þriðjudagur, október 30, 2007

Þá er ég meira en lítið fallin

Ég hef nú alltaf verið hálf skotin í spinning kennaranum mínum, en í kvöld kolféll ég alveg. Ég hef mjög gaman af spinning og mæti reglulega í tíma til að halda blóðinu á hreyfingu, og oftast er það hjá þessum unga manni. Ég er búin að hjóla hjá honum í ár núna (ekki að árangurinn sé sjáanlegur, en það er önnur saga) og það er alltaf jafn gaman að mæta.

Hann er svolítið öðruvísi en hinir kennararanir. Þeir eru allir voða sporty töffarar, litlir, massaðir naggar sem öskra mann áfram og eiga það til að koma og þyngja á hjólinu hjá manni. Það er allt gott og blessað, gott að láta pína sig áfram, en ég kýs að hjóla hjá mínum manni. "Lítillátur, ljúfur, kátur" passar vel við hann. Með góðleg augu og bjartan svip. Segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér, hleypur skoppandi um salinn og telur fyrir okkur taktinn; "Þetta er alveg eins og að dansa!" segir hann alltaf og hoppar frá öðrum fætinum yfir á hinn. Honum er mikið í mun að við höldum taktinn. Svo spilar hann alltaf svo skemmtilega tónlist, í sumar var hann með Madonnu þema þar sem við hjóluðum við uppáhalds Madonnu lögin hans. Seinna var hann líka með Justin Timberlake þema, í tilefni af því að hann var á leið á tónleika með honum í Parken. Svo finnst honum voða gaman að spjalla. Spyr okkur um eitthvað í hverjum tíma, eitthvað úr fréttunum, það sem er að gerast í bænum, hvað sem er. Hann yrðir reyndar sjaldan á mig (þó hann kíki nú stundum á mig) en lendir oft í hörku samræðum við Tinne, sextugan spinningfélaga minn. Hún er reyndar með króníska munnræpu svo það er varla hjá því komist að tala við hana. Hún talar við alla í ræktinni og þekkir flesta með nafni. Hvað um það.

Fyrir nokkrum mánuðum hélt hann eighties spinning. Ég var að vinna svo ég komst því miður ekki, en hann mætti með sítt að aftan brodda hárkollu og hjólaði með hana tvöfaldan tíma. Mjög svekkt að hafa misst af því. Minnisleysi hefur eitthvað verið að hrjá mig undanfarið svo ég mundi ekki eftir þema tímans í dag, en mundi það um leið og ég kem inn í salinn. Og þar með er komin ástæðan fyrir stórfalli mínu í kvöld; Þar stendur minn maður í rökkvuðum sal í skini kertaljósa í beinagrindarsamfestingi í óða önn að safna saman miðum. Ég brosti út að eyrum! Ekki minna spaugilegt hvað samfestingurinn var þröngur. Svo þegar tíminn byrjar toppar hann þetta gjörsamlega með því að draga yfir höfuðið á sér hauskúpu-lambhúshettu (bara göt fyrir augun) og setja upp beinagrindarhanska. Ég var ekki ein um það að hlæja mikið þá. Yndislegur maður. Hann hjólaði með árans lambhúshettuna allan tímann, ekki einu sinni gat fyrir munninn, og hegðaði sér ekkert öðruvísi en í venjulegum tíma. Snillingur. Það sem gerir þetta allt ennþá fyndnara er það að þessi maður vinnur ekki dags daglega sem spinningþjálfari...nei nei, hann er prestur!

