eftir próf og fór titrandi úr kaffivímu heim í góða Búkollu og Cinderella story. Núna er bara að byrja að stressa sig fyrir líffæra- og lífeðlisfræðiprófið sem er 13.des! Svo byrja ég að sjálfsögðu aftur í Ríkinu í fyrramálið svo það er nóg að gera hjá frúnni.

Er annars furðu sátt við öll úrslit í Ædolinu hingað til...nema hvað að ég hefði viljað sjá Ásu úr síðasta þætti halda áfram...hún er sæt og syngur vel..hot!

Ekki má gleyma

að segja frá því að ég er komin með prófbólur. Hvernig stendur á þessum fjanda, getur einhver útskýrt fyrir mér tenginguna á milli prófa og bóla??

Enn af sýkló

Þá er klukkutími til prófs og maginn heldur betur í hnút og slaufu. Fékk mér sturtubað og brauð með laxi en það hafði ekkert að segja. Skil annars ekki hvað ég er að stressa mig á þessu prófi því það skiptir í raun engu máli hvaða einkunn ég fæ eða hvort ég næ eða fell, er bara í þessu fagi að ganni, stressið er bara minni eigin geðveilu að kenna;) Amm, það verður allavega ljúft að vera búin í þessu á eftir og þá tek ég mig kannski til og tek til! Það er varla á auðan blett að stíga hér í íbúðinni, en hvort sem það er nú prófunum að kenna eða öðru, það skal liggja milli hluta;)

fimmtudagur, desember 02, 2004

Scheisse próf!

Ég er búin að lesa og lesa og skrifa og skrifa (með reglulegum neinúgefstéguppognenniþessuenganveginnlengur-pásum) og fylla e-mailið hjá kennaranum með endalausum verkefnum sem ég er búin að gera aftur og aftur og farin að kunna utan að, svo kíki ég á sýniprófin frá síðustu árum og kann bara ekki baun í bala, hvernig stendur á þessu! Ég er hér með búin að gefa upp á bátinn að verða sýklafræðingur, ekki að það hafi einhverntíma verið ætlunin, ætla bara að reyna að grenja mig í gegnum þetta próf, hlýtur að virka, og reyna að æla ekki of mikið úr stressi. Ætla líka að reyna að senda kennaranum hugskeyti í nótt svo hann breyti prófinu og hafi bara spurningar sem ég kann svörin við...

Annars fóru ma og pa til Danmerkur í morgun, nei getur það verið, þau í útlöndum! Sendi mömmu með gíróseðilinn fyrir snyrtiskólanum, 5000 danskar, sem hún ætlar að borga úti, eitthvað ódýrara segir hún og ég trúi því bara. Svo nú er ekki aftur snúið, mín skal til útlanda næsta haust...einhverjir fleiri á leið til Köben svo ég verði ekki einmana??

*Lemj* í hausinn!!

Held ég sé að farast úr stressi. Var að skoða prófspurningar og sýnipróf og ég er bara engan veginn góð í þessum fjanda og bara einn og hálfur dagur til stefnu. Fattaði það að ég á ekkert bara eftir að lesa um veirur heldur líka um sveppi, snýkjudýr, ónæmiskerfið, sóttvarnir og fleira... anskotans vesen á manni! Get huggað mig við það að ég er nú þegar komin með heila 3 í einkunn fyrir skil á heimaverkefnum svo ég hlýt að ná, en ég hélt ég hefði nú aðeins meiri metnað en það! Það væri nú annars laglegt að falla í fræðunum því það gerðist víst síðast fyrir 15 árum...alltaf gaman að koma sér á blað, sama fyrir hvað það er, hehe;) Jamms, ætla að vera dugleg á morgun og reyna svo að æla ekki lungunum yfir prófið á föstudaginn, róandi óskast!

miðvikudagur, desember 01, 2004

Læri læri tækifæri

Skemmtilegt hvað maður er alltaf að troða í sig nammi þegar ANTM er í sjónvarpinu... og sjá svo hana Önnu plus size módelið sem var rekin í burtu í fyrsta þætti búna að missa svona 10 kíló, algjört beibí, helvítis pakk;)

Annars er ég búin að vera að læra á fullu fyrir sýklafræðina í dag, búin með bakteríurnar og svo eru veirurnar á morgun, en kann ekki nærri nógu mikið. Verð líklega stór taugahrúga í prófinu á föstudaginn.
Þessi sniðuga mynd er hluti af námsefninu og sýnir hermann sem er að deyja úr stífkrampa sem bakterían Clostridium Tetani veldur.

Ekki þægilegasti dauðdaginn það!

Núna er bara að halda áfram að læra, gá hvort það festist ekki eitthvað í hausnum á mér.

Óupplýst sakamál...

Ég fór í dularfulla sendiferð í hádeginu. Ég keyrði niður á sjúkrahús, gekk inn um B inngang og fór tröppurnar niður í kjallara. Loftið var rakt og heitt og einkennilegur blóðfnykur í lofti. Ég gekk blóðprufuganginn á enda, beygði til hægri og reyndi að opna fyrstu dyrnar á vinstri hönd. Þær voru læstar. Ég valdi aðrar dyrnar til vinstri og kom þá inn á annan gang. Þann gang gekk ég líka á enda þar til ég kom að hurð sem á stóð "Líkherbergi". Ég opnaði dyrnar og gekk inn fyrir í svartamyrkur...HAH nei þarna gabbaði ég ykkur aldeilis! Ég tók hins vegar mjög snögga u-beygju þegar ég kom að líkvagninum sem stóð fyrir utan þetta skemmtilega herbergi og laumaði mér inn í lítið hliðarherbergi. Þar beið mín einskonar frystikassi úr frauði merktur nafninu mínu. Ég tók hann í fangið og hélt sömu leið til baka, grafalvarleg á svip og ansi skuggaleg í bleikum strigaskóm og hvítri úlpu. Starfsfólk spítalans sem ég mætti á göngunum leit mig hornauga og grunaði mig eflaust um glæpsamlegt athæfi, jafnvel stuld á líffærum.
Ég komst þó heil á höldnu út úr bakteríubælinu með feng minn og varp öndinni léttar er ég startaði fjólubláa kagganum...

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Sýklafræðiverkefnum lokið

ótrúlegt en satt og klukkan ekki orðin hálf tvö! Þurfti nefnilega að klára sex verkefni fyrir morgundaginn til að þau teljist með í einkunn, hef ekki alveg verið með hugann við efnið á þessum síðustu og myrkustu snjóadögum. Ég er greinilega bara mun gáfaðri en ég hélt, eða nei, alveg jafn gáfuð og ég hélt bara einstaklega seig í að sleppa auðveldlega í gegnum verkefni... þetta voru svona krossaspurningar á heimsíðu VMA og ég vissi bara fjandi mikið þrátt fyrir að hafa ekki lært baun í vetur. Hlýt að ná prófunum með fyrstu einkunn með þessu áframhaldi. Ætla því að kúra mig undir sæng núna og mæta "fersk" í síðasta sýklótímann klukkan átta í fyrramálið...nema ma hringi í mig um 7 til að bera út Moggann...þvílík uppátæki alltaf hjá minni fjölskyldu, byrja að bera út Moggann á gamalsaldri með Gumms í eftirdragi og svo er hringt í mig ef enginn annar kemst. Það hefur að vísu ekki gerst enn enda eru þau nýbyrjuð á þessu og einungis í afleysingum, en ég finn það á mér að einn mjög slæman veðurdag muni síminn hringja og út skal ek...já og svo verður tekin lærutörn fram á föstudag þegar prófað verður úr fræðunum... er ekki alveg að sjá það gerast að dugnaðurinn taki yfirhöndina í fyrsta skiptið í vetur, en allt getur gerst!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Æ mig auma...

Djíses...mér er ennþá óglatt. Er farin að halda að þetta komi Brimkló og áfengisneyslu ekkert við. Heyrði það líka að það væri víst einhver sólarhringspest að ganga, held ég fari að trúa því bara. Eldaði mé pasta með sósu, osti og sveppum í morgun klukkan tíu af því ég gat ekkert borðað í gær og var að deyja úr hungri.

Var að koma úr lolli þar sem ég fékk að vita að ég væri komin með 3.49 í lokaeinkunn og ef ég fæ 10 fyrir vinnubókina mína (svona litabók) þá er ég komin með 4.49 og þarf ekki að stressa mig til dauða yfir prófinu. Þetta eru góðar fréttir. Allt sem felur í sér litla vinnu eru góðar fréttir. En samt þarf ég að fara að vinna á eftir og á eftir að skila svona 6 verkefnum í sýklafræði fyrir morgundaginn. Þá er gott að vera góð í að vaka á nóttunni.

Æl

Ég fór á Brimkló á laugardagskvöldið. Ég ældi allan sunnudaginn. Er ennþá óglatt. Hjálmar gamli MA-ingur er fundinn, það er gleðilegt!

föstudagur, nóvember 26, 2004

Nú er rétti tíminn til að mjókka - kuldabrennsla

Einhverntíma viðraði ég þá kenningu mína að fólk mjókki frekar á veturna en sumrin. Ég tók eftir því á sjálfri mér að á veturna mjókkaði ég án þess að hafa neitt fyrir því en á sumrin fitnaði ég bara ef eitthvað væri. Ég reiknaði það út að þetta hlyti að stafa af því að á veturna brenndi líkaminn meiru til að reyna að halda á sér hita. Verst að þetta er ekki alveg að skila sér þennan veturinn, einmitt þegar maður þarf mest á því að halda. En allavega fékk ég þessa kenningu mína staðfesta í líffæra- og lífeðslisfræðinni í gær og var mjög ánægð með að vera svona über gáfuð. Þannig er nefnilega mál með (of)vexti að á veturna þegar manni er sífellt kalt, þá sendir heiladingullinn frá sér stýrihormón fyrir skjaldkirtilinn og bendir honum á að fara að framleiða meira af hormóninu þýroxíni, sem stuðlar að auknum efnaskiptum í líkamanum. Á sumrin þegar manni verður stöðugt hlýrra (kannski ekki svo mjög hér á skerinu, en stundum samt) minnkar skjaldkirtillinn framleiðslu á þýroxíni og á brennslunni hægist. Því segi ég við ykkur hina hlunkana þarna úti; ef þið viljið mjókka þá klæðið ykkur sem allra verst þið getið og stundið mikla útiveru!

Tyra svikahrappur?

Eftir mikla leit fann ég þessa mynd af Yoanna á forsíðu Sephora vörubæklingsins... hún hefur allvega ekki verið svikin um það...það er sko meira en að segja það að finna upplýsingar um feril dömunnar á netinu.


Fashion "spreadið" í Jane magazine var ekkert nema svik og prettir, ein auglýsing held ég, og leit svona út:



Enda virkar Yoanna nú ekkert voða glöð á svipinn. Það er greinilega einskis virði að vinna þessa keppni, betra að taka bara þátt, svona miðað við það að Mercedes og Catie eru til dæmis búnar að koma fram í Bold and the beautiful!

ARG!!!!!

The XPPHOTOALBUM free site has been closed.

Sorry for any inconvenience!

ANY inconvenience?? Eruð þið algjörlega stúpíd þarna, ég þarf bara að færa allar myndirnar mínar! Ohh svona pakk er bara of pirrandi, gátu allavega látið mann vita kannski eins og með eins dags fyrirvara eða svo...

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Oldies goldies eða?

Dúdda var að skanna inn gamlar myndir og ég rakst þar á þessar tvær... er þetta virkilega ég????


Ég hreinlega veit ekki á hverja þessar myndir minna mig, en ég kem sko ekkert við sögu þar!

Hakkidíhakk...

Það tók mig sennilega klukkutíma að sofna í gær með nýju tannhlífina mína. Enda gat ég ekki hætt að hugsa um verðið á henni. Nei það var nú aðallega af því ég hafði svo lítið pláss fyrir tunguna og var alltaf eitthvað að sjúga og soga og blása og spýta en þetta tókst að lokum og í morgun vildi ég helst ekkert taka hana úr mér...það er nú bara af því maður er svo getnaðarlegur með hana og þá sérstaklega þegar maður talar. Veit nú ekki hvort hún sé alveg rétt hönnuð því ég er ennþá með hálf skakkt bit frá því ég vaknaði...ætli ég geti þá fengið endurgreitt? Er að reyna að hugsa upp ráðabrugg til að endurheimta hálfan bankareikninginn minn ussu suss.

