sunnudagur, nóvember 21, 2004

Af renglum og skvapmönnum

Ég fór á fegurðarsamkeppni ungra manna á norðurlandi á föstudagskvöldið. Það var stórsniðugt barasta! Páll Óskar brilleraði alveg sem kynnir í glansandi rauðum tælenskum lúkkalæk jakkafötum með gulu mynstri og söng meira að segja stórsmellinn sinn Stanslaust stuð. Þá vaknaði 17 ára stelpan til lífsins inní mér og dillaði bossanum í hljóði;)

Keppnin sjálf fór vel fram miðað við hvað hugmyndin um svona strákakeppni er fyndin, og salurinn var alveg með á nótunum. Ég skemmti mér þokkalega bara en mikið ógeðslega var fyndið að umsjónarmenn keppninnar ákváðu að láta strákgreyin koma fram bera að ofan í gallabuxum. Þá hló mín! Fyrir utan fjóra eða fimm keppendur voru aumingja gæjarnir annaðhvort með síðuspik og bjórskvap eða svo miklar renglur að maður dauðvorkenndi þeim að þurfa að ganga þarna um sviðið að reyna að spenna einhvern kassa sem ekki var til staðar eða að draga inn vömbina sem lét illa að stjórn. Ég meina það, eru engin skilyrði sem keppendur þurfa að uppfylla í þessum strákakeppnum? Ég get rétt svo ímyndað mér að stúlkum með svipað holdafar yrði hleypt upp á svið í sundfötum, þetta kalla ég nú bara misrétti. Stelpur, þ.e.a.s. þið sem tilheyrið þeim hópi að hafa hliðarspik og vera yfir 60 kíló, eigum við ekki að skrá okkur í næstu keppni? Svo mega strákarnir alveg eiga fullt af börnum án þess að það angri neinn. Ættu ekki að gilda sömu reglur fyrir kynin í þessum keppnum?

En hvað um það, það var gaman að horfa á guttana og mæli með að þessi keppni verði haldin árlega, svona til að létta lund og kitla hláturtaugar miðaldra ungkvenna. Sigurvegarinn í fegurðarsamkeppni ungpilta 2004 var svo hann Palli beibí sem einnig var kosinn ljósmyndafyrirsæta, í öðru sæti var hann Jóhannes Svan (sem ég spáði reyndar fyrsta sætinu og ætti að vera þar...þó ég sjái það núna þegar ég skoða myndirnar að hann er meira hott á sviði en á mynd) og var hann líka valinn sportstrákurinn og í þriðja sæti var hann Jóhann...hverjir sem þetta nú eru. Af hverju ætli þeir velji ekki "fallegustu fótleggina" og "Perfect herrann" og svona, svo allir vinni eitthvað, eins og hjá hnátunum? Eníveis, nánari upplýsingar um kyntröllin á sjallinn.is