fimmtudagur, desember 30, 2004

Tvö kraftaverk...

Aðeins einn hefur óskað eftir partýi og það er að mínu mati frekar fámennt partý, svo ég hugsa að það verði ekkert af því.
Annars er það helst í fréttum að ég var viðstödd tvíburafæðingu í gær. Ég fór beint eftir vinnu uppá fæðingardeild og klukkan rúmlega tíu höfðu tvær litlar stúlkur skotist í heiminn. Allt gekk rosalega vel og þegar fyrri stúlkan var komin í heiminn fékk ég hana í fangið meðan beðið var eftir þeirri síðari. Um 4 mínútum síðar leit hún dagsins ljós með fæturna á undan en ég var svo hugfangin af litla kraftaverkinu í fangi mér að ég missti eiginlega af þeirri fæðingunni. Dröfn stóð sig eins og hetja, þvílíkt sem ég er stolt af konunni! Fæðingarherbergið var reyndar stappað af fólki; ljósmóðir, hjúkrunarnemi að ég held, fæðingarlæknir og barnalæknir og svo mamma Drafnar og ég...og ég á myndavélinni eins og vitleysingur. Þetta er svo mögnuð lífsreynsla og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera viðstödd, ekki allir sem hafa upplifað tvíburafæðingu! Ég var reyndar líka viðstödd síðast þegar konan fæddi, hún er asskoti dugleg að unga út, og það var líka alveg magnað..ég hef gríðarlega reynslu af fæðingum núna, kannski maður skelli sér bara í ljósmóðurina! Var síðan svo þreytt í dag að ég átti bágt með mig í vinnunni, en sem betur fer var bara nóg að gera, annars hefði ég líklega sofnað sætt á kassanum.

Jamms, svo bara árið að verða búið...og ég vinn síðasta vinnudaginn í Ríkinu á morgun. Segi nánari fréttir á nýju ári, ef ekki á morgun.

sunnudagur, desember 26, 2004

Rop

Þriðja átferðin til ma og pa í röð verður farin klukkan sex. Ótrúlegt hversu mikið magn af mat er hægt að innbyrða á ekki lengri tíma. Byrja daginn á því að skríða fram úr rúminu og upp í sófa með bók í hönd og konfektskál mér við hlið, svo er sturta og fínerí og keyrt til foreldranna í glæsilegan dýrindis mat og fyrsta flokks þjónustu og þar legið yfir imbanum fram eftir kvöldi með köku, ís eða annað gotterí í seilingar fjarlægð. En á morgun er svo gleðin úti því þá hefst maraþon vinnan mín aftur, 10-22 mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Fimmtudag 10-20 og föstudag 9-13. Eftir það fæ ég hugsanlega tveggja daga frí sem ég hyggst nota í svefn og jafnvel smíðavinnu. Einhver með plön fyrir gamlárskvöld annars? Eða á ég að bjóða í teiti? Kannski bara að bjóða Teiti?

Jóla hvað?

Jólin gengin í garð og ég vel södd og sofin. Svaf í tólf tíma án þess að rumska síðustu nótt, enda mikið þreytt eftir vikuna. Fékk góða gæs og góðar gjafir í gærkvöldi, Bátur með segli og allt eftir Gerði Kristnýju og Engla og djöfla eftir Dan Brown höfund Da Vinci lykilsins...sem ég fékk frá Bjartmari en ég gaf honum einmitt sömu bók. Ég grunaði hann um að hafa bara gefið mér bókina sem hann langaði í en hann þvertók fyrir það! Fékk svo partýpönnu, svona sem maður stingur í samband og getur svo eldað á bara í stofunni og brætt gumms á svona litlum auka plöttum sem fylgja með..hmmm..get the idea? Einnig fékk ég eldfast mót, geggjaða heimaprjónaða háleista, bleik og blá handklæði merkt okkur skötuhjúum með nafni og stjörnumerkjum og tvö ljósker undir kerti. Allt gjafir sem koma að góðum notum. Er hálfnuð með Bátur með segli og allt og hún er alveg ágæt skemmtun, og næst á dagskrá er Englar og djöflar, mín eða mannsins, hinni verður skipt;)
Já þetta voru góð bókajól, gaf ma, pa, Gumms og kallinum öllum bækur, sá þá leið besta í slæmum fjárhagsmálum, því annars hefði ég sko viljað gefa þeim ýmsilegt annað, það væri sko ljúft að vera fjáður, stefni á það í framíðinni!