Sáuð svo ekki allir úrslitaþátt A.N.T.M. í gær? Algjört skylduáhorf. Yoanna er nú bara of falleg til að mega vera til. En þátturinn næsta miðvikudag verður ennþá skemmtilegri örugglega því þá er sýnt hvað stelpurnar hafa verið að gera síðan þær tóku þátt...vinna á Hooters og svona eflaust.

Of ljótt?

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Öðruvísi tískusýning

Í okkar höndum - endum ofbeldi gegn konum

"Mig langaði til þess að kalla á hjálp, en ég var svo hrædd að ég kom ekki
upp orði." Úr dómi um heimilisofbeldi.

Laugardaginn 27. nóvember, klukkan 15.00 munu þjóðþekktar konur veita
Amnesty International á Íslandi lið og standa fyrir óhefðbundinni
tískusýningu í Iðu, Lækjargötu. Meðal þátttakenda í sýningunni eru þær
Unnur Ösp Stefánsdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Guðrún Gísladóttir,
Elma Lísa Gunnarsdóttir, Laufey Brá Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir og
munu þær koma fram í fötum frá Spútnik og Rögnu Fróða. Í sýningunni munu
konurnar segja frá íslenskum dómsmálum heimilisofbeldis og sýna áverka
slíks ofbeldis sem oftast eru huldir sjónum.

Sýningin er haldin sem hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi er
stendur yfir frá 25. nóvember til 10. desember.

Tilefni sýningarinnar er að draga afleiðingar heimilisofbeldis, sem
sjaldnast eru sýnilegar, fram í dagsljósið og brjóta þagnarmúr þann sem
umkringir þetta samfélagsvandamál.

Athugið

Vil vekja athygli á því að ÚRSLITAÞÁTTUR Americas next top model er að fara að hefjast...og ég á ekki einu sinni snakk! Spennan er í hámarki gott fólk! Tek mér pásu frá óendanlega tímafreku LOL verkefni...

Money makes the world go round...

Af hverju getur maður ekki verið svolítið ríkari? Ég fékk næstum tárin í augun (í alvöru sko, það munaði litlu) þegar ég rétti klinkunni á tannlæknastofunni kortið mitt í morgun. Reikningurinn hljóðaði upp á 49.600 krónur og ég gekk út með tannhlíf í gulu boxi. Það tilkynnist því hér með að ég mun ekki gefa jólagjafir í ár og það getur enginn áfellst mig fyrir það. Að sjálfsögðu mun ég svo ekki komast upp með það að gefa engar gjafir; fjölskyldan og maðurinn fá að sjálfsögðu sitt...en þið hin verðið heppin ef þið fáið kort! Eina ljósið í lífi mínu um þessar mundir er því fjólublái bíllinn minn sem er bæ ðe vei fjögurra dyra og sjálfskiptur, en ma fjárfesti í honum af því að pabbi seldi toyotuna þegar hann fór með hana til að láta gera við kúplinguna. Og ég sem var nýbúin að fylla djásnið af bensíni og láta smyrja það hátt og lágt! Sei sei.. og sömuleiðis!

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Af renglum og skvapmönnum

Ég fór á fegurðarsamkeppni ungra manna á norðurlandi á föstudagskvöldið. Það var stórsniðugt barasta! Páll Óskar brilleraði alveg sem kynnir í glansandi rauðum tælenskum lúkkalæk jakkafötum með gulu mynstri og söng meira að segja stórsmellinn sinn Stanslaust stuð. Þá vaknaði 17 ára stelpan til lífsins inní mér og dillaði bossanum í hljóði;)

Keppnin sjálf fór vel fram miðað við hvað hugmyndin um svona strákakeppni er fyndin, og salurinn var alveg með á nótunum. Ég skemmti mér þokkalega bara en mikið ógeðslega var fyndið að umsjónarmenn keppninnar ákváðu að láta strákgreyin koma fram bera að ofan í gallabuxum. Þá hló mín! Fyrir utan fjóra eða fimm keppendur voru aumingja gæjarnir annaðhvort með síðuspik og bjórskvap eða svo miklar renglur að maður dauðvorkenndi þeim að þurfa að ganga þarna um sviðið að reyna að spenna einhvern kassa sem ekki var til staðar eða að draga inn vömbina sem lét illa að stjórn. Ég meina það, eru engin skilyrði sem keppendur þurfa að uppfylla í þessum strákakeppnum? Ég get rétt svo ímyndað mér að stúlkum með svipað holdafar yrði hleypt upp á svið í sundfötum, þetta kalla ég nú bara misrétti. Stelpur, þ.e.a.s. þið sem tilheyrið þeim hópi að hafa hliðarspik og vera yfir 60 kíló, eigum við ekki að skrá okkur í næstu keppni? Svo mega strákarnir alveg eiga fullt af börnum án þess að það angri neinn. Ættu ekki að gilda sömu reglur fyrir kynin í þessum keppnum?

En hvað um það, það var gaman að horfa á guttana og mæli með að þessi keppni verði haldin árlega, svona til að létta lund og kitla hláturtaugar miðaldra ungkvenna. Sigurvegarinn í fegurðarsamkeppni ungpilta 2004 var svo hann Palli beibí sem einnig var kosinn ljósmyndafyrirsæta, í öðru sæti var hann Jóhannes Svan (sem ég spáði reyndar fyrsta sætinu og ætti að vera þar...þó ég sjái það núna þegar ég skoða myndirnar að hann er meira hott á sviði en á mynd) og var hann líka valinn sportstrákurinn og í þriðja sæti var hann Jóhann...hverjir sem þetta nú eru. Af hverju ætli þeir velji ekki "fallegustu fótleggina" og "Perfect herrann" og svona, svo allir vinni eitthvað, eins og hjá hnátunum? Eníveis, nánari upplýsingar um kyntröllin á sjallinn.is

föstudagur, nóvember 19, 2004

Ég komst inn!!!

Fékk pappírana frá skólanum senda í dag með þeim tíðindum...kellan sem hringdi frá skólanum hefur sem sagt ekki skipt um skoðun eftir þetta glæsilega símtal;) Ég er happy happy happy!!

Ragga Raider

Hún Anna panna var að dunda sér í Photoshop...*Rrrrrrrr* SEXY!

Konukvöld Abaco

Ég fór á kvennakvöld Abaco á Vélsmiðjunni í gær klukkan 20. Það var nú eitthvað annað en Oddvitinn fékk ég að heyra því ég fór einmitt með mömmu og samstarfskonum hennar. Þetta var frábær skemmtun þar sem boðið var upp á Campari fordrykk og fullar skálar af Nachos, osta- og salsasósu og var fyllt á stöðugt allt kvöldið. Kvöldið byrjaði með fyrirlestri og slædsjóvi frá Ottó lýtalækni þar sem hann kynnti fyrir okkur fegrunaraðgerðir, það var magnað að sjá. Hann er búinn að búa í Bandaríkjunum í einhver ár og notaði þess vegna þvílíkar enskuslettur og fræddi okkur um það að í Bandaríkjunum væri sko enginn maður með mönnum (eða kona með konum) nema að eiga sinn eigin lýtalækni, það finnst mér algjör brandari. Á eftir lækninum kom svo hún Margrét Eir og söng nokkur lög, alveg er hún mögnuð konan, lifir sig svo skemmtilega inn í sönginn, og allir voru heillaðir af henni. Að því loknu var tískusýning frá GS Akureyri og Isabellu undirfataverslun sem stóð alveg fyrir sínu þrátt fyrir að fyrirsæturnar væru greinilega ekkert alltof vanar sýningarstörfum nema auðvitað hún Heiðrún fitness sem tók sig gríðarlega vel út á naríunum, jeminn eini þvílíkur kroppur! Svo kom karlakór Akureyrar Geysir í köflóttum skyrtum, gallabuxum girtum ofan í ullarsokka með húfur, axlabönd og vodkapela veltandi inn í salinn við mikinn fögnuð og reif upp stemmninguna og salurinn tók vel undir í söng og klappi, skemmti mér mjög vel þar! Í lokin var svo magadanssýning og happdrætti þar sem ég vann ekkert, en allir sem tengdust Abaco á einhvern hátt unnu, meira að segja eiginkona eigandans, frekar dularfullt;) Já og mig langar þokkalega að læra magadans núna, held það eigi mjög vel við mig, meira að segja bara kostur að hafa soldinn maga svo ég er perfect kandidat í það. Við ma brunuðum svo hífaðar og í gleðivímu heim um hálf tólf, ætluðum nú að koma við á Oddvitanum í einn öller fyrir heimferð, en því miður var lokað...;)

Já svona í lokin, það var alveg magnað að fylgjast með lýtalækninum það sem eftir var kvöldsins, hann gekk á milli borða, settist á chattið við einhverjar konur, var greinilega að krækja sér í kúnna, slísí bastard, og þegar við löbbuðum út stóð hann með konu við barinn og hélt undir hökuna á henni og horfði á hana rannsakandi augum. *Brrrrrr*

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Búbbasjóv!

Fann þessa stórskemmtilegu mynd af góðkonu minni á heimasíðu Sjallans. Og getið nú hver hún er;)

Herra Norðurland

er í Sjallanum á morgun. Hann Ingi Valur frændi og samstarfsmaður Bjartmars míns er að taka þátt og hérna getur maður kosið netherra Sjallans 2004. Endilega að kíkja og kjósa hann Inga, hann er neðstur í vinstra horninu. Hepp hepp og sýna nú smá lit! Voðalega eru nú svona herra keppnir samt fyndnar;)

Þrjár stelpur.com á Oddvitanum

Ma fór með 13 starfssystrum sínum að sá fimm stelpur.com á Oddvitanum síðasta laugardagskvöld. Miðarnir voru sóttir til hans Aðalsteins niður á bílasöluna Ós og fékkst illa upp gefið hvenær sýningin ætti að hefjast, eitthvað um 9 sagði hann, kannski 10 mínútur yfir. Vínglas og nasl er í boði meðan á sýnungunni stendur. Þær mæta galvaskar fyrir 9 og fá þá í hendur hálft glas af einhverjum vodka kokkteil sem ma var ekki alveg að fíla og spyr hvort hún megi nokkuð skipta út fyrir bjór. Það var ekki hægt. Á borðum eru pappadiskar með skrúfum og flögum, sirka fimm af hvorri sort á mann. Sýningin hefst klukkan 10 en einungis fjórar leikkonur eru á sviðinu og þar af bara þrjár úr upprunalegu sýningunni. Ekkert var minnst á þessa breytingu fyrren í lok sýningar að ein leikkonan minnist á þetta. Ma og co. sitja þó sýninguna á enda og fara svo heim. Þær voru að vonum ekki mjög ánægðar með það sem Oddvitinn bauð uppá, þrjár stelpur.com plús aukaleikkona, sýningu sem byrjaði klukkutíma og seint og ekkert léttvín eins og stóð á auglýsingunni, því vín myndu þeir sem eitthvað til þekkja kalla rauðvín eða hvítvín. Kokkteill er kokkteill og vodki er vodki, en ekki vín.