föstudagur, október 26, 2007

Oldie goldie

Þegar ég bjó í Danmörku 1990 til 1991 átti ég flottan nágranna, Kaptein Lundberg. Hann var yfirlífvörður drottningar, gekk fremstur í flokki í vaktskiptunum og heilsaði okkur með stafnum sínum. Kapteinninn bauð okkur í heimsókn í Amalienborg, bústað drottningar og í Fredensborg þar sem hann lét lífverðina bera fyrir okkur kökur og kaffi. Fyrstu tvær myndirnar eru teknar í Amalienborg og sú þriðja fyrir utan Fredensborg. Pabbi og Heiggi eru þarna á annari myndinni. Takið eftir klæðnaðinum á okkur, ég er sérstaklega móðins, stuttu gulrótarbuxurnar og gallaskyrtan við, hvítu sokkarnir og leðurskórnir, einstaklega smekkleg samsetning. Takið einni eftir hvernig bolurinn minn er vel girtur ofaní bleiku krumpubuxurnar, og að sjálfsögðu í leðurskónum við. Skóbúðir í hálfu Þýskalandi voru þræddar til að finna þessa skó á mig. Ég hef alltaf verið með mjög sérstakan og ákveðinn skósmekk. Þegar ma sendi mér þessar myndir spurði ég hvað hún hefði eiginlega verið að hugsa þegar hún klæddi mig í gamla daga, hún dæsti bara og sagðist ekki vita það.






Úmg! Er að taka eftir axlapúðunum núna!! Var einmitt að spá í hvað ég var ansi herðabreið í denn... Einnig gaman að því að á síðustu myndinni er Inger, kona kapteinsins, með hundinn Sófus, klædd í gallabuxur og gallaskyrtu..ég hef greinilega verið ansi vel inni í tískunni!

miðvikudagur, október 24, 2007

Sokkaskrímslið

Í síðustu viku var ég að útrétta á Nordre Frihavnsgade, ágætis verslunargata með allskyns skemmtilegum búðum, þegar ég kem auga á skilti sem fær mig heldur betur til að stansa. "Sok 10 kr" stendur á skiltinu sem stendur í miðjum haug af sokkum, fimm í pakka. Þetta fannst mér kostaboð og maður getur aldrei átt nóg af sokkum, svo ég vel mér eitt búnt af svörtum sokkum og eitt í blönduðum litum og fer inn í búðina. Ég skoða mig aðeins um í búðinni, máta eitt pils, en finn ekkert sem mér líst á svo ég fer að kassanum til að borga. Afgreiðslumaðurinn var mjög hommalegur maður á miðjum aldri í blátíglóttri peysu með ljósar strípur í hárinu. Hann stimplar sokkana inn í kassann og ég sé á skjánum að hann hefur stimplað inn 50 krónur fyrir hvort búnt. "Hummm" segi ég, "kosta þeir ekki tíu krónur?". Og svipurinn sem kom á manninn. Það var eins og ég hefði kúkað upp í hann! Hann gefur frá sér ógurlega stunu, mínusar sokkana út úr kassanum og segir; "Auðvitað get ég ekki selt þér fimm sokka á tíkall!". "Af hverju ekki?", spyr ég. "Hvað eiga þá stöku sokkapörin að kosta?" spyr hann. "Uhhh það voru engir stakir sokkar" segi ég. "!" segir hann, ranghvolfir í sér augunum og gengur út úr búðinni. Ég stóð og horfði á eftir honum, vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera en ákveð svo að best sé að labba á eftir honum. Hann treður sokkabúntunum mínum aftur ofan í kassann, grefur upp stakt sokkabúnt og otar því að mér. "Hvað er þá þetta?" "Nú þarna voru þeir já, segi ég" og horfi á þrjú stök sokkapör útí horni í hrúgunni. Svo kom þögn, hann raðaði sokkum og dæsti og urraði og ég tvísté, ekki alveg viss um hvað ég átti að gera. Segi svo "ja þú ættir þá kannski að fjarlægja þetta skilti, það er svolítið misvísandi." Hann horfir á mig þvílíkum fyrirlitningaraugum að ég forða mér hið snarasta, vildi helst ekki láta klóra úr mér augun fyrir tvo sokkapakka.


mánudagur, október 22, 2007

Af birtumeðferð og B konum

Það er ótrúlegur munur á að koma sér fram úr rúminu núna og fyrir mánuði síðan. Þegar klukkan hringir klukkan sjö á morgnana (sem er nú ekki oft, en kemur fyrir) þá á ég alltaf jafn bágt með að trúa því að það sé ekki mið nótt ennþá. Það er jú niðamyrkur og ég sé varla handa minna skil. Þetta ætti hreinlega að vera ólöglegt, þarf greinilega að fara að drífa mig á þing til að gera það að lögum að eftir 1. október og fram til 1. apríl skuli enginn þurfa að fara á fætur fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta. Þegar það er svona dimmt á morgnana er heilinn einfaldlega ekki tilbúinn til að vakna svona snemma, og það er ekkert "sálrænt" heldur algjörlega líkamlegt hormónaástand.

Danir eru jú alveg sér þjóðflokkur eins og vitað er svo í fyrravetur var mikið fjallað um það í blöðunum að skipta ætti fólki niður í A og B fólk; A fólkið sem er morgunhanar og B fólkið sem er nátthrafnar. Eða á hinn veginn, A fólkið sem fer snemma á fætur og B fólkið sem fer seint á fætur. Það sem umræðan snérist um var það að leyfa ætti B fólki að mæta seinna í vinnu og skóla og vinna í staðinn aðeins lengur á daginn. Og þetta var engin grín umræða, það liggja víst frammi vísindalegar sannanir á þessum mun á fólki. Þetta finnst mér alveg mögnuð hugmynd, myndi bæta skap margra til muna.

Ég stóð á lestarstöðinni í kvöld að bíða eftir lestinni minni þegar ég sá auglýsingu rúlla yfir auglýsingaskilti á næsta brautarpalli. Ég stekk nær til að sjá betur og viti menn, held ég hafi hreinlega séð ljósið! Þetta er snilldar uppfinning. Wake Up Light frá Philips. Hálftíma áður en maður ætlar að vakna kveiknar á ljósinu og það verður sífellt sterkara á þessum 30 mínútum þangað til það nær 250 Lux (ljósstyrksmælieining). Í gegnum augun fara skilaboð til heilans um að framleiða meira magn af hormóninu kortisol sem er nokkurs konar "orkuhormón" sem fær líkamann til að vakna. Svo getur maður valið milli mismunandi vekjaratóna, til dæmis fuglakvak, ölduhljóð eða endur og froska. Ég meina, getur maður annað en vaknað brosandi við endur og froska!? Snilld:) Svo getur maður notað lampann sem leslampa og fengið birtumeðferð (light therapy, upp á útlenskuna) í leiðinni. Það hefur reynst virka vel gegn skammdegisþunglyndi, eða "vetrar óyndi" eins og svo vel hefur verið orðað...þyrfti sem sagt að vera til svona lampi á öðru hverju heimili á Íslandi;)




Annars er helst að frétta að ég er gjörsamlega lurkum lamin! Fékk þvílíka útrás í sjálfsvörninni í gær, barði alla púða í spað (með tilþrifum og tilheyrandi svip) með þeim afleiðingum að ég held ég hafi rifið alla vöðva í líkamanum. Get ekki klætt mig í jakkann minn án þess að fara í furðulegustu stellingar, og gat varla nuddað í dag, fann svo ógurlega til í handleggjunum, frá úlnliðum aftur á herðarblöð. Af anditinu er það að frétta að vörin er bara orðin ansi lagleg, sár gróa víst mjög hratt í munninum, en það er farinn að síga örlítill blámi á augað. Ég þurfti að sjálfsögðu að segja Kung Fu söguna tíu sinnum í vinnunni í dag, stór vinnustaður, var að spá í að boða bara til blaðamannafundar, var komin með svo mikinn leiða á að þurfa að útskýra aftur og aftur. Marianne tók að sér helminginn og sagði flott frá því þegar hún sá mig koma labbandi að henni með blóðið fossandi niður andlitið. Henni brá ansi mikið. Það fyrsta sem hún gerði var víst að rífa upp á mér ginið til að athuga hvort allar tennur væru á sínum stað;) Við erum samt svo nettar á þessu, skildi enginn í vinnunni hvað við hlógum að þessu öllu, bjuggust allir við að við værum í sjokki. En við erum bara glaðar að ekki fór verr og svo er þetta nú pínu fyndið svona eftirá, litla ég að stökkva á brjálaða ofbeldisdólga!

laugardagur, október 20, 2007

Rocky is my middle name

Það ríkir engin lognmolla í kringum mig núna fremur en fyrri daginn. Ég fór á sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur á föstudaginn, ótrúlega gaman. Áhugavert, en auðvitað "kommon sens" ef maður spáir í það, það sem kennarinn lagði aðaláherslu á. Þegar ég vann í Ríkinu í Austurstræti fengum við smá sjálfsvarnarnámskeið, flott trikk sem hægt er að nota ef ráðist er á þig. Það sem námskeiðið hér gengur út á er að ef ráðist er á þig, þá verður þú auðvitað mjög hrædd og hjartað slær alveg á milljón, og þegar maður er svona hræddur, þá er ómögulegt að ætla sér að nota einhver flott og flókin trikk. Svo það sem við æfðum var einfaldlega að sparka og slá af fullum krafti og öskra. Nota mjög einfalda tækni sem meiðir þann sem ræðst á þig. Sem sagt, hné í punginn, fótur í punginn, olnbogi í magann, fótur í sköflung og hné og flatur lófi til að kýla upp undir hökuna á árásarmanninum. Við æfðum saman tvær og tvær á boxpúða sem önnur hélt og hin misþyrmdi. Og það er ótrúlegt hversu mikinn kraft við höfum í líkamanum stelpur! Maður uppgötvar það þegar maður heyrir skellinn á boxpúðanum. Og það er víst þannig í pottinn búinn að þó að karlmenn séu sterkari en konur þá munar einungis 20 prósentum á kraftinum! Og 80 prósent mannskraftur er ansi mikið. Annar hluti námskeiðisins er á sunnudaginn, og þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir neitt hálfkák, þá mun ég mæta all glæsileg í þann tíma. Útskýring fylgir hér að neðan.

Ég hitti góðvinkonun mína og vinnufélaga Maríönnu og vinkonur hennar eftir námskeiðið og við sitjum og spjöllum fram á nótt en ákveðum svo að hitta John kærastann hennar í bænum. Hann er tveggja metra sænskur íshokkírumur, stór og sterkur, flottur maður. Við tökum smá pöbbarölt og erum svo að síga heim á leið í gegnum bæinn, við þrjú og vinur Johns þegar allt í einu gerist eitthvað sem ekkert okkar fattar almennilega núna, gerðist svo hratt. Allavega koma þrír, fjórir gaurar að okkur og byrja eitthvað að bögga Maríönnu og John brjálast og æðir í einn gaurinn. Vernda konuna sína. Það næsta sem gerist er að guttarnir ráðast allir sem einn á John, henda honum niður á hjólagrind á götunni og byrja að berja og sparka í hann liggjandi. Ég varð ógurlega hrædd þegar ég sé að þeir fara að sparka í andlitið á honum og sé að þetta stefnir í eitthvað hættulegt, svo ég hleyp af stað og stekk á einn mannana sem situr ofan á John og er að kýla hann. Hélt þeir myndu drepa hann svo ég ætlaði mér að hindra það. Það er kannski ekki skynsamlegt að blanda sér í svona slagsmál en það var ekki alveg það sem ég var að hugsa um þarna, varð hrædd um John. Held að flestir myndu gera það sama.

Ég reyni að rífa hann í burtu og öskra á hann að hætta. Svo finn ég bara högg í andlitið og er svo hent í götuna og finn mikið til í andlitinu. Ég brölti á fætur og skil ekki almennilega hvað gerðist, var mjög ringluð, en sé allt í móðu með vinstra auganu. Ég sé að slagurinn er enn í gangi og Marianne er að reyna að rífa einn gaurinn af John svo ég skakklappast að þeim til að hjálpa þegar allt í einu kemur fullt af fólki hlaupandi að mér skrítið á svipinn og einhver skellir pappír í andlitið á mér. Ég lít þá niður á peysuna mína, ljós peysa, og sé að hún er öll í blóði , hendurnar á mér líka, buxurnar og skórnir ("og ég sem VAR að þvo skóna!", hugsa ég (Bleikir adidasskór)) og svo held ég á karlmannsúri í annarri höndinni. Það lekur blóð úr munninum á mér og úr enninu niður í augað á mér. Allt í einu fyllist svo gatan af löggum, þeir voru ansi snöggir á staðinn svo það hlýtur einhver að hafa hringt í þá um leið og þetta byrjaði. Ég sé tvo menn spretta í burtu niður hliðargötu og lögreglumenn á eftir.

