mánudagur, febrúar 25, 2008

Sumir eru bara óheppnir!


Þetta er Elizabeth. Ég vinn með henni. Hún er hálf pólsk, hálf bornhólmsk. Ég skil sjaldan meira en tæplega þriðjung af því sem hún segir, en hún talar endalaust við mig. Segir oft;"Manstu það ekki? Ég sagði þér það í gær!!". Hún á það til að vera soldið spes. Eftirfarandi sögu sagði hún í staffa teitinu á laugardaginn. Ég þurfti að fá helminginn af henni þýdda.

Eitt sinn átti Elizabeth von á Dorte vinkonu sinni og nýjum kærasta hennar í meðferð á Skodsborg. Þetta er seinnipart dags og síðasti kúnninn hennar var umræddur kærasti sem hún hafði aldrei hitt. Hún auðvitað tekur honum opnum örmum og dekrar við hann og eftir meðferðina segir hún; "Við hittumst svo bara á barnum á eftir", því það hafði verið ákveðið. "Jájá!" segir maðurinn. Elizabeth klárar að loka og fer svo á barinn þar sem maðurinn bíður hennar hinn stilltasti. "Og hvað viltu drekka?" spyr hún manninn og hann pantar öl handa þeim. "Hvar er Dorte svo?" spyr Elizabeth og maðurinn svarar því til að hún standi í afgreiðslunni. "Nú við skulum bara ná í hana" segir Elizabeth og maðurinn hlýðir því og saman fara þau fram í afgreiðslu að sækja Dorte.

Vá...ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram með þessa sögu.

Allavega. Elizabeth uppgötvar það þegar þau sækja Dorte að hún hafði farið svona all svakalega mannavillt. Kona mannsins var ekki Dorte vinkona hennar! En ekki gat hún farið að viðurkenna þessi vandræðalegu mistök sín. Nei nei, hún kynnir sig bara og segist hafa haft manninn hennar í nuddi og nú ætli þau á barinn. Svo þau setjast öll saman á barinn og fá sér í glas.

Þegar þarna var komið við sögu var ég um það bil að æla úr mér lungunum af hlátri svo ég missti aðeins úr sögunni. Hvað um það, nokkru síðar kemur hin rétta Dorte á barinn að finna Elizabeth eins og þær höfðu ákveðið, og finnur hana í góðum félagsskap með ölkrús í hendi. Hún spyr auðvitað hvaða fólk þetta sé og þá neyddist Elizabeth til að láta grímuna falla og útskýra þessa furðulegu hegðun sína fyrir aumingja hjónakornunum sem voru neydd á barinn með nuddaranum.

Já, við veitum sko góða þjónustu á Skodsborg. Barferð með snyrtifræðingnum innifalin í meðferðinni!


Heyrði svo aðra ansi góða sögu í dag...hún kemur á morgun;)