Þær stöllur skrifa því kvörtunarbréf þar sem þær biðja um endurgreisðlu á miðunum sem kostuðu 3700 krónur á konu, og minnast einnig á það í bréfinu að aðgöngumiðarnir hafi verið kolólölegir; ónúmeraðir, ómerktir og ódagsettir. Við ma fórum með þetta bréf undirritað af hópnum niður á bílasöluna Ós í gær klukkan 4, og þar situr Aðalsteinn ásamt foreldrum sínum sem eiga Oddvitann og öðrum starfsmanni Oddvitans að auki. Ma leggur fram bréfið og það var eins og sprengju hefði verið varpað, allt fór í háaloft vægast sagt. Aðalsteinn fór upp á háa C-ið og kallaði okkur öllum illum nöfnum, sakaði okkur um að koma með fjandans hótanir og sagðist sko ekkert ætla að lesa þetta bréf einu sinni, þetta væri fáránlegt og sýningin hefði verið frábær í alla staði. Við ma héldum ró okkar og brostum bara að honum, því hann var svo heimskur og dónalegur að það þýddi ekkert að tala við hann, enda komumst við varla að fyrir skömmum og dónalegheitum. Kellan mamma hans var öllu gáfulegri, en jafn hávær og sonurinn, en reyndi að útskýra fyrir syni sínum að við hefðum rétt fyrir okkur. Þá tók starfsmaðurinn á næsta borði við og skammaðist dálítið, sonurinn varð ennþá brjálaðri og kellan talaði enn hærra. Þetta var hin besta skemmtun allt saman þrátt fyrir að við ma kæmum ekki mörgum orðum að. Það kom mér nú mest á óvart að þegar ég hafði staðið og þagað allan tímann en segi loksins: "Bíðið við, má ég nú aðeins segja eitt" þá datt allt í dúnalogn. Ég benti Aðalsteini á að þessi sýning væri á þeirra vegum og því bæru þau ábyrgð á henni og það gengi ekki að vera með dónsakap og læti þegar kúnnar legðu fram kvörtun, en þá var þögnin búin og hann byrjaði aftur að rífast og skammast. Sagði meðal annars að kokkteill væri sko miklu dýrari en vínglas, kostaði 1200 kall, og hann hefði bara ætlað að gera betur við kúnnana. Ma reyndi í tíunda skiptið að benda á að það væri nú ekki aðal umkvörtunarefnið heldur sýningin sjálf þar sem tvær aðalleikkonurnar vantaði, en þessi maður bara vildi ekki hlusta, hreytti bara í okkur ónotum alveg trompaður. Þetta endaði með því að eftir hálftíma þarna inni reif kellan af honum kvörtunarbréfið og sagði við mömmu að hún skyldi redda þessu og myndi hringja í hana. Að svo búnu þökkuðum við ma kærlega fyrir málefnalega umfjöllun og móttökur á kvörtunum okkar og héldum heim.

Bendi á það í lokin að ég mun líklega aldrei aftur fara í Karaoke á Oddvitanum, því starfsmaðurinn á næsta borði hefur yfirumsjón með því. Hann mydi örugglega reyna að gefa mér raflost.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Ég er svo miiiiisheppnuð

Síminn hringdi í hádeginu með leyninúmeri. Jú halló segi ég og þá bara fæ ég þessa líka ræðu á dönsku og segi ja ja ja við öllu, þangað til frökenin spyr hvort ég sé nokkuð á leið til Köben á næstunni. Ég tilkynnti það á dönsku að ég byggi nú á Íslandi og hún sagðist vita það, og þar með var dönskukunnátta mín þann daginn gufuð upp, kvótinn búinn. Ég stressaðist svo hryllilega að ég titraði og stamaði einhverjum fjanda út úr mér á leikskóla ensku því tungumálasvæðið í heilanum á mér varð skyndilega óvirkt. Vegna stresskastsins man ég bara ekki nokkurn skapaðan hlut hvað blessuð konan sagði og er búin að vera vægast sagt miður mín, gat ekki einbeitt mér í skólanum áðan og er hálf mállaus ennþá. Það eina sem ég náði var að konan spurði hvort hún mætti þá senda mér pappírana og ég sagði Yes thank you very much. Það skelfilegasta er að ég sendi tvö blöð með umsókninni minni um hvað ég væri nú klár í dönsku. Ohhhh er hægt að vera meiri lúser? *grenj*

mánudagur, nóvember 15, 2004

Það gerist nú ekki oft

en það gerðist í dag að það var hringt í mig og mér boðin vinna. Ljómandi að þurfa ekki að sjá um að leita sér sjálf að vinnu. Losnaði sem sagt starf í Ríkinu, eitthvað um helgar og í jólafríinu. Ég þáði það með þökkum, þarf að borga tannlæknareikning og kaupa jólagjafir og ekki verra að eiga pening í það!

Kom svo nýrri umsókn í póst með sjöfaldri ábyrgð, einkaflugmanni og lífverði. Hlýtur að skila sér núna. Það þýddi ekkert að skammast út af hinnu umsókninni þar sem ég sendi hana ekki í ábyrgð, hélt hún ætti nú að skila sér þrátt fyrir það!! Geri þau mistök ekki aftur.

Jebb, svo er það bara Gallup Gallup Gallup, yndið mitt eina! Verður góð tilbreyting að komast soldið í jólaösina í Ríkinu.

Ég fann það!

Og það var allan tímann bara hálfan metra frá tölvunni, ofaní kassa, og hló að mér!

Umsókn tvö

Er að klára að ganga frá nýrri umsókn, ljósrita og prenta og vesenast, en er soldið að fríka því ég finn ekki stúdentsskírteinið mitt og guð má vita hvar það er! Sendi ljósrit af því með síðustu umsókn og það ljósrit var tekið fyrir svona 3 árum og ég er búin að flytja nokkrum sinnum á þeim tíma. Er svo innilega að vona að það sé heima hjá ma og pa, ofaní skúffu hjá öllum einkunnunum mínum og öðrum skírteinum, krossa fingur! Fékk svo útprentaðar allar einingar sem ég er núna búin með í VMA og þær eru 161! Ekki alveg nógu ánægð samt með að mætingarprósenta fyrir þessa önn sést á blaðinu og hún er ekki nema 78% sem er sko ekki nógu gott! Vona að enginn taki eftir henni. Þegar/ef mér tekst að finna skírteinið um stúdentspróf skunda ég svo niður á pósthús og ætla að þrasa svolítið við póstinn. Ótrúlegt hvað ég er farin að þrasa mikið að undanförnu, er pirruð út í kennara og svona, alveg einstaklega skemmtileg! Hlakka bara til að komast í jólafrí og slappa aðeins af:o)

föstudagur, nóvember 12, 2004

Fullur haus af gremju

Ég er svo pirruð að ég titra. Fékk svar frá Köben og fékk það staðfest að umsóknin mín barst aldrei í skólann. Konan sagðist hafa farið í gegnum allar umsóknir og mín væri þar ekki en ég skyldi senda nýja sem fyrst. Það væri mér líkt að nú sé of seint að sækja um, búið að velja alla fyrir næsta ár. Ohhh það kraumar í mér brjálæðið! Og ég kemst ekki á pósthúsið til að rífa í hárið á mér og öskra fyrr en á mánudaginn og get ekki fengið nýja útprentun á einkunnunum mínum fyrr en þá heldur. Hvernig er hægt að vera svona óheppinn að eina bréfið sem ég hef sent sem skiptir einhverju máli kemst ekki til skila! Reyndar sendi ég einu sinni bréf í ítalskt klaustur og bað um að fá að búa með nunnunum í nokkra mánuði og það komst heldur ekki til skila. Kannski er mér bara ekkert ætlað að yfirgefa kalda skerið?

Detti mér allar dauðar lýs!!

Fékk blaðsnepil í póstkassann minn sem ég er argandi ósátt yfir, því þegar ég opnaði hann blasa við myndir af Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde og undir stendur stórum stöfum: "Ágæti sjálfstæðismaður". Í fyrsta lagi er ég kona og í öðru lagi vil ég ekki láta bendla mig við Sjálfstæðisflokkinn! Enn hneykslaðri varð ég er ég las þetta:

"Vegna þeirra miklu endurbóta á Valhöll, sem nauðsynlegar voru orðnar og ráðist var í á þessu ári, var ákveðið að efna til sérstaks fjáröflunarátaks meðal flokksmanna um allt land til að framkvæmdirnar komi ekki niður á almennri tekjuöflun flokksins og starfsemi hans. Því er enn á ný leitað til flokksmanna í trausti þess að þeir séu reiðubúnir að bera þessa byrði sameiginlega. Við vonum að þú takir beiðni okkar vel og þökkum fyrirfram velvilja í verki. Davíð Oddsson og Geir H. Haarde."

Og þetta bréf var merkt mér með nafni!! Þetta segir mér það að annaðhvort er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn fram úr öllu hófi ágengur, eða þá að þrátt fyrir áralanga baráttu hefur mér enn ekki tekist að segja mig úr flokknum. Óska hér með eftir allri þeirri aðstoð sem ég get fengið við að komast í eitt skipti fyrir öll úr lúsablesaflokknum sem ætti að vera það skítríkur að hann þurfi ekki að sníkja pening út úr blásnauðri almúganámskonu!

Heilaþvæla

Hömm pömm, var að koma úr 5% tímaverkefni í eðlisfræði. Máttum nota glósur og bækur og kennarinn fór svo yfir verkefnið mitt strax í lok tímans. Ég náði 9.6 gerði fáeinar klúðurslegar klaufavillur, en er sátt, allavega meðal þeirra hæstu ef ekki bara hæst. Vá, er ég alltaf að monta mig hvað ég er klár kannski? Ég er bara svo ánægð að standa mig svona vel, hef sjaldan nennt þessu áður, en það er einhver svakaleg keppni í mér þessa önnina. Það versta er að nú er ég undir mikilli pressu varðandi lokaprófin, allir búast við að ég fái 10! Sjitt, verð að læra vel og mikið ef mér á að takast það. Núna er einn og hálfur mánuður síðan ég sendi út umsóknina mína um snyrtiskólann og hef engin svör fengið. Skrifaði því e-póst út í gær till að athuga hvort umsóknin mín hefði borist þeim og hvenær ég fái svar. Ætli það taki þau ekki svona 2 vikur að svara meilinu miðað við hvað þau voru lengi að svara síðast. Er alveg að gefast upp á þessari bið, vil fara að fá að vita hvort ég komist inn svo ég geti farið að undirbúa mig! Djöfull væri það skemmtileg tilbreyting að búa í Köben í smá tíma.

Top model sigurvegarinn

Þeir sem vilja ekki vita hver sigurvegarinn í Americas next top model er, ekki klikka hér en ég fann myndir af henni frá einhverri tískusýningu. Komst óvart að því hver vann fyrir löngu síðan en finnst alveg jafn mikil snilld að fylgjast með þáttunum þrátt fyrir það. Er mjög ánægð með að hún vann, hún er gorgeous, og ólíkt sigurvergaranum úr síðustu seríu, Adrienne, virðist hún ekki alveg gufuð upp. Veit annars einhver hvað varð um Adrienne??

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Innlit - útlit

Var að láta inn myndir af íbúðinni minni fyrir og eftir breytingar þegar ég keypti hana í fyrra. Merkilegt hvað hægt er að gera við ljótar íbúðir! Eldhúsið er reyndar pínu breytt frá því myndirnar voru teknar, búið að fegra það aðeins. Svo tók ég myndir af bleika þemanu mínu sem ég er svaka skotin í, enda er ég bleik gella! Vil benda á að auk ljósmyndunar tek ég að mér innanhúss arkitektúr, einnig fyrir sanngjarnt gjald, og er ekki frá því að ég sé aðeins betri í þeirri deild;)

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Enn um afmæli

Já loksins nenni ég að láta þessar blessuðu myndir inn. Tekur óendanlega langan tíma að opplóda þeim á xpphotoalbum.com, mæli ekki með þeirri síðu! Einhvernveginn tókst mér að klúðra öllum myndunum sem ég tók, þær virka allavega ekki neitt voða merkilegar. Hefði betur tekið myndir þegar líða tók á kvöldið í staðinn fyrir að sulla í mig áfengi;) Ekki veit ég hvað varð um extreem gellu þemað mitt því ég og Birna bárum af í gelluheitum (Anna og Guðrún komu reyndar sterkar inn), vona það gangi betur næst! En mér fannst voða gaman að fá alla í heimsókn, tala ekki um Gerði, Árna, Heigga, Hildi og Önnu Mjöll alla leið frá Reykjavík s(j)ittí, er stolt af ykkur krakkar! Og svo auðvitað þið hin líka, þið eruð bestu skinn! Bendi ykkur á að senda mér svo línu ef þið viljið ráða mig sem ljósmyndara í næstu veislu, tek sanngjarnt gjald fyrir. En hérna eru allavega meistaraverkin, njótið!

Magnaður fjandi!


Kannski eru þeir ekki svo slæmir eftir allt!