Eftir þetta er allt í hálfgerðri móðu hjá mér, man bara að ég stóð og titraði og skalf og lögreglumaður að reyna að tala við mig. Ég sýndi þeim skilríki og þeir skrifuðu niður hver ég var, veit ekki hvar Marianne og John voru á þessum tímapunkti, ég var öll í því að reyna að stoppa blæðingar í andlitinu á mér. Svo kemur John og bara starir á mig, ég tók ekkert eftir hvernig hann leit út þarna, en hann spyr hver í fjandanum hafi gert mér þetta. Ég segist ekki vita það en tveir ungir menn sem voru vitni að þessu bentu lögreglunni á manninn og ég bendi á hann og segist hafa heyrt að það hafi verið þessi. Þá tryllist John gjörsamlega aftur og æðir af stað í manninn, ekki mjög gáfulegt þar sem það var komin RÚTA af löggum á staðinn svo hann fékk fjóra lögregluþjóna á sig um leið sem snéru hann í götuna, handjárnuðu hann og færðu í fangageymslu! Ég get samt ekki neitað því að mér þykir ótrúlega vænt um að hann hafi brugðist svona við. Ekki hver sem er sem þorir að verja vinkonur vitandi það að löggan muni líklega fangelsa hann. Hann var samt það skynsamur að hann lét handjárna sig alveg mótþróalaust.

Þegar John var farinn kemur svo ungur löggumann, man það að hann var mjög myndarlegur;) og segir við mig að ég geti kært en ég verði þá að fara á slysó og fá áverkana staðfesta. Ég segi við hann eins og er að ég viti ekki hver gerði þetta og muni ekki alveg hvað gerðist. Hann segir þá að það skipti engu því það séu tvö vitni sem séu búin að benda á manninn. Þeir stóðu álengdar og voru að tala við aðra löggu og horfðu á mig vorkunnaraugum;) Ég hálf vælandi segi að ég hafi jú ráðist á hann! "Þú gerðir ekkert rangt" segir hann, "þú varst bara að reyna að stöðva slagsmálin." Svo skrifaði hann niður á miða hvert ég ætti að hafa samband til að kæra. Honum hefur líklega fundist rétt að ég myndi kæra miðað við blóðbaðið á peysunni minni. Ja, svo að yfirheyrslum loknum fannst Mariönnu skynsamlegt að ég myndi bara kom með henni heim svo við drifum okkur inní leigubíl, "árásarmaðurinn" var ennþá á staðnum og ég vildi bara komast í burtu. Svo við förum heim til hennar, leggjum fötin mín í bleyti og bíðum eftir að heyra frá John. Hann kemur svo heim um 9 leytið um morguninn og jeminn eini! Maðurinn er blár og marinn í framan með risa kúlur á höfðinu og skrapaðar og bólgnar hendur. Hann hefur greinilega náð nokkrum höggum. Marianne getur varla hreyft á sér vinstri handlegg þar sem einn mannanna snéri svo illa uppá hann að hún heyrði eitthvað bresta. Ekki mjög gott þar sem hún er nuddari. Við vorum svo all glæsileg í dag, liggjandi klessur á sófanum, marin og blá og stirð;)