Annars óska ég ykkur bara öllum gleðilegra jóla og gleðilegs árs og þakka fyrir það sem er að líða...kom mér nefnilega ekki í að skrifa jólakort, var of þreytt og löt;)

mánudagur, desember 20, 2004

Uppeldisleysi

Það komu þrír krakkaræflar í Ríkið í dag að biðja um eitthvað á tombólu. Við sögðum þeim að við bara mættum ekki gefa neitt á tombólur. Þá hvíslaði stelpan einhverju að öðrum stráknum og spyr mig svo: "Talarðu norsku?". "Nei" sagði ég, "en ég tala dönsku". Hún spurði Gunna á næsta kassa hins sama og hann svaraði neitandi. Þá strunsaði hún út og hrópaði "JEVLA KUJ" (veit eigi hvernig skal stafsetja það)!! Það er nú ekki flókið að þýða það yfir á DJÖFULSINS BELJA, svo ég hrópaði á eftir henni að hún fengi nú örugglega ekki mikið með þessu móti. Mest langaði mig að stökkva á eftir henni, grípa í hnakkadrambið á henni og löðrunga hana duglega. Þoli ekki hortuga krakkagemlinga.

sunnudagur, desember 19, 2004

Æm bakk..

..allavega í bili. Nenni engan veginn að blogga þegar ég er að vinna svona mikið, gerist hvort sem er fátt markvert. Fékk reyndar 10 í líffæra- og lífeðlisfræðinni, get ekki annað en verið sátt við þessar einkunnir mínar. Keypti jólagjafirnar, gjafapappír og límband í gær, svo ég þarf ekki að stressa mig á því að þurfa að fara úr vinnunni til að redda því. Gott að eiga góðan yfirdrátt þessi jól, hef aldrei lent í því áður að vera blönk um jól og það er EKKI gaman skal ég segja þér, er farin að kvíða fyrir janúar því ég sé fram á stóra reikninga..hmpfff.. ekki mjög gleðileg jól á kúpunni! Það er sko enginn fjandans jólaandi og gleði í hjarta sem er allt sem þarf, það segja bara þeir sem eiga nóg af peningum.

mánudagur, desember 13, 2004

Jehhh heeee...

Mér tókst að ljúka prófum án teljandi skaða, það er gott. Er glöð að þurfa ekki að leggja fleiri latínunöfn á minnið fyrr en í janúar, en ekki hefur betra tekið við. Núna mun ég vinna alla daga fram að jólum í Ríkinu og einnig á Gallup svo vinnudagurinn minn verður ca. 12 tímar nokkra daga vikunnar en styttri aðra daga..verst að ég á eftir á að kaupa jólagjafirnar, er ekki að sjá það fara að gerast á næstunni:/ Vesen með þessar jólagjafir annars, ég er alfarið á móti þeim. Miklu frekar vil ég gefa gjafir á einhverjum öðrum tímum ársins bara þegar manni dettur í hug og gefa þá eitthvað sem fólk virkilega vantar. Mættum taka okkur Vottana til fyrirmyndar að því leyti. Maður eyðir stórfé í að reyna að finna eitthvað sem maður getur ímyndað sér að viðkomandi langi í, bara af því að þetta er hefð.

Ég fór í Ríkið beint eftir próf í morgun...til að vinna nota bene...og ég var í svo miklu spennufalli eftir prófið að ég hélt mér varla vakandi. Þar að auki var ekkert að gera og ég geispaði því vikuskammtinn í dag. Ljúúúúft að vera búin í prófum!!

Hey, niðurstöður Gallup könnunar um áhrif umferðarauglýsinga á fólk í fréttunum núna..ég hef gríðarlegan áhuga á svona niðurstöðum eftir að hafa þurft að spyrja milljón manns að hinum ýmsu málefnum. Já..held að Lite-inn sem ég keypti til að prófa eftir vinnu sé farinn að svífa ískyggilega á mig, og svo er kjötbollu ilmurinn farinn að svífa til mín, best að hætta þessu bulli. Þokkalegt að sitja með öller og blogga meðan kallinn eldar...þessi elska!