Bólusetning

Komst að því í gær af hverju bólusetning er kölluð þetta. Það er nú af því í denn þegar bólusóttarfaraldrar geysuðu og leiddu menn ýmist til dauða eða skildu eftir varanleg lýti á húð þeirra, uppgötvaði hann Edward Jenner kallinn (1749-1823) að mjaltastúlkur og fleiri sem smituðust af kúabólu, sem er bólusótt meðal nautgripa, urðu ónæmar fyrir mannabólusóttinni og varð ekki meint af kúabólunni. Hann tók því upp á því að skrapa svolítið í húð manna og smyrja kúabóluveirunni þar í. Þetta var kallað að bólusetja og er notað enn í dag yfir allar, ja, bólusetningar;) Á ensku er bólusetning kölluð vaccination sem er dregið af latneska orðinu vacca sem þýðir kýr.
Svo ef einhverjir aðrir þarna úti voru jafn ófróðir um þetta og ég þá vitið þið þetta núna!

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Extreem makeover

á mælikvarða sikkgörl. Gerði myndirnar svarthvítar til að hlífa ykkur við þessu brjálaða klós oppi! Það var sett plast á vinstri framtönn og hægri augntönn en það sést nú mest á framtönninni á þessum myndum.


Svona var ég fyrir breytingu...

...og svona eftir hana!

Sést nú kannski enginn voðalegur munur en ég finn greinilega fyrir honum, er alltaf að reka mig í;)

mánudagur, nóvember 08, 2004

Getur einhver sagt mér

hvað andlitið á mér er að gera á þessari mynd??? Kallinn fann myndina á einhverri erlendri síðu. Þetta er hið dularfyllsta mál!

Ammalið búið

og lukkaðist bara ágætlega. Það virðist samt vera að ég hafi smitað fólk af stundvísi og að mæta akkúrat á mínútunni þegar partý byrja því allir komu klukkan átta og ég var að byrja að vaffla á mér hárið. Setið var að sumbli og átu til klukkan eitt og þá haldið í bæinn og á Kaffi Svita (Akureyri) þrátt fyrir að ég vildi engan veginn fara þangað. Það var bara enginn sem hlustaði á mig. Ég tók slatta af myndum sem allar einhvernveginn misheppnuðust, en ég mun samt láta þær inn á síðuna við tækifæri, nenni því ekki núna því ég er að fara til tannlæknis að láta flíkka upp á ginið.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Ég á afmæli!!!

Já, þá er dagurinn runninn upp. Dagurinn sem ég þarf að hætta að segja að ég sé 24. En er ekki bara svoldið kúl að vera 25? Ég held það, núna er maður eitthvað svo fullorðinn allt í einu;) En að sjálfsögðu er ég enn 18 í anda, held það breytist seint.
Stelpan búin að vera gífurlega bissí að taka íbúðina í gegn, ma kom í gær og missti sig í eldhúshreingerningu, held hún hafi bókstaflega slefað af ánægju, meðan ég settist við saumvélina og saumaði loksins hengi fyrir þvottahúsdyrnar. Saumaði dúk á borðstofuborðið á þriðjudaginn og bleika partýdressið á sunnudaginn, er greinilega að verða fyrirmyndarhúsmóðir, líst ekkert á blikuna! Næst á dagskrá er svo að fara í stórinnkaup fyrir veisluna á morgun, stend heldur betur í ströngu þessa dagana, og þar verður mikið um dýrðir. Sé mig í anda fá mér einn Lite á laugardagskvöldið og sökkva niður í sófann og sofna...nei vona nú ekki og fæ reyndar slatta hjálp frá ma, hún ætlar til dæmis að hjálpa mér við eldamennsku og bakstur. Já ég má engan tíma missa, er rokin af stað aftur, munið svo eftir að gefa mér stóran afmælispakka!!!

Comment á Hugrúnu

Mér tekst bara ekki að kommenta á síðuna þína Hugrún svo ég skrifa bara hér í von um að þú lesir þetta. Alveg er ég hjartanlega sammála þér um Ísland í dag í gær. Ég átti ekki orð yfir hvað stjórnendurnir voru ómálefnalegir, dónalegir og leiðinlegir og gat eiginlega ekki horft á þáttinn ég skammaðist allan tímann og sérstaklega út í Jóhönnu, finnst hún algjörlega vanhæf í þetta starf. Fannst það mjög gott á hana þegar úrslit könnunarinnar lágu fyrir, því hún var nýbúin að segja að 65% þjóðarinnar vildi Þórólf úr sæti borgarstjóra, þá hlakkaði í minni;) Annars er ég nú hissa að þú skulir styðja sjálfstæðisflokkinn yfirleitt, þvílíkur hópur af grasösnum! Það tók mig örugglega tvö ár að komast út úr flokknum eftir Vestmannaeyjaþingið góða þ.e.a.s. ef það tókst þá einhverntíma. Ef þú ætlar út í pólitík, sem mér líst annars vel á, þá skaltu endilega velja bara Samfylkinguna;) Og að lokum þakka ég fyrir afmæliskveðjuna!

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Brasi bras...

Ég ákvað að skipta út ævaforna tekkstofuborðinu mínu sem var að liðast í sundur og fá að láni stofuborð sem foreldrar mínir keyptu fyrir 30 árum síðan en hefur verið í láni hjá vinkonu mömmu síðustu 15 árin eða svo. Þegar ég kom úr vinnunni í gærkvöldi höfðu ma og pa gert sér lítið fyrir og komið borðinu fyrir í stofunni hjá mér, þvílíkt gæðafólk! En þau hefðu allt eins getað smellt kvínsæs rúmi í miðja stofuna, borðið er svo stórt! Það er einnig það hátt að manni líður eins og maður sitji við skrifborð þegar maður sekkur í sófann fyrir framan sjónvarpið. Ég hló mikið og klóraði mér svo í hausnum, því það var svolítið leiðinlegt að þurfa að smokra sér fram hjá ferlíkinu í hvert skipti sem ég fer út á svalir. Tók mig svo til og sneri stofunni gjörsamlega við, losaði mig við heljar sjónvarpsskáp, tívíið út í horn og voila, er komin með glimrandi fína stofu, eða gerði að minnsta kosti það besta úr því sem fyrir var. Fór einnig í Rúmfó og fjárfesti í fullt af teppum til að hylja sófana, bleikum púðum og nýjum gardínum. Það verður allt að líta vel út fyrir gellu afmælisveisluna mína á laugardaginn;) Já fyrir þá sem ekki vita þá á ég kvartaldarafmæli á föstudaginn og tek á móti fjárframlögum á reikningi mínum í Íslandsbanka.

Hver er höfðingi heimsins?

Fékk lítinn blaðsnepil í póstkassann með þessum titli. Aldrei þessu vant ákvað ég að lesa þessa kristniboðasendingu. Það var verið að útskýra að Guð eða Jesú væru ekki höfðingjar heimsins, heldur djöfullinn. Satan freistaði Jesú með því að bjóða honum öll ríki heimsins ef hann félli fram og tilbæði hann. Og þá sagði Jesú: "Vík brott Satan".

Í blaðinu segir meðal annars:

"Þar að auki notfæra illir andar sér syndugar tilhneigingar mannanna með því að ýta undir gerð rita, kvikmynda og sjónvarpsþátta sem leggja áherslu á ósiðlega og óeðlilega kynhegðun. Illu andarnir vita að ef menn víkja ekki röngum hugsunum úr huga sér grópast þær fastar og draga þá út í siðleysi-eins og illu andana sjálfa."

Einnig segir:"Illur andi getur til dæmis líkt eftir rödd látins manns og talað til ættingja eða vina hins látna, annaðhvort í gegnum andamiðil eða með "rödd" frá hinu ósýnilega sviði. "Röddin" þykist vera hinn framliðni en er í raun illur andi! Eft þú heyrir nokkurn tíma slíka "rödd" skaltu ekki láta blekkjast. Hafnaðu hverju sem hún segir og endurómaðu orð Jesú: "Vík brott Satan!"

Og dæmi nú hver fyrir sig.

sunnudagur, október 31, 2004

Kommentós

Hvernig stendur á því að komment á alla gömlu póstana mína eru gufuð upp, endast þau bara í visst langan tíma? Kann einhver skýringu á þessu? Ég er svekkt!
Var að lesa vegagerðarblogg síðan í sumar, mikið hef ég skemmt mér vel.. og tek mig enn jafn vel út á beltagröfunni;)

Allt bleikt hérna...

Tók mig til áðan í kaffivímu og smellti í eitt dress... er ég ekki dugleg?

Sveiattann!

Er búin að vera bara lasin um helgina, ekki mikið aksjón í konunni. Mætti reyndar í vinnuna í gær en vorkenni fólkinu sem ég talaði við, missti röddina reglulega í einhverri hálf köfnun og saug villt og galið upp í nefið. Vildi ekki sýna þann aumingjaskap að tilkynna mig veika auk þess sem það er sjaldnast tekið trúanlega af atvinnurekundum á laugardagsmorgnum. Samt alveg fáránlegt að mæta útúr kvefaður þegar maður vinnur við að tala í síma! Lá svo bara uppi í sófa frá 3 í gær, undir sæng með tebolla og lét manninn vorkenna mér..eða reyndi að minnsta kosti, hann sýndi ekki mikla meðaumkun;) Datt ekki í hug fyrr en um 11 í gærkvöldi að taka inn verkjatöflu og það lá við að ég yrði frísk á augabragði. Þetta virðist fylgja mér þegar ég er lasin, gleymi alltaf að búið er að finna upp allskyns lyf til að hjálpa manni. Sem betur fer var ég mun hressari í dag, hafði það samt mega kósí, horfði á Shark Tale og Ken Park sem er heldur betur sérstök mynd frá þeim sem gerðu KIDS á sínum tíma. KIDS var frekar "truflandi" mynd og ekki skánar það við Ken Park. Mæli eindregið mað að þið kíkið á hana, ekki oft sem ég hrylli mig yfir myndum en þessi er, ja, spes;)
Já, og svo saumaði ég þetta dress áðan sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Það er nú það eina sem ég hef afrekað um helgina, fyrir utan að skreiðast út í búð áðan og að drekka soldinn slatta af kaffi..ætti kannski að gera það oftar ef það þýðir að ég dreg fram saumavélina í kjölfarið!

föstudagur, október 29, 2004

Híhí..



Föstu lokið!!

og ég fékk mér salatbar klukkan 10 í morgun. Fastaði því alls í 58 tíma; þrjár nætur og tvo daga, en ekki losnaði nema eitt kíló af kroppnum. Verð nú eiginlega að fá viðmiðun frá einhverjum sem hefur prófað Hollywood kúrinn, ja eða prófa hann sjálf, til að vita hvort fleiri kíló fjúki þar. Ætli það sé ekki bara mismunandi eftir einstaklingum. Svo ég segi sem fyrr, eina ráðið til að léttast er að stunda reglulega hreyfingu og borða hollt. Ég kenni nú ekki föstunni um, en ég er að drepast úr kvefi og slappleika, var gjörsamlega ónýt í nótt, svaf í buxum og peysu með stíflað nef og brjálaðan þrýsting í eyrunum. Vaknaði með snert af kvefi þarna á miðvikudeginum, fyrsta í föstu, svo veiran hefur verið búin að taka sér bólfestu í líkamanum áður en pyntingin hófst. En ekki var nú skárra að fasta með kvef, eða það get ég ekki ímyndað mér!

fimmtudagur, október 28, 2004

Tíminn silast áfram

af því nú er mig farið að langa að borða. Kallinn farinn út í búð að kaupa sér eitthvað gott í gogginn og ég bara get ekki beðið eftir að fara að sofa til að geta vaknað á morgun og borðað! Löngunin svona kemur og fer en að sjálfsögðu stenst ég freistinguna þegar hún krælir á sér. Já, er að finna svolítinn mun á einu núna og það er húðin í andlitinu. Var komin með soldlar bólur og einhvern skít í fésið, en undur og stórmerki hafa gerst á einungis nokkrum klukkutímum, því eftir að ég kom úr sturtu klukkan hálf fjögur í dag er húðin að ég held að breytast í silki; bólurnar að hverfa og ég get ekki hætt að strjúka á mér kinnarnar. Það er því mjög greinilegt að maður er það sem maður borðar, þ.e.a.s. sá skítur sem maður lætur ofan í sig birtist á húð og hári...spurning um að fasta bara einn dag enn, ha?

Vil minna á

óskalistann minn hér að neðan. Þeir sem eru gjafmildir mega endilega líta á hann.

