laugardagur, mars 10, 2007



"Þér hafið alltaf átt þennan hest," sagði Adam.
"Hann er nú orðinn þrjátíu og þriggja ára gamall," sagði Samúel.
-"Tennurnar eru alveg útslitnar. Ég verð að gefa honum volga soppu og það með fingrunum. Og hann dreymir illa. Stundum skelfur hann og kjökrar í svefninum."
"Hann er sá ljótasti gamli jálkur, sem ég hef nokkru sinni séð," sagði Adam.
"Hann hefur alltaf ljótur verið. Það var víst þess vegna sem ég kaus mér hann, þegar hann var ungur foli. Vitið þið það, að ég gaf aðeins tvo dollara fyrir hann, fyrir þrjátíu og tveimur árum? Allt var gallað á honum, hófarnir eins og pönnukökur, ökklaliðirnir alltof gildir og stuttir. Hann var brattnefjaður og söðulbakaður, bringumjór og lendadigur. Og þegar maður situr á honum, er eins og maður hossist á sleða yfir malarhauga. Hann kann ekki að brokka og hnýtur í öðru hverju spori. Í öll þessi þrjátíu og tvö ár hef ég ekki orðið var við einn einasta góðan eiginleika í fari hans. Hann hefur auk þess marga hvimleiða galla. -Hann er þver og þrjóskur, illkvittinn og óhlýðinn. Til þessa dags er ég hræddur við að koma á bak honum, því að hann á það til að slá. Hann reynir að bíta í höndina á mér, þegar ég er að gefa honum mat. En mér þykir og mun þykja vænt um hann."
"Og svo nefnduð þér hann Doxology, sem þýðir "lofsöngur"," sagði Lee.
"Já, skepna sem var svo fáum kostum búin, varð að hafa eitthvað til að prýða sig með," sagði Samúel. -"Nú á hann ekki langt eftir."
"Þér ættuð kannski að binda endi á eymd hans," sagði Adam.
"Hvaða eymd?" spurði Samúel. "Hann er ein af þeim fáu hamingjusömu og ánægðu skepnum, sem ég hef þekkt."
"Hann hlýtur þó að vera bæði stirður og gigtveikur."
"Ekki álítur hann það sjálfur. Doxology heldur sig vera hreinasta úrvalsgæðing."

-Austan Eden, John Steinbeck

fimmtudagur, mars 01, 2007

Ég reyndi og reyndi að pöbblissa þetta blogg mitt meðan ég var á Íslandi en það tókst aldrei svo það kemur bara núna...


Krossaprófið var vonum framar svínslegt, hver veit svo sem hvort nýrun eru staðsett milli 7. brjóstliðar og 1. lendarliðar eða 8. brjóstliðar og 2. lendaliðar, eða hvort það er heilataug númer 4, 5, 10 eða 11 sem stýrir andlitsvöðvunum? Og hvernig það tengist snyrtifræði er ég ekki alveg að átta mig á. Svo það var frekar niðurbrotinn bekkur sem gekk út úr prófinu á fimmtudaginn og safnaðist saman á kaffihúsi til að drekkja sorgum sínum í einum öl eða tveimur. Við áttum svo að mæta í skólann klukkan tvö og fá afhent umslög með niðurstöðum úr prófunum, en vegna veðurofsans voru allir svíarnir veðurtepptir í Malmö og tóku ekki prófið fyrren klukkan tvö svo okkur var gert að bíða til hálf sex með að fá niðurstöður. Ég kippti mér ekki upp við það, enda mjög viss um að hafa ekki náð krossaprófinu svo ég var ekkert stressuð. Taldi saman þau svör sem ég var viss um að ég hefði rétt og þau voru einungis 58, svo mig vantaði 12 stig uppá til að ná. Hinar stelpurnar voru hver annarri fölari og taugaveiklaðari, grátandi og niðurbrotnar.

En sei sei, tíminn leið og bjórunum fjölgaði, og þegar ég loksins fékk umslagið mitt kom í ljós að ég hafði slysast til að ná fjandans prófinu! Sex úr bekknum féllu á því bóklega og ein á því verklega, svo það blandaðist saman grátur og hlátur. Svo fór allur hópurinn, eða að minnsta kosti þær sem náðu, út að borða og svo á skemmtistað á eftir, við vorum um 50 stelpur held ég, og það var tjúttað fram á rauðan morgun, sem var nú ekki það gáfulegasta að gera þar sem ég þurfti að vakna klukkan átta til að komast í flug;) En það tókst og ég er núna stödd á Akureyri hjá ma og pa í góðu yfirlæti, búin að kíkka á Vélsmiðjuna að sjálfsögðu, það var heldur betur gaman, og hitta vinkonurnar sem var enn meira gaman. Búin að sofa mikið þar sem ég var hálf þreytt og svefnlaus eftir síðustu viku, búin að fá góðan íslenskan mat (panta alltaf kjöt í karrý þegar ég kem til landsins) og lesa góða bók. Gæti ekki hafa fengið betri útskriftargjöf!

En já, ég náði allavega prófinu með glæsibrag, er ánægð að vera búin með þetta, svo fer ég aftur út á miðvikudaginn til að byrja starfsnámið mitt, og svo kemur bara í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér.