laugardagur, desember 11, 2004

Allt að verða vitlaust

Vá, er ég ekki búin að blogga síðan á miðvikudaginn? Þetta gengur að sjálfsögðu ekki og mun ég reyna að bæta úr þessu.

Ég breytti til á fimmtudaginn og fór á Karólínu til að læra. Það gekk svona líka glimrandi vel, sat í tvo tíma og lærði allan tímann, samanlagt meira en ég er búin að læra alla síðustu viku held ég hreinlega, fæ mig bara alls ekki til að læra ef ég er heima. Brunaði svo niðureftir áðan full tilhlökkunar að sökkva mér í spekina en þá er bara lokað og það opnar ekki fyrr en klukkan tvö, sjeise! Er því komin heim aftur og eins og við manninn mælt, er komin á netið og get ekki hugsað mér að opna bók! Reyndi það áðan en fékk mig ekki til að lesa, það svífur á mig einhver óskiljanleg þreyta, heilinn hættir vitsmunastarfsemi, augun í mér ranghvolfast og gott ef það læðist ekki smá slef niður munnvikið. Ætla á Línu á eftir, það er nokkuð ljóst! Það er líka svo góður lærdómsandi þar því fleiri en ég eru að nýta sér þetta og leggja undir sig heilu borðin, snilld!

Var að vinna í Ríkinu í gær frá 10-19 og var það hin ágætasta skemmtun, hefði helst átt að vinna í dag líka en stúlkan sagðist þurfa að læra svo mikið fyrir próf á mánudaginn að hún mætti eiginlega ekki vera að því. Það er alveg spurning um að fara að huga að því...hmmmm...

Sendi manninn annars í fótsnyrtingu áðan, sem var kannski ekki svo góð hugmynd því nú vill hann að ég nuddi á honum fæturna eins og snyrtifræðingurinn gerði. Augljóslega verður hann þó fyrst að sýna mér, á mínum fótum, hvernig hún gerði svo ég nýt kannski góðs af;)

Í kvöld mun svo parið skunda til jólahlaðborðs á hótel KEA og éta á sig enn einn keppinn. Ekki veitir af, maður er nánast að hrynja úr hor hérna múhahahaha...