Dagur tvö í föstu

Þetta gengur nú bara ljómandi vel og mig langar ekkert í mat. Er orðin einu kílói léttari en í gærmorgun en það þyngdartap felst nú líklega í vökvatapi og tómum þörmum:) Hef ekki fengið neinn niðurgang eða óþægindi, allt í blóma í mallanum og ég held að þetta sé bara ágæt hreinsun á líkamanum. Ég drakk tvo lítra af djús í gær og auk þess allavega einn líter af öðrum vökva þ.e.a.s. jurta- og grænt te og vatn. Allavega lítur allt út fyrir að ég þrauki daginn í dag líka og ég hlakka bara ekkert til að þurfa að borða á föstudaginn!

Fyrri dagur í föstu

er að kveldi kominn og ég er með dúndrandi hausverk. Hef ekki fundið mikið fyrir hungri svo sem en er hálf orkulaus og slöpp. Veit ekki hvort ég lifi af annan dag án matar, en ætla svo sannarlega að reyna! Ef það tekst má segja að ég muni eiga þrjá "föstudaga" í röð...múhahaha, ég er svo fyndin;)

miðvikudagur, október 27, 2004

Klukkan er þrjú

og nú verða sagðar fréttir. Ég er svöng og slöpp og langar í feitan, djúsí börger. Annars fékk ég út úr líffæra- og lífeðlisfræðiprófinu sem ég tók í síðustu viku og fékk 10! Það hjálpar ekki mikið við löngunina í mat, en kannski pínu;)

Rynkeby kúrinn!

Mission Multi Juice er komið í gang.
Ég ákvað að gera tilraun til að sýna andúð mína á Hollywood kúrnum víðfræga, og drekka einungis Rynkeby Multifrugtjuice í tvo sólarhringa. Í honum eru hvorki meira né minna en 16 forskellige frugter (mismunandi ávextir) sem ég kann ekki einu sinni nöfnin á og hlýtur því að vera meinhollur! Hvernig er þetta samt með þennan Bollívúdd kúr, nú kostar líterinn af þessum undrasafa um 3000 krónur ef ég man rétt, á maður samt ekki að drekka meira en líter á dag? Ég meina, líður ekki bara yfir mann ef maður fær ekki meira en það?
Jæja, nýjustu upplýsingar um líðan mína koma hérna inn á síðuna um leið og ég finn einhvern mun, nú er bara að fylgjast spennt með!

þriðjudagur, október 26, 2004

Snilldar þraut!

Einstein skrifaði eftirfarandi gátu á síðustu öld.
Hann sagði að 98%
jarðarbúa gætu ekki leyst hana!

1. Það eru 5 hús í mismunandi litum.
2. Í hverju húsi búa menn af mismunandi þjóðerni.
3. Eigendurnir fimm drekka mismunandi drykk hver, reykja sína tegund af tóbaki og eiga hver sína tegund af gæludýri.
4. Enginn á sömu tegund gæludýrs, enginn reykir sömu tóbakstegund eða drekkur sömu drykkjartegund.


Góða skemmtun, þ.e.a.s. þið 2%



A. Bretinn býr í rauðu húsi.
B. Svíinn á hund.
C. Daninn drekkur te.
D. Græna húsið er til vinstri við hvíta húsið.
E. Eigandi græna hússins drekkur kaffi.
F. Sá sem reykir Pall Mall vindlinga á páfagauk.
G. Eigandi gula hússins reykir Dunhill.
H. Maðurinn í miðhúsinu drekkur mjólk.
I. Norðmaðurinn bý í fyrsta húsinu.
J. Sá sem reykir blandað tóbak býr við hlið þess sem á kött.
K. Sá sem á hest býr við hliðina á þeim sem reykir Dunhill.
L. Sá sem reykir Blue Master drekkur bjór.
M. Þjóðverjinn reykir Prins.
N. Norðmaðurinn býr við hliðina á bláa húsinu.
O. Sá sem reykir blandað tóbak býr við hlið þess sem drekkur vatn.


Spurningin er hver á FISKINN?

Birna bollurass

er komin vel af stað með glæsiblogg mikið, slatti af áhugaverðum kenningum um konur og karla og þvíumlíkt. Endilega að kíkja á það! Einnig á Birna afmæli á morgun, 27. október, til hamingju með það!

Ég blogga í úlpu í dag

Það er svo skítkalt úti að blóðið rennur varla í mér. Skóf bílinn þegar ég fór í skólann klukkan átta og svo aftur þegar ég var búin um hálf tíu. Hvers vegna er maður að standa í að búa í þessu landi? Mæli með að Akureyri verði flutt sunnar á bóginn, kannksi til Ítalíu, helst í nágrenni Flórens. Ef ég hefði haldið mig á listnámsbrautinni væri ég einmitt á leið til Ítalíu um miðjan nóvember að taka þátt í einhverju samevrópsku verkefni, er svolítið svekkt að hafa ekki fengið að vera með bara af því ég skipti um braut, veit að krakkar frá hinum löndunum eru ekkert öll á listnámsbrautum. Svekkelsi og pirra! Ég verð bara að fara sjálf einhverntíma seinna.

Fór með Dröfn minni í sónar í gær, það var alveg yndislegt að sjá þessi tvö litlu kríli svamla um þarna í myrkrinu, bæði stór og sterk, enda er engin smá kúla sem er komin á konuna og ennþá næstum þrír mánuðir eftir af fullri meðgöngu. Hef enga trú á að hún gangi svo lengi með, ég meina, hún myndi þá einfaldlega springa!

Ætli maður skríði annars ekki bara örlitla stund undir feld og reyni að þíða klakann af nefinu. Svo er nóg fyrir stafni, verkefni, verkefni og verkefni, og svo lánaði Gumms litlibró mér dönskudisk til að rifja upp málfræðina því ekki veitir af - fór yfir dönskuverkefni sem Hugrún gerði og hafði barasta ekki hugmynd um hvað var vitlaust og hvað rétt...svona er maður búinn að sóa kunnáttunni!

sunnudagur, október 24, 2004

Þvílíkt úrval

af skóm á þessari síðu, jammí mig langar til útlanda!!!

föstudagur, október 22, 2004

óskalistinn hennar

Ég hef verið beðin um að leggja fram óskalista um afmælisgjafir. Eins og svo margir aðrir er ég alltaf tóm í hausnum þegar ég er spurð að því, en aldrei þessu vant tókst mér að skrapa saman í smellinn lista. Svo er bara að impróvisera og koma fram með snjallar lausnir;) Já, svo bæti ég auðvitað inn á hann fleiru ef mér dettur eitthvað í hug!

-eitthvað á stóru, æpandi tómu veggina mína.
-nudd eða annað gott trít.
-blómavasa ef ég skyldi einhverntíma fá blóm.
-samlokugrill.
-húfu, jafnvel röndótta.
-eitthvað bleikt.
-snyrtivörur.
-eyrnalokka.
-utanlandsferð, helst til Brasilíu eða Ítalíu.
-bók.
-undirföt.
-afmæliskort og koss og knús.
-ný flugmannasólgleraugu, hin eru öll rispuð.
-kósí bómullarnáttföt, t.d. úr Hagkaup...love em!
-íþróttabuxur.
-Svört stígvél með pinnahælum og allskonar smellum og dóti..dead sexy! Eða svona!
-salt og pipar stauka (kvarnir).
-hraðsuðuketil.
-Angelinu Jolie.

fimmtudagur, október 21, 2004

gaman gaman!

Já, þetta var nú aldeilis skemmtilegt blogg hérna fyrir neðan. Þurfti bara að koma þessu frá mér því þetta skýtur reglulega upp kollinum og ég verð alltaf jafn sár.
Annars var ég að koma úr líffæra og lífeðlisfræði prófi, hef sjaldan verið jafn stressuð fyrir próf get ég sagt, titraði og skalf og var ískalt á höndunum og með í maganum áður en prófið byrjaði, en var orðin ok þegar ég fékk prófið í hendurnar. Gekk alveg skítsæmó sko, hlakka til að fá út úr því.
Þá eru ekki fleiri próf á næstunni, get farið að taka það rólega aftur og er að hugsa um að sauma mér einhvern topp fyrir afmælið mitt, á alveg dúndur bleikt efni með glimmeri í hérna einmana ofaní poka...hmmm...já, ætla að stúdera þetta svolítið!

Til þeirra sem eiga það skilið.

Til er fólk sem hugsar ekki út í það að aðrir hafi tilfinningar. Til er fólk sem ræðst inn í einkalíf annarra og særir meira en orð fá lýst án þess að blikka auga. Ég veit ekki hvort það er af illgirni eða heimsku sem fólk gerir þetta, en það hugleiðir að engu leyti afleiðingar þess fyrir manneskjuna sem verður fyrir því. Einkalíf sitt vill maður eiga í friði og það er skelfilegt þegar því er dreift út um allt án þess að maður geti gert nokkurn skapaðan hlut til að stöðva það. Getið þið ímyndað ykkur þá tilfinningu? Að vera gjörsamlega valdalaus? Mynduð þið vilja að ykkar allra mestu prívat hlutir yrðu sendir til ókunnugs fólks, og ég tala ekki um til vina, fjölskyldu og ættingja?!
Og því segi ég: Þér sem datt í hug að gera mér þetta óska ég alls ills, og megirðu rotna í helvíti. Og mundu...What goes around comes around!

miðvikudagur, október 20, 2004

Hvað er í gangi?

Einhverra hluta vegna er síðan mín komin inn á www.b2.is og teljarinn minn allur kominn úr skorðum, meira en 3000 gestir síðan í gærkvöldi, 95 online í gær þegar ég ætlaði að blogga. Ákvað að bíða með það þangað til í dag þegar aðeins færi að hægjast um.
Tók mig til áðan og skellti inn fullt af myndum sem eru búnar að hlaðast upp hjá mér, myndir síðan í desember 2003 og svo loksins myndir af kallinum stelpunnar, en hann er algjört bjútíkvín sko;)
Skoðið og gleðjist!

þriðjudagur, október 19, 2004

Clostridium botulinum

er baktería sem veldur spergilsýki, sem er mjög hættuleg matareitrun. Bakterían seytir frá sér úteitri (exótoxín), svokölluðu taugaeitri, sem er eitt öflugasta eitur sem þekkist. 1/1000 úr milligrammi þarf til að drepa mann. Hún berst með skít (mold) og vatni í ýmis matvæli, aðallega pylsur, reyktan mat, grænmeti, heimaniðursoðnar vörur og skemmdan fisk þar sem hún seytir frá sér úteitrinu ef hún nær að fjölga sér við loftfirrðar aðstæður. Ef menn neyta mengaðs matar er hætta á að eiturefnið berist í blóðrásina og veldur það taugalömun sem getur leitt til dauða. Algeng einkenni eru m.a. munnþurrkur, kyngingarerfiðleikar, sjóntruflanir, lömun augnhreyfivöðva, skert einbeitingar- og staðsetningarhæfni, talerfiðleikar vegna lömunar talvöðva, ógleði, uppköst, kviðverkir og niðurgangur. Vitað er um kornabörn sem hafa smitast af spergilsýki við neyslu grómengaðs hunangs á snuddum.
Clostridium botulinum eitrið er einnig þekkt undir nafninu Botox (botulinum toxin) og er sprautað í andlit fólks til að slétta úr hrukkum.

Pin-up gella!

Hmmm...hvaða tjikk er þetta eiginlega????

You are Bettie Page!
You're Bettie Page!


What Classic Pin-Up Are You?
brought to you by Quizilla

Bjútítips

Talað hefur verið um að hollt sé fyrir húðina að taka köld sturtuböð reglulega, það stinni hana og fegri. Ég hef fundið annað ráð sem virkar alveg jafn vel og kannski betur, en það er að fara út í snjóbyl í of þunnum buxum. Held að lærin á mér hafi sjaldan verið samanherptari. Annar plús við snjóinn er að líkaminn styrkist mjög við að vaða skaflana sem eru á gangstéttunum, auk þess sem það bogar af manni svitinn svo einhverjar kaloríur hljóta að missa sig út í veður og vind við það og einnig við að reyna að halda uppi eðlilegum líkamshita. Svo ég býð alla hjartanlega velkomna á heilsuhælið Akureyri í október!

Ég er svo aldeilis!

