fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Af hverju á ég aldrei nein svona móment?

Fyrir nokkrum árum var Skodsborg spa ekki nærri því eins stórt og það er í dag. Í dag ganga hlutirnir þannig fyrir sig að fólk tilkynnir komu sína í hótelafgreiðslunni og er þaðan vísað inn í stórt og flott biðherbergi þar sem boðið er upp á te, vatn og ávexti meðan fólk bíður þess að verða sótt af sínum snyrtifræðingi eða nuddara. Ég veit ekki alveg hvernig þetta var í "gamla daga" en þá voru allavega ekki nærri því eins mörg herbergi og fólk tilkynnti komu sína í spa afgreiðslunni.

Eitt sinn mætti þangað maður (köllum hann þann svartklædda) sem átti pantaðan nuddtíma. Það var enginn í afgreiðslunni svo hann stillti sér upp og beið. Stuttu síðar gengur að honum maður klæddur í hvítt frá toppi til táar og stillir sér upp við hliðina á honum. Það var enginn annar á svæðinu svo eftir stutta stund spyr sá hvítklæddi hinn manninn; "Nudd?" Jújú svartklæddi maðurinn tók undir það og saman gengu þeir svo bakvið tjald og inn í nuddstofuna... könnuðust greinilega við sig á staðnum. Þeir snúa baki hvor í annan, eins og vandi er þegar fólk afklæðist, en þegar sá svartklæddi snýr sér við sér hann að sá hvítklæddi er ber að ofan. "Fyrirgefðu" segir hann, "ert þú ekki að fara að nudda mig?". "Ha! Nei! Ert þú ekki að fara að nudda mig?" spyr sá hvítklæddi. Ja nei, ekki hélt sá svartklæddi það nú!

Get ímyndað mér að þeir hafi verið snöggir í fötin og rokið aftur út! Sá hvítklæddi var sem sagt kokkur á hótelinu sem skaust niður í nudd í hádeginu og var bara að brydda upp á umræðuefni við þann svartklædda meðan þeir stóðu svona tveir einir að bíða eftir afgreiðslu;)

Ja sei sei...ef maður væri ekki bundinn þagnarskyldu í vinnunni þá ætti ég nokkrar fleiri sögur í pokahorninu... en ég bíð spennt eftir að gera góðan skandal sem ég má segja frá!

mánudagur, febrúar 25, 2008

Sumir eru bara óheppnir!


Þetta er Elizabeth. Ég vinn með henni. Hún er hálf pólsk, hálf bornhólmsk. Ég skil sjaldan meira en tæplega þriðjung af því sem hún segir, en hún talar endalaust við mig. Segir oft;"Manstu það ekki? Ég sagði þér það í gær!!". Hún á það til að vera soldið spes. Eftirfarandi sögu sagði hún í staffa teitinu á laugardaginn. Ég þurfti að fá helminginn af henni þýdda.

Eitt sinn átti Elizabeth von á Dorte vinkonu sinni og nýjum kærasta hennar í meðferð á Skodsborg. Þetta er seinnipart dags og síðasti kúnninn hennar var umræddur kærasti sem hún hafði aldrei hitt. Hún auðvitað tekur honum opnum örmum og dekrar við hann og eftir meðferðina segir hún; "Við hittumst svo bara á barnum á eftir", því það hafði verið ákveðið. "Jájá!" segir maðurinn. Elizabeth klárar að loka og fer svo á barinn þar sem maðurinn bíður hennar hinn stilltasti. "Og hvað viltu drekka?" spyr hún manninn og hann pantar öl handa þeim. "Hvar er Dorte svo?" spyr Elizabeth og maðurinn svarar því til að hún standi í afgreiðslunni. "Nú við skulum bara ná í hana" segir Elizabeth og maðurinn hlýðir því og saman fara þau fram í afgreiðslu að sækja Dorte.

Vá...ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram með þessa sögu.

Allavega. Elizabeth uppgötvar það þegar þau sækja Dorte að hún hafði farið svona all svakalega mannavillt. Kona mannsins var ekki Dorte vinkona hennar! En ekki gat hún farið að viðurkenna þessi vandræðalegu mistök sín. Nei nei, hún kynnir sig bara og segist hafa haft manninn hennar í nuddi og nú ætli þau á barinn. Svo þau setjast öll saman á barinn og fá sér í glas.