Þvílíkur dugnaður

Ég er að verða alveg snarvitlaus í heilanum - encephalon núna. Er búin að læra í allan dag, eða frá því ég vaknaði um hádegi, og var að loka bókum rétt í þessu. Hringdi að sjálfsögðu í kennarann og bað um aukatíma og var hann haldinn frá þrjú til hálf fimm... hehe engar áhyggjur ég er ekkert að snappa, þetta var ákveðið fyrirfram, það átti bara einhver að hringja í hann til að minna hann á þetta, og að sjálfsögðu þorði ég ekki annað en hringja. Fór svo eftir aukatímann og lærði á Línu til hálf átta en þá fór staðurinn að fyllast af fólki svo ég skundaði heim og horfði að sjálfsögðu á lokaþáttinn af Króníkunni áður en ég opnaði bækurnar aftur. Og svo er próf klukkan 8:15 í fyrramálið, er alveg að deyja ég hlakka svoooo til...ehemmm...

Annars var jólahlaðborðið í gær alveg meiriháttar gott, forréttahlaðborð, aðalréttahlaðborð og eftirréttahlaðborð, vá hvað er hægt að verða saddur á stuttum tíma! Það var svo gaman hjá okkur á borðinu að við stuðboltarnir, þrjú pör, sátum þar til allir gestir voru farnir og meira að segja starfsfólkið líka, en þá ákváðum við að best væri að koma sér heim, enda klukkan orðin rúmlega eitt! Við hlógum svo hryllilega mikið um kvöldið að mig dauðverkjaði í kjálkana þegar ég kom heim. Þetta var því alveg nauðsynlegt til að gleyma próflestrinum í smá stund, og það besta var að við borguðum ekki krónu fyrir þetta, gerist ekki betra!

Og svo er það bara cerebrum, cerebellum, mesencephalon og svo framvegis í draumum mínum í nótt.

laugardagur, desember 11, 2004

Allt að verða vitlaust

Vá, er ég ekki búin að blogga síðan á miðvikudaginn? Þetta gengur að sjálfsögðu ekki og mun ég reyna að bæta úr þessu.

Ég breytti til á fimmtudaginn og fór á Karólínu til að læra. Það gekk svona líka glimrandi vel, sat í tvo tíma og lærði allan tímann, samanlagt meira en ég er búin að læra alla síðustu viku held ég hreinlega, fæ mig bara alls ekki til að læra ef ég er heima. Brunaði svo niðureftir áðan full tilhlökkunar að sökkva mér í spekina en þá er bara lokað og það opnar ekki fyrr en klukkan tvö, sjeise! Er því komin heim aftur og eins og við manninn mælt, er komin á netið og get ekki hugsað mér að opna bók! Reyndi það áðan en fékk mig ekki til að lesa, það svífur á mig einhver óskiljanleg þreyta, heilinn hættir vitsmunastarfsemi, augun í mér ranghvolfast og gott ef það læðist ekki smá slef niður munnvikið. Ætla á Línu á eftir, það er nokkuð ljóst! Það er líka svo góður lærdómsandi þar því fleiri en ég eru að nýta sér þetta og leggja undir sig heilu borðin, snilld!

Var að vinna í Ríkinu í gær frá 10-19 og var það hin ágætasta skemmtun, hefði helst átt að vinna í dag líka en stúlkan sagðist þurfa að læra svo mikið fyrir próf á mánudaginn að hún mætti eiginlega ekki vera að því. Það er alveg spurning um að fara að huga að því...hmmmm...

Sendi manninn annars í fótsnyrtingu áðan, sem var kannski ekki svo góð hugmynd því nú vill hann að ég nuddi á honum fæturna eins og snyrtifræðingurinn gerði. Augljóslega verður hann þó fyrst að sýna mér, á mínum fótum, hvernig hún gerði svo ég nýt kannski góðs af;)

Í kvöld mun svo parið skunda til jólahlaðborðs á hótel KEA og éta á sig enn einn keppinn. Ekki veitir af, maður er nánast að hrynja úr hor hérna múhahahaha...

miðvikudagur, desember 08, 2004

Bachelorette

Ég er búin að vera miður mín yfir því að Americas next top model er búið en gladdist mikið í kvöld þegar ég sá að The Bachelorette hefur tekið við! Það þarf ekki mikið til að gleðja mitt litla hjarta;) Ekki spillir fyrir að hin yndislega og stórglæsilega Meredith er piparpían, hún er eitthvað svo æðisleg. En er ég orðin alveg rugluð eða voru virkilega fjórir eða fimm af piparsveinunum lyfjasölumenn? Er það sem sagt málið í dag, hipp og kúl? Ja svei mér, þarf að kíkja oftar í apótekin!

Það hlaut að koma að því!