Ég er svoooo frábær! Mætti í vinnuna í kvöld klukkan sex og vann af miklu kappi við úthringingar, fer svo um hálf tíu og bið vaktstjórann að breyta fyrir mig nokkrum vöktum vegna prófa og hún tilkynnir mér þá að ég sé bara ekkert skráð á vakt í kvöld! Hehe, ég varð dálítið kindarleg á svip, en vaktarinn bara ánægður með stelpuna;)

mánudagur, október 18, 2004

Theme party!!!

Langar soldið að hafa svona þema partý á afmælinu mínu, veit bara ekki hvaða þema ég á að velja. Er búið að detta í hug t.d. Movie stars, Party of bad taste, Sluts and pimps, FM 95.7, Kinky, Rock and Roll, Bleikt, Röndótt, Disco, Djöflar, og eitthvað fleira.
Endilega látið mig vita ef þið hafið einhverjar sniðugar hugmyndir...er alveg ráðþrota hérna!

Snjórinn já...

Var að fatta að ég er með 11 blómapott, 1 grill, grilláhöld, kol, 2 sólstóla og 1 borð úti á svölum. Ég er svo tímanlega í öllu sem ég geri! Nú sé ég fram á að geta ekki tekið þetta inn fyrr en í vor með hækkandi sól.
Annars ákvað ég að taka til og þrífa áðan, og það var ekkert skelfilega leiðinlegt neitt, aldrei þessu vant. Skellti meira að segja í eina vél til hátíðabrigða, og hver veit nema ég dembi mér í aðra innan skamms...

jeminn eini

það er snjóstormur úti og ég lýg því ekki! Hef ákveðið að fara ekki út úr húsi fyrr en hann er búinn. Eða allavega ekki fyrren 6 því þá þarf ég víst að mæta í vinnuna. Heitt kakó og pönnsur er málið.

sunnudagur, október 17, 2004

Ég tel það

skyldu mína, en einnig geri ég það mér og öðrum til gamans að kynna Finn til sögunnar. Þetta byrjaði allt með hangilostakústi, en nánari útskýringar á honum er að finna í bloggi hans frá fimmtudeginum 14. október og er formleg kynning á sjálfri mér skrifuð laugardaginn 16. október á sömu síðu. Á manninum þekki ég engin deili, en hann er skondinn mjög. Njótið vel!

Meira um drauma

Svo dreymdi mig líka alveg skelfilega skringilega. Ég skaut hrafn sem var að slást við máv (eða máf?) með lásaboga, man ekki af hverju. Það var sem sagt ég sem var með bogann en ekki mávurinn. En allavega strauk hrafninn vængnum utan í jakkann minn og skildi eftir blóðugt gat. Og þá dó Jónsi í svörtum fötum og Rósa konan hans var alveg brjáluð út í mig, en hann gekk aftur og hún sakaði hann um framhjáhald. Hann gekk á eftir henni og reyndi að milda hana en hún vildi ekkert við hann tala og gekk í burtu.
Ég get svo svarið það, hvað er maður eiginlega ruglaður á nóttunni? Ég kíkti í draumaráðningabók eftir hrafni eða krumma en það stóð bara:"Hrafn. Þetta nafn boðar þér lát nákomins vinar." En ég held að hrafninn hafi ekki heitið Hrafn. Og að drepa fugl í draumi er ekki fyrir góðu. Jæja, ég vona að allir haldi sér á lífi og að ég haldi geðheilsu, allavega eitthvað lengur.

I had a dream

Mjög spes draumur já. Bjó einhversstaðar í útlöndum, ekki alveg sure hvar, en skráði mig allavega í einhvern fatahönnunarskóla og borgaði offjár fyrir, átti svarta vinkonu sem kom með mér, ekki hugmynd um hver það getur verið. Svo voru bara endalausar hillur fullar af allskonar efnum og einhver gribbu kennara kerling sem hrúgaði á mig efnisströngum og sagði að ég væri langt á eftir öllum og ég þyrfti að skila fullt af flíkum eftir nokkra daga, svo ég fór að sauma og hanna alveg á fullu. Kellan sýndi mér peysu sem annar nemandi hafði gert og henni líkaði vel og ég hannaði í draumnum nýja peysu á augabragði, sá hana alveg fyrir mér, efnið og allt... og svo þegar ég vaknaði var ég alvarlega að spá í að fara í fatahönnun. Það er alveg ótrúlega oft sem mig dreymir föt, allskonar galla og flott snið, magnaða liti og flott efni og er alveg slefandi þegar ég vakna. Kannski það sé verið að benda mér á eitthvað, hmmm;) Hehe, nei ætli ég haldi mig ekki við snyrtifræðina í bili, aldrei að vita síðar meir, er nú þekkt fyrir að vera endalaust í skóla og að skipta um skoðanir jafn oft og ég blikka augunum;)

laugardagur, október 16, 2004

Bloggari hefur bæst í hópinn

og það er verkfræðipían hún Hugrún frá Laugum. Vorum bestest friends hérna í denn og endurnýjuðum kynnin að einhverju leyti nú fyrir stuttu. Endilega að kíkja á síðuna hennar!

Auglýsi hér með

eftir stjörnukortinu mínu. Hef ekki séð það í mörg ár þrátt fyrir mikla leit. Þeir sem hafa orðið varir við það vinsamlega látið mig vita.

föstudagur, október 15, 2004

Heldurðu ekki

að hún Þórey mín hafa bara hringt í gærkvöldi! Alltof langt síðan ég hef séð hana, örugglega næstum tvö ár! Hún býr í Reykjavík núna og er að læra klæðskerann í iðnskólanum, svaka kúl á því. Hún á afmæli núna um helgina og var að tékka hvort nokkuð væri von á mér í bæinn. Ég er nú ekkert á leið suður svo ég bauð henni bara að koma í afmælið mitt þann 5. nóvember, svo nú verð ég að gjöra svo vel að halda veislu. Heiggi stóribró var líka að tala um að koma norður ef ég verð með veislu, þar sem ég á nú hálf stórafmæli, 25 ára! Svo þá lagði ég saman tvo og tvo og plottaði það að Þórey gæti barasta fengið far norður með Heigga, ohhh ég er svo mikill snillingur! Já þannig að það verður partý...eða kannski kökuboð bara...eða bæði? Já ég á eftir að hugsa þetta aðeins meira...kannski ég haldi bara þemapartý, "eitís" kannski...eða bleikt og blátt...hmmm...jæja, leggja heilann í bleyti og leita að bollu og partýmat uppskriftum. Jeij jeij! Þórey afmæli 17. Dúdda 19. amma 21. pabbi 23. og Birna 27. verð að kynnast einhverjum sem á afmæli 25.!

fimmtudagur, október 14, 2004

Djí...

ég er ekki búin að mæta í ræktina síðan síðasta laugardag, ömurlega léleg! Enda er spikið búið að hlaðast upp á mér, því ekki hef ég borðað heilsusamlega heldur. Mamma heldur að ég sé á fengitímanum og fari að hefja fjölgun hvað úr hverju, en nei, ekki alveg það sem er efst í huga mér þessa stundina! Er bara búin að vera að læra, vinna og sofa þessa vikuna, auk þess sem ég get ekki snúið höfðinu til hliðar, svo ég hef bara tekið það rólega. Það er löng helgi í skólanum þessa helgi, frí bæði föstudag og mánudag, ekki veit ég hvers vegna en er sama, bara sátt við að fá frí;) Er svo bara að vinna á laugardaginn svo ég tek kannski smá lotu í ræktinni fjóra daga í röð. Verð að fara að fá bílinn aftur, er að deila bíl með mömmu og ömmu núna og það er ekkert spes, þó ég fái að hafa hann mjög oft. Jæja þetta kemur allt í ljós, ætla að klára detox teið mitt ljúffenga og kannski athuga hvort ég hafi fengið svar frá snyrtiskólanum, ótrúlegt hvað þeir geta verið lengi að svara!

miðvikudagur, október 13, 2004

Hipp og kúl

Dúdda ormur er meðal fræga fólksins í New York eins og vera ber.



Carmen Electra í föngulegum hópi.

mánudagur, október 11, 2004

Aðalfréttin

má ekki gleymast! Ég fékk 9.8 á 30% eðlis- og efnafræðiprófinu mínu, jíhaaaa!!!! Gerði tvær ponku klaufavillur, maður getur aldrei verið alveg laus við þær:( Var svona þokkalega ánægð með þessa einkunn, get ekki sagt annað, hefði samt verið snilld að fá 10! Og ég hefði verið illa svekkt að fá lægra líka því ég var nokkuð viss um að ég hefði getað allt. Eníveis, var að brenna pott af því ég var viss um að ég væri ekkert að hita þegar ég heyrði snark í íbúðinni, og ætla að fara að rumpa af sýklafræðiverkefni, eða verkefnum, eftir því hvernig gengur!

Aumingja kagginn

er alveg að segja sitt síðasta. Kúplingin er biluð. Ég keyrði í skólann í morgun og í hvert skipti sem ég stoppaði, sem sagt á gatnamótum og á bílastæðinu í skólanum, drap skrjóðurinn á sér og hoppaði áfram. Ég hef pottþétt verið rosa asnaleg, eins og ég kynni ekki að keyra. Kom honum svo á stæðið hjá ömmu, en hún býr fyrir neðan VMA og þaðan ætlaði ég aldrei að koma honum þar sem ég gat ekki sett í gír. Það tókst svo að lokum og brunaði ég í einum rykk í öðrum gír til mömmu og pabba og þar stendur kagginn núna og ég er farlama. Ætla að gera tilraun til að koma honum upp á vegagerð á morgun ef þeir á verkstæðinu verða svo ljúfir að vilja kíkja á hann fyrir mig. Og ég sem ætlaði að gera svooo margt í dag, ræktin, bærinn, vinnan, hef ekki tíma til að labba það allt...get labbað í skólann, það er ekki málið. Ohh, vona svo innilega að það sé hægt að gera við hann fyrir lítinn eða engan pening, alveg týpískt að um leið og ég fæ bíl þá bili hann!

sunnudagur, október 10, 2004

Hömm pömm...jú ég held það!

Ég lagfarði aðeins og betrumbætti svörin mín og fékk þá út að ég væri soldil appelsína, og held barsata að það stemmi betur, allavega sumt af því, eða hvað? Nema auðvitað liturinn, hann er alveg út í hött;) Og jú, ég er ekki mjög mikill orkubolti, svona almennt séð;)

HASH(0x8aa9fa0)
You're orange. You're strong and have the reflexes
of a tiger. You're overly protective, and
those skills come in handy... You're a natural
person, with a taste for natural foods (I mean
organic, here.). Well, that's not true.
...Just food in general! You're as
quick-witted as your reflexes, and sometimes
painfully logical. You love wild animals and
pets. (Preferably wild animals!) You're a
natural person, and a true child of Gaia.
You're a stimulating, and outgoing person. You
enjoy making people think, especially with your
infectiously spontaneous attitude. You're a
generally optomistic person, with a love for
showing off all of your good traits. Although
many people may see you as strung-out, or just
plain weird, you're very down-to-earth and
humble. You're incredibly sweet (as this
color's other name!), and you care about people
in general. As this color would describe,
you're energetic beyond all human
comprehension. You've got a nack for drawing,
and you enjoy it, too. When it comes to
school, you're a good listener with an even
better memory. You're studious... At least
when you need to be!


What color are you? (Amazingly detailed & accurate--with pics!)
brought to you by Quizilla

Kemur á óvart!

Veit nú ekki alveg hvort lýsingin stemmi, en liturinn er pottþéttur, varð soldið hissa að fá þetta svar samt, þar sem bleikur er jú uppáhalds liturinn minn;)

HASH(0x8a695f4)
You are the color pink. As a beautiful and sweet
human, you are everybody's favorite person.
Healthy and energetic, you're often seen
spreading the happines. As an unusually
charming and sweet person, you're always ready
to comfort people who are down. You sympathize
with everyone, but not always yourself. Aside
from that, you are light-hearted and cheery.
And you make it your duty to make every cloud
have


What color are you? (Amazingly detailed & accurate--with pics!)
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, október 07, 2004

Gekk ágætlega

í eðlis- og efnafræðiprófinu í gær, held ég hafi getað allt, en annað kemur líklega í ljós þegar ég fæ niðurstöðurnar;) Vona að ég fái út úr því á morgun. Fór svo líka í svona smá tékk í lollinu í gær og fékk 10 á því! Við máttum reyndar nota bókina og glósur en höfðum mjög stuttan tíma, svo ef ég hefði ekki kunnað rúmlega helminginn á prófinu utanbókar hefði ég ekki náð þessu (aðeins að reyna að líta betur út sko thíhí) en það við vorum samt bara tvö sem fengum 10 svo ég er þokkalega ánægð! Svo verður 15% próf í lolli eftir tvær vikur og ég þarf sko slatta mikið að læra fyrir það skal ég segja þér! Ekki nóg með að ég þurfi að kunna allt um húðina, öll bein í beinagrindinni og helstu líffæri á latínu, heldur þarf ég líka að vita hvar klyftasambryskja, augnkarl, ölnarhöfðagróf, stílhyrna og neföður (og fleiri og fleiri) eru og kunna heitin á þeim á latínu! Ja sei sei, það mætti halda að maður væri kominn í háskóla bara!! (Ekki seinna vænna, en það er annað mál;)) Svo auðvitað þarf ég að vita sitthvað um vefi, frumur og fleira. En ég hef nú bara gaman að þessu, svo ég ætla ekki að kvarta meira.