Þegar þarna var komið við sögu var ég um það bil að æla úr mér lungunum af hlátri svo ég missti aðeins úr sögunni. Hvað um það, nokkru síðar kemur hin rétta Dorte á barinn að finna Elizabeth eins og þær höfðu ákveðið, og finnur hana í góðum félagsskap með ölkrús í hendi. Hún spyr auðvitað hvaða fólk þetta sé og þá neyddist Elizabeth til að láta grímuna falla og útskýra þessa furðulegu hegðun sína fyrir aumingja hjónakornunum sem voru neydd á barinn með nuddaranum.

Já, við veitum sko góða þjónustu á Skodsborg. Barferð með snyrtifræðingnum innifalin í meðferðinni!


Heyrði svo aðra ansi góða sögu í dag...hún kemur á morgun;)

laugardagur, febrúar 23, 2008

OMG

Er ég eftirrétta SNILLINGUR eða? Bwahahaha...ég myndi ekki borða þetta þó mér væri borgað fyrir!


föstudagur, febrúar 22, 2008

Bara muna.....

Munið eftir beltunum!



Munið eftir að fara í bað!



Munið eftir að nota sólarvörn!



Munið eftir að borða!




Og munið svo eftir því sem skiptir máli.....

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Allt í góðu sko!

Ég er ekki að standa mig í blogginu. Hef varla kveikt á tölvunni í heila viku. Undur og stórmerki gerast! En nú er ég mætt aftur af fullum krafti...:)

Ég átti ljómandi góða langa helgi, frí í vinnunni frá föstudegi og mætti ekki aftur fyrr en á miðvikudaginn. Ég átti von á heimsókn frá Íslandi um hálf níu leytið á fimmtudagskvöldinu, en eitthvað var íslenska veðrið að stríða mér, svo fimmtudagskvöldi og -nóttu var eytt einhvern veginn svona:



Gott að hafa Marianne og Hawaii gallann innan handar í vonsku veðri:)


Klukkan fimm um nóttina var ég búin að gefa upp alla von og skreið í bólið, en sei sei þá ákvað Ísland að fara í loftið. Af sjálfsdáðum (nota bene) vaknaði ég því klukkan átta og tók á móti gesti góðum upp úr níu. Helginni var svo eytt í glaum og gleði og skoðunarferðir um Kaupmannahöfn og nágrenni...*hóst* .. Neinei helginni var eytt voða mikið í Næstvedgade 6a og nánasta nágrenni;)

Og hver var hinn dularfulli gestur? (Gæti einhver spurt sig..ekki margir).




Nú auðvitað yndið mitt:)


Jæja...búið að taka mig marga tíma að skrifa þessar nokkru línur, brjálað að gera á meðan! Smelli kannski inn færslu á morgun;) Ciao ciao!

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Skrúbbi skrúbbbb...

Þá er vorhreingerningum lokið. Ég get greinilega ekki tekið til án þess að það taki allan daginn. Byrjaði á að taka til og ryksuga, flutti svo húsgögnin horna á milli, ryksugaði aftur, þvoði þvott og þreif og skrúbbaði hátt og lágt eldhús og bað, ryksugaði loftin og veggina, og gólfin svo í þriðja skiptið. Hefði þurft að fá Cillit Bang konuna í flísarnar yfir eldavélinni, en þetta tókst með Ajaxinu. Afkalkaði svo hitakönnuna og skrúbbaði og olíubar stofuborðið.

Núna á ég bara eftir að leggja sjálfa mig í bleyti og þvo af mér köngulóarvefinn, og þá er allt reddí. Maður gæti jafnvel fengið fólk í heimsókn í íbúðina eins og hún glansar núna! Sei sei...

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Blindur er bóklaus maður

Ég var að ljúka við að horfa á myndina "Girl with a pearl earring". Ógurlega varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Ég las bókina á ensku fyrir jólin og heillaðist algjörlega. Sagan er góð og lýsingarnar svo fallegar. Persónurnar ljóslifandi og hin dulda spenna á milli þeirra skein í gegn án þess að vera yfirgnæfandi. Myndin var hörmuleg. Það vantaði tvo þriðju hluta sögunnar inn í hana. Mér leið eins og ég væri að lesa tuttugustu hverja blaðsíðu bókarinnar meðan ég horfði á myndina. Sagan afbökuð og "dramatíseruð" fram úr öllu hófi, áhrifamiklum atriðum sleppt algjörlega. Og svo er gert ráð fyrir að áhorfandi sé all verulega heimskur. En svona eru kvikmyndir eftir bókum víst.

Er komin með bakþanka um að sjá Flugdrekahlauparann í bíó í næstu viku. Las bókin. Tími varla að spilla þeirri upplifun.