Áverkarnir mínir eru ekki svo slæmir, þetta leit bara mjög illa út í byrjun því það fossaði svo úr sárunum. Ég er með skurð á augabrúninni sem Marianne teipaði vel um nóttina, hún er vön augabrúnaskurðum þar sem hún hjúkrar John eftir íshokkíleiki, og svo með skurð á vörinni, sem betur fer er á innanverðri vörinni svo ég mun ekki fá ör. Svo er ég ansi aum í nefinu. Því miður mun ég fá ör á augabrúnina. Flott að hafa eitt stykki Rocky ör í andlitinu. Úrið sem ég hélt á reyndist tilheyra John og ég hef ekki hugmynd um af hverju ég hélt á því! Ég hef ekki hugsað mér að kæra þar sem ég er hálf vonlaust vitni, veit hvorki alveg hvað gerðist né hver gerði það.
Og svo verð ég að segja það að eitt er að lumbra á tveggja metra vöðvabúnti, það er allt annað mál að berja litla stelpu sem reynir að stöðva slagsmál. Þvílíkt svín.

Ansi verður gaman að mæta á sjálfsvarnarnámskeiðið á morgun, krambúleruð og teipuð í framan. Það sýnir jú að ég tek þetta námskeið mjög alvarlega og vinn heimavinnuna mína vel!

föstudagur, október 19, 2007

Færeyska sauðkindin

Ég er mikill aðdáandi Vísindavefjar Háskóla Íslands. Get gleymt mér þar tímunum saman. Á vefnum er skemmtileg spurning...og mjög skemmtilegt svar sem ég verð að birta hér.


Spurning:
"Eru kindur í Færeyjum með mislangar lappir, til að geta staðið betur í hlíðunum þar?"


Svar:
"Í Færeyjum eru tvö sauðfjárkyn. Annað er með lengri vinstri lappir, hitt með lengri hægri lappir. Það fyrra snýr alltaf hægri hliðinni upp í hlíðina, hitt vinstri hliðinni. Það fyrra fer í sífellu réttsælis kringum eyjuna, hitt rangsælis. Þetta er kallað aðlögun í þróunarfræðinni."

"Bændur þurfa að gæta þess vel að þessi kyn blandist ekki því að þá gætu komið út kindur sem væru jafnlangar í báðar lappir, og náttúruvalið verkar gegn því. Á þessu er raunar ekki heldur nein veruleg hætta vegna þess að kindur af mismunandi stofnum snúa aldrei eins og æxlast því ekki."




Þorsteinn Vilhjálmsson
prófessor í vísindasögu og eðlisfræði

fimmtudagur, október 11, 2007

Andy Pipkin and the Proclaimers

Ef þessi snilld kemur manni ekki í gott skap þá er maður nú bara einhver fýlupoki:) Dýrka þetta lag, vantar einn svona mann!

miðvikudagur, október 10, 2007

Only great minds can read this

ég er ekki alveg að trúa að einungis 55% sklji þennan texta.


This is weird, but interesting!

fi yuo cna raed tihs, yuo hvae a sgtrane mnid too.Cna yuo raed tihs? Olny 55 plepoe out of 100 can. i cdnuolt blveiee taht I cluod aulaclty uesdnatnrd waht I was rdanieg. The phaonmneal pweor of the hmuan mnid, aoccdrnig to a rscheearch at Cmabrigde Uinervtisy, it dseno't mtaetr in waht oerdr the ltteres in a wrod are, the olny iproamtnt tihng is taht the frsit and lsat ltteer be in the rghit pclae. The rset can be a taotl mses and you can sitll raed it whotuit a pboerlm. Tihs is bcuseae the huamn mnid deos not raed ervey lteter by istlef, but the wrod as a wlohe. Azanmig huh? yaeh and I awlyas tghuhot slpeling was ipmorantt!

Stafsetning ER mikilvæg! Stafsetningarvillur fara óstjórnlega í taugarnar á mér, það sama gildir um málfræðivillur. Og ekki benda mér á mínar villur, kýs að horfa fram hjá þeim;)

þriðjudagur, október 09, 2007

Ég veit - er ég dey - svo að verði ég grátinn,
þar verðurðu eflaust til taks.
En ætlirðu blómsveig að leggj´á mig látinn
- þá láttu mig fá hann strax.

Og mig, eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja,
en - segðu það heldur nú.

Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það eflaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína,
en - mér kæmi hann betur nú.

Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
En ætlirð´ að breiða yfir brestina mína,
þá breidd´yfir þá í dag.