Gyðjan mín loksins komin á rétta braut ;)

Einbeiting óskast

Núna er ég búin að lesa um 80 blaðsíður í líffæra- og lífeðlisfræðinni og hvað hef ég lært af því? Jú, þetta:

"Örlítið af andrógenum (karlvökum) og östrogenum (kvenvökum) kemur frá nýrnahettuberki bæði hjá körlum og konum. Undir eðlilegum kringumstæðum er hér um mjög lítið magn að ræða þannig að áhrifin á líkamann eru lítil. Æxli taka stundum að vaxa í berkinum og gefa þau frá sér margtfalt magn vaka, einkum af androgenum og þá verða til skeggjuðu frúrnar sem vinsælar voru í hringleikahúsum fyrri daga."

Ég held að þetta hafi verið það eina á þessum 80 blaðsíðum sem ég þurfti ekki að lesa fimm sinnum til að ná. Þá er bara að hefjast handa að nýju og lesa alla bókina, 190 blaðsíður, og jafnvel glósa svo ég muni eitthvað af þessum 7000 latínuheitum, og reyna að einbeita mér í þetta skiptið. Ég var sko næstum farin að þrífa hjá mér klósettið áðan til að þurfa ekki að lesa, en lét mér nægja að setja í vél og hengja upp.

Spurning dagsins: Ætli maður geti hreinlega drepist úr leti?

Harka

Ég er engan veginn að standa mig í lærdómnum...slugsast um. En nú ætla ég að taka mér tak og læra og ekki fara í tölvuna fyrr en í kvöld! ... eða sko seinnipartinn ... sem er núna á eftir ... um hádegisbil myndi ég segja, það dimmir svo snemma á þessum árstíma.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Í anda jólanna...

JÍHAAAAAAAAA!!!!

Múhahahaha jíha og jeij jeij ég fékk 10 í sýklafræði!!!!!! Segið svo að það sé asnalegt að senda kennaranum sínum bréf, ha! Held þetta sé eina tían mín fyrir utan dönskutíur síðan bara í grunnskóla...ef ég fékk þá einhverntíma tíu þá... jahá ég er sko allavega ekkert smáááá ánægð!

mánudagur, desember 06, 2004

Litla fólkið...framtíð heimsins

Ég fór á fætur klukkan 10 í morgun til að koma eldri grísnum hennar Birnu í leikskólann því sá yngri var kominn með gubbupest. Ef hún hefði ekki hringt í mig væri ég líklega ennþá sofandi en það er önnur saga. Ég nefnilega sofnaði aftur klukkan hálf eitt og var að skríða fram úr, þetta fer að verða sjúklegt ástand!

En það sem ég vildi sagt hafa var að þegar ég kom á leikskólann voru krakkarnir á leiðinni út svo ég hjálpaði guttanum að klæða sig í útifötin. Rétt hjá mér var fóstra að klæða litla stúlku í og var sú stutta eitthvað ósátt og fannst hún ver feit í pollabuxum (!)...þegar ég var á leiðinni út aftur heyri ég svo fóstruna reyna að dekstra stúlkuna í fötin og segir: "Og þú ert EKKI feit..." Ég missti næstum neðrikjálkann ég var svo gáttuð, ekki ætliði að segja mér að þessi sjúklega mjónudýrkun sé komin alla leið niður í leikskóla? Ég vissi varla að ég hefði líkama þegar ég var í leikskóla, hvað þá að ég væri að taka eftir því hvernig hann væri í laginu, ég meina, stelpan hefur verið svona 4 ára! Ætla rétt að vona að hún hafi bara heyrt mömmu sína segja þetta og viti ekkert um hvað málið snýst, annars dauðvorkenni ég þessu barni. Þess má geta að hún var að sjálfsögðu mjög lítil og mjó eins og flest börn eru.

sunnudagur, desember 05, 2004

Geisp...

Ætli það fylgi þessum háa aldri að vera endalaust þreyttur? Ég held það myndi henta mér vel að vaka ekki nema svona átta tíma á dag og sofa í sextán tíma, öfugt við það sem ætlast er til. Meika ekki kaffihús eða djamm á kvöldin jafnvel þó ég hafi sofið til hádegis, vegna þess að augun í mér ranghvolfast af þreytu. Þetta er gjörsamlega óþolandi ástand og ég vona að þetta versni ekki með aldrinum því þá verð ég orðinn slæmur svefnsjúklingur um þrítugt. Einhver ráð???