Já já, fór annars með kaggann í smurningu í dag, fyllti hann af bensíni, kyssti hann og knúsaði, get ekki ímyndað mér lífið án hans núna;) Fór svo í dýrabúðina með Gumma litlabró og spurði um skjaldbökur, en þær eru víst ekki seldar á Íslandi. Hélt svo sem ekki, en sakar ekki að spyrja. Gerði það nú aðallega til að hrella hana móður mína. Braut svo saman eins og hálfa skúffu af plastpokum sem voru að flæða um allt þvottahús, ryksugaði og tók svolítið til og ætla að fara að læra núna, ekki veitir af, stafli af verkefnum! Svo er það Body Balance á eftir, jeminn hvað það er hægt að svitna í þeim tímum. Búin að fara einu sinni áður, fullt af stórum kellum í tímanum sem blésu ekki úr nös meðan ég var gjörsamlega á síðasta dropa...já því er misskipt vöðvaaflinu;)

mánudagur, október 04, 2004

Hvað er annars

málið með tannlækna. AF HVERJU fylla þeir munninn á manni af allskyns tækjum og tólum og spyrja mann svo að einverju?????

Talandi um að keyra

þá keypti hann pabbi minn sér nýjan bíl á dögunum og heldurðu ekki að ég hafi bara fengið gamla kaggann til afnota!! Er alveg þvílíkt ánægð með það, frábært að geta keyrt út um allt án þess að þurfa alltaf að vera að fá lánaðan bíl. Pabbi meira að segja búinn að borga tryggingar og allan pakkann, svo ég þarf bara að borga eldsneyti á bílinn og má hafa hann alveg í ár örugglega. Jeij jeij, ég á alveg bestu foreldra í heimi verð ég að segja... því mamma gaf mér svo 10 þúsund króna bensínkort sem hún vann í einhverju happdrætti...too good to be true, huh?? Takk fyrir mig!

Alltof löt

að blogga núna, finnst best að liggja bara undir teppi og gera sem minnst. Var að koma frá tannlækni, hann kíkti upp í mig og hreinsaði tannstein og ég borgaði honum mjög sanngjarna þóknun, 7700 krónur...jeminn! Á svo pantaðan tíma aftur í nóvember, þá ætlar hann að fegra aðeins á mér brosið, plasta tvær tennur sem ég er búin að gnýsta til fjandans, og taka mót fyrir svefngómi, svona eins og gamla fólkið notar;) Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn gnýst-eyðslu tannanna. Ég er greinilega alveg ferleg á nóttunni, bryð í mér tennurnar eins og kandís;)
Tók 5% æfingarpróf í eðlis- og efnafræði í síðustu viku, fékk út úr því á föstudaginn 8.4 og það tók mig helgina að jafna mig. Var óóógurlega svekkt að hafa ekki fengið 10 því þetta voru bara klaufavillur sem ég var að gera, já maður er farinn að gera kröfur til sín! Fer svo í 30% próf núna á miðvikudaginn sem ég ætla að reyna að standa mig betur í. Það er reyndar miklu lengra og flóknara svo ég ætti bara að vera ánægð ef ég næ 8.4 en ég hélt bara að ég væri aðeins betri í þessu. Svo er próf í lollinu (líffæra- og lífeðlisfræði) á næstunni, það verður örugglega öllu strembnara með öll sín latínuheiti og skemmtilegheit, já það verður allavega fróðlegt að sjá hvernig gengur í því!
Jamm og jæja, ætla að smellast í íþróttagallann og keyra svo elskuna mína til tannlæknis, tata!

mánudagur, september 27, 2004

Einar Ágúst

viðriðinn eitt stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar, fer í meðferð í dag...ég get svo svarið það, eins og ég var skotin í honum hérna í denn! Það er reyndar DV sem birtir fréttina svo ég veit ekki hversu trúanlega maður á að taka þessu, en ég hélt að hann væri orðinn frelsaður og fanatíksur á áfengi og eiturlyf, harðgiftur engillinn. Kannski maður fjárfesti í DV og sökkvi sér í slúðrið.

laugardagur, september 25, 2004

Ebay Skíbei!

Já, ef ég var ekki búin að skrifa það áður (minnið farið að gefa sig) þá fékk ég mér VISA kort og er búin að greiða skuldir mínar á Ebay! Var búin að fá eittvert unpaid item strike og farin að svitna, svo ég dreif í þessu, kemur í ljós hvort þetta muni einhverntíma koma til mín, það er annað mál! Lét senda vöruna til shopUSA og þeir eiga að sjá um að koma henni til mín. Það verður spennandi að sjá hvort þetta gangi upp.

Skallinn

Fór á Hárið í gær í höllinni, það var alveg magnað! Við Bjartmar og Gummi litlibró ákváðum að mæta snemma svo við fengjum góð sæti (það var nú reyndar ég sem stjórnaði því hehe) og vorum komin rétt rúmlega sjö, en nei nei þá var bara mega röð um allt bílastæðið! Einhverjir greinilega mætt mjög snemma til að geta setið fremst. En við fengum sæti á ágætum stað, sáum mjög vel, nema hvað að við sátum á einhverjum helvítis trébekkjum og strax eftir hálftíma var rassinn orðinn heldur aumur og bakið slæmt. Já, en sýningin var alveg æðisleg, fékk gæsahúð örugglega 70 sinnum og langaði helst að dansa með þeim. Nektar atriðið var nú ekkert svaðalegt neitt, bara fullt af júllum flaksandi um allt sviðið í svona hálfgerri þoku, en leikararnir hafa örugglega aldrei farið úr fötunum fyrir framan svona marga í einu, það voru nefnilega 1500 manns á sýningunni;) Ég reyndi að koma auga á sprellann á Hilmi Snæ, en sá ekkert fyrir skoppandi búbbum, dem it! Híhíhí...
Já, í lok sýningarinnar var einhver ljósmyndari á vappi þarna fyrir framan okkur og held hann hafi smellt af nokkrum myndum svona í áttina að okkur, svo hafið augun opin fyrir skvísunni mér í rauðum bol í blöðunum;)

föstudagur, september 24, 2004

Americas next top model

er sko uppáhaldsþátturinn minn í öllum heimi!! Hann er svo fyndinn að ég fæ hreinlega stundum tár í augun og magakrampa. Fyrir það fyrsta er Tyra Banks gjörsamlega út úr kú greyið kellingin, með myndir af sjálfri sér út um allt og í öllum auglýsingum um þáttinn, alveg fáránlegt þar sem þátturinn fjallar ekkert um hana, hún stjórnar honum bara, og svo í há-dramahluta þáttarins þegar hún þarf að reka eina skvísuna heim, þá hljómar hún alltaf svo hryllilega væmin, annað hvort eins og hún sé að fara að grenja eða fá það eða ég bara veit hreint ekki hvað. Og svo eru þessar yndislegu stúlkur sem eru að keppa um titilinn, þær eru gjörsamlega magnaðar. Þátturinn í gær er nú gott dæmi um það. Í fyrsta lagi skipta þær skapi jafn oft og þær blikka augunum, svo var fáránlega fyndið þegar ein horrenglan sem greinilega hafði ekki borðað í fimm daga fékk svima og lagðist í gólfið, komu þá ekki hin tíu gáfnaljósin og veifuðu allar blöðum framan í hana, færðu henni mat og drykk og ég veit ekki hvað og hvað, æi þetta var bara svo fyndið, get ekki lýst því. Svo grenjaði ein gellan næstum allan þáttinn, það var bara allt að, vá ég vaki sko fúslega til hálf eitt á fimmtudögum til að geta fylgst með þessu!
Reyndar var fyrsta serían nokkuð betri, sérstaklega þar sem svalasta stelpan vann, hún Adrienne (er haggi annars?), hélt með henni allan tímann þar sem hún var eina stelpan sem var ekkert með eitthvað væmið aumingja drama kjaftæði, bara cool á því.
Já ok, gaman gaman ég veit, bara eeeelska þessa þætti:)

mánudagur, september 20, 2004

Múhaha...

Ef þessi mynd er ekki getnaðarleg þá bara veit ég sko ekki hvað getnaður er!!


Dúddelíus svooooo sexy;)

... :o)

Æm bakk! Tölvan mín var öll í klessu en ráðin hefur verið bót á því. Það er helst að frétta að ég er byrjuð að vinna á Gallup, fimmta vaktin mín í kvöld. Vinnutíminn er frá 18-22 á virkum kvöldum og dagvaktir um helgar. Það er ætlast til þess að ég taki tvo virka daga og eina helgarvakt í viku, en ég ætla að reyna að taka eitthvað fleiri vaktir allavega til að byrja með, áður en ég fæ ógeð. Er bara að standa mig ágætlega það sem komið er, vona að það sé ekki bara byrjenda heppni! Ég ítreka það aftur við lesendur að vera góðir við þá sem hringja frá Gallup, það er svo leiðinlegt þegar fólk er dónalegt og vill ekki svara:(
Hugrún darling átti afmæli í gær, nú er hún alveg að verða stór. Við Birna gáfum henni trefil og vettlinga til að halda á sér hita í vetur, enda búið að kólna ískyggilega hérna á norðurslóðum. Læt mig dreyma um sól og suðrænar strandir...mmmmm....
Ég bara gerði ekki shit um helgina, var að vinna á föstudagskvöldið og jú ég reyndar kíkti í heimsókn til Drafnar á laugardagskvöldið, hún var að flytja í 4 herbergja íbúð, stækka við sig þar sem hún er svo dugleg í að fjölga sér. Á von á litlum tvíbbum í desember eða janúar þessi elska, þá verður sko aldeilis nóg að gera! Er að spá í að gefa henni húshjálp í fæðingargjöf, panta eitt stykki svoleiðis einhversstaðar að utan..hmmm...any ideas?
Jamm og jæja, spurning um að halla sér örlitla stund áður en ég fer í ræktina, sofnaði alltof seint í gær. Svo er aftur skóli og svo vinna, nóg að gera hjá kellunni sko!

Ahhh jæja

þá er tölvan mín komin aftur í lag, thank G for that! Var farin að titra svolítið og ganga um gólf að geta ekki bloggað. En hef engan tíma í þetta akkúrat núna, þarf að sækja hana móður mína í vinnuna, en helstu fréttir verða komnar inn á síðuna á morgun, tata þangað til!

þriðjudagur, september 14, 2004

LOKSINS

fékk ég svar frá snyrtiskólanum í Köben, jeij jeij. Það er íslenskur kennari þar og hún skrifaði mér til baka að þau tækju inn ótakmarkað magn af útlendingum, því fleiri því betra, ekki hljómar það illa fyrir mig, og að skólinn taki inn um 60-70 nemendur á önn, ekki hljómar það heldur illa fyrir mig! Þá er bara að fara að útbúa glæsi umsókn með einkunnir frá sem flestum skólum og meðmælum og hvaðeina...hmmm...kannski maður ætti bara að útbúa lítinn snyrtifræðibækling með eigin uppskriftum, taka nokkrar förðunarmyndir og fara á kostum? :) Nei, veit ekki hvort það myndi vekja mikla lukku hjá proffunum þarna ytra. Well, er komin með fiðring í magann alveg hreint, ætla að gera nokkrar armbeygjur.

Til að friða...