Annars flaug ég á hausinn í vinnunni áðan. Skrapp út á svalir en þegar maður kemur inn af svölunum er smá stallur sem þarf að stíga niður. Það heppnaðist ekki betur en svo að ég steig á listann í dyrakarminum, rann og flaug svo glæsilega niður á gólf. Og ekki lenti ég á hnjánum eða svoleiðis, nei nei mín lenti bara beint kylliflöt á hliðinni. Ég lífgaði þó allavega upp á kaffitímann hjá stúlkunum svo þetta var ekki alslæmt.

laugardagur, desember 04, 2004

Þarf ég að leita mér lækningar?

Ég rauk upp úr rúminu með svima og hjartslátt áðan þegar ég var að festa blund því ég mundi skyndilega eftir skelfilegri vitleysu sem ég gerði á prófinu. Ég skrifaði að Clostridium bakteríur, sem eru uppáhalds bakteríurnar mínar eins og áður hefur komið fram, væru kokkar en ekki stafir! Auk þess gleymdi ég að skrifa að þær myndi dvalargró. Ég er að segja það, þetta angraði mig svo mikið að hvernig sem ég reyndi gat ég ómögulega sofnað aftur... og vitiði hvað mín gerði..jeminn..ég sendi kennaranum e-mail til að láta hann vita af þessum asnalegu mistökum mínum og að þau héldu fyrir mér vöku...ég á bágt;) Klukkan hálf þrjú um nótt, andvaka útaf einni skitinni vitleysu og sendi kennaranum bréf! Annaðhvort hlær hann mikið að mér, fer með bréfið á kennarastofuna og sýnir hinum kennurunum svo þeir geti líka hlegið að mér (sækó eilífðarnemandanum), eða finnst ég ofsa metnaðarfull og sniðug...hvort eigum við að veðja á hmmmmmmm?

Annars fékk ég 9 í lokaeinkunn í eðlis- og efnafræði, var að sjá það á netinu:o)

Guðrún mín...

...ég get horft endalaust á þessa mynd...og hlegið. Eins og þú ert falleg stelpa;)

föstudagur, desember 03, 2004

Heyrðu...

...sýklafræðiprófinu er lokið!! Verð nú að segja eins og er að krossaspurningarnar, rétt og rangt spurningarnar og að para saman nöfn og uppgötvanir var barasta ekki samboðið mér, var hálf móðguð yfir hvað það var auðvelt! Vonandi kemur svo ekki í ljós síðar að ég hafi gert villu þar;) En síðari helmingur prófsins var öllu snúnari nema ritgerðarspurningin sem ég held ég hafi klárað ágætlega...enda skrifaði ég um uppáhalds bakteríuna mína, eins og sést á fyrri bloggum, Clostridium. Svo ég er pottþétt búin að ná! Nema ég sé þeim mun geðveikari og haldin ranghugmyndum á slæmu stigi;) Fór svo í eldhúskaffi til Guðrúnar dúllíu eftir próf og fór titrandi úr kaffivímu heim í góða Búkollu og Cinderella story. Núna er bara að byrja að stressa sig fyrir líffæra- og lífeðlisfræðiprófið sem er 13.des! Svo byrja ég að sjálfsögðu aftur í Ríkinu í fyrramálið svo það er nóg að gera hjá frúnni.

Er annars furðu sátt við öll úrslit í Ædolinu hingað til...nema hvað að ég hefði viljað sjá Ásu úr síðasta þætti halda áfram...hún er sæt og syngur vel..hot!

Ekki má gleyma

að segja frá því að ég er komin með prófbólur. Hvernig stendur á þessum fjanda, getur einhver útskýrt fyrir mér tenginguna á milli prófa og bóla??

Enn af sýkló

Þá er klukkutími til prófs og maginn heldur betur í hnút og slaufu. Fékk mér sturtubað og brauð með laxi en það hafði ekkert að segja. Skil annars ekki hvað ég er að stressa mig á þessu prófi því það skiptir í raun engu máli hvaða einkunn ég fæ eða hvort ég næ eða fell, er bara í þessu fagi að ganni, stressið er bara minni eigin geðveilu að kenna;) Amm, það verður allavega ljúft að vera búin í þessu á eftir og þá tek ég mig kannski til og tek til! Það er varla á auðan blett að stíga hér í íbúðinni, en hvort sem það er nú prófunum að kenna eða öðru, það skal liggja milli hluta;)

fimmtudagur, desember 02, 2004

Scheisse próf!

Ég er búin að lesa og lesa og skrifa og skrifa (með reglulegum neinúgefstéguppognenniþessuenganveginnlengur-pásum) og fylla e-mailið hjá kennaranum með endalausum verkefnum sem ég er búin að gera aftur og aftur og farin að kunna utan að, svo kíki ég á sýniprófin frá síðustu árum og kann bara ekki baun í bala, hvernig stendur á þessu! Ég er hér með búin að gefa upp á bátinn að verða sýklafræðingur, ekki að það hafi einhverntíma verið ætlunin, ætla bara að reyna að grenja mig í gegnum þetta próf, hlýtur að virka, og reyna að æla ekki of mikið úr stressi. Ætla líka að reyna að senda kennaranum hugskeyti í nótt svo hann breyti prófinu og hafi bara spurningar sem ég kann svörin við...

Annars fóru ma og pa til Danmerkur í morgun, nei getur það verið, þau í útlöndum! Sendi mömmu með gíróseðilinn fyrir snyrtiskólanum, 5000 danskar, sem hún ætlar að borga úti, eitthvað ódýrara segir hún og ég trúi því bara. Svo nú er ekki aftur snúið, mín skal til útlanda næsta haust...einhverjir fleiri á leið til Köben svo ég verði ekki einmana??

*Lemj* í hausinn!!

Held ég sé að farast úr stressi. Var að skoða prófspurningar og sýnipróf og ég er bara engan veginn góð í þessum fjanda og bara einn og hálfur dagur til stefnu. Fattaði það að ég á ekkert bara eftir að lesa um veirur heldur líka um sveppi, snýkjudýr, ónæmiskerfið, sóttvarnir og fleira... anskotans vesen á manni! Get huggað mig við það að ég er nú þegar komin með heila 3 í einkunn fyrir skil á heimaverkefnum svo ég hlýt að ná, en ég hélt ég hefði nú aðeins meiri metnað en það! Það væri nú annars laglegt að falla í fræðunum því það gerðist víst síðast fyrir 15 árum...alltaf gaman að koma sér á blað, sama fyrir hvað það er, hehe;) Jamms, ætla að vera dugleg á morgun og reyna svo að æla ekki lungunum yfir prófið á föstudaginn, róandi óskast!

miðvikudagur, desember 01, 2004

Læri læri tækifæri

Skemmtilegt hvað maður er alltaf að troða í sig nammi þegar ANTM er í sjónvarpinu... og sjá svo hana Önnu plus size módelið sem var rekin í burtu í fyrsta þætti búna að missa svona 10 kíló, algjört beibí, helvítis pakk;)

Annars er ég búin að vera að læra á fullu fyrir sýklafræðina í dag, búin með bakteríurnar og svo eru veirurnar á morgun, en kann ekki nærri nógu mikið. Verð líklega stór taugahrúga í prófinu á föstudaginn.
Þessi sniðuga mynd er hluti af námsefninu og sýnir hermann sem er að deyja úr stífkrampa sem bakterían Clostridium Tetani veldur.

Ekki þægilegasti dauðdaginn það!

Núna er bara að halda áfram að læra, gá hvort það festist ekki eitthvað í hausnum á mér.

Óupplýst sakamál...

Ég fór í dularfulla sendiferð í hádeginu. Ég keyrði niður á sjúkrahús, gekk inn um B inngang og fór tröppurnar niður í kjallara. Loftið var rakt og heitt og einkennilegur blóðfnykur í lofti. Ég gekk blóðprufuganginn á enda, beygði til hægri og reyndi að opna fyrstu dyrnar á vinstri hönd. Þær voru læstar. Ég valdi aðrar dyrnar til vinstri og kom þá inn á annan gang. Þann gang gekk ég líka á enda þar til ég kom að hurð sem á stóð "Líkherbergi". Ég opnaði dyrnar og gekk inn fyrir í svartamyrkur...HAH nei þarna gabbaði ég ykkur aldeilis! Ég tók hins vegar mjög snögga u-beygju þegar ég kom að líkvagninum sem stóð fyrir utan þetta skemmtilega herbergi og laumaði mér inn í lítið hliðarherbergi. Þar beið mín einskonar frystikassi úr frauði merktur nafninu mínu. Ég tók hann í fangið og hélt sömu leið til baka, grafalvarleg á svip og ansi skuggaleg í bleikum strigaskóm og hvítri úlpu. Starfsfólk spítalans sem ég mætti á göngunum leit mig hornauga og grunaði mig eflaust um glæpsamlegt athæfi, jafnvel stuld á líffærum.
Ég komst þó heil á höldnu út úr bakteríubælinu með feng minn og varp öndinni léttar er ég startaði fjólubláa kagganum...