...púddelhundinn svolítið þá get ég sagt frá því að ég fór á djammið á laugardagskvöldið! Fékk mér nokkra LITE og smá blush og fór með Birnu og co. á Oddvitann. Get nú ekki sagt að þar hafi verið mikið fjör, tók samt nokkra snúninga áður en við fórum á Vélsmiðjuna. Þegar þangað var komið ákváðu skötuhjúin NÝTRÚLOFUÐU Birna og Jói að fara bara heim í ástarhreiðrið sitt, en þar sem ég hafði borgað 800 krónur inn tímdi ég ekki að fara, svo ég varð ein eftir. Þekkti nákvæmlega engan þarna inni! Hitti gamlan kall (reyndar bara 52 en leit út fyrir að koma beint af elló smelló sko) sem sagði að fólk kallaði hann stundum Haukinn...hmmm...og að hann hefði spilað með Agli Ólafssyni hérna í denn. Haukurinn og Egillinn. Gaman að því, dansaði því miður nokkur lög við hann en lét mig svo hverfa snögglega því hann var farinn að halda að hann fengi eitthvað meira. Skoppaði mér inn í bæ aftur og hitti co-ið frá því fyrr um kvöldið, ákvað á kaupa mér ekki pizzu á vægast sagt uppsprengdu verði, en fara þess í stað heim. Þetta var djammsaga mánaðarins, önnur eins svaðaleg djammferð verður e.t.v. farin síðar og verða allar nýjustu upplýsingar að finna hér á síðunni. Danke schön!

mánudagur, september 13, 2004

Heilinn á mér...

...ekki alveg upp á sitt besta í dag, tókst einhvernveginn bara að slökkva á vekjaranum í morgun og hverfa langt undir sængina..sem þýddi að ég mætti ekki í eðlis- og efnafræðitímann minn í morgun! Það var nú svo sem ekki mikill missir, förum alltaf yfir það sama allavega tvisvar í viku, ekkert voðalega bright fólk með mér í þeim tíma! Eða jújú kannski alveg bright en nennir ekki að læra heima býst ég við. Ég mætti samt í líffræða- og lífeðlisfræðina klukkan þrjú, vorum að raða líffærum í dúkkur og svona, voða gaman. Ég er samt svolítið kvíðin fyrir prófinu í þeim áfanga, þurfum að læra svona skrilljón latínuheiti á öllum vöðvum, beinum og líffærum í líkamanum. Ég hef ákveðið að fara ekki í læknisfræði allavega! Held ég þurfi að leggja aðal áhersluna á húðina, hárið og blóðrásarkerfið fyrir snyrtifræðina, eða það meikar svona mest sens finnst mér. Jebb, ætla að fara að drífa mig í ræktina, fór ekkert um helgina og er strax búin að fitna um svona tíu kíló sirka og komin með fráhvarf. Tata í bili.

sunnudagur, september 12, 2004

Ég held bara...

...að það sé enginn sem lesi síðuna mína nema hann Lifur! Samt er ég búin að reikna út að það séu á milli 10 og 20 heimsóknir á sólarhring, svo ég er ekki alveg að átta mig á hvað er í gangi. Kannski opnar vefskoðarinn minn bara síðuna reglulega, svona til að tékka statusinn á öllu? Hmmm, ætla að sökkva mér niður í rannsókn á þessu dularfulla máli, vonast til að verða komin með niðurstöður innan fárra daga.

laugardagur, september 11, 2004

Hvernig væri svo...

...að eitthvað af þessu fólki sem kemur á síðuna mína myndi kommenta svolítið hjá mér eða skrifa í gestabókina mína, svona svo ég viti hverjir eru að fylgjast memm!

Var að fatta...

...að ég hef ekki sett eina einustu nýja mynd inn á síðuna síðan í maí örugglega, hversu lélegt er það!! Hef hugsað mér að fara að bæta úr því, kannski með því að fá mér myndavél;) Eða hef kannski ekki efni á að blæða í myndavél núna, er alltaf að eyða, kortið í ræktina kostaði til dæmis 25 þúsund kall ARG! Fæ þá bara lánaða myndavél og tilheyrandi græjur og fer að dokjúmentera soldið, sýna hvað ég er orðin stælt og grönn og svona múhahahaha.....

föstudagur, september 10, 2004

Hljóp í bankann í dag og pantaði mér eitt stykki kreditkort til að redda ebay málum. Ætla reyndar að hafa það fyrirframgreitt svo það er í rauninni bara eins og debetkort en með visanúmeri. Það verður tilbúið eftir svona viku en ég má hringja á þriðjudaginn og get þá fengið númerið á kortinu. Drífa sig í að redda málunum svo ég fái fínu snyrtitöskuna mína sem fyrst;)

Múhahaha!

Ég er alveg að gleyma stórfréttum! Ég byrjaði loksins í ræktinni í fyrradag. Er búin að djöflast núna í þrjá daga því ég ætla að verða geggjað fit og flott í vetur. Það væri draumur ef ég endist til að mæta á hverjum degi. Í fyrradag tók ég 20 mín á stepper, 20 mín á hjóli og lyfti svo með fótum, í gær tók ég 40 mín á stepper, kraftgöngu í 20 mín og lyfti með höndum, og í dag tók ég 40 mín á stepper og 20 mín á einhverju undarlegu tæki þar sem maður heldur í stangir og skautar svona áfram, voða gaman. Og svo auðvitað alltaf slatta af maga- og bakæfingum og teygjum. Manni líður svo vel eftir þetta að það er með ólíkindum, finnst ég strax orðin 5 kílóum léttari og ekkert smá stælt, hehe;) Hélt samt á tímabili í dag að ég væri að fá fyrir hjartað, en ég komst heil heim. En það var eitt alveg fáránlegt, þurfti að hætta þegar ég var að byrja að teygja á því ég fékk alveg óstjórnlega verki í endaþarminn HAHA! Staulaðist út í bíl og dreif mig bara heim, uss uss, var svona að spá hvort ég ætti að fara heim eða á sjúkrahúsið, var ekki alveg að lítast á blikuna!! Gaman að þessu:o)

fimmtudagur, september 09, 2004

Úff ég er sko algjör klúðrari!

Tók upp á því snjallræði að sörfa á ebay.com í gær, skráði mig inn og allt, prufaði svo að bjóða í eina vöru, bara svona ganni...og heldurðu ekki að konan hafi bara verið hæstbjóðandi! Ég fékk alveg hnút í magann, hætti að anda og fékk svima, ekki laust við smá ógleði líka, því ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera næst! Veit ekki hvernig ég á að borga eða neitt því ég á ekki kreditkort, allt í steik! Fór inn á shopusa.is og reyndi að krafla mig í gegnum leiðbeiningar þar, en ég bara botna hvorki upp nér niður í neinu ennþá! Ég meina, á ég að borga vöruna á ebay og láta senda hana til shopUSA eða borga þeir fyrir mig vöruna þegar hún kemur þangað og rukka mig svo? Varla verður varan send af stað ef ég er ekki búin að borga? ARG ætli þetta endi ekki með því að ég skokki út í banka og reddi meiru einu stykki kreditkorti.. þó ég hafi lofað sjálfri mér því að eignast aldrei svoleiðis. Eitthvað verður konugreyið að gera, ekki vil ég enda uppi með kæru eða einhvern fjandann, ja hvað veit maður! Hjálp óskast!

miðvikudagur, september 08, 2004

Jæja, sendi fyrirspurn til Danmerkur um skólann sem mig langar voða til að fara í. Cidesco kosmetologskolen í Kaupmannahöfn. Vantar upplýsingar um hvað þeir taka inn marga nemendur, hvenær ég þarf að sækja um og úr hvaða fögum þeir vilja fá einkunnir... og auðvitað hvort þeir taki ekki örugglega inn útlendinga! Skrifaði að ég væri að læra mikrobiologi, "fysik og kemi" og anatomiu og physiologiu... reyna að fá góð viðbrögð sko! Er svo spennt að fá svar, held ég sitji bara hérna við tölvuna í dag og bíði:) Mig langar svo geggjað að komast inn í þennan skóla, verð spenntari með hverjum deginum. Já ég get sko sagt þér að það verða mikil vonbrigði ef ég kemst ekki inn! Krossið fingur fyrir mig...

þriðjudagur, september 07, 2004

"Golgikerfi pakka velli til útflutnings úr frumunni..." Múhaha....pakka velli!! Skemmtileg þessi líffæra- og lífeðlisfræði. Var í sýklafræði í morgun, nokkuð áhugavert fag, erum aðallega að læra núna hvað gerist með mat sem skilinn er eftir á borði...jakkí girnilegt sko!
Annars búin að lesa yfir mig af snyrtifræðibókum og orðin soldið pirrandi við kallinn og familíuna held ég með beautytips alveg hægri vinstri. Var meira að segja að kaupa húðvörur handa litla bróa, hann kominn á unglingabólu aldurinn, kemur í ljós á eftir hvort ég get neytt hann til að nota þetta hehe. Get alveg sleppt þessum snyrtifræðiskóla held ég, er að verða útlærð hérna heima:) Komst að því að grænn augnskuggi fer mér enganveginn, og ég er hreint skelfilega léleg að láta á mig blautan eye-liner. Verð líklega að taka sérstakt námskeið í þeim fræðum!

mánudagur, september 06, 2004

Gallup

Fór í atvinnuviðtal hjá Gallup í morgun. Þetta lítur allt vel út, kom sveitt út eftir 3. gráðu yfirheyrslu með spyrlahandbók Gallup undir arminum. Fer svo aftur í spjall á morgun og svo beint á vakt held ég....þ.e.a.s. ef ég floppa ekki algjörlega í spjallinu á morgun og kann ekki neitt sem ég var að lesa;) En við vonum nú ekki! Svo mun reyna mikið á sannfæringarkraft minn við að fá fólk til að nenna að svara þessum blessuðu könnunum, því eins og allir vita þá er fólk ekkert voða viljugt til þess. Ég samt get aldrei sagt nei og er búin að svara öllum könnunum samviskusamlega, enda alltaf verið að hringja í mig!! Oftast hef ég nú ekki hundsvit á því sem spurt er um, en það er nú bara soldið gaman að þessu. Svo ég ætla bara að biðja ykkur að vinsamlega vera jákvæð þegar Gallup hringir í ykkur framvegis og svara könnuninni!!

sunnudagur, september 05, 2004

Skrambinn

Æjæj...búin að blogga en það mistókst eitthvað svo allt hvarf bara. Stundum er þessi síða bara eitthvað stórfurðuleg! Allavega þá er ég bara búin að liggja heima um helgina og hafa það notalegt, lesa um mat og snyrtifræði og kúra á nýja sófasettinu mínu!! Birna lánaði mér sem sagt eldrautt svona "plusssófasett" eða hvað það nú heitir...hehe...sem amma hans Jóa átti og það er alveg hryllilega þægilegt. Reyndar er það 3+2+1 svo það rétt kemst fyrir í stofunni minni, en þetta er bara svo þúsund sinnum þægilegra en helvískt antiksettið sem ég var með sem maður fær sko náladofa í rassinn af eftir 10 mínútur og getur engan veginn legið í því með góða móti því armarnir eru svo háir og harðir.
Fór reyndar í bíó í gær með mömmu og Gumma að sjá Fahrenheit 9/11 og hún er soldið mögnuð. Sat stundum bara gapandi yfir Bush og hvernig hann kemst eiginlega upp með allan sinn skít. Þingið í USA er sko meira en lítið spillt virðist vera! Svo í enda myndarinnar ætlaði greyið að fara með eitthvað frægt máltæki en hann bara kunni það ekki, hehe. Byrjaði:"Fool me once, shame on...." svo bara kunni hann ekki meir og sagði eitthvað annað. Þetta á sem sagt að vera einhvernveginn: "Fool me once, shame on you, fool me twice, shame on me."
Jamm, það var enginn öl og ekkert tjútt á gellunni um þessa helgi, en koma helgar kemur orka!

föstudagur, september 03, 2004

Öfund SPÖFUND sko!

Vá maður...endilega kíkið á síðuna hennar Dúddu. Konan er að túra um Bandaríkin með hljómsveitinni sinni Worm is Green, búin að vera í New York og Seattle, og eru að vekja feiknar lukku... og fólk á Íslandi veit varla hver þau eru!! Djöfull ætla ég með henni á túr þegar hún er orðin rík og fræg:o)